Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það eru bara nokkur orð. Hv. 4. þm. Vestf. hefur misskilið mín orð. Ég var ekki að ásaka neinn sérstakan. Ég var bara að tala um að það var orðið of seint að grípa í málið þegar hæstv. núv. forseti tók við. Þá var byrjað að byggja húsið þarna. Og það er alveg rétt að þetta er lengri saga en frá 1967, eftir því sem ég veit best, en kem ekkert inn á hér. En það réttlætir ekki sofandahátt margra fyrrverandi forseta Alþingis í þessu máli því að ég held að það sé að verða útbreidd skoðun meðal þingmanna að þetta hús verði aldrei byggt, og það er fyrst og fremst út af ráðhúsinu. Það er bara þessi staðreynd sem ég var að tala um.
    Ég ætla ekki að ræða það meira en ég vil bara, vegna þess að ég hef ekki verið alveg aðgerðalaus í sambandi við að afla mér upplýsinga um Hótel Borg og ég veit ekkert hvort ég hef fengið réttar upplýsingar heldur, segja hér og nú: Ég hef talað við menn sem þekkja þarna til og eru byggingameistarar, bæði trésmíðameistarar og pípulagningameistarar, og þeir tjá mér að það sé mjög hætt við því að það þurfi að athuga alla raflögn í húsinu og hitalögn. Ég vil koma þessu hérna á framfæri þó að ég hafi bara sögusagnir annarra, en það þarf auðvitað að líta á öll þessi mál. 60 ára gömul hús eru 60 ára, og hús sem eru byggð fyrir 20--30 árum hafa reynst þannig að það þurfti að skipta bæði um hitalagnir og raflagnir þannig að það er ekki ótrúlegt að þetta sé einmitt svona.