Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Föstudaginn 08. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls kaus ég að rifja aðeins upp sögu þeirrar atvinnugreinar sem við erum hér að fjalla um og taldi reyndar ekki vanþörf á til að minna okkur öll á þá ábyrgð sem stjórnvöld bera varðandi uppbyggingu greinarinnar og ég vil endurtaka það hér. Nú hafa þeir tveir hv. nefndarmenn sem hér hafa talað á undan mér gert mjög vel grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á þessu frv. við umfjöllun í landbn. Eins og fram kom í máli mínu hér við 1. umr. taldi ég þetta frv. á því stigi hvorki vera fugl né fisk og benti þráfaldlega á þá ábyrgð sem ég tel stjórnvöld bera í þessu máli. Sú lausn sem við komum okkur saman um er að mínu mati ásættanleg. Frv. hefur nú tekið á sig þá mynd að allir hv. nefndarmenn hafa getað sameinast um það.
    Saga þessarar atvinnugreinar ætti reyndar að verða stjórnvöldum víti til varnaðar í framtíðinni og það vil ég minna á enn og aftur. En það er eftir sem áður mikilvægt að halda þeirri þekkingu og reynslu sem þegar er fyrir hendi í landinu til þess tíma þegar betur árar og vona ég nú að óhætt sé að vera bjartsýnn varðandi framtíð loðdýraræktar. Það er auðvitað líka mikilvægt að fyrir liggur samþykkt og yfirlýsing ríkisstjórnar um áframhald á þessu máli og sömuleiðis sú yfirlýsing sem fram kemur um viðbótarfjármagn til niðurgreiðslu á fóðri vegna þess að eins og fram kemur í nál. hafa bændur þegar sýnt töluverðan áhuga fyrir að halda þessum búskap áfram og þeir hafa verið mjög ötulir við að sækja þau námskeið sem í boði hafa verið.
    Þá vil ég eins og aðrir þakka hv. nefndarmönnum fyrir ágætis samstarf og vona að þessi sameiginlega niðurstaða okkar verði loðdýrabændum til velfarnaðar.