Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Friðrik Sophusson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Það er söguleg stund að sjá svo marga þingmenn í salnum. Ég lýsi ánægju minni með það að svo margir hv. alþm. hafi haft tækifæri til þess nú að koma til þingfundar, en eins og öllum er kunnugt var ekki hægt að halda fund hér í gærkvöld sökum fámennis þrátt fyrir það að slíkur fundur hafi verið boðaður stjórnarþingmönnum sérstaklega.
    Í gær sýndi ég fram á það í fyrri hluta ræðu minnar að skattkerfisbreyting sú sem hæstv. ríkisstjórn stendur að leiðir til verulegrar íþyngingar á skattbyrði. Gera má ráð fyrir því, ef saman er lagt það sem kemur út úr virðisaukaskattinum annars vegar og hins vegar breytingum sem gerðar verða væntanlega á tekju- og eignarskattinum, að meðalfjölskyldan, fjölskylda á stærð við vísitölufjölskylduna sem oft er notuð til viðmiðunar, þurfi að borga u.þ.b. 7 þús. kr. hærri skatta á mánuði en er á yfirstandandi ári. Þeir skattar koma fram í auknum tekjusköttum, orkuskatti, skatti á bifreiðar og hækkun á virðisaukaskatti umfram það sem kemur fram í söluskatti.
    Þar var komið ræðu minni að ég ætlaði að lýsa einstökum greinum frv. frá mínum sjónarhóli. Mér varð það á í messunni að hæla hæstv. ráðherra í gær í ræðu minni þar sem ég misskildi hann og hélt að hann hefði lýst því yfir að hann væri tilbúinn til samstarfs við stjórnarandstöðuna um afgreiðslu á frv. í hv. fjh.- og viðskn., en það frv. fjallar um það hvernig rýmka má frádráttarliði frá skatti til þess að treysta betur eiginfjárstöðu fyrirtækjanna í landinu. Frammíkall hæstv. ráðherra benti þó til þess að það hefði ekki verið hugmynd hans að koma til móts við þessi vitrænu sjónarmið, og það er athygli vert, þegar til þess er litið að hæstv. viðskrh. hefur mjög
gumað af því að hann vilji bæta eiginfjárstöðu fyrirtækjanna, að þá skuli það eina sem kemur fram í þessu frv. vera lítils háttar hækkanir á nokkrum liðum, hækkanir sem vart ná þeirri hækkun sem orðið hefur á lánskjaravísitölu. Um þetta fjallar m.a. 1. gr. frv. þar sem greint er frá hámarki arðs og hlutafjárkaupa sem draga má frá tekjum. Í 2. gr. er lítils háttar hækkun á gjaldfærslu sem má reikna á kaupárinu jafnvel þótt fyrningartíminn sé lengri og er það vissulega til bóta. En ég vil vekja sérstaka athygli á 3. gr. því að hún er dæmigerð fyrir það hvernig hæstv. ráðherra leikur sér að tölum og hvernig hann reynir að blekkja menn með frumvarpsgreinum.
    Í 3. gr. frv. stendur nú:
    ,,1. tölul. 1. mgr. 67. gr. orðist svo:
    Af tekjuskattsstofni reiknast 32,8%.``
    Þessi grein er orðuð allt öðruvísi en aðrar greinar í frv., en þær orðast þannig að í stað ákveðinnar tölu komi önnur tala og allar þær tölur hækka yfirleitt þó að þær hækki ekki eins mikið og lánskjaravísitalan hefur hækkað. En hvernig skyldi nú standa á því að þessi 3. gr. orðast svo? Jú, það er vegna þess að í lögunum segir nú að af tekjuskattsstofni reiknist 28,5% en ekki 30,8%.
