Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 08. desember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Þetta frv. er búið að vera til skoðunar a.m.k. hjá stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar, bæði í haust og á síðasta þingi og mun líkast til hafa verið lagt fram hér í hv. deild á síðasta þingi. Það er að mínu mati tímaskekkja í dag, eftir að samtök sjávarútvegsins, þing sjávarútvegsins, Landssambands ísl. útvegsmanna og fiskiþing og þing Farmanna- og fiskimannasambandsins hafa lýst því yfir að þau standi ekki að úreldingu á þeim grunni sem hér er lagt til. Mér finnst því harla ótrúlegt að hv. þm. séu tilbúnir að standa að samþykkt frv. vitandi að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi leggist gegn því.
    Það er sjálfsagt breytilegt af hverju hver félagseining beitir sér gegn þessu eða er andstæð þessu frv., en þó hugsa ég að það sé þó eitt atriði sem þau eru öll sammála um. Það er að í þessu frv. felist svo aukin miðstýring á þessum vettvangi að þessir aðilar telji að það sé ekki við bætandi, það sé þegar orðið yfirdrifið nóg sem sjútvrn. hafi á höndum í sambandi við stjórnun fiskveiða og ýmislegt eftirlit í sambandi við þær þó ekki bætist við að ráðuneytið hafi undir höndum ákveðinn hluta þeirra veiðileyfa sem til úthlutunar verða á hverjum tíma.
    Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Vestf. sagði hér í ræðu sinni, gagnmerkri ræðu sem hann flutti hér á undan mér, um að meinsemdin, vandræðin í sambandi við uppbyggingu og stærð fiskiskipaflotans sé að meira eða minna leyti og kannski aðallega vegna þeirrar fiskveiðistjórnunar sem við höfum búið við frá því í upphafi árs 1984.
    Það er rétt að rifja upp hvaða markmið það voru sem sú fiskveiðistefna átti fyrst og fremst að vinna að. Í fyrsta lagi átti að sjá til þess að ekki yrði sótt meira í fiskstofnana en svo að þeir endurnýjuðu sig og kannski í sumum tilfellum meira en endurnýjuðu sig, heldur styrktu sig og byggðu sig upp.
    Í öðru lagi að í tengslum við stefnuna, fiskveiðistefnuna, kvótakerfið, kæmi fram aukin hagkvæmni í rekstri fiskiskipaflotans.
    Og í þriðja lagi að flotinn mundi minnka. Þessi stefna, þ.e. aflamarkið og sóknarmarkið, mundi verða þess valdandi að þessir þættir allir mundu sýna sig á því tímabili sem þetta kerfi væri við lýði. Fiskstofnarnir mundu vaxa og styrkjast, hagkvæmni mundi aukast í sjávarútvegi og fiskiskipaflotinn mundi minnka.
    Staðreyndin er sú, hvað sem þeir segja sem eru þessu kerfi hlynntir, að ekkert af þessu hefur tekist. Og þetta frv. er beint afkvæmi þessarar stefnu. Vegna þeirra vandræða sem íslenskur sjávarútvegur er kominn í, vegna þess að flotinn er stöðugt að stækka þá reynir ráðuneytið nú að koma með eina miðstýringartillöguna enn þá í því augnamiði að reyna með valdboði, eða ginningum má segja kannski, með peningatilboðum, að minnka flotann. Ég held að það sé kannski það allra síðasta sem við ættum að reyna til að ná þessu markmiði, að beita þeim ráðum sem er

lagt til í þessu frv.
    Það er gaman að því að taka undir það sem hv. 4. þm. Vestf. sagði hér áðan, benda á að á árunum fyrir kvóta, ef má orða það svo, í skrapdagakerfinu var flotinn ekki að stækka heldur sýndi ákveðin merki um að hann væri að minnka. Ef við rifjum upp, förum svolítið aftur í tímann og tengjum það þeirri fullyrðingu stuðningsmanna núverandi fiskveiðistefnu, og sjálfsagt stuðningsmanna þessa frv. sem hér liggur fyrir, að flotinn muni halda áfram að stækka ef eðlilegt frelsi sé í sambandi við sjósókn. Ef þetta kerfi verði ekki
áfram viðloðandi. Ef við lítum aftur í tímann, ef við förum allar götur --- ja, það er kannski rangt að bera sig saman við tímabil styrjaldaráranna, 1939--1945, líkast til mun flotinn hafa verið að minnka á tímabilinu 1930--1939 og hann minnkaði mikið á stríðsárunum. Síðan er hann byggður upp, stækkar mjög mikið í lok stríðsins, á tímabili nýsköpunarstjórnarinnar og fram undir 1950. Svo gerist það, þó að það sé algert frelsi í fiskveiðisókn og frelsi til að kaupa skip, að á næstu árum, alveg fram undir 1960, dregst flotinn frekar saman en hitt. Við höfðum ekkert kvótakerfi til þess að koma því til leiðar og engan Úreldingarsjóð. Og á næstu árum, á tímabilinu milli 1960 og 1970, er togaraflotinn okkar að minnka, minnkar ár frá ári og úreldist. Það var ekkert kvótakerfi og enginn Úreldingarsjóður sem gerði það að verkum. Það var að vísu ákveðin efnahagsstefna á því tímabili sem kom því til leiðar. En þessi dæmi sýna að ekki þarf endilega eitthvert kerfi til að það eigi sér stað, ja við getum kannski sagt eðlileg minnkun eða eðlileg endurnýjun, í atvinnutækjum. Og síst af öllu miðstýring á einhvern þann veg sem hér er lagt til.
