Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þær ræður sem hér hafa verið fluttar, hvort sem þær hafa verið til stuðnings málinu eða ekki, og tel mjög mikilvægt að þessi umræða hafi farið fram. Ég vil þó aðeins leyfa mér, hæstv. forseti, að víkja að örfáum atriðum sem fram komu í ræðum manna.
    Fyrst af öllu vil ég leiðrétta þann misskilning eða biðjast afsökunar á að ég hafi orðað það klaufalega sem vitnað var í ræðu mína að ég teldi það vera rök í málinu að ekki væri annar kaupandi. Það var auðvitað ekki það sem ég ætlaði að segja, hvort sem mér mistókst að koma hugsunum mínum á framfæri, heldur það að húsið, Hótel Borg, einfaldlega hentar Alþingi ákaflega vel og það eru mjög fáar stofnanir sem þurfa einmitt á að halda allt að 42, og þó fleiri væru, tiltölulega litlum herbergjum. Allt það húsnæði sem okkur hefur verið boðið hér í grenndinni er að því leyti óheppilegt að þar er um að ræða að mestu leyti stórar skrifstofur og jafnvel verslanir sem gjörsamlega þyrfti að innrétta að nýju með þar af leiðandi miklum kostnaði.
    Í öðru lagi vil ég taka fram, og það finnst mér skipta meginmáli, að það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað jafnvel hv. þm. tala af lítilli virðingu um þessa stofnun. Menn tala hér í þá veru að síst af öllu skuli Alþingi Íslendinga vera forgangsverkefni. Fyrir mér er það forgangsverkefni að Alþingi Íslendinga hafi þá aðstöðu sem því sæmir og starfsfólki þess sé gert eins auðvelt og hægt er að vinna hér vel. Og ég vil nú biðja menn að líta í kringum sig hér í húsakynnum hins háa Alþingis. Menn ættu að leggja leið sína, sem ekki hafa þangað komið, út í gömlu Hótel Skjaldbreið og spyrja sjálfa sig hvort þetta sé húsnæði sem sæmir þessari stofnun. Hafa menn gengið hér niður í húsnæðið þar sem fólkið sem í eldhúsinu vinnur starfar? Ég held að það hljóti að vera leitun á annarri eins starfsaðstöðu. Og ég er sannfærð um það að langflest fólk sem væri boðið upp á slíkar aðstæður í hvaða fyrirtæki sem er í landinu færi samstundis í verkfall. Ég held að við ættum að reyna að líta að nýju og öðruvísi augum á þessa stofnun sem við vinnum við.
    Ég minnkast mín ekki fyrir að vera alþingismaður og vinna á hinu háa Alþingi og ég minnkast mín heldur ekki fyrir það að heimta að þjóðin sjái svo til að Alþingi Íslendinga hafi þá aðstöðu til að starfa sem best og farsælast, sem það þarfnast. Ég vil leggja á þetta mikla áherslu.
    Hv. 4. þm. Vestf. talaði um að e.t.v. væri Hótel Borg ekki hentugt húsnæði vegna þess að það væri í raun og veru ekki nógu nálægt sjálfu þinghúsinu. Ég held að úr því mætti bæta með tíð og tíma. Og ég vil minna menn á, eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Vesturl., að líta til Oslóborgar þar sem einmitt hefur verið gripið til nákvæmlega sömu ráða. Þar var keypt gamalt og virðulegt hótel vegna þess að það var gamalt og virðulegt og þótti sæma norska Stórþinginu. Síðan eru þeir að vísu efnaðri en við þeir vinir okkar

Norðmenn og hafa nú gert undirgöng yfir í hitt húsið, vissulega með ærnum tilkostnaði, ásamt bílageymslum og öðru og finna nú fæstir fyrir því að þarna sé um verulega fjarlægð að ræða. Og slíkt gæti auðvitað vel komið til greina með tíð
og tíma. En ég skal taka það fram að við mundum sennilega ekki leggja í þann kostnað að svo komnu máli.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. talaði í sífellu um annað húsnæði hér í kring. Ég vil varpa fram þessari spurningu: Hvers vegna ekki einmitt Hótel Borg sem, eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar sem húsin skoðaði, hæfir einmitt Alþingi Íslendinga betur en annað húsnæði hér í nágrenninu. Hins vegar er það svo alveg rétt að vel gæti komið til greina með tíð og tíma að festa kaup á húsinu við hliðina á Hótel Borg sem Reykjavíkurborg á nú og sjálfsagt á eftir að tæma. Vel gæti verið að það húsnæði kæmi að notum þó síðar yrði.
    Menn hafa talað um að þetta væri 60 ára gamalt hús. Ég vil minna á að 60 ára gömul hús eru til minni vandræða en hús sem byggð voru síðar. Sjálf bý ég í næstum 60 ára gömlu húsi. Það eru ekki steypugallar í því húsi. Það eru ekki sprungur í því húsi. Það eru heldur ekki steypugallar eða sprungur í Hótel Borg. En ég er ansi hrædd um að auðvelt sé að finna slíkt í hverfum sem byggðust síðar þannig að ég er óhrædd við ástand hússins sjálfs. Hér er um mjög vandað hús að ræða og ein ástæðan fyrir því að erfitt hefur verið að aðlaga Hótel Borg nútímanum, svo það mætti teljast nútímalegt hótel, er að það eru nánast allir veggir burðarveggir. Það er því afar erfitt að rífa neitt niður af veggjum í húsinu. Og í því tilviki þar sem við erum að hugsa um húsið held ég að það sé til mikilla bóta.