    Þannig vill nefnilega til að núv. hæstv. ríkisstjórn,

undir forustu hæstv. fjmrh., beitti sér fyrir breytingu á þessum lögum fyrir ári síðan og hækkaði tekjuskattshlutfallið, en það átti einungis að gilda í eitt ár. Það mun hafa verið hv. þm. Karvel Pálmason, þingmaður Alþfl., sem kom í veg fyrir það að þetta skatthlutfall yrði hærra til langframa, enda hefur það verið mikið baráttumál Alþfl. að halda tekjuskattinum í 28,5%. Í stað þess að orða þessa frumvarpsgrein með þeim hætti sem aðrar frumvarpsgreinar eru orðaðar kýs ráðherra að fara svona að til að það sjáist ekki hve mikil hækkunin er í raun. Minnir þetta óneitanlega á vinnubrögð hæstv. ráðherra þegar hann var að breyta eignarskattinum fyrir ári síðan sem hann gerði með þeim hætti að margir hv. stjórnarþingmenn skildu ekki út á hvað breytingin gekk.
    Í 4. gr. er persónuafslátturinn hækkaður en ekki nándar nærri því eins og hann hefði gert að óbreyttum lögum. Sjómannaafsláttur er hækkaður í 5. gr., í 6. gr. barnabætur og í 7. gr. er fjallað um barnabótaauka.
    Þá kem ég að 8. gr. frv. Ég tel að sú grein sé til bóta. Það er greinin um vaxtabætur. Í tengslum við húsbréfakerfið og breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins á sl. vori kom inn í tekju- og eignarskattslögin ákvæði um vaxtabætur. Nú er verið að breyta því ákvæði.
    Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki farið nákvæmlega ofan í þessa frumvarpsgrein en mér sýnist hún, eins og henni hefur verið lýst, vera til bóta og fagna ég því að eitthvað skuli vera til bóta í þessu frv. hæstv. ríkisstjórnar. En þegar rætt er um vaxtabætur kemst ég ekki hjá því að nefna þá hækkun sem varð á vöxtum húsnæðismálastjórnar nú fyrir skömmu. Og nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir.
    Þau tíðindi gerðust að hæstv. ríkisstjórn hækkaði vexti af óteknum lánum húsnæðismálastjórnar fyrr í þessari viku. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt gefur húsnæðismálastjórn út bréf til þeirra sem taka lán, skuldabréf, og í skuldabréfunum eru ákvæði um það að vextir skuli vera breytilegir. Öll þessi skuldabréf eru eins, bæði þau sem nú eru notuð, í þessari viku, og hin sem voru notuð í síðustu viku, nákvæmlega eins bréf, enda styðjast þessi bréf og
þessi lán við nákvæmlega sömu lögin frá 1986. Reyndar hefur slíkt ákvæði verið í öllum bréfum a.m.k. frá 1984 og líklega frá 1980, þó að ekki sé textinn endilega nákvæmlega sá sami.
    Í lögum sem hv. Alþingi samþykkti 1986 stendur skýrum stöfum að ríkisstjórnin hafi heimild til þess að hækka vexti í hverjum lánaflokki fyrir sig á hverjum tíma. Ég vil halda því fram að sá lagatexti þýði það að það hafi verið hugsun löggjafans að ef vextir yrðu hækkaðir væri einungis hægt að hækka vextina á öllum lánaflokknum frá upphafi. Og ég vek sérstaka athygli á þessu. Ég tel með öðrum orðum að þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar brjóti í bága við lög og skal rökstyðja það frekar.
    Það er skylda samkvæmt lagagreininni að leita álits stjórnar Húsnæðisstofnunar annars vegar og Seðlabanka Íslands hins vegar. Stjórn Húsnæðisstofnunar felldi hækkun á vöxtum eins og

frægt er orðið, en Seðlabanki Íslands lagði til að vextir á teknum lánum yrðu hækkaðir um 0,5% en vextir af óteknum lánum yrðu hækkaðir um 1%. Með öðrum orðum, Seðlabanki Íslands viðurkenndi það að sjálfsögðu að hægt er að hækka vexti af þeim lánum sem þegar er búið að taka.
