Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Till. til þál., nær samhljóða þessari, var flutt á síðasta þingi og kom þá til athugunar í hv. fjvn. Forsetar Alþingis komu á fund nefndarinnar og kynntu þau sjónarmið sín að með þessum fyrirætlunum um kaup á Hótel Borg væri meiningin að leysa húsnæðisvanda Alþingis til bráðabirgða. Það bráðabirgðaástand átti að vara, að þeirra dómi, í 10--12 ár. Það var skoðun mín og er enn að kaup á þessu húsnæði fyrir Alþingi sé of dýrt til að leysa slík mál til bráðabirgða.
    Í greinargerð sem hefur verið dreift á borð þingmanna segir að vinnuhópur sem athugaði þetta mál fyrir einu ári hafi komist að þeirri niðurstöðu að ætla megi að kaupverð fasteignarinnar ásamt lagfæringum geti kostað um 200 millj. kr. á þágildandi verðlagi. Það er kunnugt að húsið Hótel Borg er byggt 1930 og tekið þá í notkun. Þetta er því 60 ára gamalt hús. Ég held að það þurfi mikla varfærni í tillögugerð til þess að ætla að viðgerðir á slíku húsi og breytingar, miðað við þá starfsemi sem ætlað er að taka upp í húsinu eftir að Alþingi hefði eignast það, kosti einungis 60 millj. kr. Það þarf ábyggilega mikla varfærni til, enda segir í greinargerð vinnuhópsins: ,,Vinnuhópurinn telur að heildarkostnaður við kaup og endurbætur á fasteign Hótel Borgar megi ekki verða hærri en um 200 millj. kr.`` og við það er áætlunin miðuð. Þessi kostnaðaráætlun er því eins lausleg og varfærin og skilmálum háð sem mest má verða.
    Ef við hugsum okkur að við þurfum að leysa húsnæðisvandamál Alþingis til bráðabirgða er það kunnugt að ýmsar aðrar leiðir eru til. Það er til húsnæði hér í grennd Alþingishússins, bæði til sölu og til leigu, og ef um bráðabirgðaaðgerðir er að ræða eigum við að athuga þær leiðir einnig áður en ákvörðun er tekin um kaup á því mikla húsnæði sem Hótel Borg er. Ég veit ekki til þess að hæstv. forsetar Alþingis hafi látið neina slíka athugun fara fram og það kemur ekki til greina af minni hálfu að ráðast í kaup á húsnæði til bráðabirgða fyrir Alþingi án þess að allar aðrar leiðir séu athugaðar, þar á meðal um leigukjör á húsnæði sem er hér falt í grennd þinghússins.
    Ég vil svo aðeins segja það í sambandi við þetta mál og skal ekki lengja mál mitt mikið að nú er sú tíð að það er verið að berjast við að koma saman fjárlögum fyrir íslenska ríkið á næsta ári. Það er kunnugt að þetta verk er nú erfiðara en nokkru sinni fyrr. Það er kunnugt að skattar voru hækkaðir í tengslum við fjárlagaafgreiðslu fyrir þetta ár um yfir 7 milljarða kr., og það var gert í því skyni að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Allir vita að þrátt fyrir þessa miklu skattahækkun verður a.m.k. um 5 milljarða halli á fjárlögum ríkisins á þessu ári.
    Fjárlög fyrir næsta ár eru ekki afgreidd enn en þar stefnir í gífurlega mikinn halla, hvort sem það verður viðurkennt í fjárlagaafgreiðslunni sjálfri eða ekki. Frv. er lagt fram með nær þriggja milljarða halla og mér

kæmi ekki á óvart þótt það yrði afgreitt með 5 milljarða halla ef ekki verða skilin eftir þeim mun stærri göt í afgreiðslunni sjálfri og væri þá kannski nær að nefna 6 milljarða en 5. Víst er þó að þar verður ekki, þrátt fyrir það að þannig verði á málum haldið, tekið til greina allt það sem ríkið ætlar sér að halda gangandi í starfsemi sinni og rekstri á næsta ári. Þannig er staðan þrátt fyrir það að enn eigi að stórauka skatta til ríkisins. Er nú sú tíð að það sé tilefni til þess af hálfu forseta Alþingis og meiri hlutans sem hér ræður að efna til húsakaupa á vegum Alþingis til bráðabirgðanota fyrir 200 millj., svo sem segir í þessari varfærnu kostnaðaráætlun sem var á verðlagi síðasta árs, en gæti eins orðið tvöföld sú fjárhæð eða meira miðað við reynslu af ýmsum slíkum áætlunum um kaup og lagfæringar á gömlum byggingum og þessi bygging er 60 ára gömul? Er nú sú tíð að þetta sé heppilegt? Er nú sú tíð að það sé ákjósanlegt fyrir þá sem ráða hér ferðinni og það sé álitlegt fyrir fólkið í landinu að auka nú enn á fjárlagahallann, auka nú enn á skattbyrðina til þess að leysa þessi mál til bráðabirgða með þessum hætti? Ég segi nei. Ég er andvígur því að þannig sé á málum haldið, en ég vil leggja til, hæstv. forseti, að ef forsetum sýnist nauðsynlegt að bæta úr í húsnæði Alþingis, þar á meðal skrifstofur nokkurra alþingismanna sem vissulega búa þar við skrifstofuhúsnæði sem mætti vera betra, er auðvitað álitlegt að athuga þá kosti sem eru fyrir hendi hér í grennd þinghússins um leigumála ellegar kaup á hæfilega stóru húsnæði til þess að leysa þessi mál. Og það er ekkert annað en reikningsdæmi hvort það er hyggilegra, hvort það er hagkvæmara að kaupa ellegar leigja húsnæði til bráðabirgðanota í þessu skyni. Það er aðeins reikningsdæmi sem auðvelt er að leggja niður fyrir sér og hæstv. forsetar gætu fengið menn til þess að vinna fyrir sig því að þeir hafa sjálfsagt öðrum hnöppum að hneppa.
    Tillagan eins og hún liggur fyrir er að mínum dómi síst betri en í fyrra. Hún er síst tímabærari. Í rauninni hefðu hæstv. forsetar átt í millitíðinni, frá því hún var fyrst flutt, að láta fara fram þá athugun sem ég er hér í raun að gera tillögu um að fram fari. Aðeins þegar sú athugun hefur farið fram og allir þeir kostir liggja fyrir sem geta verið fyrir hendi er tímabært að koma með málið til Alþingis til ákvörðunar, en ekki fyrr.