Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 08. desember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vil taka fram strax hér í upphafi máls míns.
    1. Við erum hér í dag að ræða frv. til l. um breytingu á tekjuskatts- og eignarskattslögum en þær breytingar sem yrðu ef þetta frv. verður samþykkt munu leiða til þess að í nafni jafnréttis og félagshyggju munu skattar hækka á meðalfjölskyldu í landinu, svokallaðri vísitölufjölskyldu, um um það bil 5 þús. kr. á mánuði og ef við tökum virðisaukafrv. með og þá skattahækkun sem því fylgir má gera ráð fyrir því að þessi meðalfjölskylda, sem oft er vitnað til og notuð er til viðmiðunar, þurfi að borga á næsta ári yfir 7 þús. kr. á mánuði eingöngu vegna þeirra breytinga sem nú er verið að leggja til.
    2. Ég vil taka fram hér í upphafi máls míns að ég mun í ræðu minni hér á eftir gera að umtalsefni þá vaxtahækkun sem varð á húsnæðisstjórnarlánum og ég hef óskað eftir því að hæstv. félmrh. verði viðstaddur umræðuna þess vegna svo að hæstv. ráðherra gefist kostur á því að svara þeim fyrirspurnum sem ég mun til hennar beina.
    3. Mér finnst ástæða til þess strax við upphaf máls míns að fagna því sérstaklega að hæstv. fjmrh. skuli hafa sagt í ræðu sinni að meira en hugsanlegt sé að afgreiða þmfrv. frá sjálfstæðisþingmönnum sem nú er til meðferðar í fjh.- og viðskn. Efni þess frv. er að koma til móts við atvinnureksturinn í landinu með ýmsum hætti og þó einkum og sér í lagi skattalegum aðgerðum. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli með þeim hætti taka í útrétta hönd þannig að okkur gefist tækifæri, áður en til jólaleyfis kemur, til að bæta hag fyrirtækjanna og gera ráðstafanir sem líklegar eru til þess að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna í landinu.
    Fyrir um það bil ári síðan, þegar við höfðum nýjan hæstv. fjmrh., þá kom hann stundum hér í ræðustól á Alþingi og sagði að mikill halli hefði orðið á fjárlögum hæstv. utanrrh. sem áður hafði verið fjmrh. Hann talaði um halla fyrrv. ríkisstjórnar í því sambandi og lét í það skína að nú væri kominn til sögunnar nýr fjmrh. sem ætlaði að gera mun betur og sýna fyrirrennara sínum það svart á hvítu hvernig reka skyldi ríkissjóð. Hæstv. fjmrh. hafði skömmu áður en hann tók sæti í ríkisstjórninni skrifað grein í Þjóðviljann sem reyndar var að stofni til yfirlýsing eða greinargerð frá honum sem formanni Alþb. og hann kallaði ,,Milljarða mistök í ríkisfjármálum``. Það kann að vera athyglivert nú ári síðar að rifja nokkur atriði upp úr þessari grein, einkum og sér í lagi með tilliti til þeirrar reynslu sem við nú höfum af hæstv. fjmrh.
    Hann sagði að afleiðingar óbreyttrar stjórnarstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar yrðu á næstu mánuðum í fyrsta lagi vaxandi verðbólga og verulegar vaxtahækkanir. Nú vitum við að verðbólgan var þegar hæstv. ríkisstjórn tók við á milli 10 og 15% en er um þessar mundir líklega um 20%. Við höfum líka orðið vitni að því að vextir hafa ekki lækkað. Þvert á móti bendir flest til að vextir gætu hækkað, einkum og sér

í lagi vegna þess að ríkissjóður er rekinn með dúndrandi halla.
    Í öðru lagi sagði hæstv. fjmrh. í þessari grein, sem skrifuð var um miðjan júlí, rúmum tveimur mánuðum áður en hann kom til samstarfs við Alþfl. og Framsfl. í núverandi hæstv. ríkisstjórn: ,,Hrikaleg mistök og milljarða gat í ríkisfjármálum.`` Nú, ári síðar, horfum við upp á það að þessi hæstv. ráðherra tilkynnir okkur að halli á ríkissjóði verði á yfirstandandi ári líklega tæpir 5 milljarðar kr. Ég hef ekki heyrt hæstv. ráðherra koma hér upp og tala um hrikaleg mistök í því sambandi, þ.e. hann hefur ekki komið hér upp og notað sömu ummæli um sig eins og hann notaði um forvera sinn.
