Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur þessi skattur verið endurnýjaður árlega í áratug. Núv. hæstv. ríkisstjórn greip hins vegar til þess ráðs fyrir ári að knýja fram hér í þinginu mjög verulega hækkun á þessum skatti. Þá komu fram hér mjög gild rök gegn þessari skattheimtu. M.a. var á það bent að hún kæmi niður á versluninni í landinu, óréttlátlega, fyrst og fremst vegna þess að landsbyggðarverslunin þarf í ríkari mæli en þéttbýlisverslun að bera þennan skatt sjálf. Í þéttbýli, þar sem verslun og viðskipti eru meiri, er auðveldara að velta skattinum út í almennt verðlag eins og almennt hefur tíðkast. Í raun er þetta því neytendaskattur. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni er mjög algengt að þessi skattur sé sérstakt efni í leigusamningum þar sem leigjendum er gert að standa skil á skattinum og þess vegna mjög augljóst að skattheimta af þessu tagi kemur fyrst og fremst niður á leigjendum.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau rök sem hér voru flutt fyrir ári síðan gegn þeirri miklu hækkun sem hæstv. fjmrh. beitti sér þá fyrir. Um leið og Vinnuveitendasambandið á vordögum lýsti því yfir að það skrifaði ekki undir kjarasamninga nema gerð yrði leiðrétting hér á tók hæstv. fjmrh. þá ákvörðun að hlýða því kalli og lækkaði skattinn nokkuð. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, eins og fram hefur komið frá talsmanni minni hl. hv. fjh.- og viðskn., að eðlilegt sé á þessu stigi að færa skattinn niður í fyrra horf og síðan er eðlilegt að lækka hann stig af stigi þangað til hann verður úr sögunni.
    Tilefni þess að ég kveð mér hér hljóðs er hins vegar sú skýrsla sem hér hefur verið minnst á, um vanda dreifbýlisverslunar, sem sérstök nefnd sem hæstv. ríkisstjórn skipaði hefur skilað. Ég óska þess, herra forseti, að hæstv. viðskrh. og hv. formaður fjh.- og viðskn. verði viðstaddir þessa umræðu, enda sé ég ekki mikinn tilgang í að halda henni áfram ef hvorki hæstv. viðskrh. né formaður hv. fjh.- og viðskn. sjá ástæðu til þess að vera viðstaddir umræðuna. Við svo búið geri ég ekki ráð fyrir að mikill áhugi sé af hálfu stjórnarflokkanna á að þetta mál nái fram að ganga. ( Forseti: Má ég spyrja ræðumann: Bað hann um fjmrh. eða viðskrh.?) Ég bað um hæstv. viðskrh. og formann fjh.- og viðskn. sem genginn er í salinn, enda lipur í snúningum.
    Það kom hér fram í umræðunni að sú nefnd sem hæstv. ríkisstjórn skipaði til að fjalla um vanda dreifbýlisverslunarinnar hefur skilað áliti. Svo virðist hins vegar sem það álit hafi ekki verið kynnt í hv. fjh.- og viðskn. og þar hafi ekki verið gerð grein fyrir því. Ekki veit ég hvaða ástæður liggja að baki þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera það ekki og vildi inna eftir því hvort hæstv. ríkisstjórn hefur í hyggju að stinga þeirri skýrslu undir stól og fela hana. Sé það feimnismál í ríkisstjórninni eða hjá hv. formanni fjh.- og viðskn. var það ekki feimnismál í dagblaðinu Tímanum sem greindi frá niðurstöðum þessarar skýrslu

og samkvæmt frétt Tímans um niðurstöður skýrslunnar er það ein helsta tillaga skýrslunnar að þessi skattur verði ekki einasta lagður af, heldur endurgreiddur sérstaklega til dreifbýlisverslunarinnar. Er það kannski af þessum ástæðum sem hv. formaður fjh.- og viðskn. hefur ekki kynnt nefndinni þessa skýrslu? Og ég vil inna eftir því, í fyrsta lagi, hvort það er ekki ætlunin að kynna þessa skýrslu í hv. fjh.- og viðskn. Ég vil inna formann nefndarinnar, hv. 1. þm. Norðurl. v., eftir hvaða afstöðu hann hefur tekið til þessara tillagna, hvort hann er þeim samþykkur eða hvort hann er þeim andvígur, hvort hann ætlar í einhverju að taka tillit til þeirra þegar þetta mál er afgreitt hér. Ég get ekki séð að unnt sé að afgreiða frv. hæstv. ríkisstjórnar um þetta efni á sama tíma og fyrir liggur nefndarálit nefndar sem hæstv. ríkisstjórn sjálf hefur skipað þar sem lagt er til að þessi skattur verði endurgreiddur án þess að bæði sú skýrsla og frv. sjálft verði rædd í samhengi og ríkisstjórnarflokkarnir greini frá afstöðu sinni til þessarar skýrslu.
    Ég óska eindregið eftir því að formaður nefndarinnar komi hér upp og geri grein fyrir sinni afstöðu og hvernig hann ætlar að fara með þessa skýrslu gagnvart fjh.- og viðskn. og hvernig niðurstaðan verður síðan tengd áframhaldandi meðferð þessa frv. hér í þinginu, en ég get ekki séð að unnt sé að slíta þessi mál í sundur. Ég get ekki séð að stætt sé á því að stinga þessari skýrslu undir stól rétt á meðan verið er að afgreiða frv. og fara síðan að fjalla um niðurstöður skýrslunnar. Fyrst hún er komin fram er óhjákvæmilegt að um þetta sé fjallað hér í samhengi. Og ég ítreka ósk mína til hv. formanns nefndarinnar að hann geri hér nánari grein fyrir þessu máli í umræðunni.