    Svo að ég taki nú ræður manna í réttri röð gagnrýndi hv. 6. þm. Norðurl. e. yfirstjórn þingsins fyrir of mikla lýsingu hér í sal og vont loft hér í þingsölum. Um þetta höfum við margsinnis talað, svo að því sé nú skotið inn hér, og beðið embættismenn þingsins að kanna þetta mál. Hér voru fyrir nokkrum árum lagðir miklir peningar í að byggja mikið loftræstingarkerfi. Það virðist einhvern veginn aldrei hafa unnið eins og það átti að gera og mun ég nú enn og aftur taka þetta mál upp.
    Varðandi hina miklu lýsingu hef ég sterkan grun um að hún sé kannski gerð af
tillitssemi við okkur hv. þm. Það mun nefnilega vera þannig, eftir því sem ég hef skilið, að því betri birta, því fegurri verða þingmenn í sjónvarpi. Og ég á nú dálítið erfitt með að berjast fyrir því að við förum öll að ófríkka til mikilla muna, en það er kannski af því að ég þoli þessi ljós greinilega miklu betur en margir hér. En allt skal þetta tekið til athugunar. Jafnframt talaði hv. 6. þm. Norðurl. e. um að breyta Hótel Borg með tilliti til sérstakra þarfa Alþingis. Sannleikurinn er sá að við teljum að þess gerist sáralítil þörf. Húsið er hentugt fyrir Alþingi að öllu öðru leyti en því að sennilega mundum við setja einhverja milliveggi á neðstu hæðina því að eins og segir í skýrslu

nefndarinnar sem skoðaði húsið, með leyfi hæstv. forseta, í kaflanum um nýtingu húsnæðisins fyrir starfsemi Alþingis:
    ,,Á jarðhæð má koma fyrir mötuneyti Alþingis og fimm fundaherbergjum er gætu rúmað 60--70 fundarmenn. Þá yrði aðstaða fyrir afgreiðslu og ritara.`` Síðan segir að á 2., 3., 4. og 5. hæð yrðu skrifstofur fyrir alþingismenn, og þær eru þarna og þeim þarf ekkert að breyta. Það eina sem þyrfti sennilega að gera væri að leggja stokka fyrir tölvuleiðslur. Þó man ég ekki alveg --- eitthvað er af þeim á neðstu hæðinni, en það kynni að þurfa að setja slíkt á efri hæðirnar, en það er ekki sá kostnaður sem ekki rúmast innan þeirrar fjárhæðar sem hér er talað um. Síðan er talað um að efstu hæð hússins, sem er 240 fermetrar, mætti nýta fyrir lestrar- og fundaaðstöðu Alþingis eða aðra sameiginlega þjónustu. Og bent hefur verið á að turnherbergið hentaði afar vel fyrir t.d. blaðamannafundi og aðrar slíkar samkomur. Ég vil því ítreka það enn og aftur að við teljum einmitt að þessi kostur sé góður vegna þess hve lítið þyrfti að breyta húsinu.
    Einhver orðaði það að hér væri um frumhlaup að ræða. Ég held að það hafi verið hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég vísa því til föðurhúsanna því að ég tel að hér hafi verið farið mjög varlega af stað. Fjórum mönnum var falið að skoða vel þennan kost og valdir menn úr hinum ýmsu sérfræðilegu deildum þessa máls svo sem maður sem kunnugur er fasteignasölu, annar verkfræðingur sem kunnugur er húsbyggingum og ástandi húsa, síðan starfsmaður Ríkisendurskoðunar og svo loks sá maður sem annast húseignir þingsins. Þeir skiluðu mjög skýrri og skorinorðri skýrslu og við töldum að hér hefði málið verið undirbúið að verulegu leyti.