    Í þriðja lagi sagði hæstv. ráðherra í þessari grein sem ég vitna hér til: ,,Þriðja gengisfelling ársins er á leiðinni.`` Sú gengisfelling átti sér reyndar stað um leið og hæstv. ráðherra kom í ríkisstjórnina því það var fyrsta verk núv. hæstv. ríkisstjórnar að fella gengið. Síðan hefur gengið verið fellt a.m.k. fimm ef ekki sex sinnum og verðbólgan hefur auðvitað ætt upp og nú er ekki hægt að kenna laununum eða launahækkunum um það.
    Í fjórða lagi sagði hæstv. ráðherra í þessari grein: ,,Viðskiptahalli eykst um 30% og erlendar skuldir fara yfir 100 milljarða.`` Hver er niðurstaðan á þessu ári sem hæstv. ráðherra hefur setið í ríkisstjórn? Niðurstaðan er sú að á yfirstandandi ári megum við gera ráð fyrir því að viðskiptahallinn verði a.m.k. 8 ef ekki 9 milljarðar og auðvitað eru skuldirnar komnar langt yfir 100 milljarða.
    Og í fimmta lagi sagði hann: ,,Alda nýrra skattahækkana og enn frekari kjaraskerðing verða innan tíðar dagskrárefni ríkisstjórnarinnar.`` Þetta sagði hæstv. ráðherra fyrir rúmu ári síðan og honum varð að ósk sinni, enda var það hann sjálfur sem settist í ráðherrastól, gerðist fjmrh. íslenska ríkisins og sá til þess að sú ríkisstjórn sem tók við lét ríða yfir öldu nýrra skattahækkana. Það er gert ráð fyrir að skattahækkanir á þessu ári hafi numið þegar allt var talið um það bil 7 milljörðum og það er talið að á undanförnum missirum hafi kjaraskerðing orðið um það bil 14% þannig að hæstv. ráðherra
varð að ósk sinni þegar hann mælti þessi orð fyrir rúmu ári síðan eða síðsumars 1988.
    En það er athyglivert að lesa áfram í þessari grein sem hæstv. ráðherra skrifaði rétt áður en hann tók sæti sjálfur í ríkisstjórninni því að hann segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum áratugum er ekki hægt að finna hliðstæðu slíkrar óstjórnar í efnahagsmálum. Þessi niðurstaða er enn dapurlegri fyrir þá sök að áfram ríkja óvenjulega hagstæð ytri skilyrði í efnahagslífi Íslendinga.``
    Þetta sagði hæstv. ráðherra þá. Síðan hafa allar hans ræður verið því marki brenndar að hann hefur sífellt klifað á því að ytri skilyrðum sé um að kenna. Auðvitað ber að fagna því þegar menn komast til vits og nokkurs þroska. En það er athyglivert hvernig hæstv. ráðherra talaði rétt áður en hann kom í

ríkisstjórnina og hvernig síðan þetta hefur orðið að koma yfir hann sjálfan.
    Mig langar til þess, virðulegur forseti, að vitna örlítið meira í þessa merku grein hæstv. ráðherra sem var skrifuð rétt áður en hann fór sjálfur í ráðherrastól. Hann segir orðrétt: ,,Það eru ekki óhagstæð ytri skilyrði sem skapa hinn mikla efnahagsvanda. Þau eru áfram Íslendingum í hag. Vandinn er algjörlega heimatilbúinn.`` Síðan segir hann orðrétt síðar í þessari grein, ekki í beinu framhaldi: ,,Það er því ljóst að hrikaleg mistök sem nema mörgum milljörðum hafa orðið í meðferð á stjórn ríkisfjármála. Grundvöllur fjárlaganna er hruninn og óbreytt stefna mun leiða til þess að í árslok verður stórt gat á fjármálum ríkisins.`` Og síðan kemur feitletrað: ,,Í stað þess að ríkissjóður væri tæki til að draga úr verðbólgunni hefur hann í höndum núv. fjmrh. orðið hreinn verðbólguvaldur.`` --- Hér lýk ég þessum lestri í bili og ég spyr: Hvernig hefur hæstv. ráðherra tekist til? Hefur hann hagað sínum gjörðum á þann veg að ríkissjóður sé ekki verðbólguvaldur? Hefur hann stoppað í gatið? Er enginn halli á fjárlögunumn? Auðvitað eru svörin augljós. Hæstv. fjmrh. hefur haldið þannig á ríkisfjármálunum að ríkissjóður er mesti verðbólguvaldurinn í íslensku þjóðfélagi.
