Guðmundur H. Garðarsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. settur utanrrh. hafði tjáð mér það að hann þyrfti að víkja af fundi. Það væri ekki vegna þess að hann væri að flýja það að sitja hér undir ræðum hv. þm. heldur er það þessu máli skylt sem hér er á dagskrá þannig að ég skil að hann muni væntanlega koma fljótt aftur á þennan fund.
    Virðulegi forseti. Það er mál ýmissa hér að hv. þm. eyði miklum tíma í að ræða um það mál sem hér er á dagskrá. Samt viðurkenna allir sem hér taka til máls, hvort sem það eru hæstv. ráðherrar eða hv. þm., að hér sé verið að fjalla um það stærsta mál sem hv. Alþingi hefur haft til meðferðar frá því að lýðveldið Ísland var stofnað. Það er auðvitað rétt vegna þess að þótt hér sé verið að fjalla um skýrslu utanrrh. undir því forheiti að verið sé að ræða um könnunarviðræður og þau efnisatriði sem könnunarviðræður hafa fjallað um, þá erum við raunverulega að hefja hér umræður um, ég vil segja mál sem varða grundvallaratriðin í réttarstöðu þess þjóðríkis sem lýðveldið Ísland er. Það er því engin furða þótt hv. þm. vilji eyða góðum tíma í að ræða þau atriði sem helst koma til greina af þessu tilefni.
    Ég tók skýrt fram, virðulegi forseti, þegar ég hóf mitt mál á sínum tíma að ég mundi koma víða við í minni ræðu af skiljanlegum ástæðum. Þetta mál er ekki einfalt. Þegar maður les þau gögn og þau skjöl sem EB-nefnd Alþingis
hefur fengið til meðferðar gerir maður sér fullkomna grein fyrir því að við erum raunverulega að fjalla um að hér gæti hugsanlega komið upp sú staða í sambandi við viðræður EFTA og EB að hið háa Alþingi þyrfti að fjalla um ákveðin atriði í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það kann að vera að sumum liggi það í léttu rúmi hvort Ísland heldur sínu sjálfstæði á grundvelli þess að vera þjóðríki í hinni hefðbundnu merkingu þess orðs eða eitthvað nýtt taki við sem hefur aðra merkingu. Fyrir mér, virðulegi forseti, og flestöllum öðrum hv. þm. sem hér hafa talað, er meginatriðið að ræða þetta út frá hugtakinu Þjóðríki lýðveldisins Íslands og þeirrar stjórnarskrár sem við búum við.
    Í fyrri ræðu minni, virðulegi forseti, fjallaði ég um nokkur meginatriði eins og í fyrsta lagi málsmeðferð af hálfu ríkisstjórnar og gagnrýndi mjög hvernig á hefði verið haldið. Í öðru lagi vakti ég athygli á klofningi í röðum stjórnarflokkanna í þessu mikilsverða máli. Í þriðja lagi deildi ég mjög á þær samningsaðferðir sem hæstv. utanrrh. hefur notað. Einnig taldi ég að hæstv. utanrrh. væri ekki þeim kostum búinn sem ég geri kröfu til sem samningamaður fyrir hönd Íslands.
    Í fjórða lagi gagnrýndi ég í hvaða röð áherslur eru af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í EFTA- og EB-viðræðunum. Einnig gerði ég mjög alvarlegar athugasemdir við að ekki skuli hafa verið teknar upp tvíhliða viðræður eða þegar í stað ákveðið að gera slíkt í samráði við hið háa Alþingi.
    Í fimmta lagi kom ég nokkuð inn á efnisatriði og

ræddi m.a. um það sem menn kalla ,,frelsin fjögur`` sem er auðvitað ekki góð íslenska. En það sem átt er við þegar menn tala um ,,frelsin fjögur``, sem er auðvitað merkingarleysa eins og menn hafa notað það, eru þau atriði sem eru alger skilyrði af hálfu EB til viðræðna við EFTA, að upp verði tekin frjáls vöruviðskipti, frjáls þjónustuviðskipti, frjáls fjármagnsviðskipti og vinnumarkaðurinn verði frjáls. Í þessu felst auðvitað að þegnar viðkomandi ríkja, þ.e. EB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna hafi fullt frelsi til að stofna til atvinnurekstrar í viðkomandi ríkjum.
    Í sjötta lagi fór ég mjög ítarlega út í svonefnda SAS-skýrslu. Það er skýrsla Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi en það eru þeir aðilar sem hafa forustuna fyrir stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum, og túlka málstað þeirra sem eru úti á vettvangi sem atvinnurekendur og ábyrgðarmenn þeirra fyrirtækja sem þar er um að ræða, þ.e. útgerðinni, fiskiðnaðinum. Einnig vakti ég athygli á því að sjómenn fylgdu þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið af hálfu þessara forustumanna Samtaka atvinnurekanda í sjávarútvegi.
    Í sjöunda lagi fjallaði ég einnig mjög ítarlega um styrkjastefnu EB í sjávarútvegi tímabilið 1987--1997 og vakti athygli á því, virðulegi forseti, að sú stefna á ekkert skylt við fríverslun með sjávarvörur nema síður sé. Mér finnst við hæfi að við stöldrum örlítið við og hugleiðum hvað felst í þessari umræðu, um hvað er verið að ræða raunverulega. Að minni hyggju er verið að ræða um stöðu Íslands sem sjálfstæðs þjóðríkis eins og ég sagði hér í upphafi. Spursmálið er, viljum við eða neyðumst við til að breyta stöðu okkar stjórnskipulega með sama hætti og EB-ríkin hafa undirgengist og viss EFTA-ríki stefna þegar að? Þetta er kjarni málsins. Um þetta snýst málið. Þess vegna segi ég, og endurtek, að ekki er of miklum tíma eytt í það á þessu stigi að gera sér grein fyrir því hvert við kunnum að stefna. Ég vil fullyrða að könnunarþættinum svonefnda, sem er forsenda þeirrar skýrslu sem hæstv. utanrrh. lagði fram, var lokið þegar framkvæmdastjórn EB sendi bréf dags. 22. nóv. til ráðherraráðs EB um þau skilyrði varðandi efnisatriði sem Evrópubandalagið, þ.e. framkvæmdastjórnin, lagði áherslu á að væru sett fram í fyrirhuguðum viðræðum EB og EFTA þann 19. des. Í stuttu máli sagt hefur
teningunum verið kastað af hálfu EB í þessu máli. Evrópubandalagið hefur alveg skýra stefnu um það hvernig það ætlar að nálgast þessar viðræður.
    Ég sagði og vísaði til þess að út hefði verið gefin skýrsla framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins til ráðherraráðs EB um niðurstöður þeirrar aðalnefndar sem fjallaði um þessi mál fyrir hönd bandalagsins. Þessi skýrsla mun hafa legið fyrir þegar umræðan hófst um þetta mál hér á hinu háa Alþingi fyrir tæpri viku. Skýrslan er þess eðlis að hún mun vera trúnaðarmál en skýrslan er hins vegar ekki trúnaðarmál gagnvart ríkisstjórnum viðkomandi ríkja né utanríkismálanefndum þinga þeirra þjóða sem um ræðir, þ.e. EFTA-ríkjanna, sem best sést af því að

þessi skýrsla framkvæmdastjórnar EB til ráðherraráðsins hafði borist utanríkismálanefnd Stórþingsins í síðustu viku og hafði greinilega haft þar mikil áhrif á umfjöllun þessa máls í Stórþinginu norska með þeirri niðurstöðu m.a. að Stórþingið tók þá ákvörðun að ef ekki næðist samkomulag í þeim viðræðum sem núna eiga sér stað á sameiginlegum grundvelli EFTA-ríkjanna gagnvart EB, þá heimilar það fyrir sitt leyti að umræður gætu hafist milli Noregs og EB um tollabandalag. Nú ætla ég ekki að fara út í þær umræður sem voru í norska Stórþinginu enda þekki ég ekki til þess nægilega, en það er greinilegt að Norðmenn virðast gera ráð fyrir því að þessar viðræður á sameiginlegum grundvelli EFTA-ríkjanna annars vegar og EB-ríkjanna hins vegar geti endað þannig að ekki verði samkomulag. Þá ætla Norðmenn að vera reiðubúnir til að fjalla um þetta á þeim grundvelli sem ég gat um áðan.
    Ég ætla ekki að leggja dóm á það hvað hentar Norðmönnum eða ekki en ég hlýt hins vegar að leggja dóm á það hvort hér á hinu háa Alþingi fáist umfjöllun um með hvaða hætti við viljum nálgast þetta, t.d. við hliðstæðar aðstæður, þ.e. ef ekki næst samkomulag á heildargrundvelli milli þessara tveggja aðila. Sú niðurstaða er ekki enn þá komin fram, alla vega ekki hér á hinu háa Alþingi. Og ég leyfi mér að segja og hef ástæðu til að ætla að hæstv. ríkisstjórn hafi heldur ekki komist að niðurstöðu hvað þetta atriði varðar.
    Ég hef fengið þetta plagg sem trúnaðarplagg sem aðili að EB-nefnd Alþingis þannig að ég get ekki fjallað um það hér í minni ræðu. ( Gripið fram í: Það er búið að aflétta trúnaði.) Hver aflétti trúnaðinum, hv. þm.? ( Gripið fram í: Tilkynning.) Hvenær kom hún? Hún hefur ekki borist til þm. með formlegum hætti. --- Hæstv. forsrh. er að ganga úr salnum. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., með leyfi virðulegs forseta: ( Sjútvrh.: Forsrh. er ekki hér.) Ert hæstv. sjútvrh. ekki settur ... (Gripið fram í.) Er hann kominn? ( Gripið fram í: Hann er í landinu.) Nei. Já, hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson er þá kominn heim. Menn verða þó að virða ræðumanni það til vorkunnar að hann fylgist ekki með því hvernig fuglarnir fljúga, en ég vildi óska eftir því að hæstv. forsrh. staðfesti það hér að búið sé að aflétta þagnarskyldu af þessu plaggi vegna þess að ef svo er, þá mun ég lesa upp úr því og þýða það jafnharðan eftir því sem hentar í minni ræðu ( Forseti: Forseti mun leita eftir því að hæstv. forsrh. komi hér í salinn.) auk þess sem ég hlýt að álykta að bæði aðrir hv. þm. og fjölmiðlar hljóti að leggja áherslu á að fá þetta plagg strax. Í því eru mjög þýðingarmikil atriði sem sanna í fyrsta lagi að það var rangt af hæstv. utanrrh., sem því miður er erlendis, hann vissi um þetta plagg því það var komið til landsins, það var rangt af honum að gera hinu háa Alþingi ekki grein fyrir þessu plaggi þó að hann gæti ekki farið út í það í einstökum efnisatriðum þá. Og í öðru lagi er það ekki síður rangt gagnvart hv. þm. að þessu plaggi skuli ekki hafa verið dreift til þeirra. Í þriðja lagi

