Laun forseta Íslands
Föstudaginn 08. desember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um laun forseta Íslands. Í þessu frv. eru tvær breytingar. Önnur breytingin er sú að fellt er burt ákvæði um að forseti skuli hafa náð 65 ára aldri eða vera öryrki til þess að geta tekið eftirlaun og er þá vísað til þess að það ætti að vera metnaðarmál þjóðarinnar að forseti Íslands þurfi ekki nauðsynlega að leita sér annarrar vinnu þegar hann lýkur forsetastörfum. Hins vegar er gert ráð fyrir því að ef forseti kýs að taka við öðru starfi, þá lækki þessi eftirlaun að sjálfsögðu sem slíkum launum nemur.
    Jafnframt er tekið fram að fyrrv. forseti njóti tiltekins hluta launa forseta Íslands. Kemur þetta fram í 2. mgr. 5. gr. frv., 60%, 70%, 80% eftir því hve forseti hefur starfað lengi.
    Þá er hér breytt ákvæði frv. eða laga í 6. gr. þar sem fjallað er um eftirlifandi maka í stað ,,ekkju`` forseta eins og í núgildandi lögum og er þar
um sjálfsagða leiðréttingu á gildandi lögum að ræða.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langa framsögu, herra forseti, og læt þetta nægja. Ég held að málið sé það einfalt, skýri sig það vel og leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.