Námslán og námsstyrkir
Föstudaginn 08. desember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta og geri hér aðeins örstutta athugasemd.
    Hæstv. ráðherra sagði að það hefði verið álit hans að þær hækkanir sem hann samdi um við námsmenn fyrri hluta þessa árs rúmuðust innan ramma fjárlaga og þess fjárhagsramma sem Lánasjóðurinn að öðru leyti starfar eftir. Þetta segi ég að sé rangt, og ástæðan er sú að þetta er einmitt deiluefnið sem varð á milli hæstv. ráðherra og stjórnar Lánasjóðsins. Þegar hæstv. ráðherra gerði samkomulagið um þessar hækkanir á lánunum skrifaði stjórn Lánasjóðsins hæstv. ráðherra bréf og varaði hann við og það voru þessar deilur sem hæstv. ráðherra kallaði pólitískar árásir stjórnar Lánasjóðsins. Stjórn Lánasjóðsins kom til hæstv. ráðherra og sagði: ,,Þetta rúmast ekki innan ramma fjárlaga, við viljum ekki bera ábyrgð á þessari hækkun. Hæstv. ráðherra verður sjálfur að taka um hana ákvörðun.`` Það var þetta sem varð tilefni til þess að nú vill hæstv. ráðherra losna við þessa stjórn. Það lá því alveg kristaltært fyrir í áliti stjórnar Lánasjóðsins að þessar útgjaldaaukningar, þessar hækkanir, rúmuðust ekki innan fjárhagsramma Lánasjóðsins. Þetta er alveg nauðsynlegt að fram komi vegna yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Að öðru leyti hefur hæstv. ráðherra nú staðfest að 6,4% hækkunin mun ekki koma til framkvæmda 1. jan. heldur verður leitað eftir einhverju samkomulagi um að breyta að nýju tekjuviðmiðuninni.