hefði auðvitað átt að láta fjölmiðla vita að þetta mikilsverða plagg væri hér til ráðstöfunar og upplýsinga fyrir fjölmiðlana um þetta mikilsverða mál og þýðingarmikla. Ég segi þetta sérstaklega vegna þess sem ég mun víkja að hér á eftir, sérstaklega með tilliti til þess sem hæstv. utanrrh. lét eftir sér hafa í Alþýðublaðinu 5. des. sl. Að vísu er Alþýðublaðið ekki það blað sem ég les mikið en ég neyddist nú til þess að gera það hér áðan og tók þá eftir ýmsum atriðum sem nauðsynlegt er að koma hér inn á á eftir.
    En það er rétt að það komi fram að í þessu plaggi sem er enn þá á ensku --- ég bíð eftir því að hæstv. forsrh. staðfesti að ... ( Forseti: Hæstv. forsrh. er ekki hér í húsinu.) Þá er bara að láta hann koma hingað vegna þess að ég vil, virðulegi forseti, gjarnan geta skýrt alþjóð frá því hvað stendur í þessu plaggi. Það er mjög þýðingarmikið, eða hæstv. utanrrh., þannig að ég bíð þá með að vitna í það. ( Forseti: Forseti sér að hæstv. utanrrh. mun vera í húsinu og verður gerð tilraun til þess að ná sambandi við hann.) Já, hann kemur þá rétt strax.
    Þetta var mjög athyglisvert í þessari umfjöllun málsins að þetta skuli vera svona. Ég mun koma nánar að skýrslunni hér á eftir þar sem ekki er búið að dreifa henni til þingmanna. Ég vænti þess að utanrrh. staðfesti að það megi birta hana. Hér á eftir hafði ég hugsað mér að víkja að sjö meginatriðum, virðulegi forseti.
    Í fyrsta lagi ætla ég að fjalla hér um rangfærslur hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar
    a. í sambandi við það er varðar afstöðu Sjálfstfl. til þessara mála;
    b. um rangar fullyrðingar hans um SAS-skýrsluna og hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði;
    c. um þetta atriði sem varðar þá leynd fyrir okkur hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn og utanrmn. og ég gat um áðan í sambandi við skýrslu framkvæmdanefndar Evrópubandalagsins.
    Í öðru lagi hafði ég hugsað mér að kynna þm. afstöðu sérfræðings ASÍ varðandi EFTA og EB. Það er mjög merkilegt atriði sem ekki hefur komið fram hér á hinu háa Alþingi.
    Í þriðja lagi ætla ég að rekja nokkuð stefnu hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar í sambandi við hvernig hann hefur þróað þessi mál hvað Ísland varðar inn í það sem ég kalla tímagildru EFTA-EB-viðræðna. Þá er ég með grundvallarhagsmuni íslenskrar þjóðar í huga sem eru útflutningshagsmunir íslensks sjávarútvegs, fiskiðnaðar.
    Í fjórða lagi hafði ég hugsað mér að ræða nokkuð um þróun mála í Evrópu undanfarnar vikur og mánuði en hún mun hafa gífurlega mikil áhrif á alla þróun Evrópubandalagsins. Um það hefur ekkert verið fjallað af hálfu hæstv. ráðherra hér, sem raunverulega er skylda þeirra vegna þess að það sem hefur verið að gerast í Evrópu undanfarið er þess eðlis, eins og ég mun víkja að hér á eftir, að þegar menn eru að tala um að allt sem snýr að Íslandi hljóti að gerast í gegnum Evrópubandalagið, þá er það að minni hyggju misskilningur.

    Í fimmta lagi mun ég ræða um stöðu Íslands eins og hún kemur mér fyrir sjónir í þróun þessara mála.
    Í sjötta lagi mun ég fjalla hér nokkuð um ákveðin áhersluatriði til viðbótar því sem áður hefur verið sagt.
    Í sjöunda lagi ætla ég að fjalla hér um framtíðarspár um ríkjaskipan Evrópu. Ég held að það sé líka hollt fyrir hv. þm. að skoða þau mál almennt séð.
    Ég sé að hæstv. utanrrh. er mættur í salinn. Eins og ég gat um áðan þá þurfti hann að víkja frá í bili. Það sem ég vildi fá staðfest hjá hæstv. utanrrh. þar sem hann situr er eftirfarandi: Það var upplýst hér áðan, hæstv. utanrrh., þegar þú varst ekki í salnum, að búið væri að aflétta þagnarskyldu af skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins til ráðherraráðs EB um niðurstöður HLSG-nefndarinnar en þessi skýrsla var innanhússskýrsla EB og í bréfi utanrrn. dags. 4. des. til okkar sem fengum þessa skýrslu sem trúnaðarmál segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þetta er innanhússskýrsla EB og þar sem ekkert liggur fyrir um að hún hafi verið birt opinberlega óskast farið með efni hennar sem trúnaðarmál.`` Ég vil spyrja og fá það staðfest hjá hæstv. utanrrh., þó að það hafi nú láðst að undirrita þetta bréf til okkar, hvort þetta sé rétt eða ekki. Hvort það sé rétt að það sé búið að aflétta þagnarskyldu af þessari skýrslu? ( Viðskrh.: Það er rétt.) Það er rétt. Það er gott að vita það. Þá geta bæði hv. þm. aðrir en þeir sem eru í hv. utanrmn. og fjölmiðlar fengið hana og kynnt sér efni hennar og ég mun þá vísa í þessa skýrslu eftir því sem hentar í minni ræðu hér á eftir.
    Ég vil, virðulegi forseti, víkja nokkuð að þætti hæstv. utanrrh., þ.e. ekki þess sem hér er mættur og er settur, heldur Jóns Baldvins Hannibalssonar, þótt hann sé ekki hér viðstaddur. Hann hefur látið birta við sig viðtal í Alþýðublaðinu, sem var tekið áður en hann hvarf af landi brott,, sem er þess eðlis að við sem sitjum þar undir rangfærslum, svo að ekki sé meira sagt, getum ekki unað því.
    Þann 5. des. tekur Alþýðublaðið mjög ítarlegt viðtal við hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson. Þetta viðtal fjallar um utanríkismál vítt og breitt og einnig fjallar það sérstaklega um það sem hér hefur farið fram á Alþingi Íslendinga varðandi EFTA-EB-viðræðurnar. Ég verð að segja það strax, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson er meistari í útúrsnúningum og hann virðist líka vera meistari í því að fara með rangt mál eins og ég mun víkja að hér á eftir, því miður. Þess vegna er óhjákvæmilegt að svara ýmsum fullyrðingum sem komu fram í þessu viðtali.
Ég nefni sem dæmi, virðulegur forseti, og les upp úr viðtalinu, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæðisflokkurinn hafði rofið samstöðu lýðræðisaflanna um eitt mikilvægasta og vandmeðfarnasta utanríkismál lýðveldistímans og fann sér einkum bandamenn á þingi með Kvennalistanum og Hjörleifi Guttormssyni.``
    Í þessu felst náttúrlega algjör þversögn vegna þess

