Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Ég vildi vekja athygli hv. 1. þm. Suðurl. á því að hér er ekki til umræðu spurningin um forkönnun á því hvort hyggilegt sé að byggja fullkominn varaflugvöll á Íslandi. Það er að sönnu rétt sem kom fram í máli hv. 1. þm. Suðurl. að það mun skipta afar miklu máli hvernig staðið verður að eftirliti með hugsanlegu samkomulagi um afvopnun á höfunum sem við öll vonum að náist. En að tengja það þessu tiltekna máli á þessu stigi tel ég alls ekki tímabært. Eftirlitshlutverkið verður vandasamt og vel er hugsanlegt, og má telja næsta víst, að þar hljóti Ísland að koma við sögu, einfaldlega af því að landið er þar í veröldinni sett sem raun ber vitni, á miðju Atlantshafi. Og ég gæti hugsað mér að spurningar um aðstöðu eins og þá sem hér er nefnd kynnu að koma þar við sögu. En málið er núna alls ekki því tengt og ég tek það fram, eins og margoft hefur verið sagt, þá verða ákvarðanir teknar um það mál á rökum þess máls og á þeim tíma sem það er hentugt vegna þeirra málavaxta. Forkönnun eða ekki, ákvörðun um hana er að sjálfsögðu á forræði utanrrh. eins og fram hefur komið. Það er alveg sjálfsagt mál að staðfesta það.