    Hv. 8. þm. Reykv. talaði mikið um að þessi hugmynd væri í andstöðu við Reykvíkinga sjálfa. Ber að skilja það þannig að Reykvíkingar geti ekki hugsað sér að hús sem þeim þykir vænt um hýsi Alþingi? Næsta spurning hlýtur þá að vera: Vill Reykjavíkurborg yfirleitt að Alþingishúsið og starfsemi Alþingis sé í Reykjavík? Mér er ekki kunnugt um neitt stríð á milli Reykjavíkurborgar og Alþingis. Ég veit ekki hvaða líf legðist niður þó að Alþingi flytti inn á Hótel Borg, nema ef vera skyldi hávaðasamar samkomur unglinga í bænum eitt eða tvö kvöld í viku og margumræddur hádegisbar sem hingað til hefur nú verið talinn heldur blettur á borgarlífinu en hitt. Ég hef aldrei orðið vör við annað en að starfsemi Alþingis fylgdi einmitt töluvert mannlíf. Mér er þess vegna alveg ósliljanlegt að þetta geti verið hugur Reykvíkinga, enda áttum við fund með borgarstjóranum í Reykjavík ekki alls fyrir löngu, og það var mjög góður og þarfur fundur þar sem hann skýrði sjónarmið borgaryfirvalda. Borgin hefði athugað málið og komist að þeirri niðurstöðu að þarna yrði varla rekið hótel mikið lengur og borgin sæi sér engan hag í að nýta sér húsið á nokkurn hátt. Ég tel því að við höfum algjörlega komist að samkomulagi við borgarstjórann í Reykjavík, og einmitt á þessum

fundi lofaði hann að sjá AA-samtökunum, sem hafa verið hér í tveimur húsum þingsins, fyrir nýju húsnæði þannig að við gætum farið að nýta þau hús öðruvísi og hreinsa til hér á svæðinu því að auðvitað var hann sammála okkur um að útlitið á þessu svæði væri til stórvansa.
    Ég skal, hæstv. forseti, ekki lengja þetta mikið. Ég vil taka undir með hv. 5. þm. Suðurl. Þessi till. er sparnaðartillaga. Þetta er tvímælalaust langódýrasti kostur sem þingið á til þess að leysa þann vanda sem ég tel að okkur beri skylda til að leysa, sem sagt, að aðstaða, hvort sem er hv. þm. eða starfsmanna við þessa virðulegu stofnun, sé í þá veru að sómi sé að.
    Hv. 2. þm. Reykn. minntist á hugmynd sem mér hafði ekki til hugar komið og ég held engum okkar út af efasemdunum sem komnar eru upp vegna húsanna við hliðina á okkur hér í Kirkjustræti. Hann minntist á það að Alþingi gæfi Reykjavíkurborg þessi hús á svipaðan hátt og ríkið gaf borginni Viðeyjarstofu. Þetta þykir mér áhugaverð hugmynd og koma mjög vel til greina. En ég hlýt að koma því hér á framfæri í sambandi við þau hús, vegna ræðu hv. 4. þm. Vestf. og hv. forvera míns, að einhverjar efasemdir hljóta allan tímann að hafa verið um þessi hús vegna þess að hér er ég með í höndunum minnispunkta varðandi Alþingishúsið frá borgarskipulagi Reykjavíkur, dags. 23. nóv. 1989. Þar segir Þorvaldur S. Þorvaldsson: ,,Deiliskipulag Kvosarinnar var samþykkt í borgarstjórn 1. okt. 1987 og staðfest af ráðherra 22. febr. 1988.`` Ég legg áherslu á dagsetninguna 1. okt. 1987. Hann segir hér, með leyfi hæstv. forseta:
,,1. Í samþykkt borgarstjórnar kemur m.a. fram að hún áskilur sér ,,rétt til
sérstakrar umfjöllunar um skipulag Alþingisreits`` og tekur fram að með samþykki sínu nú ,,er ekki verið að samþykkja byggingarmagn og form þinghúss á reitnum``.
    Í 3. gr. segir hann: ,,Í greinargerð og skipulagsuppdrætti Kvosarskipulagsins er fyrsta verðlaunatillaga úr samkeppni um nýbyggingu Alþingis sýnd en tekið fram að hún hafi ekki verið lögð fram fyrir borgaryfirvöld til samþykktar.`` Svo heldur hann áfram: ,,Á skýringarteikningu bls. 16 í greinargerð Kvosarskipulagsins eru sýnd þau hús sem verða að víkja samkvæmt skipulagstillögunni.`` Samkvæmt kortinu á húsaröðin við Kirkjustræti nr. 8, 8b og 10 að víkja, svo og hús nr. 5b og 3c við Tjarnargötu. Síðan kemur hérna fram að athugasemdir hafi borist þegar skipulagstillagan var auglýst og ég hef einnig undir höndum bréf frá þjóðminjaverði, sem er formaður húsfriðunarnefndar, sem lagðist mjög gegn því að þessi hús yrðu að víkja. Það lá því aldrei ljóst fyrir að húsin mættu víkja vegna þess að það var aldrei gengið þannig frá teikningu að hægt væri að leggja hana fyrir byggingarnefnd, svo að samþykki hefur aldrei fengist. Það er alveg óumdeilanlegt. Ég býst við að það sé rétt hjá hv. 4. þm. Vestf., að hefði komið til þessarar miklu byggingar hefði borgin ekki sett sig á móti því að húsin yrðu að víkja.
    En ég skal nú, hæstv. forseti, ekki lengja þessa

ræðu, enda tími minn útrunninn. Ég þakka þessar umræður og treysti því að hv. þm. greiði fyrir því að þessi till. fari nú til hv. fjvn. og fái afgreiðslu þaðan nú fyrir þessi áramót því ég held að nái hún ekki fram að ganga hljótum við að verða að líta til annarra kosta sem ég er því miður hrædd um að kunni að verða ærið kostnaðarsamari.