Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að fólksflutningar af dreifbýlinu til þéttbýlisins, og sérstaklega til Reykjavíkursvæðisins, eru miklir og valda áhyggjum. Ég er þeirrar skoðunar að langmikilvægast til að sporna gegn þessum fólksflutningum sé að atvinnulíf í dreifbýlinu sé traust, tekjur góðar, og því hef ég talið að sú viðleitni ríkisstjórnarinnar að skapa sjávarútveginum, m.a., öruggan starfsgrundvöll sé einhver mikilvægasti þátturinn í því að sporna gegn þessum fólksflutningum. Þegar bornir eru saman fólksflutningar og staða sjávarútvegsins yfir árin og áratugina kemur fylgnin þar mjög glöggt í ljós.
    Hins vegar hefur ríkisstjórnin einnig talið nauðsynlegt að skoða fleiri atriði. Ríkisstjórnir hafa viljað skoða t.d. atriði eins og það sem nefnt var af hv. fyrirspyrjanda, að setja á fót þriðja stjórnsýslustigið. Um það eru mjög skiptar skoðanir, ekki endilega á milli stjórnmálaflokka, heldur innan stjórnmálaflokka og mjög innan samtaka sveitarfélaganna. Það er búið að ræða það þar aftur og aftur og hefur ekki náðst samstaða um það.
    Ég get greint frá því að ég lýsti mínu fylgi við þessa hugmynd þegar hún kom fram frá þeirri nefnd sem hv. fyrirspyrjandi gat um og þetta hefur iðulega verið rætt á stöðum þar sem ég hef verið, en skoðanir eru afar skiptar. Þetta verður ekki gert nema með breiðri samstöðu og vilja samtaka sveitarfélaganna. Ég tel hugmyndina enn þá mjög athugandi.
    Síðan kem ég að því sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, flutningi ríkisstofnana. Það er rétt að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur að hugað skuli að því. Það vill svo til að tveir af þeim sem sömdu umrædda skýrslu um mikla flutninga sitja í ríkisstjórninni svo að hæg eru heimatökin, má segja. Og þetta hefur vissulega verið tekið upp af fleiri ríkisstjórnum en mætt mikilli andstöðu. T.d. minni ég á Byggðastofnun sem margir töldu eðlilegt að flytja. Þar kom í ljós að ekki fékkst nema einn starfsmaður til að flytja með stofnuninni. Menn geta náttúrlega sagt að menn eigi að láta slíkt sem vind um eyru þjóta en margar þessar stofnanir eru lítið annað en starfsmennirnir og suma þeirra er a.m.k. slæmt að missa.
    Ég get getið þess að þegar það var á dagskrá komu m.a. menn úr öðrum landshlutum sem mótmæltu því mjög ef flytja ætti þessa mikilvægu stofnun til Akureyrar því að þá þyrfti að gera fleiri ferðir til þess að sinna ýmsum mikilvægum málum. Þannig að um þetta voru vissulega skiptar skoðanir.
    Byggðastofnun, m.a. fyrir mikla hvatningu stjórnvalda og ákveðna framfylgni ákveðinna manna þar, ákvað hins vegar að fara þá leið að setja upp stjórnsýslustofnanir í landshlutunum. Sú fyrsta er á Akureyri og verið er að ganga frá, að því er ég best veit, kaupum á húsnæði á Ísafirði og fleiri stofnanir slíkar eru í burðarliðnum. Ég tel þetta út af fyrir sig, miðað við það að stofnunin fór ekki öll, nokkuð viðunandi lausn. Að því er stefnt að sem flestir aðilar

sem annast þjónustu við landsbyggðina hafi skrifstofur og það vonandi sem sjáfstæðastar skrifstofur í slíkum stjórnsýslustöðvum. Ég minni á að ákveðið hefur verið að flytja Skógræktina austur á land og Hagþjónusta landbúnaðarins verður á Hvanneyri. Þó þetta séu ekki stórir liðir eru þeir þó spor í áttina.
    Til undirbúnings því að skoða þetta nánar hef ég beðið Byggðastofnun um álit og ég hef fengið frá henni álit um þetta mál sem er allt of langt til að lesa hér. Ég get þó aðeins drepið á það að Byggðastofnun telur að í þessu sambandi eigi að velja ákveðna staði, ekki marga, heldur fáa ákveðna staði, og leggja áherslu á að þeir verði stjórnsýslumiðstöðvar. Auk þess bendir Byggðastofnun á slíka möguleika eins og t.d. að í sambandi við fjölgun ríkisstarfsmanna verði leitast við að þeir verði fyrst og fremst á landsbyggðinni. Fleira kemur hér fram sem er út af fyrir sig ekki rætt en verður tekið til athugunar af ríkisstjórninni.