    Í lok greinarinnar segir hæstv. ráðherra orðrétt, með leyfi forseta: ,,Það er því nauðsynlegt að ráðherrarnir horfist í augu við veruleikann. Ríkisstjórnin á að biðjast lausnar og síðan þarf að efna til kosninga svo að þjóðin geti veitt nýrri ríkisstjórn umboð til að hefja hið mikilvæga viðreisnarstarf.`` --- Hér lýkur þessari grein.
    Í raun og veru, virðulegur forseti, gæti ég sagt stopp hérna, spurt hæstv. ráðherra að því: Er hann tilbúinn til þess að horfast í augu við veruleikann? Finnst honum árangur stjórnarstefnunnar og árangur sinn sem fjmrh. vera á þann veg að hann geti horfst í augu við veruleikann og treyst sér til að sitja en ekki fara? Ég veit auðvitað hvert svarið er. Þrátt fyrir það að hæstv. ráðherra hafi fylgt nákvæmlega sömu stefnu varðandi ríkisfjármálin og forveri hans, sem hann skoraði á að segja af sér, mun auðvitað hæstv. ráðherra sitja eins lengi og hann mögulega getur. Hver er ástæðan? Ástæðan er sú að hæstv. ráðherra er einn þeira manna sem mynda það hræðslubandalag sem hér kallast hæstv. ríkisstjórn. Það er hræðslubandalag þeirra flokka sem þora ekki að leggja verk sín í dóm þjóðarinnar og þessi ótti þeirra við þjóðina veldur því að þeir þora ekki að efna til kosninga. Þeir vilja sitja --- sitja svo lengi sem sætt er.
    Þegar hæstv. ráðherra kom hér í ræðustól fyrir ári síðan sagði hann að ráðið væri að efna til nýrrar skattheimtu. Hann viðurkenndi það, stóð hér í pontu, barði sér á brjóst og sagði: Ég viðurkenni það að það þarf að hækka skattana. En það mun ég gera nú til þess að stoppa upp í fjárlagagatið, því að mér finnst, sagði ráðherrann, að fjárlögin þurfi að verða raunhæf. Og honum varð að ósk sinni. Skattahækkanir dundu yfir, fjárlögin urðu svo raunhæf að nú, ári síðar, kemur í ljós að það eru 5 milljarðar sem skeikar, og

reyndar hærri upphæð því að hann skildi þannig við fjárlagafrv. rétt um síðustu áramót að það varð afgangur upp á 685 millj. kr., ef ég man rétt. Nú ári seinna kemur hæstv. ráðherra í ræðustól hér á Alþingi --- ja, þið haldið kannski til þess að biðjast afsökunar á hallanum, þið haldið kannski að hann hafi komið hingað til þess að viðurkenna milljarða mistökin sem hann sagði að hæstv. utanrrh. hefði staðið fyrir? Nei, hæstv. ráðherra kom ekki til þess. Hann kom hér í ræðustól til þess að boða það að fjárlög verði áfram rekin með halla á næsta ári og hann kom hér í ræðustól með frv. sem gerir ráð fyrir því að enn hækki skattarnir og er auðvelt að sýna fram á það enda hafa ýmsir gert það nú þegar. Þetta er kannski sú mesta viðurkenning á uppgjöf hæstv. ríkisstjórnar sem maður hefur séð í langan tíma.
    Sú ríkisstjórn sem leggur fram fjárlög með 3 milljarða halla, sú ríkisstjórn sem nú er að berjast við það að koma saman fjárlögum, þó það vanti líklega 3 milljarða inn í frv. til þess að það sé rétt upp sett, er ríkisstjórn sem auðvitað hefur þegar gefist upp við verkefni sitt. En samt ætlar hún að sitja vegna þess að hæstv. ráðherra þorir ekki að horfast í augu við veruleikann, eins og hann orðar það svo prýðilega sjálfur, og hann þorir ekki að ganga til kosninga því að hann óttast dóm þjóðarinnar.