    Það eru svo sem falleg fyrirheit í frv. Það er byggt upp á því að fyrir hvert eitt skip sem sjóðurinn kaupir komi ekki nýtt skip í fiskiskipaflotann og að afkastageta flotans aukist ekki, ,,með öðrum hætti``, er reyndar sagt en það er ekki útlistað frekar. Síðan er í frv. lagt til að mynduð verði allöflug stjórn í kringum þetta fyrirtæki. Og svo í 3. gr. eru taldar upp tekjuleiðir til þess að byggja upp sjóðinn. Í fyrsta lagi skal leggja undir sjóðinn fé
fyrra Úreldingarsjóðs og í öðru lagi Aldurslagasjóð fiskiskipa og í þriðja lagi söluandvirði eigna eða stofnana ríkisins sem lagt kann að verða til sjóðsins með sérstökum lögum. Það stendur nú ekki í frv., og ég held að það standi ekki í skýringunum heldur, hvað hér er sérstaklega átt við. Og því miður fylgdist ég nú ekki það vel með ræðu hæstv. ráðherra að ég heyrði skýringar hans á þessum þriðja lið. En þarna gæti verið átt við söluandvirði t.d. fyrirtækis eins og Síldarverksmiðja ríkisins. Við getum deilt um það hvort á að selja Síldarverksmiðjur ríkisins eða ekki, það kemur þessu máli kannski ekki við, en eru einhver rök fyrir því að það fjármagn sem fengist fyrir slíkt fyrirtæki ætti að fara í sjóð sem þennan? Ég tel það vera alveg af og frá að ef til þess kæmi, sem ég vona að ekki verði, að Síldarverksmiðjur ríkisins

verði seldar, þá yrði þeim fjármunum sem frá þeirri sölu kæmu varið til þess að byggja upp sjóð sem þennan.
    Í 4. gr. er síðan tíundað hvernig á að skattleggja sjávarútveginn. Það á að leggja 1200 kr. skatt á hverja brúttórúmlest skips en þó aldrei hærri en 370 þús. kr. á skip. Hvers skyldu þeir nú eiga að gjalda sem eru með minni skipin? Það er skoðun margra að nú á síðustu árum, undir kvóta, hafi þróunin í uppbyggingu flotans verið neikvæð, þ.e. keypt hafa verið stærri og stærri skip. Keyptir hafa verið stærri og stærri togarar en bátaflotinn hefur verið að minnka. Er nú réttlætanlegt að skattleggja þann flota umfram stóru skipin sem hafa verið að bætast við flotann á undanförnum árum? Ef fram heldur sem horfir og þessi fiskveiðistefna heldur áfram, þá verða ekki aðeins þúsund tonna skip heldur verða þau mikið stærri. T.d. er talað um að verksmiðjutogararnir sem við eigum núna séu of litlir. Ekki sé hægt að sinna þeim verkefnum sem þar þarf að vinna í þessari stærð skipa. Það þurfi að stækka þau enn þá meira.
    Er þetta réttlætanleg skattlagning þegar verið er að tala um úreldingu? Ég vil nú ekki segja að alvaran sé ofboðslega mikil bak við þetta frv. og ég geri ekki ráð fyrir því að það verði samþykkt hér á Alþingi, en hugmyndirnar sem liggja á bak við þessa skattlagningu finnst mér vera alveg fráleitar. Ég hef þá skoðun að stærsta slysið sem hefur orðið á undanförnum árum í uppbyggingu fiskiskipaflotans séu verksmiðjutogararnir. Þegar verið er að flytja atvinnu og vinnslu sjávarfangs út á haf, frá fiskvinnslustöðvunum í landi, og flytja svo framleiðsluna beint á erlendan markað, varla hægt að segja að hún komi við í íslenskum höfnum. En með þessari skattlagningu er verið að ívilna þessum flota á kostnað hinna smærri skipa.
