Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Út af því sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan sem formaður staðarvalsnefndarinnar um vinnuna þar og viðbrögð sveitarfélaga og landshlutasamtaka við þeim hugmyndum sem þar komu fram, þá væri nú fróðlegt að fá um það upplýsingar hvaða sveitarfélög og hvaða landshlutasamtök voru andvíg þeim hugmyndum sem þar komu fram um breytingar.
    Þegar skýrt er frá slíku, að aðilar úti um land hafi verið andvígir því að breyta til frá því sem verið hefur og menn hafa talið að yrði að breyta til vegna þess hversu landsbyggðin stendur illa, þá er auðvitað nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hverjir og hvaðan þeir voru sem beittu sér gegn því sem staðarvalsnefndin lagði til að gert yrði.