    Nú er það svo að hæstv. ráðherra talar gjarnan um tekjur ríkissjóðs og ber þær saman frá ári til árs. Ef hann hins vegar tæki útgjöldin, þá sæjum við strax að hæstv. ráðherra hefur á mælikvarða vergrar landsframleiðslu sett Íslandsmet í ríkisútgjöldum. Og það er auðvitað það sem skiptir langsamlega mestu máli þegar fjallað er um tekjur og gjöld íslenska ríkisins eins og við hljótum óhjákvæmilega að gera þegar við ræðum þetta skattafrv. ríkisstjórnarinnar. Það alvarlegasta af öllu er þó það að hæstv. ráðherra gerir hér tilraunir til þess að blekkja fólk, blekkja þjóðina með því að segjast vera að lækka skatta þegar hann er að hækka þá. Við skulum skoða þetta aðeins betur.
    Ef við lítum fyrst eingöngu á tekjuskattinn, þá kemur í ljós að fulltrúar Alþýðusambands Íslands hafa sent frá sér hugleiðingar og sýnt þar fram á að í raun og veru standist ekki fullyrðingarnar sem settar eru fram af hálfu fjmrn. Ég ætla ekki að lesa allt það sem hagdeild ASÍ hefur sent frá sér, en það er ástæða til að lesa sumt. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér orðrétt úr plaggi sem kemur frá hagdeild Alþýðusambands Íslands. Og það er ástæða til þess, virðulegi forseti, að vekja athygli á því að þeir menn sem skrifa þetta eru ekki pólitískir andstæðingar ráðherrans. Ég er ekki að segja að þeir séu samherjar hans endilega, enda er hann í klofnum flokki og maður veit ekki hver liggur hvoru megin hryggjar í þeim flokki, en þetta eru ekki menn sem verða sakaðir um það að vera pólitískir andstæðingar hæstv. ráðherra. Í þessum hugleiðingum segir m.a.:
    ,,Fram kemur í töflunum [en þær birtast með þessum hugleiðingum ASÍ] að skattbyrðin er yfirleitt hærri í janúar 1990 en í júlí 1989 og í sumum tilfellum munar mjög miklu. Greinilega kemur í ljós

hvernig skattbyrðin þyngist við launahækkanirnar í september og nóvember. Ef halda ætti skattbyrðinni óbreyttri yrði hún að verða aftur svipuð í janúar eins og hún var í júlí en svo er greinilega ekki.
    Töluvert hefur verið rætt um hvort eðlilegt sé að hækka persónuafslátt og barnabætur samkvæmt lánskjaravísitölu í stað þess að miða við forsendur fjárlaga eða aðrar ákvarðanir skattyfirvalda.`` --- Þetta er kannski aðalatriði málsins og ég skýt því hér inn í, því þetta er kjarni þess máls sem hér er verið að fara með. Og held ég hér áfram lestrinum:
    ,,Núverandi tekjuskattskerfi var tekið upp í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og í tengslum við gerð kjarasamninga. Í upphaflegum ákvæðum um þetta kerfi var gert ráð fyrir því að persónuafsláttur og barnabætur skyldu hækka miðað við lánskjaravísitölu. Rétt er að minna á að sú lánskjaravísitala sem þá var notuð var kostnaðarvísitala í meira mæli en nú er og hefði því hækkað meira á þessu ári þegar kaupmáttur hefur fallið. Að sú aðferð að miða við lánskjaravísitölu sé ekki raunhæf er einkaskoðun þeirra sem ráða í fjmrn. Miðað við að sífellt þurfi að sækja fleiri krónur í vasa skattborgaranna er eðlilegt að aðferðin teljist ekki raunhæf. En væri miðað við að skattbyrði þróist eðlilega miðað við aðrar stærðir í þjóðfélaginu hlýtur viðmiðun við lánskjaravísitölu að teljast fullkomlega eðlileg.``
    Þetta --- og það er tekið dæmi síðar í þessu plaggi --- er dómur Alþýðusambands Íslands, hagdeildarinnar, og samsvarandi dómur hefur komið frá BSRB um þessa blekkingarstarfsemi sem hér er höfð í frammi.
    Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að skjóta sér undan því að með því að nota ekki lánskjaravísitöluna er hann auðvitað að auka skattbyrðina á öllum venjulegum fjölskyldum og einstaklingum þótt það sé auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra að það eru ákveðnar tilfærslur sem eiga sér stað innan kerfisins frá þeim sem hærri hafa tekjur og færri börn eða engin til hinna sem lægri hafa tekjur og fleiri börn á framfæri. Það er út af fyrir sig alveg rétt og hefur enginn borið brigður á það.
    Í DV er reiknað út dæmi um einstakling sem hefur 80 þús. kr. á mánuði og þar er sagt, og ég held að enginn treysti sér til að mótmæla því, að skatturinn hækki núna annað árið í röð þannig að á tveimur árum þarf viðkomandi aðili sem hefur ekki ýkja háar tekjur að borga 18 þús. kr. meira í skatta heldur en hann hefði gert að óbreyttum skattalögum.
    Það er ástæða til þess hér að minnast einnig á virðisaukaskattinn. Þessi mál eru tengd eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Ég tel það auðsætt að virðisaukaskatturinn sem hefur skatthlutfallið 24,5% mun sjá ríkissjóði fyrir meiri tekjum heldur en söluskatturinn upp á 25%. Á sínum tíma var þetta dæmi reiknað. Þá var talið að 23,5% í virðisaukaskatti mundu jafngilda 25% í söluskatti. Nú hafa að vísu verið gerðar lítils háttar breytingar á frv. en eigi að síður má gera ráð fyrir því að ríkissjóður hagnist um 1000--1200 millj. bara á þeirri breytingu, ekki síst ef jöfnunargjaldinu verður haldið inni sem tekjupósti hjá

ríkissjóði sem auðvitað er ósiðleg athöfn og fer í bága við samninga Íslands við önnur ríki. En ég geri nú ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hiki við að fara þá leið.
    Tekjuskatturinn gefur ríkissjóði mun meiri tekjur heldur en ef lögin hefðu verið óbreytt og lánskjaraviðmiðunin verið óbreytt. Þannig er innbyggt í
sjálft fjárlagafrv. líklega tekjuauki upp á 1700 og jafnvel 1750 millj. Þessu til viðbótar ætlar ráðherra nú að ná 1400 millj. með því að hækka enn tekjuskattinn. Og þó að hann dreifi helmingnum til baka, þá hirðir hann 1400 millj. í ríkissjóð. Þegar þetta er lagt saman fáum við rúma 3 milljarða eða nánar tiltekið um 3,1 milljarð.
    Nú gætu menn spurt: Er ekki nóg komið? Nei, það er ekki nóg komið. Til viðbótar ætlar hæstv. ráðherra að leggja á orkuskatt sem enginn veit hvernig á að vera, a.m.k. ekki stjórnarandstaðan og ekki þjóðin, kannski örfáir útvaldir gæðingar sem styðja ríkisstjórnina, og í öðru lagi á enn á ný að ráðast á bíleigendur --- ekki til að gera vegina betri, ekki til þess að byggja upp umferðarmannvirki. Nei, til þess að styrkja ríkissjóð vegna þess að hæstv. ráðherra ætlar að ná sömu tekjum og hann ætlaði sér í upphafi hvað sem það kostar.
    Það er mikilvægt að átta sig á því að þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp í víðtæku samráði við aðila vinnumarkaðarins o.fl. var innbyggt í kerfið að skattbyrðin þyngdist ef tekjur hækkuðu umfram verðlag en skattbyrðin léttist ef tekjur hækkuðu ekki eins mikið og verðlagið. Þetta var gert vitandi vits. Þetta var gert í fullu samráði við alla hagsmunaaðila vegna þess að menn töldu að ef tekjur hækkuðu meira en verðlagið væri ástæða til þess að ríkissjóður nyti þess að einhverjum hluta. Hins vegar, ef tekjur einstaklinga lækkuðu í raun, ætti ríkissjóður ekki að níðast á þeim sem hefðu það verr en áður. Nú er búið að finna upp algjörlega nýja aðferð og hún er sú að það er nákvæmlega sama hvort tekjurnar hækka eða lækka í raun. Ríkissjóður skal fá meira. Þetta er sú regla sem núv. ríkisstjórn fylgir. Þetta er sú regla sem hæstv. fjmrh. er höfundur að og þetta er sú regla sem er sett án þess að talað sé einu orði við hagsmunaaðilana í þjóðfélaginu og allra síst við launþegasamtökin sem reyndar hafa fordæmt þetta, þar á meðal í því plaggi sem ég vitnaði til áðan. Það er alvarlegur hlutur, hæstv. fjmrh., þegar þannig er farið að. ( Forseti: Forseta langar að inna hv. ræðumann eftir því hvort hann getur lokið ræðu sinni fyrir kl. 7 eða hvort hann kýs frekar að fresta henni til seinni fundar í kvöld.) Ef ég má í nokkrar mínútur halda fram og síðan fresta ræðu minni. Ég sé að það eru 5 mínútur eftir.