    Mér er kunnugt um að innan hæstv. ríkisstjórnar var mikið deilt um þetta mál. Margir hæstv. ráðherrar töldu eðlilegra að láta jafnt yfir alla ganga. Og ég segi það hér og bið fólk um að hlusta á að vöxtum hefur aldrei verið breytt í lánaflokkum nema samfara lagabreytingu. Það er því nýmæli að hækka vexti með þessum hætti. Nú tek ég það skýrt fram að ég er hér ekkert að dæma um það hvort eðlilegt sé að hækka vextina eða ekki. Ég er einungis að tala um það hvort það sé löglegt --- það er alla vega siðlaust --- að hækka eingöngu vexti af óteknum lánum. Ég tel að hér sé um að ræða grundvallarbrot á jafnræðisreglunni. Það sé ljóst að öll bréfin séu eins. Það sem er alvarlegast er að þeim sem hafa notið mest í kerfinu er sleppt. Hinum, sem hafa orðið að bíða lengst, hafa keypt íbúðir, orðið að greiða háa markaðsvexti á biðtímanum, jafnvel í 2--3 ár, er síðan gert að greiða hærri vexti fyrir hina sem hafa notið þess að hafa lánin á lágum vöxtum þegar vaxtamunurinn var mestur.
    Ég tel að hæstv. félmrh. þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli, hann þurfi að skýra það út með haldbærum hætti hvort þetta sé hægt, því að ef þetta er hægt, og nú bið ég menn um að hugleiða þetta mjög vel, þýðir þetta það að hægt er að hækka vexti á hvaða hópi sem er í þessum lánaflokki og þá jafnt hópi sem er búinn að taka lán fyrir löngu síðan. Ef þetta má gera með þessum hætti getur hæstv. ráðherra í næstu viku hækkað vexti sérstaklega af lánum sem tekin voru t.d. frá 25. jan. til 25. mars á þessu ári og réttlætt það t.d. með því að þá hafi vaxtamunur verið meiri. Í raun og veru er þetta algjörlega óskiljanleg ráðstöfun sem hér hefur verið gerð.
    Ég hef leitað eftir því hvernig á þessu standi. Og nú skulum við aðeins átta okkur á því hvernig staðan í þinginu er. Framsfl. hefur lýst því yfir að hann sé á móti þessari vaxtahækkun. Borgfl. hefur lýst því yfir að hann vilji að vextirnir séu jafnháir af öllum lánum í lánaflokknum. Með öðrum orðum, það er enginn meiri hluti á Alþingi fyrir því að hækka vextina með þessum hætti. Sá meiri hluti er ekki til. Þetta er gerræði sem byggir á minni hluta Alþingis og þegar maður spyr einstaka hæstv. ráðherra að því hvernig á þessu standi kemur eitt svar: Þetta er samningur við Kvennalistann. Með öðrum orðum, hæstv. ráðherrar, hver um annan þveran, hafa sagt: Auðvitað er það rétt. Þetta er siðlaust. Auðvitað ætti að hækka vextina. Ef þarf að hækka vextina þarf að hækka í öllum lánaflokkum. En það er Kvennalistinn sem kemur í veg fyrir það að þetta réttlæti náist fram.
    Ég hlýt þess vegna að spyrja fulltrúa Kvennalistans sem hér talar í umræðunni hvort rétt sé að Kvennalistinn hafi gert það að skilyrði að þessir hlutir

gengju fram sem hafa gerst með þessum hætti sem er grundvallarbrot á jafnræðisreglunni. Getur það verið að Kvennalistinn hafi gert það að skilyrði, þegar hann átti í hrossakaupum við hæstv. ríkisstjórn um húsnæðismálin á sl. vori, að ekki ætti jafnt yfir alla að ganga heldur skyldu þeir sem hafa orðið verst úti, þeir sem hafa orðið að bíða lengst, þeir sem hafa orðið að greiða hæstu vextina meðan þeir biðu, borga síðan hærri vexti en aðrir til þess að borga þann mun sem hefur orðið og ríkissjóður að standa undir, líka fyrir þá sem njóta lægri vaxtanna?
    Mér er auðvitað kunnugt um að ýmsir hv. þm. Kvennalista hafa tekið að sér störf fyrir hæstv. félmrh. Það kann vel að vera að eitthvert samband sé þar á milli. Því hefur verið haldið fram. Ég trúi því ekki en Kvennalistinn hlýtur að þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum því að ég get staðfest hér að ráðherrar úr öllum stjórnarflokkunum hafa haldið því fram að ekki hafi verið farið að með eðlilegum hætti af því að Kvennalistinn hafi krafist þess í sérstökum samningum sínum við hæstv. ríkisstjórn til að koma húsbréfakerfinu fram. Þetta er alvarlegur áburður ef Kvennalistanum er kennt um þetta.