að ég veit ekki annað en að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi verið að votta hæstv. utanrrh. hollustu sína með því að greiða atkvæði með því að Jón Baldvin Hannibalsson héldi áfram að vera utanrrh. Það gerðist hér þegar atkvæðagreiðsla fór fram um vantrauststillöguna. Þannig að þetta er auðvitað þvættingur.
    Hins vegar hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fjallað hér um þessi mál út frá sínu sjónarmiði og ég vil segja með mjög faglegum hætti og er það virðingarvert. Það er því fyrir neðan allar hellur að hæstv. ráðherra sé með skæting við þá menn sem af einlægni fjalla um þessi mál út frá einhverju öðru
sjónarmiði en hentar þessum hæstv. utanrrh.
    Síðan segir í sama viðtali, sem sýnir hvað farið er hér með rangt mál, til viðbótar því sem þegar hefur komið fram, með leyfi forseta, í blaðinu:
    ,,Á sameiginlegum fréttamannafundi Jóns Sigurðssonar`` --- þetta segir hæstv. utanrrh. í viðtalinu --- ,,og Christophersens kom fram að þeir litu svo á að viðræður væru þegar hafnar um viðskipti Íslands og EB t.d. með heimsókn Christophersens hingað til lands. Einnig stæði til að Manuel Marin sem fer með sjávarútvegsmál innan framkvæmdastjórnar EB kæmi hingað til viðræðna við Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra.``
    Þarna fullyrðir hæstv. utanrrh. að um formlegar viðræður sé að ræða. Ég spyr hæstv. ráðherra sem hér eru mættir: Hvar eru opinberar nótur um þetta sem staðfesta að fram hafi farið og fram fari formlegar viðræður við þessa aðila? Ég óska eftir því að þær verði birtar hér, á hv. Alþingi, bréfin eða nóturnar með dagsetningum. Það eru ekki formlegar viðræður nema það sé staðfest. Þetta eru óformlegar viðræður. Þarna er beinlínis farið með rangt mál af hæstv. utanrrh.
    Sumir segja og halda að allt sé leyfilegt í stjórnmálum. Ég er ekki sömu skoðunar. Þó að menn beiti pólitískum fantabrögðum til þess að koma sér til valda þá réttlætir það ekki gjörðir þeirra nema síður sé.
    Síðan segir í þessu umrædda viðtali, virðulegur forseti. Blaðamaður spyr, með leyfi forseta:
    ,,Þú ert með öðrum orðum að saka forustu Sjálfstæðisflokksins og talsmenn flokksins um hreina vanþekkingu þegar flokkurinn setur fram tillögur um formlegar viðræður við EB annars vegar og tvíhliða viðræður við forystumenn einstakra ríkja hins vegar.`` --- Og þá svarar hæstv. utanrrh. --- því miður verð ég vegna þeirra forma sem þingið setur manni að segja ,,hæstvirtur`` alltaf fyrir framan ráðherra. Ég vildi nú helst, virðulegi forseti, vera leystur undan þeirri skyldu. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, hv. þm. Ég veit að hann er einnig þjakaður af því, hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason, sem greip fram í fyrir mér, en það er því miður þannig að þingið krefst þess að þessum formum sé við haldið. En satt að segja eiga þau ekki við um alla og væri æskilegt og óskandi að það væri hægt að leysa þm. undan þessari skyldu.
    Já, svo ég vísi nú í það sem hæstv. utanrrh. segir

og svarar þessari spurningu blaðamannsins, þá er það svo:
    ,,Já, þessar viðræður eru í gangi og ,,sjávarútvegsráðherra`` framkvæmdastjórnarinnar`` --- að vísu í gæsalöppum en það er Manuel Marin, hann er ekki ráðherra --- ,,Já, þessar viðræður eru í gangi og ,,sjávarútvegsráðherra`` framkvæmdastjórnarinnar er væntanlegur hingað til viðræðna. Það er þess vegna algjör fásinna og afhjúpar ótrúlega fáfræði að halda því fram að ekki séu í gangi tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið svo ekki sé talað um að flytja tillögu um að skora á íslensk stjórnvöld að taka upp tvíhliða viðræður sem hafa staðið yfir í tvö ár.``
    Ég spyr nú, virðulegi forseti, er hægt að ganga lengra --- sumir mundu segja í lyginni, en það er svo ljótt orð að ég mun strika það út úr minni ræðu. Ég segi bara, er hægt að ganga lengra að skrökva en gert er þarna? Þarna er beinlínis verið að segja að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Ég bið hv. þm. að minnast þess, þó ekki væri nema af tillitssemi við unga fólkið í landinu sem enn þá er óspillt, það er meira en sagt verður um suma af þessum eldri stjórnmálamönnum, að reyna að hafa það í heiðri að segja sannleikann og koma heiðarlega fram við aðra þó þeir séu ekki sammála þeim. Það er lágmarkskrafa. Þeir geta óvirt hver annan í einkaherbergjum, þessir herrar, en þeir geta látið vera að óvirða þá sem þeir umgangast. Óvirða ég vil segja starfsheitið alþingismaður og ráðherra. Það gera þeir með því að segja ekki sannleikann. Og þetta er eitt gott dæmi um hvernig menn eiga ekki að haga sér.
    Síðan segir þessi hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson, með leyfi forseta:
    ,,Hitt er verra að helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum og fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd er eini maðurinn sem er uppi núna í veröldinni sem hefur þá prívatskoðun að hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópubandalagsins sé ekki til og neitar því í þingræðu eftir þingræðu. Það er alvarlegt mál þegar stærsti flokkur þjóðarinnar hefur þá stefnu eina að leiðarljósi að afneita staðreyndum.``
    Ég spyr: Undir hvað flokkast svona ummæli? Hér á hinu háa Alþingi fór m.a. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson mjög ítarlega yfir fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins. Ég gerði það einnig í minni ræðu hér fyrir tveimur dögum. Fiskveiðistefna Evrópubandalagsins er annað og meira en hugmyndir embættismanna í Brussel um það hvort þeir þurfi að stilla því upp í viðræðum við Íslendinga að þeir vilji að EB fái veiðiheimildir á Íslandi. Fiskveiðistefnan er svo miklu, miklu víðtækari, eins og hefur komið fram hér í ræðum manna að ekki þarf að hafa orð um það. En hvers konar menn eru komnir til valda og hvers konar menn sitja sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem tala og hugsa svona? Það eru ekki menn sem geta talað fyrir hönd þessarar
þjóðar við alvörumenn erlendis.
    Við sem höfum starfað erlendis og unnið þar vitum að svona þýðir ekki að umgangast sannleikann og

svona þýðir ekki að haga sér fyrir þá sem vilja vera marktækir á erlendum vettvangi nema síður sé.
    Ég þarf ekki að taka upp neina vörn fyrir þann ágæta talsmenn okkar sjálfstæðismanna sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er, verkin tala fyrir hann. Þar sem hann hefur farið í sambandi við utanríkismál og sérstaklega í sambandi við það baráttumál Íslendinga að standa fastir fyrir í því gagnvart Evrópubandalaginu að hér sé um engar veiðiheimildir að ræða þó svo að einhverjir embættismenn EB kunni að óska eftir því og vilja það. Það hafa fáir eða engir staðið betur að því að hafna slíkum hugmyndum en hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Það þýðir því ekkert fyrir hæstv. ráðherra að haga sér og tala eins og hann gerir í umræddu viðtali.
    Þetta eru auðvitað marklausar yfirlýsingar manns þó hann sé ráðherra. Hann segir það sem honum hentar á þeim stað sem honum passar best, sem er í blessuðu Alþýðublaðinu, málgagni Alþfl. Við því er auðvitað lítið að segja nema að menn hljóta að mótmæla svona vinnubrögðum og svona hugsunarhætti.
    Síðan fullyrðir hann, hæstv. utanrrh., í sama viðtali, með leyfi forseta:
    ,,Tollfríðindi eru ekki veitt nema gegn veiðiheimildum eða aðgangi að veiðiheimildum.`` --- Hvað segir nú ágæt skýrsla sem framkvæmdastjórnin samdi fyrir ráðherranefnd EB um þetta? Í einum kafla á bls. 5 er fjallað sérstaklega um sjávarútveginn eða fiskveiðarnar. Þeir segja eitthvað á þessa leið varðandi sjávarútveg:
    ,,Það þarf að láta á það reyna meðan á samningum stendur hversu langt er mögulega hægt að komast.`` --- Hversu langt er unnt að komast.
    ,,EFTA-ríkin vilja að í samkomulaginu felist fríverslun með sjávarafurðir. Nefndin hefur sett fram í viðræðunum að spurningin um fríverslun með fisk sé tengd öðrum atriðum í sambandi við fiskveiðistefnu EB, þar á meðal innflutningi í sambandi við aðgang að náttúruauðlindum.`` --- Síðan kemur setningin sem skiptir máli fyrir okkur í þessu plaggi framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins:
    ,,Af hálfu EFTA hefur verið lögð áhersla á að slík tenging mundi brjóta í bága við grundvallarþjóðarhagsmuni.``
    Ég mundi túlka þetta þannig að framkvæmdastjórn EB sé raunverulega búin að gera upp við sig að ekkert þýði að vera með þetta sem samningsatriði. Ef svo er, spyr ég hæstv. sjútvrh.: Hvers vegna er ekki hægt að ganga frá þessu strax með formlegum hætti í tvíhliða viðræðum? Mér finnst felast í þessum texta þannig ábending að það ætti ekki að þurfa að valda neinum vandkvæðum. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir okkur Íslendinga að fá þessa viðbót við bókun 6 eða sérstakan samning um niðurfellingu tolla.
    Hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. munu örugglega koma báðir hér upp á eftir og svara þessu. Þeir hafa þá sinn skilning á því hvernig ber að skilja þetta. Ég hef minn. Við getum alveg hiklaust, samhliða því sem við erum í EFTA-EB-viðræðunum um önnur

