Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem er 75. mál þingsins. Í nál. meiri hl. nefndarinnar segir að nefndin hafi fjallað um frv. og leggi meiri hl. til að það verði samþykkt óbreytt. Við fengum til fundar við okkur Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, og ræddum efni frv. við hann.
    Ég þarf ekki að hafa langan formála fyrir nál. því að hér er um framlengingu á gamalkunnu máli að ræða. Undir nál. skrifa auk mín Ragnar Arnalds, Guðmundur G. Þórarinsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson. Þess ber að geta að því miður féll niður úr nál. að geta þess að fulltrúi Kvennalistans, hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir, var fjarstödd afgreiðslu málsins en ég geri ráð fyrir að hún geri grein fyrir afstöðu Kvennalistans til málsins síðar í umræðunni.