    Ég ætla að segja meira. Í fyrramorgun hringdi til mín kona, sjómannskona hér úr Reykjavík sem átti peninga hjá Húsnæðisstofnun. Á þriðjudaginn átti hún að sækja þessa peninga en barnið hennar var veikt og hún komst ekki. Þessi kona
komst ekki til að taka út peninga sem hún átti, sem voru tilbúnir og lágu þar hjá gjaldkeranum í veðdeild Landsbankans af því barnið hennar var veikt, maðurinn var úti á sjó. Hún frestaði því um eina nótt, kom daginn eftir og var nokkrum tugum ef ekki hundrað þúsundum fátækari og þetta skrifast á reikning Kvennalistans.
    Ég geri þetta að umtalsefni hér, herra forseti, vegna þess að það hlýtur að
þurfa að koma því á hreint hvort verið geti að Kvennalistinn ráði því að farið sé að með slíkum ósiðlegum hætti og það sé einungis minni hluti alþm. sem styðji þetta. Framsfl. hefur sagt nei. Borgfl. hefur sagt nei. Það er ekki stuðningur við það frá Sjálfstfl. og ég kannst ekki heldur við að stuðningur sé við það hjá Frjálslynda hægriflokknum og fæ það staðfest hér. Með öðrum orðum, minni hluti Alþingis ræður þessu og Kvennalistanum er kennt um. Ég bið þess vegna hæstv. félmrh. að segja það hér skýrt hvort rétt sé að sá skilningur hafi verið staðfestur af lögfræðingum að hægt sé að hækka lán með þessum hætti. Því það þýðir aðeins eitt. Það þýðir að hvaða ríkisstjórn sem er, hvenær sem er, getur hækkað á hvaða hópi sem er innan lánaflokksins svo framarlega sem jafnræði sé út frá því sjónarmiði að þeir sem fengu lán frá tilteknum degi til tiltekins dags. Ég verð að segja að ég hef sjaldan vitað um svívirðilegri athöfn en þessa. Ég tel að tími sé kominn til að hæstv. ráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum. Í Morgunblaðinu í dag er bókun hæstv. Borgaraflokksráðherranna í ríkisstjórn og dálítið merkilegt kemur fram í þeirri bókun, þar á meðal að ekki hafi þurft að hækka vextina nema um 0,5% hjá

öllum til að ná meiri árangri fyrir ríkissjóð eða Húsnæðisstofnun en að hækka um 1% hjá þeim sem ekki hafa þegar tekið lánin. Og svívirðan er mest vegna þess að þeir sem hafa notið mestu fríðindanna, verið fyrstir í röðinni, ekki þurft að taka markaðsvextina, eiga áfram að njóta 3,5% en hinir sem nýir eru, hafa þurft að bíða lengst, hafa farið verst út úr þessu, þeir eiga að borga brúsann. Ef það er hægt, þá getur hvaða hæstv. ráðherra sem stýrir félmrn., hvenær sem er, hækkað vexti eftir ,,behag``, svo að ég sletti dönsku, af hvaða hópi sem er innan þessa kerfis. Og nú spyr ég: Hvernig stendur á því að menn leyfa sér að leiða slíka réttaróvissu yfir fólk?
    Menn verða að átta sig á því að í kaupsamningum um íbúðir fara stundum fram makaskiptasamningar. Menn verða líka að átta sig á því að sá maður sem nú hættir við að taka lán af því að vextirnir eru 4,5% og kaupir íbúð sem er með 2 millj. kr. áhvílandi skuld hjá Húsnæðisstofnun og heldur að hann sé að græða á því, auðvitað hækka þær íbúðir í verði núna, sá maður getur átt von á því að í næsta mánuði sé vöxtunum breytt af sjóðnum. Það er nákvæmlega það sem er að gerast með þessu athöfn. Þetta mál hef ég kannað og ég veit að ef það er rétt að þessi athöfn sé lögleg, þá er jafnlöglegt að hækka þann hóp sem tók lán hvenær sem er af því að eina lögskýringin sem kemur til greina er að nota hugtakið ,,á hverjum tíma.`` Ég bið hv. þm. að hugleiða í hvers konar ógöngur er komið, og ég er að ræða þetta vegna vaxtabótanna sem auðvitað geta tekið einhvern kúf af, í hvers konar ógöngur er komið þegar minni hluti Alþingis gengur svona fram hjá meiri hlutanum. Það er gert vegna þess að einn lítill þingflokkur er talinn hafa sett pressu á málið með þessum hætti.
