Niðurskurður á riðufé
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Tilefni þessarar fsp. eru aðstæður aldraðs bónda að Sauðanesi við Siglufjörð. Meiningin er ekki að stuðla á nokkurn hátt að því að dregið verði úr baráttunni við sauðfjársjúkdóma eða að nauðsynlegar aðgerðir verði hafðar í frammi þegar þær eiga við. Spurningar sem hér um ræðir beinast að því atriði hvort stundum ráði e.t.v. frekar kapp en forsjá í þessum efnum.
    Í 42. gr. sauðfjársjúkdómalaga, nr. 23 frá 10. mars 1956, segir, með leyfi forseta:
    ,,Nú telur sauðfjársjúkdómanefnd nauðsynlegt að útrýma sauðfjársjúkdómi með niðurskurði á sýktu eða grunuðu svæði, og skal hún þá senda landbúnaðarráðherra rökstuddar tillögur þar um.`` --- Síðan er áframhald í þessari grein og þar er alltaf talað um svæði og aðgerðir á svæðum. Þess vegna er fyrri fsp. mín svohljóðandi:
,,1. Er lagaheimild til niðurskurðar á fjárbústofni bónda ótvíræð þegar einstaka bæir á sama stað sleppa við niðurskurð?``
    Trausti Magnússon, bóndi á Sauðanesi við Siglufjörð, sá í fjárhjörð sinni haustið 1983 eina kind sem honum þótti vera í óeðlilega slæmum holdum. Að sögn Trausta kom honum til hugar að kindin væri smituð af riðu enda möguleiki á samgangi á fjalli við fé úr Fljótum í Skagafirði þar sem riða hafði verið
viðvarandi. Kindin var send í sláturhús á Siglufirði og hausinn af henni síðan sendur suður að Keldum til greiningar á því hvort um riðu væri að ræða eða ekki. Áður hafði hausinn verið frystur í sláturhúsinu.
    Samkvæmt þeim aðferðum er þá voru notaðar var ekki hægt að greina hvort kindur væru smitaðar eða ekki ef búið var að frysta viðkomandi haus. Á þetta benti m.a. Sigurður Sigurðsson, sérfræðingur sauðfjárveikivarna, þegar hann á þessum tíma ræddi riðumál við bændur og fleiri og varaði menn við því að frysta hausa sem taka átti sýni úr.
    Bær Trausta, Sauðanes við Siglufjörð, er afskekktur bær sem blandar vart bústofni við aðra bæi þótt Fljótin séu næsta sveit. Trausti er aldraður maður og mun hætta búskap mjög bráðlega. Það eru því þrjú atriði sem skipta máli varðandi seinni spurninguna. Staðfesting á riðusýkingu er ekki ótvíræð og sú staðfesting átti sér stað fyrir sex árum. Fjárstofn og bær eru einangraðir og í þriðja lagi þá er Trausti Magnússon, bóndi á Sauðanesi, kominn nokkuð á aldur og mun ekki stunda búskap nema nokkur ár til viðbótar og ekki hægt að sjá að smithætta stafi af bústofni hans. Því er spurt: ,,Er ástæða til að skera bústofn á slíkum bæ þegar riða hefur ekki fundist þar í meira en hálfan áratug?``