mikilsverð atriði sem ekki skal dregið úr, farið í tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið án þess að það skaði nokkuð þær viðræður sem fara fram á sameiginlegum heildargrundvelli um önnur atriði, þ.e. þar á ég við sérstakan tollasamning vegna okkar sérhagsmuna.
    En það er ekki nóg að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson beini nú spjótum sínum að Sjálfstfl. Hann hefur fullkomlega rétt á því að ráðast á þá sem hann telur sína höfuðandstæðinga eins og honum sýnist og við munum auðvitað svara á móti. En það er auðvitað illa farið fyrir Alþfl. að formaður flokksins skuli telja Sjálfstfl. sinn höfuðandstæðing. Það er aftur annað atriði sem er nú umhugsunarefni fyrir gott alþýðuflokksfólk svo ekki sé meira sagt.
    Hæstv. ráðherra leyfir sér að segja í þessu sama blaði, Alþýðublaðinu, 5. des. að stjórnarandstaðan misnoti pólitískt skýrslu sjávarútvegsmanna um Evrópubandalagið. Ég vil, með leyfi forseta, lesa þetta hér vegna þess að það verður að koma inn í þingsöguna hvernig þessi hæstv. ráðherra hefur hagað sér í þessum málum, til að öll atriði þessa máls komi fram í rökréttu samhengi. Það er nefnilega atriði sem hv. þm. hafa oft ekki áttað sig á, að þessir æfðu fjölmiðlamenn, eins og m.a. þessi hæstv. ráðherra er, hafa lært það og kunna mörgum öðrum betur að slíta úr samhengi mál með þeim hætti að allur almenningur heyrir raunverulega ekki nema þau atriði sem þeir vilja láta koma til skila og þá víkja þeir oft frá því sem er meginatriði, sér í hag. Hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson lætur hafa þetta eftir sér og fréttin er svohljóðandi, með leyfi forseta, á forsíðu Alþýðublaðsins 5. des. Með leyfi forseta ætla ég að lesa það upp:
    ,,Jón Baldvin Hannibalsson fullyrðir í viðtali við Alþýðublaðið í dag að skýrsla Samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi um íslenskan sjávarútveg og Evrópubandalagið hafi verið misnotuð í pólitískum tilgangi af stjórnarandstöðunni í umræðunni um málefni EFTA og EB á Alþingi og í umræðum um vantrauststillöguna.
    Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að aðeins hafi vakað fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að leggja áherslu á að hafnar yrðu viðræður um viðauka við bókun 6 í fríverslunarsamningi Íslands við Evrópubandalagið.
    Rök stjórnarandstöðunnar og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega fyrir því að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig sem skyldi við að gæta hagsmuna íslensks sjávarútvegs, í vantraustsumræðum á Alþingi í síðustu viku, voru m.a. þau að skýrsla gefin út af hagsmunaaðilum í sjávarútvegi gæfi ótvírætt til kynna að ríkisstjórnin hefði ekki gætt hagsmuna sjávarútvegsins nægilega vel. Kristján Ragnarsson segir að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi ekki fjallað neitt um tillögur stjórnarandstöðunnar um tvíhliða viðræður við EB. Þeir leggi aðeins áherslu á að fá fram viðræður um viðbót við bókun 6, vegna þess hversu margt hefur breyst frá því hún var gerð.
    Kristján segir að þeir skipti sér ekkert af því

hvernig slíkar viðræður fari fram, þeir skipi ekki stjórnmálamönnum fyrir verkum, hvorki við hverja á að ræða né hvenær. ,,Við leggjum enga dóma á formlegu hliðina á málinu,,, segir Kristján.``
    Þá spyr blaðamaður enn fremur og vitna ég í þessa frétt Alþýðublaðsins, með leyfi forseta:
    ,,"Má tala um pólitíska misnotkun?``"
    Þá svarar Kristján: ,,Það vil ég ekkert um segja. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það. Séu þeir að taka undir með okkur er það af hinu góða. Ég ætla bara að vona að allir sjái að þetta er málefnalega unnið hjá okkur og enginn pólitískur hanaslagur.``
    Þá spyr blaðamaður: ,,"En þegar skýrslan er tekin upp og notuð með þeim hætti sem gert var?``"
    ,,``Þá verða menn að ræða það á þeim vettvangi og það látum við afskiptalaust og getum aldrei haft áhrif á það,,, sagði Kristján Ragnarsson við Alþýðublaðið í gær.``
    Sem betur fer er Alþýðublaðið ekki eins útbreitt og Morgunblaðið þannig að þessi skreytni berst ekki til margra. Það eru tvö atriði sérstaklega sem standa upp úr. Sumum kann að finnast þetta afskaplega ómerkilegt, þ.e. sumum sem eru þannig gerðir í stjórnmálum að þeir haga orðum sínum eftir því sem passar og láta sér í léttu rúmi liggja þótt einhverjir fari með rangt mál. Ég var nú einu sinni alinn upp þannig að lögð var áhersla á að það sem er satt og rétt sé í heiðri haft. Ég vil þess vegna í fyrsta lagi, virðulegi forseti, undirstrika það sem kemur fram hjá SAS-hópnum, sem Kristján Ragnarsson er aðili að, varðandi EB-viðræðurnar og hver er afstaða nefndarinnar, þ.e. SAS-nefndarinnar, til þess hvernig eigi að haga málum. Í nefndinni segir m.a. í samantekt:
    1. SAS vill að allar leiðir verði nýttar til þess að ná viðbótarsamningi við EB.
    2. Tvíhliða viðræður Íslands og EB verði reyndar ásamt EFTA-leiðinni.
    3. Tvíhliða viðræður jafnvel vænlegri til árangurs því EFTA-leiðin gæti tekið fjölda ára.
    Síðan er undirstrikað eftirfarandi af hálfu þessara manna sem mynda SAS-hópinn, og þar með er Kristján Ragnarsson, þannig að Alþýðublaðið fer með alrangt mál í sinni frétt og ég tala nú ekki um það sem hæstv. ráðherra lætur eftir sér hafa í þessari frétt, varðandi stefnuna og hvernig eigi að fjalla um þetta:
    Þjóðarleiðtogar velviljaðir eru Kohl kanslari, Thatcher, forsætisráðherra Breta, von Gelden, --- sem mun vera sjútvrh. Vestur-Þýskalands --- Ordanez og Mitterrand, forseti Frakklands. Þessir aðilar eru velviljaðir. Einnig benda þeir á og undirstrika persónuleg kynni hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. við forustumenn í stjórnmálum og innan EB. Ég sé að þarna hefur þeim orðið dálítið á í messunni. Þeir hefðu átt að segja: Persónuleg kynni hæstv. sjútvrh. og forsrh. en ég held mig við plaggið eins og það er mér birt. Síðan segir:
    Hver væri staða íslensks sjávarútvegs ef ekki næst árangur þar, þ.e. í EFTA-viðræðunum. Ganga þá Norðmenn í bandalagið? Ekki mundi það auka

