Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Föstudaginn 08. desember 1989


     Frsm. landbn. (Skúli Alexandersson):
    Herra forseti. Landbn. hefur rætt þetta frv. og fengið til viðræðna Magnús B. Jónsson, búvísindakennara á Hvanneyri, Eyjólf Sverrisson frá Þjóðhagsstofnun, Leif K. Jóhannesson, forstöðumann Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Inga Tryggvason, stjórnarmann í Stofnlánadeild, Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, Jón Ragnar Björnsson, framkvæmdastjóra Sambands ísl. loðdýraræktenda, og Hauk Halldórsson, formann Stéttarsambands bænda.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru till. um á sérstöku þskj. Þá leggur nefndin jafnframt til að ríkisstjórnin geri ákveðnar breytingar á samþykkt sinni frá 28. nóv. sl., um loðdýrarækt. Ég get upplýst deildina um að slík samþykkt hefur þegar verið gerð hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Fyrri brtt. nefndarinnar er við 1. gr. frv. og felur í sér að hámark ríkisábyrgðar hækki úr 280 millj. kr. í 300 millj. kr. Sú breyting er gerð til að mæta því að þeim 20 millj. kr. sem Framleiðnisjóði, skv. bókun ríkisstjórnarinnar frá 28. nóv. sl., er ætlað að leggja fram til fjárhagslegrar endurskipulagningar, verði varið til lækkunar fóðurverðs. Það framlag kemur til viðbótar þeim 25 millj. sem verða veittar skv. bókun ríkisstjórnarinnar og fyrirheiti því sem þar er gefið um útvegun viðbótarfjármagns.
    Í fskj. 1 með frv. segir þetta:
    ,,Haldi það mörg loðdýrabú áfram rekstri að útgjöld verði meiri en 25 millj. kr. skal tekið á því sérstaklega og Byggðastofnun útvegað viðbótarfjármagn.``
    Nú liggja fyrir upplýsingar um áhuga loðdýrabænda á því að halda bústofni sínum. Með þeirri breytingu sem hér er lagt til vill nefndin tryggja að eftir áramót haldi jöfnunargjald á fóður verðgildi yfirstandandi árs enda telur nefndin það grundvallaratriði til að aðgerðir þessar nái tilgangi sínum. Nefndin beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að Framleiðnisjóður annist þessa framkvæmd í stað Byggðastofnunar. Nefndin leggur áherslu á að Framleiðnisjóður mun halda áfram fjárhagslegri endurskipulagningu og skuldbreytingum með því fjármagni sem óráðstafað er af þeim 60 millj. kr. sem ákveðnar voru til þess í febrúar sl. Til að sinna því verkefni og vinnu við framkvæmd ákvæða 1. gr. frumvarpsins þurfa Framleiðnisjóður og landbrn. að veita bændum sérfræðilega þjónustu við samningagerð.
    Nefndin leggur sérstaka áherslu á þennan þátt, að Framleiðnisjóður annist þarna sérstaka sérfræðiþjónustu fyrir bændur, svo að hver og einn bóndi þurfi ekki jafnvel að ráða sér lögfræðing til þessa starfs. Þetta verði gert á sameiginlegan hátt gagnvart hverri lánastofnun og hver bóndi sem þess óskar fái aðstoð.
    Seinni brtt. nefndarinnar er við 2. gr. frv. og felur í sér að stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins verði heimilt að fella niður verðtryggingu og vexti og fresta greiðslu afborgana af lánum til bænda vegna loðdýrabúra á næstu fimm árum, sem og hluta höfuðstóls annarra veðskulda einstakra loðdýrabænda,

enda verði hagsmunum Stofnlánadeildar betur borgið með þeim hætti. Með breytingu nefndarinnar er hins vegar fellt niður ákvæði um fóðurstöðvar þar sem nefndin telur, eftir viðræður við forstjóra Byggðastofnunar, að stofnunin taki að sér sambærilega aðstoð við þær og Stofnlánadeild veitir bændum, enda vinnur Byggðastofnun að fjárhagslegri endurskipulagningu fóðurstöðvanna.
    Það skal tekið fram í sambandi við brtt. nefndarinnar gagnvart Stofnlánadeild og um að fella niður verðtryggingu og vexti og frestun afborgana af búralánum svokölluðum, að svo getur farið í einstaka tilfellum að þarna eigi sér einhver mismunun stað. Þá er seinni grein brtt. ætlað að ná yfir það og nefndin ætlast til að við þær aðstæður komi sá hluti greinarinnar til framkvæmda, þ.e. ,,þá er Stofnlánadeild heimilt, þegar hagsmunum hennar er betur borgið með þeim hætti, að fella niður hluta höfuðstóls annarra veðskulda loðdýrabænda``. Þetta getur átt við í þeim tilfellum þegar um einhverja mismunun hefur verið að ræða í sambandi við þessa fyrirgreiðslu sem beinist eingöngu að búralánunum svokölluðu.
    Til viðbótar þessum brtt. beindi nefndin þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún breyti 1. og 2. tölul. í bókun sinni frá 28. nóv. sl. varðandi loðdýrarækt, sbr. fskj. 1 með frv. Nefndin leggur til að í 1. tölul. komi Framleiðnisjóður landbúnaðarins hvarvetna í stað ,,Byggðastofnunar`` þar sem kveðið er á um síðarnefndu stofnunina. Í 2. tölul. verði kveðið á um að þeim 20 millj., sem Framleiðnisjóður eigi að verja til fjárhagslegrar endurskipulagningar og skuldbreytinga, verði þess í stað varið til greiðslu jöfnunargjalds á loðdýrafóður á árinu 1990.
    Eins og ég sagði hér í upphafi hefur samþykkt sem lýtur að þessu þegar verið samþykkt hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Ég vil þakka hv. landbn. fyrir mjög gott starf að framgangi þessa máls. Ég held að okkur hafi tekist í þessari nefnd að vinna þetta mál á þann veg að loðdýrabændur megi sæmilega vel við una og hef ég heyrt frá forustumönnum þeirra að svo sé. Magnús Jónsson, búvísindakennari á Hvanneyri, sem nefndur hefur verið hér á undan og er einn þeirra sem á undanförnum mánuðum hafa verið að vinna að skýrslugerð og útreikningum vegna loðdýrabúgreinarinnar hefur sagt við mig að hann telji að þessi lausn muni að sínu mati tryggja að rekstur loðdýrabúa í landinu sé tryggður á því tímabili sem þessi ákvörðun nær yfir. Og það held ég að sé líka mat nefndarmanna allra.
    Ég vil svo þakka öllum nefndarmönnum í landbn. fyrir gott samstarf.