Veiting ríkisborgararéttar
Föstudaginn 08. desember 1989


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. til laga um ríkisborgararétt sem hér er lagt fram eins og það breyttist í meðferð Nd. Ég vakti máls á hugsanlegri breytingu við 1. umr. hér í deildinni á sínum tíma, þ.e. að viðræður færu fram við þá aðila sem sækja um ríkisborgararétt. En í framhaldi af því og vegna upplýsinga sem mér hafa borist er dálítið forvitnilegt að velta fyrir sér hvað skeður eftir að viðkomandi aðili hefur fengið ríkisborgararétt. --- Það hefði nú verið nauðsynlegt í reynd að dómsmrh. væri hér í húsinu eða utanrrh. en hvorugur þeirra er nú til staðar og ég fer ekki fram á að umræðunni verði frestað þess vegna. Ég vil vekja athygli á því að skv. upplýsingum sem ég hef fengið mun, a.m.k. í sumum tilfellum, utanrríkisráðuneyti þess lands sem maðurinn kemur frá sem fær ríkisborgararétt hér á landi verða tilkynnt um það. Það hefur a.m.k. í einu tilfelli sem ég veit um orðið til þess að nákvæm rannsókn og húsleit var gerð á heimili þess aðila, sem var að flytjast hingað til lands og hafði fengið ríkisborgararétt, í því landi sem hann afsalaði sér ríkisborgararétti. Það er nú svo að í sumum löndum er gerræði mikið og sumir koma hingað hálfgert sem flóttamenn og jafnvel algerlega sem flóttamenn. Í sumum löndum, og m.a. þessu sem ég miða við núna og ætla ekki að nefna í ræðustól, eru viss trúarbrögð bönnuð. Í þessu tilfelli gerðist þetta og þess vegna ætlaði ég að bera fram fyrirspurn til dómsmrh. hvort það sé tilfellið að viðkomandi ríki sé tilkynnt um nýjan ríkisborgararétt aðila. Ég tel að það sé mjög varhugavert að gera slíkt. Við gerum kröfu til þess að viðkomandi aðili afsali sér ríkisborgararétti annars lands þegar hann fær ríkisborgararétt hér á landi og það á í sjálfu sér að vera nóg að mínu viti. Þetta getur orsakað ýmiss konar vandkvæði hjá fjölskyldum viðkomandi, einkum og sér í lagi í ríkjum þar sem lögregluvaldi er beitt á ótæpilegan hátt.
    Á þessu vildi ég vekja athygli hér, hæstv. forseti, og mun að sjálfsögðu koma athugasemdum eða fyrirspurn minni og ábendingum til hæstv. dómsmrh. og utanrrh. þegar ég næ sambandi við þá en vildi samt að þetta kæmi hér fram að gefnu tilefni.