Tryggingasjóður fiskeldis
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Byggðastofnun hefur látið gera athugun á rekstrarlánum í fiskeldi og er niðurstaða þeirrar athugunar þessi og er þetta orðrétt tilvitnun sem ég les hér, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Erfitt hefur reynst fyrir fiskeldisfyrirtæki að fá eðlilega rekstrarlánafyrirgreiðslu og komast í bankaviðskipti. Til að bæta úr þessu var settur á stofn Tryggingasjóður fiskeldis. Með þátttöku Tryggingasjóðsins geta afurðalánin orðið allt að 75% af tryggingaverðmæti fisksins á hverjum tíma. Afurðalánin með þátttöku Tryggingasjóðs eru mjög dýr og vandséð að nokkurt fyrirtæki geti haft gagn af slíkri fyrirgreiðslu. Kostnaður við þessa lántöku skiptist sem hér segir: Bankavextir, gengistryggt lán 12%, iðgjald Tryggingasjóðs 6%, áhættuvíxill Tryggingasjóðs 6%, fiskeldistrygging 5%. Samtals 29%.
    Fiskeldistrygging er reiknuð inn í kostnaðinn við lántökuna þar sem skilyrt er af hálfu Tryggingasjóðs og banka að fiskurinn sé tryggður. Venjulega eru ákvæði um 25% sjálfsáhættu í tryggingaskilmálum þannig að oftast er lítið hald í tryggingunni ef tjón verður. Flestir fiskeldismenn mundu vilja sleppa kostnaðarsömum tryggingum ef þess væri nokkur kostur. Fiskeldistrygging kostar 3,5--7,5% af tryggingamati fisksins.
    Hér er borinn saman kostnaður fyrirtækis við afurðalán, annars vegar með þátttöku Tryggingasjóðs, en hins vegar er miðað við það sem kallast getur eðlileg afurðafyrirgreiðsla og er þar miðað við gengistryggt lán með 12% vöxtum. Miðað er við að fyrirtækið framleiði 500 tonn af laxi á ári og stærð seiða við sjósetningu sé 60 g. Áætlað er að laxinn nái þriggja kílóa meðalþyngd eftir 21 mánaðar eldi í sjó. Verðmæti afurðanna á hverjum tíma er miðað við verðmætaskrá íslenskra tryggingafélaga á laxi. Hér er reiknað með að tryggingin kosti 5% af verðmæti afurðanna.
    Síðan er gerður samanburður á því sem heitir afurðalán með þátttöku Tryggingasjóðs fiskeldis, sem þýðir að á þessu tímabili séu vextir á afurðalánum á framleiðslutímabilinu 9,9 millj., tryggingar 5,5 millj., iðgjald Tryggingasjóðs 5 millj., áhættuvíxill Tryggingasjóðs 5 millj. Samtals 25,4 millj., en það sem Byggðastofnun kallar eðlilega afurðalánafyrirgreiðslu er 9 millj. 650 þús. kr.
    Af þessum tölum má sjá að afurðalán til fiskeldis eru á þessu tímabili 263% hærri en eðlilegt getur talist. Þetta er niðurstaða Byggðastofnunar.
    Ég minnist þess að á þeim stutta tíma sem Alþingi kom saman í byrjun janúarmánaðar lá fyrir frv. um Tryggingasjóð fiskeldis sem við sjálfstæðismenn óskuðum þá eftir að fá að athuga nánar. Hins vegar fylgdi mikill þrýstingur því að frv. yrði afgreitt þá á þessum fáu dögum sem við komum saman og féllumst við á það enda vorum við fullvissaðir um að framkvæmdin yrði með þeim hætti að fullnægjandi gæti talist og örvandi fyrir fiskeldi hér á landi.

    Af þessum sökum hef ég spurt hæstv. landbrh.: ,,Hvaða reynsla hefur orðið af framkvæmd laga um Tryggingasjóð fiskeldis?``
    Eftir að þessi fsp. var lögð fram skilst mér að búið sé að semja nýtt frv., stjfrv., sem felur í sér að Ríkisábyrgðasjóður taki yfir þessa baktryggingu á lánum til fiskeldis og er það vel. Má vera að þessi fsp. hafi flýtt því að niðurstaða fékkst í það mál. Um það skal ég ekki fullyrða en nauðsynlegt fyrir Alþingi að fá nokkrar skýringar á því hvernig þetta mál stendur nú.
    Við vitum, hæstv. forseti, að fiskeldi á í mjög miklum erfiðleikum. Erlendis, eins og í Noregi, er það til að mynda svo að afurðalán eru reiknuð inn í stofnkostnað til að byrja með. Afurðalánin eru í þeim skilningi langtímalán meðan fiskeldið er að fara af stað og ná jafnvægi í sínum rekstri þannig að tekjur komi inn á móti gjöldum. Því miður var þessi leið ekki farin hér á landi heldur horft á stofnkostnað eingöngu sem felst í mannvirkjum og öðru þvílíku en ekki höfð hliðsjón af því að rekstrarkostnaður er auðvitað mjög verulegur í þessum stöðvum meðan fiskeldið er að fara fyrsta snúninginn ef það má orða það svo.