Námslán og námsstyrkir
Föstudaginn 08. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara almennt í það að ræða um stöðu Lánasjóðsins, get þó kannski í nokkrum orðum rakið þann vanda sem þar er um að ræða. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Reykv. að stjórn Lánasjóðsins og starfsmenn telja að miðað við núverandi útlánaforsendur geti vantað í sjóðinn á næsta ári, eins og það dæmi lítur út, 595 millj. kr. Þar af er um að ræða 50 millj. kr. vegna verðlagsbreytinga erlendis, erlendrar verðbólgu, og um 100 millj. kr. vegna tekjufalls, þ.e. rauntekjulækkunar námsmanna milli áranna 1988 og 1990. Fyrir utan þetta er um að ræða sérstakan vanda upp á hvorki meira né minna en 300 millj. kr. sem á rætur að rekja til þess að námsmönnum fjölgar milli áranna 1988/1989 annars vegar og 1989/1990 hins vegar um 9,8%. Það eru 300 millj. kr.
    Hér er auðvitað um að ræða hrikalega stórt dæmi og alvarlegt og mjög erfitt og leiðir það hugann að því að samkvæmt spám sem gerðar hafa verið, m.a. í svokallaðri framtíðarnefnd forsrn. sem menn þekkja frá fyrri árum, margir í salnum, er talað um að námsmönnum á háskólastigi og í skólum á mörkum háskóla og framhaldsskóla muni fjölga úr u.þ.b. 7000, eins og talið er að þeir séu í dag, upp í kannski 12--14 þúsund á tíu ára bili eða svo. Það er þess vegna augljóst mál að hér er um ærið flókið verkefni að ræða, að leysa fram úr þessum vandamálum námsmannanna og Lánasjóðsins, og að því er nú unnið af sérstakri nefnd sem ég skipaði fyrir nokkrum vikum og á að fjalla sérstaklega um framtíðarvandamál Lánasjóðsins. Það er ljóst að vandinn á árinu 1990 er verulegur og það er einnig ljóst, og ríkisstjórninni er það ljóst fyrir sitt leyti, að fjárlagafrumvarpstölurnar fyrir árið 1990 duga ekki.
    Varðandi árið 1989 er um að ræða aukavanda hjá Lánasjóðnum sem ég tel að nemi 250 millj. kr. Það er vandi umfram það sem lá fyrir þegar stjórn Lánasjóðsins gekk frá sínum fjárlagatillögum í ágúst/september. Þessi vandi stafar fyrst og fremst af tvennu: Í fyrsta lagi því að um er að ræða rauntekjulækkun hjá námsmönnum milli áranna 1988/1989 um 18% sem þýðir það að réttur þeirra til framfærslulána eykst að sama skapi, eins og reglurnar eru, og talið er að þetta tekjufall námsmanna kosti sjóðinn í nýjum framfærslulánum 150 millj. kr.
    Í öðru lagi liggur það fyrir að sú fjölgun námsmanna um 9,8% frá síðasta námsári sem ég gat um áðan þýðir aukna útlánaþörf sjóðsins upp á 101 millj. kr. Það stafar af því að heildarútlán sjóðsins á þessum hluta námsársins sem við lifum núna eru eitthvað liðlega 1 milljarður kr. og af því sjá menn að tæplega 10% fjölgun gerir rétt um 100 millj. kr. Þetta er vandi upp á 250 millj. sem lítur svona út og mig minnir að hv. þm. hafi reyndar talað um 200 millj. að frádregnum verðbótunum. Ég skil alveg af hverju hann er með þá tölu. Það er vegna þess að hann tekur þær tölur sem komið hafa m.a. frá Lánasjóðnum og hann hefur undir höndum, en vandinn er í raun og veru

250 millj. kr. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti tekið um það ákvörðun, gerði það á fundi sínum í morgun, að tryggja Lánasjóðnum þessa fjármuni þannig að útlán Lánasjóðsins á þriðjudaginn kemur verða með eðlilegum hætti, svo sem laga- og reglugerðarforsendur gera ráð fyrir og auðvitað verður tillögu um það efni komið á framfæri við viðeigandi nefndir Alþingis, þ.e. fjh.- og viðskn., að svo miklu leyti sem hér er um að ræða lánsfjáraukalög, og fjvn., að svo miklu leyti sem hér er um að ræða framlag í fjáraukalög. Þannig liggur það mál og hefur í raun og veru verið afgreitt, þannig að þessi einu vinnudagur sem hv. þm. benti á að væri til þriðjudagsins getur a.m.k. hjá Lánasjóðnum farið í að undirbúa það að menn borgi út lánin eins og til hefur staðið.