Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég get ekki sagt að ræða alþýðuflokksmanns sem hér talaði fyrir skömmu úr þessari pontu komi mér sérstaklega á óvart. Hann hefur áður líkt Háskólanum á Akureyri við loðdýrabú og hefur lítinn skilning á því hvaða þýðingu sá háskóli gegnir. Annars vegar er Háskólinn á Akureyri auðvitað mjög merkilegt byggðamál, merkilegasta byggðamál sem hér hefur komið upp á undanförnum áratugum. Á hinn bóginn bætir Háskólinn á Akureyri úr brýnni þörf. Í fyrsta lagi var talið nauðsynlegt og ég hef ekki heyrt það vefengt að hjúkrunarfræðibraut verði tekin upp við Háskólann á Akureyri til þess að reyna að bæta úr þeim skorti sem er á hjúkrunarfræðingum og breikka grunn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem er brýn nauðsyn. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er varasjúkrahús fyrir landsmenn. Í öðru lagi held ég að menn séu sammála því að nauðsynlegt sé að koma upp kennslu í viðskiptafræðum, styttri braut en hér er í Reykjavík og praktískari. Í þriðja lagi er sjávarútvegsbraut á Akureyri betur staðsett þar en annars staðar á landinu vegna þess umhverfis sem þar er.
    Ég get fullvissað hæstv. forseta um það að ég hitti prófessor úr Háskóla Íslands í gær sem hafði allt aðrar skoðanir á þessu máli en sá fulltrúi Háskólans sem nú situr á Alþingi.