    Og hvað fær svo Kvennalistinn í staðinn í þessum hrossakaupum á sl. vori? Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Kvennalistans að því. Hvað fékk Kvennalistinn í staðinn? Og hefur verið staðið við það? Mér er kunnugt um að Kvennalistinn gerði kröfu til að fá einhver hundruð millj. í Byggingarsjóð verkamanna, til félagslegra íbúðaframkvæmda, sumt á næsta ári. Takið eftir því, þetta er flokkur sem hefur staðið að vantraustsumræðu í ríkisstjórninni og ætlar að fá útborgað á næsta ári. --- Á næsta ári. Ég held að tími sé kominn til að hv. þm. Kvennalistans komi upp í ræðustól og geri hreint fyrir sínum dyrum og segi alþjóð frá því hvort það sé rétt sem margir hæstv. ráðherrar hafa sagt að þeir hafi verið nauðbeygðir til að grípa til þessa óyndisúrræðis vegna þess að Kvennalistinn hafi krafist þess í samningum. (Gripið fram í.) Bankaráð Seðlabankans? ( Fjmrh.: Nei, hún er að spyrja um bankaráðin, samkomulag Sjálfstfl. og Kvennalistans um bankaráðin.) Já, já, það er fullt samkomulag um það. ( Fjmrh.: Milli Sjálfstfl. og Kvennalistans?) Ekki veit ég betur. ( Fjmrh.: Um bankaráðin?) Ekki veit ég betur. ( Fjmrh.: Já, hvernig er það samkomulag?) Hæstv. forseti. Leyfir forseti að ég svari fyrirspurnum um bankaráð hérna úr ræðustól í þessari umræðu eða finnst forseta að það ætti að bíða til betri tíma? ( Forseti: Ég hef í sjálfu sér ekkert

á móti því að hv. þm. svari þessum spurningum, en það mundi hins vegar lengja þessa umræðu sem ég hef áhuga á að stytta.)
    Virðulegur forseti. Ég tel að það sé fullt samkomulag milli stjórnarandstöðuflokkanna um kosningar í bankaráð. Ég hef hins vegar efasemdir um að fullt samkomulag sé milli stjórnarflokkanna og ég spyr hæstv. fjmrh. að því hvort hann hafi spurt hv. þm. Stefán Valgeirsson hvort hann sé sáttur við þá niðurstöðu sem verið er að reyna að berja í gegn af fjmrh. Þegar hann hefur svarað þeirri spurningu þá skal ég svara hinni.
    Í 9. gr. ( Fjmrh.: Ég er búinn að svara því.) --- ef ég fengi nú smáhljóð,
forseti, þá gengi þetta greiðar. ( Forseti: Ég bið hv. þm. að gefa ræðumanni nú gott hljóð.) Ég ætla aðeins, áður en ég vík frá málinu sem ég var að tala um áðan, að tala um eitt hugtak, hugtakið ,,afturvirkni.`` Mjög er nauðsynlegt að tekið sé á því. Ég hef heyrt suma halda því fram, auðvitað af fullum misskilningi, að ekki megi hækka lán afturvirkt og að það þýði að ef þeir sem þegar hafa tekið lán þurfi að greiða nýja vexti þá sé það afturvirkt. Þetta er auðvitað alrangt. Þetta er ekki til nema í kollinum á þeim sem ekki vita hvað afturvirkni er. Afturvirkni þýðir að reikna eigi vexti aftur á bak. Afturvirkni í skattamálum þýðir að reikna eigi skatta af tekjum sem þegar er búið að vinna fyrir. Hins vegar er það ekki afturvirkni þó að bankar, húsnæðisstjórn eða hver sem er ákveði, af því að í skjali stendur að vextir séu breytilegir, að vextir skuli hækka frá tilteknum degi sem er að líða. Þetta vita allir nema sumir og það skiptir máli. Það eru þeir sem hafa flutt ræðu í vor, sem hægt er að fletta upp á, og töluðu um afturvirkni í því sambandi og þar á meðal sá þingmaður sem kallaði hér fram í. Þá var ég að lesa mér til í gærkvöld og get staðfest það hvenær sem er.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir notaði hugtakið afturvirkni í þessu sambandi í ræðu sem hv. þm. flutti sl. vor og ég skal vísa hv. þm. á þessa ræðu sína þegar ég hef lokið minni ræðu hér. Vona ég að þessi kennslustund hafi nægt í því sambandi.