líkurnar á viðskiptaívilnun. Íslendingar hafa ekki efni á að bíða. Tíminn vinnur gegn hagsmunum okkar. Í viðræðum við EB þarf að undirstrika sérstöðu Íslendinga, að sjávarafurðir eru iðnaðarvarningur okkar og að sömu lögmál eigi að gilda um þær og iðnaðarvarning Evrópuríkja. Ekki er farið fram á að EB kollvarpi fiskveiðistefnunni heldur veiti Íslendingum aðgang að mörkuðunum.
    Ég vil undirstrika að hæstv. utanrrh. hefur ekki farið með rétt mál, enda kemur það fram í Morgunblaðinu 7. des., þ.e. í dag, þar sem er athugasemd Samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi sem ég verð, virðulegi forseti, að fá að lesa yfir þingheimi vegna þess að þar er hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson rækilega afhjúpaður hvað áhrærir rangfærslur, bæði í umræddu viðtali og umræddri frétt. (Gripið fram í.) Sagði hæstv. sjútvrh. vitleysa? ( Sjútvrh.: Ég tala aldrei við mann í ræðustól.) Ég vona að hæstv. ráðherra hafi ekki sagt það, hans vegna því að þó að menn komist efst á vinsældalistann, þá geta þeir líka hrapað hratt niður. Ef það er, virðulegi
forseti, vitleysa að þingmenn leiðrétti hér það sem ranglega er sagt um þá, m.a. sem talsmenn síns flokks í viðkvæmum og veigamiklum málum, þá er það auðvitað mjög alvarlegt mál og ber vott um lítilsvirðingu á því meginatriði í þingræðinu að menn virði skoðanir hvers annars og hafi þolinmæði og umburðarlyndi til þess að heyra að menn eru ekki alltaf á sama máli. Ef svo er komið fyrir íslenskum valdamönnum sem hafa setið lengi í ráðherrastólum að þeir geta ekki sýnt öðrum umburðarlyndi sem hafa gagnstæðar skoðanir, þá er illa komið fyrir íslensku þingræði og íslensku lýðræði. Sem betur fer eru Íslendingar vel upplýstir og fylgjast miklu betur með okkur hv. þm. en sumir ætla, --- ég segi sem betur fer. Og sem betur fer geta þeir með atkvæði sínu gert nauðsynlegar ráðstafanir til að hreinsa út af Alþingi þá menn sem óvirða lýðræðis- og þingræðisvenjur og hefðir. En með leyfi forseta ætla ég að lesa athugasemd Samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi en þeir sáu sig greinilega knúna til að gera þessa athugasemd eftir þessa dæmalausu framkomu hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hún er sem hér segir. Í fyrirsögn segir: ,,Fullyrðing utanríkisráðherra á sér enga stoð.`` Síðan segir:
    ,,Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi frá Samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi (SAS):
    ,,Samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi (SAS) biður Morgunblaðið að birta eftirfarandi athugasemd við viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh., sem birtist í Alþýðublaðinu sl. þriðjudag, þar sem Alþýðublaðið kemur ekki út í dag. Jón Baldvin ræðir þar um fund sem fulltrúar SAS áttu með Halldóri Ásgrímssyni sjútvrh. sl. föstudag og segir: ,,Niðurstaða fundarins varð sú að því miður hefði skýrsla þeirra verið misnotuð í pólitísku áróðursskyni af hálfu Sjálfstæðisflokksins.``
    Þessi fullyrðing utanrrh. á sér enga stoð í

veruleikanum.
    Utanrrh. segir enn fremur í viðtalinu: ,,Sjálfstæðismenn hafa reynt að halda því fram, að við höfum ekki tíma til að bíða eftir því, að við fáum botn í það í viðræðum með hinum EFTA-ríkjunum, hvernig verði háttað fríverslun með fisk. Tvíhliða viðræður myndu skila árangri fyrr. Þetta er enn eitt öfugmælið hjá þeim. Þeir meira að segja gengu svo langt að halda því fram, að þessi krafa væri sett fram vegna þess að hún nyti stuðnings samtaka sjávarútvegsins og að innan þeirra samtaka væri uppi hörð gagnrýni á stjórnvöld og þau teldu að ríkisstjórnin hefði vanrækt hagsmuni íslensks sjávarútvegs.``"
    Þetta er það sem utanrrh. segir. Síðan segir í athugasemd SAS: ,,Í skýrslu SAS segir m.a. á bls. 49: ,,Líklegt má telja að vandamál íslensks sjávarútvegs í samskiptum við EB verði ekki leyst í bráð nema í tvíhliða viðræðum milli Íslands og bandalagsins, þannig að viðbótarsamningur verði gerður.``
     Á sömu bls. segir ennfremur, að síðustu ár hafi verið unnið mikið starf við að kynna sérstöðu Íslands í samskiptum við Evrópubandalagið og hafi árangur af því starfi verið að koma í ljós á síðustu misserum og velviljaðar yfirlýsingar ýmissa þjóðarleiðtoga í Evrópubandalaginu og skilningur þeirra á sérstöðu Íslendinga gefi ástæðu til að ætla að nú sé rétti tíminn til að leita eftir varanlegum lausnum á þessum vandamálum. Í stjórnmálum sé gengið fallvalt og því mikilvægt að nota tækifærið áður en verulegar breytingar á forystu ríkisstjórna innan Evrópubandalagsríkjanna eigi sér stað.
    Af tilvitnunum má ráða, að skoðun SAS er, eins og fram kemur í lokaorðum skýrslunnar á bls. 51: ,,Ljóst er að Íslendingar þurfa að leita eftir viðbótarsamningi við fríverslunarsamninginn við EB ef tollar bandalagsins eiga ekki að hafa varanleg áhrif á lífsafkomu á Íslandi, atvinnu- og byggðaþróun. Neyta þarf allra ráða til þess að tryggja hagsmuni okkar, bæði í væntanlegum viðræðum EFTA og EB og í tvíhliða viðræðum Íslendinga og bandalagsins.``
    Það er því augljóst, að stefna SAS er sú, að samhliða viðræðum EB og EFTA sem SAS styður, verði óskað eftir tvíhliða viðræðum við EB að innflutningstollar verði afnumdir á sjávarafurðum frá Íslandi. Það má hverjum manni ljóst vera, að slíkar tvíhliða viðræður hljóta að vera formlegar. Undirbúningur þeirra er þegar hafinn með óformlegum viðræðum íslenskra ráðherra við þjóðarleiðtoga EB; honum þarf að halda áfram, en að sjálfsögðu hlýtur tímasetning formlegra viðræðna að vera samkomulagsatriði á milli Íslands og EB.```` Tilvitnun er lokið í frétt Morgunblaðsins og athugasemd SAS, virðulegi forseti.
    Hvað segir þessi athugasemd okkur umfram það að þarna er náttúrlega hæstv. utanrrh. sannur að því að segja ósatt? Hún segir okkur einnig tvennt annað sem menn hafa kannski ekki áttað sig eins vel á. M.a. segir þarna að í stjórnmálum sé gengið fallvalt og því mikilvægt að nota tækifærið áður en verulegar

breytingar á forustu ríkisstjórna innan EB eigi sér stað. Hvað skyldi felast í þessu, virðulegi forseti? Ég mun víkja að því hér enn nánar á eftir þegar ég ræði um hina nýju þróun í Vestur-Evrópu. Þetta er afskaplega einfalt og auðskiljanlegt. Þessir menn gera sér grein fyrir því, eins og við ýmsir aðrir sem höfum komið nálægt þessum málum í gegnum árin, að ekki er alveg sama hver er við völd í Vestur-Þýskalandi þegar um þessi mál verður fjallað. Það vitum við af fenginni reynslu og nægir að vísa til þess hvernig okkur gekk m.a. að
leysa ágreining við Vestur-Þjóðverja í fiskveiðideilunni um 200 mílna útfærsluna árið 1975 þegar samningar tókust milli Íslands og Vestur-Þýskalands á undan samningum við Breta, en sá samningur sem gerður var við Vestur-Þjóðverja réð úrslitum um það að Íslendingar unnu þann sigur í 200 mílna útfærslunni sem raun varð á.
    Þess vegna er þetta alveg rétt hjá þeim mönnum sem mynda SAS-hópinn sem eru hinir hæfustu menn. Sumir hafa áratuga reynslu á þessu sviði, þ.e. samskiptum við Evrópuþjóðirnar í sambandi við sölu sjávarafurða í Evrópu. Þeir vita hvað þeir eru að segja, þeir þekkja þetta af eigin raun.
    En tökum svo hitt atriðið. Það kemur fram hjá þessum vísu og greindu mönnum, það sem er augljóst, sem sýnir skreytnina hjá hæstv. utanrrh. í Alþýðublaðinu þegar hann heldur því fram að það séu formlegar viðræður við EB. Þeir gera sér grein fyrir því að þetta eru engar formlegar viðræður. Þess vegna er ekki aðeins að þeir leggi áherslu á það í sinni skýrslu heldur einnig í sínum athugasemdum sem birtust í dag. Ég spyr enn: Hvers konar ráðherrar eru að fjalla um okkar mál á erlendum vettvangi, menn sem geta ekki sagt satt og rétt frá hlutunum? Hvernig er það þá þegar þeir eru að skýra frá viðræðum sínum við erlenda menn?
    Nei, virðulegi forseti. Þeir sem ráðast að öðrum með ósönnum orðum, fullyrðingum og leyna hv. þm. eða þá sem hlut eiga að máli mikilvægum upplýsingum um stöðu mála eru ekki traustsins verðir. Þeir eiga ekki að vera í forustu fyrir þessari þjóð. Þessu gerir fólkið sér grein fyrir og vísa ég í niðurstöður skoðanakannana um það efni. Þó ekki sé endilega hægt að segja að skoðanakannanir segi allan sannleikann gefa þær ákveðna vísbendingu um hvernig fólkið hugsar.
    Ég hef vikið svona ítarlega að þessum atriðum, virðulegi forseti, til þess að leiðrétta það sem hefur verið ranglega sagt í sambandi við þessi mál hér á hinu háa Alþingi og einnig í fjölmiðlum af hálfu ákveðinna ráðherra.
    Þá vil ég víkja hér að öðru atriðinu sem er afstaða sérfræðings Alþýðusambandsins í EB- og EFTA-málum til þessara mála. Lítið hefur verið fjallað um hana hér. Mér finnst það sem fram kemur hjá sérfræðingi Alþýðusambandsins, Ara Skúlasyni hagfræðingi, þess eðlis að það er að vissu leyti sögulegt að skýra frá því. Hér áður fyrr áttum við, fylgismenn vestrænnar samvinnu, oft við ramman reip

