Námslán og námsstyrkir
Föstudaginn 08. desember 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör og ég fagna því auðvitað sérstaklega að námsmenn þurfi ekki lengur að bíða milli vonar og ótta um það hvort lán verði greidd út í næstu viku eða ekki eins og þeir hafa þurft að gera alveg fram á þennan dag. Okkar tölum ber að vísu ekki alveg saman. Sá vandi sem stjórn Lánasjóðsins telur að sé fyrir hendi til að ljúka árinu 1989 er samtals upp á 380 millj. kr., þannig að mér sýnist nú að vandinn sé ekki með öllu leystur þó að ríkisstjórnin hafi nú samþykkt 250 millj. kr. ( Menntmrh.: ... samkvæmt fjáraukalögunum.) Já, þetta er þá umfram það sem er í fjáraukalögunum. Já, þá skil ég tölur hæstv. ráðherra.
    Varðandi vanda sjóðsins er það vissulega rétt að vandi Lánasjóðsins er mikill og sá vandi hefur legið fyrir í alllangan tíma því að námsmönnum fjölgar. Ég held að hæstv. ráðherra hefði átt að leiða hugann að vanda Lánasjóðsins fyrr, þegar hæstv. ráðherra gaf sínar yfirlýsingar fyrir kosningar 1987 þar sem hann taldi engan vanda að hækka lánin um 20% og gekk svo langt að lofa því að Alþb. mundi ekki taka þátt í ríkisstjórn nema vandi Lánasjóðsins og hækkun á lánum yrði sérstaklega tekið upp í stjórnarsáttmálann. Við vitum hvernig það fór. Sú ríkisstjórn sem nú situr var mynduð og ekki orð um það í stjórnarsáttmála.
    Mér sýnist að það sé alveg ljóst að hæstv. ráðherra ætli ekki að standa við þann samning sem hann gerði við námsmenn í upphafi þessa árs. Af þeim upplýsingum sem hann gaf hér um vanda sjóðsins á næsta ári og nefndi þar þessar 595 millj., að til viðbótar við þær þarf 180 millj. til þess að standa við hækkunina sem búið var að lofa þann 1. jan., þannig að hæstv. ráðherra svaraði þessu að vísu ekki beinum orðum en óbeint má ráða það af svörum hans að þessi hækkun 1. jan. 1990 muni ekki koma til framkvæmda eins og hæstv. ráðherra hefur lofað námsmönnum og gert sérstakan samning við þá um það. Og námsmenn hafa að sínu leyti tekið á sig byrðar vegna þessa samnings þar sem tekjuviðmiðun hefur verið breytt.
    Til viðbótar við þennan vanda varðandi næsta ár er ekki gert ráð fyrir í fjárlögunum og ekki inni í þessari tölu, 595 millj. kr., þeim hækkunum sem þegar hafa komið til framkvæmda, bæði í mars og september, þannig að það dæmi er líka óleyst. Og yfirlýsingar starfsmanna fjmrn. og hæstv. fjmrh. benda til þess að þær hækkanir eigi ekki að haldast út árið 1990. Þetta finnst mér alveg nauðsynlegt að draga fram í þessum umræðum því að mér sýnist að hæstv. ráðherra hafi lent á nokkrum villigötum með þetta mál, bæði með sínum stóru yfirlýsingum árið 1987, lent svo í vandræðum með að standa við loforð sín á þessu ári, gert svo samkomulag til þess að reyna að klóra í bakkann en verði svo að heykjast á því að standa við það samkomulag.