    Í 9. gr. er talað um frádrátt vegna hlutabréfaeignar og annarra bréfa. Þessa grein tel ég vera til mikilla bóta, en tel þó að hv. nefnd eigi að skoða hvort ekki eigi að gera þessa grein víðtækari en hún er.
    Í 10. gr. er fjallað um eignarskattinn. Ég fagna því vissulega með öðru að hæstv. ráðherra skuli hafa séð að sér og vilji nú lækka eignarskattinn. Ég hef hins vegar efasemdir um hvort rétt sé í grundvallaratriðum að tekjutryggja eignarskatt. Það er auðvitað heil brú í því sem hæstv. ráðherra hefur stundum sagt að leggja eigi skatta á fjármagnstekjur eða eignartekjur. En það er ekki að sama marki jafnvíst að eðlilegt sé að leggja á eignarskatta og miða við allt aðrar tekjur en þær sem koma af eignuum. Ég hef efasemdir um það. Ég ætla ekkert að segja. Ég ætla að skoða þetta mál í nefndinni, en ég hef efasemdir um að þetta sé rétt í grundvallaratriðum.
    Í 11. gr. og 12. gr. er fjallað um ríkisskattanefnd

og kærur. Ég tel að þessi atriði séu mjög nauðsynleg en tel að þau eigi ekki heima í þessu frv. Tel að ekki sé ástæða til að afgreiða þessar greinar með frv. nú. Það sé hægt að taka það fyrir í janúar og frekar beri að líta á töluleg atriði og atriði sem skipta máli vegna áramótanna, en taka sér tíma til að ræða þessar greinar svo við getum náð betri árangri í skilum ríkisskattanefndar. Ég er fyllilega sammála hæstv. ráðherra að það beri að gera.
    Nú hef ég talað í tæpan hálftíma, virðulegi forseti, eins og um var samið og skal ég ekki brjóta á því samkomulagi, jafnvel þótt það gerist nú rúmum hálfum sólarhring síðar en ég hugði. Mig langar til þess að biðja hæstv. félmrh., taki hann til máls hér, að segja þingheimi frá því hvort hann telji að Alþfl. standi óskiptur að því að hækka tekjuskattana eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég vísa þessari spurningu til hæstv. félmrh. sem tekur til máls væntanlega á eftir vegna þess að mér er kunnugt um að einstakir þm. Alþfl. féllust ekki á að hækka tekjuskattana í fyrra, þar á meðal hv. þm. Karvel Pálmason. Það hefur verulega þýðingu fyrir þetta mál að vita hvort Alþfl. stendur við sína fyrri skoðun á þessu máli eða hvort hann ætlar að haga sér eins og skopparakringla í þessum málum sem þó hæstv. utanrrh. hefur hælt sér mest af að hafa gert, þ.e. að setja tekjuskatts- og eignarskattsmálin í það horf sem þau eru núna og talið það til sinna afreka. Nú er verið að brjóta þá stefnu, sem hann studdi, á bak aftur með þessu frv.
    Að lokum, virðulegi forseti, mun ég skoða þetta mál mjög vandlega í nefnd. Við höfum fengið fjölmargar athugasemdir frá hinum og þessum aðilum í þjóðfélaginu sem er full ástæða til að rannsaka náið. Þar á meðal hlustaði ég á leiðinni hingað niður eftir á rökræður milli fulltrúa fjmrn. og fulltrúa Alþýðusambands Íslands. Það er fullkomlega eðlilegt að nefndin kanni það mál, þá útreikninga og þær forsendur sem báðir aðilar gefa sér til þess að hægt sé að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem Alþingi er til sóma.