    Það liggur náttúrlega á ljósu, hvað sem menn segja um að hverju þetta frv. mundi stefna ef að lögum yrði, að verið er að taka fyrstu skrefin að auðlindaskatti. Hér er verið að komast yfir nokkurn hluta af þeim afla sem úr sjó má draga og hann á að vera seldur hæstbjóðanda eins og stendur í frv. Opinber stjórnvöld hafa umráð yfir þessu og þar með er fyrsta skrefið að ráðum opinberra aðila yfir auðlindinni tekið og verið að selja það þeim sem býður hæst.
    Ég tók eftir því sem hv. 4. þm. Vestf. sagði að sumir styðji núverandi fiskveiðistefnu fyrst og fremst út frá því að hún stefni að auðlindaskatti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. tali þar af reynslu umræðna á landsfundi Sjálfstfl. um þessi mál, að stuðningsmenn auðlindaskattsins töldu og telja undirstöðu þess að hægt sé að koma honum á, að hann byggi á fiskveiðistefnu, fiskveiðistjórn, svipaðri þeirri sem við erum með, kvótakerfinu. Sá meiri hluti sem í sumum samtökum styður þá stefnu byggist að hluta á þeim aðilum sem stefna að því og telja auðlindaskatt bestu lausnina í sambandi við fiskveiðistjórnina. Þá er nú lítið hægt að gera úr því þó að ráðamenn og málsvarar fiskveiðistefnunnar sem við búum við núna

segi: ,,Ja, við erum ekkert að hugsa um auðlindaskatt og við erum á móti auðlindaskatti,,, --- ef stefna þeirra og tilvera fiskveiðistefnunnar byggist á því að það séu þeir aðilar sem stefna að auðlindaskatti sem skapi þeim meiri hluta.
    Ég tel að þetta frv. eigi í rólegheitum að fá að gufa hér upp. Sjálfsagt er að líta á það eitthvað í sjútvn. en, eins og ég sagði áðan, ég held að ekki sé stuðningur fyrir því í þjóðfélaginu, jafnvel þó hugsanlega mætti finna einhvern stuðning hér á hv. Alþingi fyrir því að koma þessu í gegn, sem ég efast þó um að sé.
    Ég held að auðveldasta leiðin til að leysa þetta mikla vandamál okkar í sambandi við þann stóra fiskveiðiflota sem kvótakerfið hefur byggt upp hjá okkur sé að hverfa frá þeirri stefnu og taka upp annað kerfi í fiskveiðistefnunni, skrapdagakerfið okkar gamla og góða, endurbætt frá því sem það var með auknum tengingum við gæði og hagkvæmni í rekstri.
    Ég var hissa á því að heyra hæstv. ráðherra koma með það sem rök fyrir því að flotinn þyrfti að minnka að nú bærust vondar fréttir um loðnustofninn. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra né flestir þm. séu alveg búnir að missa vonina um að loðnan eigi eftir að koma á þessu ári þó það sé vitaskuld allt mjög óljóst. En sá floti sem hefur verið tiltölulega verklítill á undanförnum mánuðum norður í höfum, hann á verk að vinna ef svo vel skyldi
fara, sem við vonum öll, að loðnan komi af vestursvæðinu inn á hið hefðbundna veiðisvæði fyrir Norður- og Austurlandi. Sá floti verður ekki of stór þá, ef allt gengur upp, miðað við þá áætlun um hvað mætti veiða mikið úr stofninum ef hann skilar sér á svipaðan máta og fiskifræðingar búast við. Loðnuflotinn okkar er ábyggilega ekki of stór til þess að sækja þann afla sem við þurfum að sækja í loðnustofninn ef hann skilar sér á annað borð á miðin.
    Umræðan um stóran flota tengist því ekki alltaf því að veiðibrestur verði þetta eða hitt árið. Hún tengist hinu líka að við getum nýtt fiskistofnana þegar þeir gefa sig til. Það eru mikil vandamál sem koma upp hjá okkur ef svo fer að loðnan kemur ekki. En lausnin er ekki sú að ráðast á flotann og minnka hann. Vegna þess að það koma tímar og þó að þetta færi svona í ár þá hljótum við að búast við því að eiga svipaðan flota á næsta ári til þess að sækja loðnu í hafið. Það eru engar líkur fyrir því að sagan þurfi að endurtaka sig á næsta ári þó að svo illa fari að það gerist í ár að við fengjum ekki loðnu á miðin eins og við gerðum ráð fyrir.
    Ég endurtek svo að ég tel að þetta frv. hafi frekar lítið að gera til umfjöllunar hér á hv. Alþingi. Það hefði mátt bíða með að leggja það fram í ár og sjá m.a. hverju fram vindur um samþykkt nýrrar fiskveiðistefnu og hvort ekki væri hægt að breyta þessu frv. á þann máta að aðilar í sjávarútvegi væru tilbúnir að standa að samþykkt þess. Ekki að leggja það fram núna þegar fyrir liggja samþykktir frá helstu hagsmunasamtökum um að þau treysti sér ekki til að styðja þetta frv.