Niðurskurður á riðufé
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að hvergi má slaka á í baráttunni við riðuna. Ég tek líka undir með honum að það eigi að skera niður á staðfestum riðuveikibæjum. En það er kannski einmitt það sem málið snýst um hér, að þessi tiltekni bær, sem ráðherrann vill nú ógjarnan ræða, þar sem hann vill ekki ræða einstök tilfelli, þessi bær, Sauðanes við Siglufjörð, er einn af þeim bæjum þar sem ekki er staðfest tilfelli um riðu. Það kom mjög glögglega fram í máli fyrirspyrjanda hér áðan að sýni hefði verið tekið árið 1983 og það í rauninni skemmt. Það var fryst og staðfest af sérfræðingi að ef haus er frystur, eins og var gert í þessu tilfelli, er ekki hægt eftir það að greina riðu. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að riða hefur ekki verið staðfest á þessu svæði. Ráðherrann má ekki taka svo grófan sjens að ráðast til atlögu við aldraðan bónda á áttræðisaldri og ætla að skera niður bústofn hans, verandi í vafa um hvort riða er yfir höfuð til staðar. Það hlýtur að vera krafa þess bónda að sýni verði þá tekið og sá grunur sem virðist nú vera til staðar verði þá staðfestur. Hitt er svo annað mál að þessi tiltekni bóndi hefur aldrei fengið neina tilkynningu í raun og veru um að riða væri í hans bústofni. Hann hefur fengið eitthvað eitt símtal um það en ekkert annað. Það virðist því vera ýmislegt gruggugt í þessu máli. Ég vil nú beina því til ráðherrans að hann endurmeti hug sinn og láti þá fara fram könnun á því hvort riða er raunverulega til staðar áður en hann ræðst kannski til atlögu við heilan og ósýktan bústofn.