Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni klofnaði nefndin í afstöðu sinni til málsins. Minni hl. nefndarinnar, en hann skipar auk mín hv. 1. þm. Vestf., skilar séráliti. Í því áliti kemur fram að sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var fyrst lagður á árið 1979 og átti þessi skattur þá að vera tímabundin tekjuöflun ásamt svokölluðu nýbyggingargjaldi. Helstu röksemdir þessara beggja skatta voru þær að með álagningu þeirra væri hægt að ná til þeirra sem notið hefðu verðbólgugróðans en einmitt á þessu ári var mikið rætt um verðbólguna hér í sölum Alþingis og það var einmitt þetta ár sem sett voru lög sem verðtryggðu ýmsa hluti, svokölluð Ólafslög. Má segja að frá þeim tíma sé vart hægt að tala um að mikill verðbólgugróði hafi runnið til atvinnustarfseminnar frá sparifjáreigendum.
    Þetta breytti hins vegar ekki því að þessi skattur var árlega endurnýjaður þótt nýbyggingargjaldið félli niður en álagningarhlutfallinu var breytt. Það var í upphafi 1,4% en frá árinu 1984, ef ég man rétt, var skatthlutfallið lækkað í 1,1%. Það gerðist svo fyrir rúmu ári síðan að tilhlutan hæstv. ríkisstjórnar að þessi skattur var tvöfaldaður þrátt fyrir mikil mótmæli sem þá komu fram. Hæstv. ríkisstjórn breytti hins vegar afstöðu sinni sl. vor og lækkaði fyrirhugaðan skatt niður í 1,5% og þannig var hann innheimtur á yfirstandandi ári. Nú er þetta frv. flutt og gert ráð fyrir því að skattprósentan verði 1,5%.
    Í nefndinni var nokkuð rætt um þetta mál og eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni kom til fundarins fulltrúi Vinnuveitendasambandsins, Þórarinn V. Þórarinsson, og gaf nefndinni ýmsar upplýsingar. Það er ljóst nú að þessi skattur er ákaflega ósanngjarn og gerir upp á milli atvinnugreina og byggir á þeim misskilningi að skrifstofurekstur og verslunarrekstur séu einhvers konar óæðri atvinnugreinar sem eigi að borga meira til ríkissjóðs en aðrar greinar.
    Þá liggur jafnframt fyrir að stjórnskipuð nefnd hefur að undanförnu fjallað um vanda landsbyggðarverslunarinnar og án þess að ég hafi séð niðurstöðu nefndarinnar er mér sagt að hún sé á þá leið að landsbyggðarverslunin eigi við verulega örðugleika að stríða, m.a. vegna stefnu hæstv. ríkisstjórnar, og við bætist að á næsta ári muni sveitarfélögin í landinu hafa frjálsari hendur um álagningu fasteignagjalda sem almennt er búist við að stórhækki fasteignagjöld sem rekstur af þessu tagi, í þjónustu og verslun, þarf að greiða til sveitarfélaganna. Þetta kemur m.a. fram í viðtölum sem nú eru í Ríkisútvarpinu á morgnana við hina og þessa bæjar- og sveitarstjórnarfulltúa á landsbyggðinni þar sem þeir hugsa sér gott til glóðarinnar að styrkja hag sveitarfélaganna með því að leggja hærri fasteignagjöld á þennan rekstur og að sjálfsögðu annan rekstur jafnframt.
    Af þessari ástæðu væri full ástæða til þess hér og

nú að óska eftir upplýsingum um það hjá hæstv. ráðherra, annaðhvort hæstv. fjmrh. eða öðrum hæstv. ráðherra sem hefur með málið að gera, hver sem það er, það getur hæstv. fjmrh. upplýst, hver hafi verið niðurstaða þeirrar stjórnskipuðu nefndar sem fjallaði um vanda landsbyggðarverslunarinnar. Það er full ástæða til þess hér við 2. umr. þessa máls að fá þær upplýsingar hér á borðið þannig að hv. þm. gangi vitandi vits til atkvæðagreiðslu um þetta mál, vitandi um það að þeir eru að hækka álögur á þennan atvinnurekstur sem berst í bökkum. Ég hygg að ýmsir hv. þm. sem eru fulltrúar fyrir byggðarlög úti á landi geti staðfest þetta og það væri vissulega fengur í því ef einhver þeirra fengist til að koma hér í ræðustól og staðfesta það sem kemur fram í niðurstöðu þessarar nefndar og jafnframt að staðfesta það að fyrirhugað sé af hálfu sveitarstjórnanna að leggja nú hærri gjöld á atvinnurekstur, þar á meðal þann sem hér er verið að skattleggja sérstaklega.
    Þess ber auðvitað að geta að þessi skattur leggst á alla atvinnustarfsemi, einnig þá sem er í frumgreinunum, þ.e. þann þátt sem er skrifstofuþáttur
þeirrar starfsemi, þannig að það er áætlað fyrir því hve stór hluti húsnæðisins sem fyrirtækin nota í sinn rekstur fer undir skrifstofuhúsnæði og sá stofn er síðan notaður til þess að reikna þennan skatt af.
    Það er af þessum ástæðum, m.a., sem við í minni hl. leggjum til að frv. verði breytt. Við höfum fullan skilning á því að ríkissjóður þarf á tekjum að halda, en við teljum að það sé út í bláinn að staðfesta þá hækkun sem varð á yfirstandandi ári og höfum þess vegna flutt brtt. þess efnis að skatthlutfallið verði lækkað í það hlutfall sem hér var í gildi á árunum 1984--1988. Þess vegna höfum við á sérstöku skjali, sem er þskj. 250, leyft okkur að flytja brtt. sem er þess efnis að í stað 1,5% komi 1,1%. Í nál. lýsum við jafnframt því yfir að verði þessi brtt. ekki samþykkt leggjum við til að skatturinn verði aflagður og munum greiða atkvæði gegn frv. eins og það kemur frá hæstv. ríkisstjórn.
    Ég á von á því að hv. þm. Frjálslynda hægriflokksins muni taka til máls og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum, en þeir hafa flutt till. er varðar þetta efni.
    Virðulegur forseti. Megintillaga okkar er sú að skatturinn verði í sama hlutfalli og hann var á árunum 1984--1988. Við viljum ekki staðfesta þá hækkun sem varð á þessu ári og ef hæstv. ríkisstjórn daufheyrist við niðurstöðum nefndar sem hæstv. ríkisstjórn hefur sjálf skipað um landsbyggðarverslunina sjáum við ekki ástæðu til annars en að koma til móts við fyrirtækin úti á landi sem nú berjast í bökkum og munum greiða atkvæði gegn frv. hæstv. ríkisstjórnar.