Málsókn á hendur Magnúsi Thoroddsen
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég tala fyrir fsp. á þskj. 205. Þetta er í annað sinn sem ég beini fsp. til hæstv. dómsmrh. vegna svokallaðs áfengiskaupamáls sem tengt er Hæstarétti. Á síðasta þingi lagði ég fram fsp. í nokkrum liðum til þáv. hæstv. dómsmrh., Halldórs Ásgrímssonar. Hún var þá ekki samþykkt sem munnleg fsp. hér á Alþingi, en nokkrum mánuðum seinna þegar ég var í veikindaleyfi fékk ég skrifleg svör sem mér fundust ófullnægjandi.
    Sú fsp. sem hér er mælt fyrir er tvíþætt. Í fyrri liðnum er spurt hvers vegna mál Magnúsar Thoroddsens, fyrrum forseta Hæstaréttar, hafi ekki verið rannsakað sem opinbert mál eins og lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, gera ráð fyrir, sbr. ákvæði 8. og 11. gr. Þessi greindu lagaákvæði eru ótvíræð auk þess sem verjandi Magnúsar hefur ítrekað kvartað yfir að fá málið ekki nægilega upplýst. Ég þekki málið ekki nógu vel, en ég tel mikilvægt að alþingismenn og almenningur fái að vita á hvaða ákvæðum það er byggt að forseti Hæstaréttar geti keypt áfengi á sérkjörum. Einnig á hverju það er byggt að hann megi ekki kaupa 2160 flöskur á tveimur árum og ef hann má það ekki, hvað mátti maður sem forseti Hæstaréttar þá kaupa mikið og hvað máttu aðrir kaupa mikið magn af áfengi sem fengu það á sérkjörum? Þá er mikilsvert að upplýsa hvers vegna Magnús taldi rétt að skila um 1200 vínflöskum aftur og hvað varð um þessar 900 flöskur sem hann keypti en skilaði ekki. Ítarleg og glögg upplýsing máls er höfuðatriði málsmeðferðar.
    Hinn þáttur fsp. lýtur að því að fleiri fyrrum forsetar Hæstaréttar keyptu líka áfengi með sérkjörum. Er óskað skýringa á því hvers vegna Magnús einn sætir málshöfðun og embættismissi en ekki hinir fyrrum forsetar Hæstaréttar.