Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Föstudaginn 08. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið áður í umræðum hér á Alþingi er sú tala sem innheimtist af þessum skatti, og reyndar sumum öðrum einnig, á hverju ári saman sett á þann veg að annars vegar er sá skattur sem lagður er á á því ári og hins vegar eftirstöðvar af vangoldnum skatti frá fyrra ári og fyrri árum.
    Sú tala sem hv. þm. vék að er þannig til komin að það er annars vegar álagning skattsins á því ári sem um ræðir og innheimta af honum og svo hins vegar greiðsla á vangoldnum útistandandi skuldum vegna þessa skatts frá fyrri árum. Ég er ekki með nákvæmlega þessa sundurliðun hér við höndina en skýringin á því hvers vegna hinn innheimti skattur er hærri en álagður skattur ársins er að sem betur ber hefur tekist að innheimta vangoldna skatta frá fyrri árum.