Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Karvels Pálmasonar vil ég geta þess þó að rúmur áratugur sé nú liðinn síðan nefndin skilaði sinni skýrslu að þau viðbrögð, sem ég lýsti hér áðan að hefðu orðið mér vonbrigði, birtust ekki síst í almennu áhugaleysi, almennu stuðningsleysi og skorti á því að mynduð væri breið samstaða og öflug um tillögurnar til þess að vinna gegn þeirri tregðu sem eðlilega var hjá ríkisstofnunum sjálfum að takast á hendur það verk að flytja sig og þar með starfsfólkið allt.
    Það komu líka fram í ýmsum tilvikum þau sjónarmið að tillögur nefndarinnar um að flytja tiltekna ríkisstofnun á ákveðinn stað væru ekki skynsamlegar, annaðhvort ætti að flytja hana í einhvern annan landshluta eða þá að láta hana vera áfram í Reykjavík.
    Hins vegar er nú orðið nokkuð langt um liðið. ( KP: Hvaðan komu þær?) Þær komu nú fram úr ýmsum áttum. Ég mætti t.d. á fjórðungsþingum landshlutasamtakanna þar sem ýmsar skoðanir komu fram hjá einstökum sveitarstjórnarmönnum í þessum efnum og ég mætti á kynningarfundum af ýmsu tagi þegar þetta kom fram. Ég var nú ekki að skrá niður á þeim tíma hverjir voru ræðumenn eða þátttakendur í þeim fundum.
    Ég vil hins vegar lýsa því yfir hér af því að nefnt hefur verið að tveir ráðherrar í ríkisstjórninni áttu sæti í þessari nefnd að þriðji ráðherrann í þessari ríkisstjórn, hæstv. dómsmrh. Óli Þ. Guðbjartsson, var einn af þeim sem sýndu þessari tillögugerð hvað mestan áhuga og efndi til sérstaks fundar á Selfossi á sínum tíma til að reyna að vinna tillögunum fylgi.
    Ég væri svo sem reiðubúinn að setjast yfir það verk að rifja upp þessa sögu þó rúmur áratugur sé liðinn síðan, en ég taldi óhjákvæmilegt vegna þess að störf þessarar nefndar komu hér til umræðu að lýsa þessari reynslu sem urðu mér og nefndarmönnum og öðrum áhugamönnum um þetta efni mikil vonbrigði.