Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Út af fsp. hv. 1. þm. Suðurl. vil ég taka fram að þessi skýrsla sem hann spurði um, þ.e. álitsgerð um afkomu verslunarfyrirtækja í strjálbýli og aðgerðir til að bæta aðstöðu þeirra frá í nóvember 1989, er svo sem góðra gjalda verð og ég efa það ekki að nefndarmenn hafa lagt sig fram við að gera skynsamlega skýrslu. Því miður var ekki hægt vegna hinna miklu fjárþarfa ríkissjóðs að verða við þessum tillögum að svo komnu máli, enda var búið að undirbúa fjárlög þegar skýrslan birtist og gera í stórum dráttum áætlun um tekjuöflun ríkissjóðs og m.a. ákveðið að halda áfram eða framlengja þennan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem reyndar hefur nú stundum verið með hærri prósentu en við leggjum til núna.
    Ég vil taka fram að þessi skýrsla var ekki rædd sérstaklega í fjh.- og viðskn. þegar þetta mál var til meðferðar þar enda fór enginn nefndarmaður fram á það og engin ósk kom fram um að taka hana sérstaklega til umræðu. Ég vil hins vegar beita mér fyrir því að nefndarmenn fái þessa skýrslu senda og geti kynnt sér efni hennar sem er fróðlegt og góðra gjalda vert, eins og ég sagði áðan, þó að við getum því miður ekki orðið við þeim tilmælum sem fram koma í skýrslunni að þessu sinni.