Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 08. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Andstætt þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa tekið til máls ætla ég að lýsa yfir stuðningi okkar kvennalistakvenna við þá meginhugmynd sem fram kemur í þessu frv.
    Það er ljóst að stjórn fiskveiða eins og hún er nú hefur ekki innbyggðan hvata til hagræðingar og hagkvæmni og það hefur orðið til þess að menn eru með skip sín miklu lengur en þeim er jafnvel stætt á. Skipin eru stækkuð og afkastagetan aukin og hefur að stórum hluta mistekist að vernda fiskstofna og haga veiðum í samræmi við afrakstursgetu þeirra. Að þessu leyti hefur mistekist hingað til í kvótakerfinu að fylgja yfirlýstum markmiðum um fækkun fiskiskipa og verndun fiskstofna.
    Segja má að meginatriðin í þessu frv. séu þrjú: Að draga úr afkastagetu fiskiskipastólsins, að koma í veg fyrir að úrelt og gömul skip séu endurnýjuð og að sjóðurinn eignist kvóta fiskiskipa sem þó eru ákveðin takmörk sett. Þetta eru allt markmið sem Kvennalistinn fellir sig vel við og telur reyndar bráðnauðsynleg. Ég vil aðeins koma að einu varðandi verndun fiskistofna og minnast á það sem veldur okkur miklum áhyggjum þessa dagana sem er einmitt loðnan. Það er ekki víst að við getum treyst á bjartsýnina eina varðandi loðnustofninn og við höfum reyndar reynslu af því fyrr að hafa gengið um of á fiskistofnana hér í höfunum í kring.
    Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta hér við 1. umr. en mun kynna mér nánar einstakar greinar frv. þar sem ég á sæti í hv. sjútvn. þessarar deildar og áskil mér auðvitað rétt til að skoða þær í samræmi við þær umsagnir sem berast eða ábendingar þeirra gesta sem við fáum á fundi okkar og gera brtt. ef mér sýnist svo.