Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það þjóni ekki verulegum tilgangi að lengja þessa umræðu. Aðalatriðið er það að þingheimur skeri úr um hvort hann vill kaupa það hús sem hér er til umræðu, Hótel Borg, eða ekki.
    Ég skal játa það að ég var nokkuð með böggum hildar um það að vera meðflm. á þessari tillögu, þ.e. að leggja til kaup á þessu húsi í því efnahagslega árferði sem nú ríkir. Hins vegar eftir vandlega íhugun og eftir að hafa skoðað málið eins og mér var unnt sannfærðist ég um það, þvert gegn því sem margir hafa sagt hér, að þetta væri sá ódýrasti kostur sem þingið ætti völ á um þessar mundir.
    Ég bendi á það að ef þetta hús yrði keypt væri í fyrsta lagi hægt að greiða það á nokkrum árum þannig að þingið þyrfti ekki að punga út með allt kaupverðið á einu ári. Í öðru lagi getur þingið selt á móti húseignir sem kæmu þá upp í kaupverðið á Hótel Borg og ég hygg að þar með værum við í raun búin að leysa húsnæðisvanda þingsins um ófyrirsjáanlega framtíð. Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að þingið mun ekki fara úr því húsi sem það er í núna. Það mun verða hér áfram. Þetta munu verða fundarsalir þingsins þar sem við erum núna og á því verður ekki breyting í fyrirsjáanlegri framtíð.
    Ég er sannfærður um það að menn hafa gert allt of mikið úr því að hér væri verið að sólunda fjármunum almennings. Ég er sannfærður um það að þegar til lengri tíma er litið er þetta langsamlega ódýrasta aðferðin til þess að bæta húsakost þingsins. Þingið er nú í átta húsum á þessari torfu hér, ýmist leiguhúsnæði eða húsnæði sem þingið hefur fest kaup á og staðan og ástandið í þeim efnum er auðvitað eins óhentug og getur verið. Ég vil líka benda á það að starfsaðstaða fyrir starfsfólk í þessu gamla húsi hér er orðin mjög slæm. Ég vil benda hv. þm. á skrifstofuhúsnæðið, á skjalageymsluna, á matstofuna. Á þessu þyrfti að verða breyting og kaupin á Hótel Borg mundu gera það kleift að breyta þessu mjög til batnaðar.
    Ég er, eins og síðasti ræðumaður, sannfærður um það að við munum aldrei ná samkomulagi um framtíð þingsins. Hins vegar er ég sannfærður um að það líða mörg ár og áratugir þangað til fyrsta skóflustunga verður tekin að því húsi sem teiknað hefur verið hér við Kirkjustræti af þeirri einföldu ástæðu að húsið það er allt of dýrt. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að Alþingi fari út í fjárfestingu upp á 1 1 / 2 --2 milljarða hér í næsta nágrenni hins gamla þinghúss og standi auk þess frammi fyrir því að að þau hús sem þingið á við Kirkjustræti eru vernduð hús og það veit í raun enginn hvort unnt verður að flytja þau á brott eða ekki.
    Þess vegna, virðulegi forseti, án þess að lengja þessa umræðu, sem ég sagði að þjónaði engum verulegum tilgangi, vil ég bara láta þá klára skoðun mína koma í ljós að ég hygg --- og ég hygg ekkert, ég er sannfærður um það --- að kaupin á Hótel Borg

séu langskynsamlegasta lausnin á húsnæðisvanda þingsins eins og sakir standa. Kaupverð á þessu stóra húsi er ótrúlega lágt og sá möguleiki er fyrir hendi að þingið geti bætt við sig húsum í húsaröðinni norður af Hótel Borg sem væri verulega góður kostur.