Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Nokkur orð til viðbótar í þessa umræðu um kaup á Hótel Borg. Ég er fylgjandi þeirri hugmynd og hef verið það frá því að ég kom fyrst inn á þing. Ég tel að þó að aðstaða þingmanna og starfsliðs hafi skánað mikið á síðustu árum með leiguhúsnæði hér í nágrenninu og kaupum á húsnæði sé það óhæft, eins og það er núna, að skipta þessu niður í svona marga staði og hefur það í för með sér ýmislegt óhagræði. Ég er sannfærður um það, eins og hefur komið fram hjá fyrri ræðumönnum, að við munum ekki ná samstöðu um það að halda áfram með nýbyggingu þá sem búið er að teikna, og menn hafa nefnt hér tölur allt upp í tvo milljarða sem það kosti, plús það, eins og fram hefur komið, að auðvitað hefur nýbygging ráðhússins veruleg áhrif á hvernig þessi torfa hér í nágrenninu lítur út og umferðaröngþveitið sem henni fylgir mun mæða mjög á þessu svæði.
    Ég held að ljóst sé að engir aðilar eru í raun í stakk búnir til þess núna að reka Hótel Borg áfram sem hótel. Húsið er gamalt og á sína sögu og yrði þess vegna Alþingi til sóma að vera þar með aðstöðu fyrir þingmenn og aðra starfsemi. Ég held að verðið sé heldur ekki það sem ætti að stíga okkur til höfuðs og ég tek undir það að hægt er að skipta niður í áfanga nauðsynlegum endurbótum.
    Ég legg líka á það áherslu að með því væri heldur ekki verið að taka neina endanlega ákvörðun um það hvort við ætlum að ráðast í nýbyggingu á þessu svæði eða einhvers staðar annars staðar. Hótel Borg, eða það hús, verður ávallt söluvara þegar við getum náð samstöðu um nýbyggingu eða kaup á öðru húsnæði þannig að ég tel að það sé ekki verið að gera annað en að tryggja sómasamlega rekstraraðstöðu næstu 10--15 árin eða liðlega það. Ég held líka að nauðsynlegt sé að átta sig á því að aðrir möguleikar sem hafa verið ræddir hér, eins og t.d. var minnst á hér áðan, Oddfellow-húsið, að Oddfellow-reglan væri að byggja yfir starfsemi sína. Það er rétt. Mér er kunnugt um að það er að hefjast undirbúningur að því, en það hús mundi þar af leiðandi ekki losna fyrr en í fyrsta lagi eftir 5--6 ár og á þeim tíma sem fram að því líður yrði að leysa þennan vanda þannig að Hótel Borg er auðvitað skásti kosturinn.
    Menn hafa talað mikið um að hafa opið bæjarlíf og líflegt hér í miðborginni áfram. Það verður ekki bara með því að reka gistihús þó að einhver fjöldi manna sofi þar. Það er þá frekar veitingaaðstaðan sem skapar umferð fólks í því nágrenni, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að veitingareksturinn í húsinu, í þeirri væntanlega annexíu frá Alþingishúsinu, yrði boðinn út og væri opið fyrir hinn almenna borgara að koma inn á kaffistofuna. Ég sé ekkert á móti því að íbúar borgarinnar og aðrir landsmenn komi þangað og drekki kaffi við næsta borð við okkur þingmenn. Ef menn vilja tala saman um eitthvað í friði sem menn vilja ekki láta bera mikið á er hægt að fara til hliðar og ræða það í lokuðum herbergjum sem ábyggilega skapast nægileg aðstaða til.

    Það verð sem minnst hefur verið á er það lágt að sá sparnaður sem kemur fram í rekstri og leigu á því húsnæði sem Alþingi á og leigir í dag mundi að verulegu leyti dekka þann rekstrarkostnað sem af þessu húsi verður. Og eins og ég sagði áðan er ekki þörf á að taka alla bygginguna gagngert í gegn endilega fyrsta árið. Húsgögn eigum við trúlega öll í flest herbergin. Flestir þingmenn eru með skrifstofur í dag og ágæta tækjaaðstöðu, þ.e. húsgögn og það sem því fylgir, þannig að sá kostnaður ætti ekki að þurfa að verða mikill. Ég lýsi því þess vegna að lokum yfir að ég styð þessa tillögu og treysti fjvn. til þess að kanna það til hlítar í samráði við forseta Alþingis hvort hér er um jafnáhugaverð kaup að ræða og ég tel vera.