    Ég ætla að nefna hér og fara í einstakar greinar frv. sem hér er til umræðu og skal fara hratt yfir sögu.
    Í 1. gr. eru gerðar breytingar á hámarki skattfrádráttar vegna arðs og hámarki frádráttar vegna kaupa á hlutabréfum sem menn geta fengið frádreginn

þegar um er að ræða tekjuskatt. Í þessu sambandi vil ég segja það að hér er náttúrlega allt of skammt gengið. Í raun og veru nær þessi
hækkun varla lánskjaravísitöluhækkun þó að hún sé hærri en það sem laun hafa hreyfst.
    Ég vil hins vegar vegna orða hæstv. ráðherra um það að hann sé tilbúinn til að stuðla að því að afgreiða frv. sem liggur til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. fagna því. ( Fjmrh.: Það var ekki frv. frá sjálfstæðismönnum. Það er misskilningur hjá hv. þm.) Ég tók það svo og gat ekki heyrt annað en að hann væri að tala um þmfrv., og ég vitna til þess að hér um daginn var rætt um það að senda mál til nefndar, mál sem hæstv. ráðherra var að ræða, en samkomulag hafði orðið um það þá að hæstv. ráðherra félli frá orðinu, málið færi til nefndar til þess að það fengi þar ítarlega umfjöllun og ég taldi að það væri vegna þess að menn væru tilbúnir til þess að skoða málið, enda höfðu einstakir stjórnarþingmenn lýst áhuga sínum á því. ( Fjmrh.: Það var byggt á misskilningi.) Sé það byggt á misskilningi, þá er það vegna þess að samkomulag það sem gert var hafi verið byggt á misskilningi. ( Fjmrh.: Ég átti við frv. sem Guðmundur G. Þórarinsson o.fl. fluttu.) Ég hef orð hæstv. forseta fyrir því að hæstv. fjmrh. hafi fallið frá orðinu til að koma málinu til nefndar. ( Fjmrh.: Ég var bara að gera skýrt að ég átti við frv. sem Guðmundur G. Þórarinsson og fleiri hafa flutt svo að það valdi ekki neinum misskilningi.) Sé svo harma ég það að hafa hælt hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra fyrir það. ( Fjmrh.: Já.) Ég hélt satt að segja að það örlaði á því eitt andartak að hann hefði skilning á því hvað kæmi atvinnulífinu til góðs. Og ég trúi því ekki, ég segi það alveg eins og er, því að hæstv. viðskrh. hefur í Alþýðublaðinu og í Morgunblaðinu hælt sér af því að hann sé tilbúinn með hugmyndir sem komi til móts við atvinnulífið, að þetta sé það eina sem eigi að gerast núna í desembermánuði. Svo aumir geta varla þessir hæstv. ráðherrar verið að þeir ætli að bjóða upp á þetta og segja að þetta sé það sem þeir eru með. Ég segi bara alveg eins og er að þetta gerir mig yfirmáta hlessa. Og ég harma það og tek til baka öll þau hólyrði sem ég hef sagt um hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Það er bara svona.) Ég hélt satt að segja að hæstv. ráðherra væri að tala um eitthvað af viti. En ég biðst afsökunar á því að hafa gefið það í skyn. ( Fjmrh.: Þetta frv. er af viti.)
    Nú hef ég verið truflaður í ræðu minni, hæstv. forseti, og veit að nú verð ég að gera hlé á máli mínu. Ég hafði hugsað mér að víkja orðum mínum til hæstv. félmrh. og mun gera það í síðari kafla ræðu minnar sem mun þá
væntanlega verða fluttar í upphafi fundar kl. 8.30 í kvöld.