að draga innan Alþýðusambandsins þegar við vorum að fjalla um málefni Íslands og Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku sérstaklega. En mjög mikil afstöðubreyting virðist hafa átt sér stað og er að eiga sér stað innan Alþýðusambandsins til þessara mála. Ég vil taka fram áður en ég held lengra að ég er ekki endilega að segja að það séu mínar skoðanir sem komi fram í þessu. Hins vegar er það mjög athyglisvert hvernig hagfræðingur Alþýðusambandsins fjallar um þetta mál. En eins og hv. þm. vita er Alþýðusambandið fjölmennustu fjöldasamtök á Íslandi, mjög áhrifamikil og sterk samtök sem ber auðvitað að taka ákveðið tillit til. Alþýðusambandið hefur nú á síðari árum lagt aukna rækt við utanríkismál og er það af hinu góða. M.a. er Alþýðusambandið aðili að samstarfsnefnd alþýðusambanda Norðurlandanna og þar hittast menn reglulega og skiptast á skoðunum. Einnig er Alþýðusambandið aðili að Evrópusambandi alþýðusambandanna, sem heitir á ensku European Trade Union Confederation. Það var stofnað árið 1973 og voru Íslendingar eða Alþýðusambandið m.a. meðal stofnaðila. Á þeim tíma, árið 1973, þóttu það nokkur tíðindi þegar Alþýðusambandið gerðist stofnaðili að þessu sambandi. Við það urðu ákveðin straumhvörf í samskiptum íslenskrar verkalýðshreyfingar við Vestur-Evrópu sem ég tel að hafi orðið af hinu góða. Það opnaðist og gerði menn víðsýnni og þeir fóru nú að umgangast sína skoðanabræður, þ.e. verkalýðinn í Vestur-Evrópulöndum, með öðrum hætti en áður hafði verið. En fram til 1970 má eiginlega segja að fulltrúar Alþýðusambandsins hafi helst ekki farið nema á austurveg, þ.e. til Austur-Evrópu, Sovétríkjanna, sérstaklega Austur-Þýskalands. ( Forseti: Ég vil biðja hv. þm. velvirðingar, en ég tel skyldu mína að segja hv. þingheimi frá því að samkomulag hefur náðst um að þessari umræðu ljúki núna kl. 18.30 og málinu verði þá frestað. Það er ljóst að það verður erfiður, langur fundur á morgun og vegna þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið gegn því að tveir kvöldfundir verði í röð, hefur verið ákveðið að ljúka þessum fundi kl. 18.30. Svo bið ég hv. 14. þm. Reykv. að halda ræðu sinni áfram.)
    Virðulegi forseti. Hvenær byrjar fundur svo aftur? Í kvöld? ( Forseti: Nei, það sem ég var að segja er að ákveðið hefur verið að hafa ekki kvöldfund.) Já, virðulegi forseti. Ég heyrði hvað forseti sagði. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta er ekki aðeins málefni núverandi stjórnarflokka einna, meiri hlutans né hæstv. ráðherra. Ríkisstjórnin hefur fjöldann allan af sínum sérfræðingum til að fjalla um þessi mál og þeir geta teflt fram sínum rökum og þeir hafa nægan tíma og betri aðstöðu en aðrir hv. þm. og ég verð nú að segja það, virðulegi forseti, að þekkingarbanki okkar hv. þm. er nú kannski ekki jafnmikill og þeirra þannig að auðvitað hljótum við hv. þm. að fjalla um þetta með þeim hætti sem við teljum nauðsynlegt.
    Ég var að koma að þeim kafla í ræðu minni, virðulegi forseti, þar sem ég ætlaði að fara að skýra sjónarmið sérfræðings Alþýðusambands Íslands í þessu mikilsverða máli. Ég minnist þess ekki að einn einasti

hæstv. ráðherra hafi minnst á það að verkalýðurinn, Alþýðusambandið, hefði skoðun á þessu mikilsverða máli. Það hefði einhvern tímann verið saga til næsta bæjar að þeir menn sem telja sig í ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju hirtu nú ekkert um það hver væri skoðun þessa fólks. Ég ætla að vera minni fortíð trúr. Ég sat í miðstjórn ASÍ í tíu ár og átti gott samstarf þar við margar góðar manneskjur. Ég ætla að koma með þær skoðanir hér fram á þingi sem ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að heyra.
    Sérfræðingur Alþýðusambandsins, Ari Skúlason hagfræðingur, flutti á sambandsstjórnarfundi ASÍ 27. sept. 1989 mjög athyglisvert erindi um þessi mál. Þar rekur hann nokkuð hver afstaða verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu er til þessara mála og segir m.a., með leyfi forseta: ,,Þó að innri markaðnum fylgi margir jákvæðir hlutir þá er einnig um neikvæða þróun að ræða á mörgum sviðum. Það njóta ekki allir kostanna á sama hátt og stórfyrirtækin. Það er ljóst að með stóraukinni samkeppni á fjöldi fyrirtækja og launafólks á ýmsum svæðum eftir að lenda í erfiðleikum af ýmsu tagi. Ráðamenn EB hafa gert sér þetta ljóst og þess vegna hafa t.d. svokallaðir þróunarsjóðir verið efldir mikið í því augnamiði að styrkja svæði sem verða undir í þeirri samkeppni sem á eftir að fara fram.`` Enn fremur segir, með leyfi forseta, um stöðu verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu: ,,Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur krafist þess að lögð verði fram heildaráætlun um nauðsynlegar hliðarráðstafanir í tengslum við tilkomu innri markaðarins. Það er ekki hægt að sætta sig við að staða fyrirtækjanna verði stórbætt og markaðsöflunum sleppt lausum á kostnað launafólks og vanþróaðra svæða. Slíkt getur ekki gengið, enda yrði þá aldrei um að ræða einingu í Evrópu. Verkalýðshreyfingin hefur krafist þess að það verði tryggt efnahagslegt og félagslegt samræmi í Evrópu framtíðarinnar. Efnahagslegar framfarir eru útilokaðar án þess að á sama tíma verði um að ræða félagslegar framfarir. Það verður að dreifa ágóðanum af innri markaðnum réttlátlega á milli þjóðfélagsþegnanna. Einn liður í þeirri baráttu var útgáfa rits norrænu verkalýshreyfingarinnar,,, sem þeir höfðu undir höndum þarna á fundinum.
    Síðan segir þessi sérfræðingur ASÍ eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,EB er stóri bróðir og segir við EFTA: Ef þið eruð til í að láta þær reglur sem við höfum ákveðið fyrir sameiginlegan markað okkar gilda fyrir ykkur líka, þá er mögulegt að við viljum gera við ykkur samninga. Eins og þið í EFTA vitið þá hefur það tekið okkur 30 ár að koma okkur saman um það hvernig þetta á að vera hjá okkur og þess vegna erum við alls ekki til viðræðna um að breyta skilyrðunum. Við skulum fyrst athuga hvort þið getið gengið að þeim og svo sjáum við til hvað við getum gert.
    Af hverju eru EFTA-ríkin til í að ræða málin með þessum skilyrðum? Jú, þau sjá kosti innri markaðar, aukinn hagvöxt og aukna atvinnu. Þau eru hrædd við að þau dragist aftur úr EB-ríkjunum ef þau ná ekki

upp sams konar þróun innan eigin landamæra. Sum þessara landa, eins og t.d. Svíar, horfa nú upp á stóran hluta fjárfestinga eigin fyrirtækja fara til EB-landanna. EFTA-ríkin vilja tengjast EB til þess að lenda ekki fyrir aftan þau.
    Nú er nýlokið`` --- Takið þið eftir þessu orðalagi, þetta er sagt 27. sept. sl. Ég bið hv. þm. að taka eftir þessu orðalagi hjá hagfræðingi Alþýðusambandsins: ,,Nú er nýlokið könnunarviðræðum EFTA og EB um frelsin fjögur.`` Nýlokið að þeirra mati. Og hér erum við nú 7. des. að ræða þetta, að hæstv. utanrrh. fjarverandi sem heldur því fram að enn fari könnunarviðræður fram, sem er auðvitað tóm vitleysa. Þeim er löngu lokið. Það vitum við allir hv. þm.
    ,,Nú er nýlokið könnunarviðræðum EFTA og EB um frelsin fjögur. Sérhvert EFTA-ríki hefur þurft að svara því hvort það er tilbúið til þess að ganga að skilyrðum EB um frjálsa flutninga á vörum, fjármagni, þjónustu og vinnuafli á sameiginlegu evrópsku efnahagssvæði. Ísland hefur gefið svör til EFTA sem síðan hefur svarað fyrir EFTA-ríkin gagnvart EB [segir hagfræðingur ASÍ]. Ísland hefur sett tvo fyrirvara í sambandi við sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði. Í fyrsta lagi teljum við okkur ekki geta tekið fullkomlega þátt í sameiginlegum evrópskum vinnumarkaði. Við bendum á að vinnumarkaðurinn hér sé mjög lítill á evrópskan mælikvarða og þess vegna verðum við að hafa möguleika á því að takmarka innstreymi erlends vinnuafls í ákveðnar greinar eða svæði með tilliti til smæðar vinnumarkaðarins. Hinn fyrirvarinn af Íslands hálfu tengist nýtingu útlendinga á náttúruauðlindum. Við segjum sem svo að við byggjum lífsafkomu okkar á nýtingu fiskimiðanna við landið. Þess vegna getum við ekki leyft að útlendingar taki þátt í atvinnurekstri sem byggir á nýtingu þessara náttúruauðlinda. Að öðru leyti en þessu hefur ríkisstjórnin lýst sig reiðubúna til viðræðna við EB í samvinnu við hin EFTA-ríkin.``
    Ég vil vekja athygli virðulegs þingheims á því að Ari Skúlason situr í ráðgjafanefnd EFTA fyrir Alþýðusambandið. Ég sat í þessari nefnd til skamms
tíma en lét af störfum fyrir tveimur árum. Ari Skúlason tók við þessu sæti. Hann hefur mætt á fundi með ráðgjafanefnd. Hann hefur verið á fundum með íslenskum embættismönnum og erlendum og væntanlega ráðherrum. Þetta er niðurstaða þessa ráðgjafa Alþýðusambandsins um það hvernig málin stóðu 27. sept. Þetta er mjög athyglisvert undir þessari umræðu allri að hann, þessi, ég vil segja vandaði hagfræðingur og skarpgreindi maður, kemst að þessari niðurstöðu 27. sept. En það er annað atriði. Hann talar um það að settir séu fyrirvarar aðeins um tvö atriði, þ.e. vinnumarkaðinn og einnig að útlendingar fái ekki aðgang að náttúruauðlindunum. Hann minnist ekki á neinn fyrirvara í sambandi við frjálsa fjármagnsflutninga. Og þá er spursmálið: Hver segir satt? Eða hverjir segja satt hér undir þessari umræðu af hálfu ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanrrh., hæstv. fjmrh. eða hæstv. forsrh.? Er raunverulega enginn fyrirvari við þessu atriði? Ef svo er ekki get ég ekki

