Netaveiði göngusilungs í sjó
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Til mín hafa borist yfir 340 undirskriftir fólks af Norður- og Vesturlandi þar sem mótmælt er setningu reglna nr. 348/1989, um netaveiði göngusilungs í sjó, frá 2. ágúst sl. Undirskriftir þessar eru ritaðar undir áskorun til hæstv. landbrh. sem hljóðar svo:
    ,,Við undirrituð lögráða karlar og konur með heimilisfestu í Norðurlandskjördæmi vestra og í Vesturlandskjördæmi skorum hér með á yður, herra landbúnaðarráðherra, að fella úr gildi ofangreinda reglugerð eða gera á henni verulegar breytingar í samráði við eigendur og ábúendur sjávarjarða í kjördæmunum. Það er samdóma skoðun okkar sem styðst við álit kunnáttumanna að gætt hafi ólögmætra sjónarmiða við setningu þessara reglna. Án efa hafið þér við setningu reglnanna látið undan áróðri hagsmunaaðila að ræktun laxfiska í ám og fiskeldisstöðvum um stórfelldar veiðar bænda á sjávarjörðum á laxi í silunganet sem þeir hafa lagt undan jörðum sínum frá ómunatíð.
    Reglum þessum má í flestum efnum jafna við bann á veiðum á sjógöngusilungi í netalögum sjávarjarða. Hér er því um að ræða ólögmæta skerðingu á hlunnindum og þá um leið dýrleika viðkomandi jarða sem viðkomandi er ætlað að þola bótalaust. Þrengingar bænda eru ærnar fyrir þótt ekki bætist við þær skerðingar á nýtingu hlunninda þessara jarða sem reglurnar hafa óhjákvæmilega í för með sér.``
    Með þessari áskorun fylgdi bréf þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:
    Ekki verður séð að nema hluti af reglum þessum eigi lagastoð þar sem tiltekin atriði í þeim mundu raska rétti veiðiréttarhafa í sjó í netlögum ábýlisjarða. Í 1. tölul. segir að við veiðar göngusilungs megi einungis nota lagnet. Þarna er um að ræða skerðingu á lögmætum rétti veiðiréttareigenda skv. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 76/1970 og á sú skerðing því enga lagastoð. Í upphafi þeirrar lagagr., þ.e. 15. gr. laga nr. 76/1970 segir:
    ,,Veiða má silung í sjó á færi og á stöng, í ádráttarnet og í lagnet.`` En í reglunum er einungis tekið til um lagnet.
    Í 2. tölul. reglnanna segir að lagnet skuli vera landfast og eigi lengra en 50 metra frá efsta fjöruborði á hverjum tíma að stjóra sjávarmegin. Eins og kunnugt er eru aðstæður við strendur landsins, þ.e. flóðhæð og aðdýpi, mismunandi. Hjá mörgum veiðiréttareigendum mundi slík regla útiloka netaveiði í sjó vegna aðstæðna. Slík takmörkun á rétti til veiða í netlögum jarðar væri eignaupptaka auk þess sem ekki verður séð að hún eigi lagastoð.
    Í 3. tölul. reglnanna segir að lagnet skuli fljóta á flotlínu í sjó og að óheimilt sé að kafleggja. Beri að skilja þetta svo að óheimilt sé að leggja þannig að ytri hluti netsins fari á kaf í flóði eru netin nánast óvirk þar sem munur flóðs og fjöru er mikill eins og t.d. þar sem munur getur verið oft um og yfir 4 metra. Þarna er því raskað rétti veiðieigenda. (Forseti

hringir.) Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu ef ég má fá svo sem tvær mínútur til viðbótar.
    Skv. tilskipun frá 20. júní 1849, sem eru gildandi lög, segir svo: ,,Á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiði á haf út, 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli og eru það netlög hans.``
    Í vatnalögum nr. 15/1923 segir í 4. gr., 3. tölul.: ,,Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði. Þá fylgir vatnsbotn landi sem þurrt land væri.`` Og í 5. tölul. sömu greinar segir: ,,Jafnan skal miða við lágflæði í vatni.`` Ekki við stórstraumsfjöru eins og talað er um í reglunum.
    Í 4. tölul. reglnanna er svo fyrir mælt að girnisþykkt í lagneti megi ekki fara yfir 0,3 mm. Þetta mundi leiða til þess að allur sæmilega vænn göngusilungur sem í netið kæmist sliti möskvana og færi sína leið. Jafnframt mundi það vænlega leiða til þess að öll silunganet sem nú eru í notkun í sjó við landið yrðu ólög. Ekki verður séð að nein lagaheimild sé til að setja slíkar reglur sem leiða mundu til þess að mikil verðmæti ónýttust og vænsti fiskurinn slyppi úr netunum.
    Það sem ég hef vitnað hér í eru landslög og geta engar reglur settar af ráðherra náð fram yfir þau. Því spyr ég: ,,Var ætlunin með setningu reglna um netaveiði göngusilungs í sjó hinn 2. ágúst sl. að koma í veg fyrir slíkan veiðiskap?``
    Og í öðru lagi, vegna þess sem fram hefur komið: ,,Má búast við að nýjar reglur verði settar og þá í samráði við eigendur og ábúendur sjávarjarða?``