Netaveiði göngusilungs í sjó
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það væri nú nærtækast að svara hv. fyrirspyrjanda þannig að segja að svarið við fyrri fsp. væri nei, svarið við síðari fsp. væri já og láta það duga. En vegna þeirrar ræðu sem hv. þm. hélt hér, og ég get ekki kallað annað en ræðu, vil ég taka fram að nefndar reglur eða reglugerð um netaveiði göngusilungs í sjó eru settar á grundvelli laga nr. 76 frá 25. júní 1970, um lax- og silungsveiði. Beinlínis er gert ráð fyrir því í þeim lögum að ráðherra setji reglur um netaveiði göngusilungs í sjó og vísast í því sambandi til 1. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 14. gr. laganna þar sem beint er gert ráð fyrir slíkum reglum.
    Það eru þegar fordæmi fyrir því að beita þessum heimildum. T.d. má nefna reglur um veiði göngusilungs í lagnet í sjó í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, reglugerð nr. 454 frá 24. júlí 1980, og reyndar eru fleiri dæmi um slík staðbundin ákvæði.
    Tilgangur með setningu þessara reglna nr. 368 frá 2. ágúst 1989 var hins vegar ekki að koma í veg fyrir netaveiði göngusilungs í sjó heldur þvert á móti að leiða í lög ákvæði um slíkar netaveiðar þannig að þær færu fram og fylgdu settum reglum. Lax- og silungsveiðilögin hafa ekki að geyma skýr ákvæði um þetta atriði, silungsveiði í sjó, og markmiðið með reglunum var að bæta úr því. Alls ekki að vega að veiðirétti einstakra landeigenda eða takmarka hann með neinum óeðlilegum hætti umfram það sem efni þóttu standa til að mati þeirra manna sem tillögur gerðu um reglurnar.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Má búast við því að nýjar reglur verði settar og þá í samráði við eigendur og ábúendur sjávarjarða?`` Svarið er já. Ég lofaði fulltrúum veiðibænda eða bænda á sjávarjörðum því þegar í sumar að ég mundi láta fara yfir þessar reglur og þetta mál í heild sinni í vetur, nota tímann til þess og við það verður staðið. Ráðuneytinu bárust þegar á síðasta sumri ýmiss konar ábendingar og viðbrögð vegna þessara reglna. Því hefur öllu verið haldið saman og komið til veiðimálastjóra og þeirra manna sem með þessi mál fara og jafnframt verið óskað sérstaklega eftir umsögn og greinargerðum frá honum og fleiri aðilum um það mál.
    Ég geri ráð fyrir því að þessar reglur verði endurskoðaðar á grundvelli þessara ábendinga og reynt verði að taka tillit til þeirra eins og talið er kleift og réttmætt er. Verður að sjálfsögðu í því sambandi rætt við hina ólíku hagsmunaaðila sem í þessu dæmi eru ekki bara veiðiréttareigendur við sjávarjarðir heldur fleiri, eins og hv. þm. er væntanlega ljóst. Hér er því um það að ræða að reyna að finna farsæla málamiðlun og lausn milli ólíkra hagsmuna og ólíkra sjónarmiða sem vissulega eru uppi í þessu efni.