séð annað en að ekki sé samstaða í hæstv. ríkisstjórn í þessu máli. Í stuttu máli sagt: Hæstv. utanrrh. situr þarna ekki aðeins umboðslaus hvað varðar Alþingi Íslendinga, heldur veit hann ekki hvernig hann stendur gagnvart hæstv. ríkisstjórn í umfjöllun þessara mála. Nema hann sé búinn að undirgangast það þegar hann kemur heim, 19. des., að stefna Alþb. sé sú sem gildi, en það er ekki minnst á þennan fyrirvara af t.d. þessum fulltrúa ASÍ í ráðgjafanefndinni, þ.e. varðandi frjálsan fjármagnsinnflutning.
    Ég skal ekki lesa mikið meira upp úr þessu en þó verð ég að segja það að ég hlýt að verða að skýra þingheimi frá þessari miklu afstöðubreytingu sem virðist vera hjá Alþýðusambandinu og íslenskri verkalýðshreyfingu, sem bendir til þess að hún sé miklu opnari fyrir því að vilja nálgast Evrópu með svipuðum hætti og tíðkast hjá öðrum þjóðum. Ari Skúlason segir svo, og ég hef ekki orðið var við það að þessari skoðun hafi verið mótmælt innan íslenskrar verkalýðshreyfingar, með leyfi forseta:
    ,,Er ekki nauðsynlegt að við lítum í kringum okkur á gagnrýninn hátt áður en við förum að svara spurningum um hvað við viljum gera í sambandi við væntanlega samninga milli EFTA og EB? Er það þjóðfélag sem við erum að tala um að vernda fyrir erlendum áhrifum til í dag? Þótt það hafi verið til fyrir 20 árum er það kannski ekki alveg víst að svo sé í dag.``
    Síðan segir: ,,Við verðum auk þess að horfast í augu við það að það verður kannski lokað að einhverju leyti fyrir möguleika okkar til náms og vinnu í öðrum Evrópulöndum ef við ætlum okkur að hafa aðrar reglur hér á landi um atvinnu- og búseturéttindi en gilda í öðrum löndum. Við erum einfaldlega vön því að valsa um allan heiminn án þess að hafa þurft að hafa áhyggjur af réttindum útlendinga hér á landi. Það sem við verðum fyrst og fremst að hugsa um þegar við tökum afstöðu til allra þessara spurninga eru lífskjörin. Hlutverk okkar er að tryggja okkar félögum, þ.e. Alþýðusambandsfélögunum, lífskjör sem eru ekki lakari en gerast í löndunum í kringum okkur. Ef okkur tekst það ekki erum við alvarlega stödd. Ef lífskjör hér á landi verða mun lakari en annars staðar verður sjálfstæði þjóðarinnar líka í hættu áður en varir. Íslendingar munu ekki sætta sig lengi við að lífskjör séu lakari hér en í nálægum löndum.
    Er ekki nauðsynlegt að íslensk verkalýðshreyfing verði tiltölulega opin og jákvæð í sambandi við aðlögunina að Evrópu? Ef við verðum neikvæð og á móti öllu er hætta á að það verði einfaldlega ekkert á okkur hlustað. Verðum við ekki að reyna að sjá það jákvæða í þróuninni og reyna að hafa áhrif á stjórnvöld í þá átt sem við viljum fara? Getum við vænst þess að njóta alls þess sem jákvætt er án þess að þurfa að gera eitthvað í staðinn?`` Þetta segir hagfræðingur ASÍ.
    Í lokaorðum sínum segir Ari Skúlason, sem er mjög athyglisvert að heyra frá þessum talsmanni Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

    ,,Í síðustu viku heyrði ég setningu sem hljómaði einhvern veginn svona: Einangrun okkar frá Evrópu getur eflaust kostað okkur nokkrar krónur og aura, en er ekki betra að vera Íslendingur. --- Þetta er eflaust afstaða margra hér á landi. En hefur ASÍ efni á því að vera á þessari skoðun? Eru krónurnar og aurarnir ekki allt of há upphæð til þess að við getum leyft okkur það?``
    Þetta er, virðulegi forseti, sjónarmið hagfræðings ASÍ í þessu mikilsverða máli. Ég hef tekið eftir því að félagshyggjuflokkarnir hafa ekki flaggað mikið með skoðanir Alþýðusambandsins hér á hinu háa Alþingi sem er ekki von því að þeir eru að verða fylgissnauðir þar. Forseti ASÍ er ekki stuðningsmaður núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það vita allir. Það er með hann eins og flesta aðra, þeir styðja ekki þessa ríkisstjórn.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, víkja nokkrum orðum að því hvernig ég lít á það hver sé staða Íslands gagnvart EB. Ég tel að við verðum auðvitað að líta á þetta svið í heild, en í rökréttu samhengi við þann raunveruleika sem við búum við og nú blasir við. Þá vaknar spurningin: Hefur ekki atburðarás síðustu mánaða og vikna á meginlandi Evrópu verið með þeim hætti að það sem var fyrir einu eða tveimur árum hefur gjörbreyst vegna þessara atburða, þ.e. hefur ekki opnun Austur-Evrópu breytt heimsmyndinni í einni svipan?
    Það er stundum sagt að Evrópubandalagið sé að byggja upp múra gagnvart ríkjum utan bandalagsins, og það fer ekki á milli mála. Það liggur í augum uppi. Með tengslum okkar innan EFTA viljum við reyna að komast inn fyrir þessa múra sem þarna hafa verið byggðir vegna þess að það er efnahagslegur ávinningur fólginn í því að ná samningum við þetta bandalag. En við skulum jafnframt gera okkur fulla grein fyrir þeirri staðreynd að EB-ríkin eru að byggja upp múra í kringum sína hagsmuni og þegar ég er að tala um múra þá á ég við í þeim skilningi að Evrópubandalagsríkin eru að styrkja stöðu sína, sérstaklega gagnvart Bandaríkjum Norður-Ameríku og Japan. Það er augljóst mál. Þessi ríki hugsa í allt öðrum stærðum og með allt öðrum hætti en við Íslendingar gerum. Það má segja að ef þeir geta byggt sig svona sterkt upp inn á við nýtist þeim betur innri styrkur sem felst auðvitað í sterkri, samhentri og auðugri efnahagsheild, framleiðsluheild. En þegar til lengri tíma er litið getur þetta hugsanlega skaðað frjáls viðskipti á heimsmælikvarða. Bandaríki Norður-Ameríku og Japan munu mæta þessari takmarkandi samkeppni EB-ríkjanna með viðeigandi hætti. Það er þessum þjóðum, þ.e. Bandaríkjamönnum og Japönum, efnahagsleg nauðsyn. Vanmat á styrkleika Bandaríkjanna og Japans tel ég vera mjög hættulegt. Og það ber að hafa í huga, ekki hvað síst fyrir íslenska þjóð sem hlýtur að viðurkenna að vegna landfræðilegrar stöðu sinnar og fámennis verður hún að nálgast þróun bandalaga með allt öðrum hætti en flestar aðrar þjóðir, ef við viljum vernda og tryggja þjóðlegt sjálfstæði.

