Málsókn á hendur Magnúsi Thoroddsen
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svör þó að ég hefði að mörgu leyti viljað að hann hefði svarað þessu dálítið ítarlegar, seinni spurningunni, en ég skil vel hans stöðu í þessu og vonast til þess að það verði athugað nánar.
    Alvara málsins er sú að hér er um að ræða mál sem tengist svo Hæstarétti Íslands að enginn hinna skipuðu hæstaréttardómara getur um það fjallað þegar það kemur til dóms. Þá er Hæstiréttur ein æðsta stofnun lýðveldisins og sú sem mótar dómsvaldið í landinu og hefur síðasta orð í málum sem til hans er vísað.
    Þá er ástæða til þess að benda á að þjóðfélagið allt er í kreppu sem kemur fram í mörgum myndum, t.d. þeirri að allsherjarvaldið, ef svo má að orði komast, getur illa rekið stofnanir sínar vegna fjársveltis og þröngrar stöðu á ríkissjóði og fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hefur lent í erfiðleikum og gjaldþrotum og menn finna þannig til að þeir séu ekki jafnir fyrir lögunum.
    Við slíkar aðstæður og raunar alltaf þarf að vera fullur trúnaður milli þjóðar og dómstóla. Sá trúnaður næst ekki nema mál tengd Hæstarétti verði upplýst til fulls og menn þar sem annars staðar séu háðir sömu lögum og reglum.
    Ég vil að lokum minna á að ég sem alþingismaður beindi að sjálfsögðu fyrirspurnum mínum hér á Alþingi til hæstv. dómsmrh. sem rekur málið gegn Magnúsi Thoroddsen. Dómsmrh. sækir vald sitt til Alþingis, raunar þess meiri hluta sem ég á hlut að og ég tel mér bæði rétt og skylt að bera fram þessar spurningar því allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum. Annars stendur okkar þjóðfélag ekki undir því nafni að heita réttarsamfélag. Það skulum við muna öll.