    Nú kann það að vera að sumir geri lítið með það sem kallað er þjóðlegt sjálfstæði, og enn aðrir segja: Við þurfum að endurmeta hvað í því felst. En hvað sem því líður skulum við gera okkur grein fyrir því að þó að margt gott megi um það segja að nálgast Evrópu megum við ekki vera svo blindaðir af því að við sjáum ekki önnur atriði sem hér koma til greina og einnig að við séum ekki blinduð af því að Evrópubandalagið eða Evrópa er að taka gífurlegum breytingum bæði innbyrðis og út á við.
    Í umræðu sem hér fór fram á hinu háa Alþingi 9. mars um afstöðu Íslands vegna funda EFTA-landanna vék ég að því að ég teldi að við ættum ekki að binda of miklar vonir við EFTA í sambandi við stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu og ég teldi að staða Íslands gagnvart Evrópubandalaginu væri best styrkt þegar Ísland sjálft, sem lítið þjóðríki norður í Atlantshafi, reyndi að ná sínum samningum og að það gæti hugsanlega veikt okkur að treysta of mikið og eiga allt of mikið undir EFTA-samstarfinu. Nú er ég ekki með neinar hrakspár um niðurstöður þeirra viðræðna sem fara fram milli EFTA- og EB-ríkjanna hvað Ísland varðar. Hins vegar verð ég að segja það að ég tel að vegna þess hve núv. hæstv. ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á þessa leið hafi það og sé það að skaða hagsmuni Íslands.
    Ég vil halda því fram að sú stefna, að halda sig svona þétt að EFTA í sambandi við hagsmuni okkar í utanríkismálum, á því sviði sérstaklega sem hér er til umræðu, því við erum auðvitað ekki að tala um öryggis- og varnarmál heldur efnahagsmál og samstarf á öðrum þeim sviðum sem tengjast því, sú stefnumörkun sem var mótuð árið 1987 af þáv. hæstv. utanrrh. Steingrími Hermannssyni, hafi skaðað mjög stöðu okkar og raunverulega leitt okkur í það sem ég vil kalla ákveðna EB-gildru.
    Ég geri ráð fyrir og gef mér það að hæstv. ráðherra Steingrímur Hermannsson, sem er því miður ekki hér viðstaddur, hafi gert þetta óafvitandi, hann hafi ekki gert sér nægilega vel grein fyrir því hvert var verið að leiða hann og íslenska þjóð í sambandi við þróun þessara mála. Ég vil þess vegna, með leyfi forseta, fá að lesa upp úr ræðu hæstv. núv. forsrh. um þetta atriði sem felur í sér þá stefnumörkun sem hefur leitt okkur til þeirra atburða sem við nú stöndum frammi fyrir og erum að ræða hér um í dag. Ég ætla að lesa upp úr ræðu hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar í Sþ. 9. mars 1989 í umræðum utan dagskrár um afstöðu Íslands á fundi EFTA-landanna, en hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég verð að geta um eitt atriði enn sem hefur verið okkur mjög mikið kappsmál og það er frjáls sala á sjávarafurðum öllum. Þetta mál ræddi ég t.d. sem utanríkisráðherra við framkvæmdastjóra, de Clercq sérstaklega, Evrópubandalagsins í desember 1987 og leitaði þá eftir því sem hafði verið gert oft á undan mér en sérstök áhersla lögð á eftir að Spánn og Portúgal urðu aðilar. Ég leitaði eftir því að víkka mætti út þann samning sem við höfum þannig að hann næði til saltfisks, alveg sérstaklega og næði yfir

ófryst flök og aðrar unnar sjávarafurðir.
    Það svar sem ég fékk á þessum fundi var`` --- það var í des. 1987 --- ,,að það þýddi ekki að leita eftir þessu á meðan innri markaðurinn væri í mótun og á þessum fundi var mjög eindregið ráðlagt að leita eftir því að fyrst fengist fullkomið frelsi fyrir fiskafurðir innan EFTA-ríkjanna. Það var sem sagt ráð þeirra að við stæðum sterkar og betur að vígi ef við kæmum saman með EFTA-ríkjunum til Evrópubandalagsins og þá hafandi náð fullu frelsi með sjávarafurðir innan EFTA-ríkjanna. Á það höfum við aldrei lagt sérstaka áherslu því þau eru ekki svo mikilvæg í okkar útflutningi á sjávarafurðum.
Þess vegna tók ég það mál upp sérstaklega á fundi utanríkisráðherra`` --- en hann var þá einnig utanrrh. --- ,,EFTA-ríkjanna í Tampere í fyrrasumar og þá náðist samkomulag um að setja á fót sérstaka ráðuneytisstjóranefnd sem átti að undirbúa fullkomið frelsi með sjávarafurðir innan EFTA-ríkjanna.`` ( Forseti: Leyfist forseta að spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni því auðvitað vildi forseti þá leyfa honum að ljúka henni ef um nokkrar mínútur er að ræða, en ef um lengri málflutning er að ræða verður því ekki við komið því að ég hef lofað að fresta umræðunni klukkan hálfsjö.)
    Virðulegi forseti. Ég er nú ekki búinn með mína ræðu en ég vil fá að ljúka niðurlaginu er lýtur að þessu atriði, en annars er ég ekki búinn með mína ræðu vegna þess að hér er verið að fjalla raunverulega um þann grundvöll og þær meginforsendur fyrir því að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson er núna erlendis að ganga frá uppkasti að þeim samningsatriðum sem utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna munu taka afstöðu til þann 19. des. Ég verð nú að segja, virðulegur forseti: Skilja hv. þm. það ekki á hvaða örlagastundu Alþingi Íslendinga stendur í dag og íslensk þjóð í þessu máli? Ég verð að segja og endurtek það: Sem betur fer, sem betur fer er ég fulltrúi þess flokks sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Sá flokkur hefur oft verið umdeildur og hart að honum vegið af hálfu vinstri stjórnmálamanna fyrir það að hann hefur verið mjög opinn og jákvæður gagnvart samstarfi við vestrænar þjóðir, svo ekki sé minnst á varnar- og öryggismálin. Þetta er sá flokkur, og ég er fulltrúi þess flokks, sem leggur sérstaklega vandaða vinnu í það mál sem hér um ræðir ásamt Kvennalistanum og títtnefndum þm. Hjörleifi Guttormssyni, þótt ég sé nú ekki sammála honum í öllum atriðum. En hvað sem því líður ... (Gripið fram í.) Já, hæstv. iðnrh. Gera hv. þm. sér ekki grein fyrir því eða er þetta mál sem hér er verið að fjalla um kannski ekki meira mál en þetta í augum þeirra? Hér er verið að reyna að fjalla um grundvallaratriðin er lúta að því hver á að vera staða þjóðríkisins Íslands í framtíðinni í þeirri þróun og atburðarás sem á sér stað í heiminum og í okkar næsta nágrenni.
    Ég er að undirstrika það að núv. hæstv. forsrh. og þar með núv. hæstv. ríkisstjórn er á rangri braut í sambandi við það að tryggja stöðu Íslendinga. Mér er þetta óskiljanlegt og ég segi: Sem betur fer er ég

fulltrúi Sjálfstfl. í þessari umræðu. Það er sá flokkur sem virðir frelsi einstaklingsins til þess að tjá sig. Það þýðir ekki endilega það að hver einasti maður innan flokksins þurfi að ganga í takt og allra síst í svona málum, en þó vil ég segja það að í því sem ég hef sagt hér í þessu máli tala ég máli meginþorra sjálfstæðismanna og Sjálfstfl. um þau atriði sem ég fjallaði um. Það er grundvallaratriði og grundvallarstefna þess flokks að tryggja sjálfstæða stöðu Íslendinga þótt við þurfum að vera í nánu samstarfi við aðrar þjóðir þannig að við leggjum mikla og vandaða vinnu í það sem er verið að gera. Við látum ekki erlenda aðila leiða okkur út í viðræður eða umræður sem geta skaðað stöðu þessarar þjóðar.
    En ég skal ljúka þessu, virðulegur forseti. Ég vil aðeins ljúka þessari tilvitnun í hæstv. forsrh., í það sem hann sagði 9. mars.
    Ég tel það klókt hjá hinum erlenda aðila, þ.e. de Clercq, --- vitandi það að fríverslun með fisk yrði ekki á dagskrá EB næsta áratuginn því hann var einmitt þá og þeir að ganga frá 10 ára áætlun um styrkjastefnu Evrópubandalagsins fyrir sjávarútveginn, fyrir næstu 10 árin --- sem hafði enga sérstaka skyldu við okkur Íslendinga að hafa gert þetta með þessum hætti. En þar með, með þessari stefnu, var samningsstaða Íslands gagnvart EB stórlega sköðuð. Við vorum leiddir inn í gildru sem við erum fastir í í dag hvað sjávarútveginn áhrærir, sem er grundvallaratvinnuvegur á Íslandi. Við vorum leiddir inn í gildru og bundnir þessum EFTA/EB-viðræðum.
    Þetta er vissulega mjög alvarlegt mál. Ég vil ekki gera hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni það upp að það sé viljandi gert en alla vega þá var þetta niðurstaðan.
    Ég er ekki, virðulegi forseti, búinn með mína ræðu þannig að þess vegna má fresta fundi. Ég mun þá taka til máls þegar fundi verður fram haldið.