Erfðafjárskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. vegna frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, frá félmn.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. á nokkrum fundum og var Ragnar H. Hall borgarfógeti nefndinni til aðstoðar við athugun málsins.
    Í gildandi lögum um erfðafjárskatt er ákvæði þess efnis í 2. mgr. 1. gr. að ekki skuli innheimtur erfðafjárskattur af fasteignum hér á landi úr dánarbúum sem skipt er erlendis ef greiddur er sambærilegur skattur í því ríki þar sem búskiptin fara fram. Ákvæði þetta mun hafa komið í lögin við síðustu endurskoðun þeirra árið 1984. Skv. því er komist hjá tvísköttun erfðafjár með því að íslenska ríkið gefur eftir sinn erfðafjárskatt af fasteignum hérlendis þegar sambærilegur skattur er lagður á í ríkinu þar sem dánarbúi er skipt. Dæmi um að dánarbú erlendis eigi fasteignir hérlendis munu vera fá en alls ekki óþekkt. Áður en lagabreytingin varð árið 1984 voru þó dæmi þess að mjög stór hluti af verðmæti fasteigna í eigu dánarbús, sem svona háttaði til um, rann til að greiða erfðafjárskatta í báðum ríkjunum, ekki síst þegar um var að ræða fjarskylda arftaka.
    Frv. gerir í raun ráð fyrir að ákvæðið frá árinu 1984 verði fellt niður og aftur tekin upp skattlagning hérlendis í þessum tilfellum, nema þar sem sérstakir samningar um gagnkvæmar ívilnanir á erfðafjárskatti geri ráð fyrir öðru. Slíkur samningur hefur þegar verið gerður milli Norðurlandaþjóðanna og í frv. er heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda þann samning og aðra sem síðar kunna að verða gerðir. Nefndin taldi hins vegar óeðlilegt að um leið og heimild til slíkra samninga er veitt skuli þrengdur réttur þeirra er búa í ríkjum þar sem slíkur gagnkvæmur samningur er ekki fyrir hendi, þ.e. annarra ríkja en Norðurlanda. Vegna þessa flytur nefndin brtt. á sérstöku þskj. og er þar lagt til að bætt verði inn nýrri mgr. við 2. gr. frv., 25. gr. laganna. Brtt. er ætlað að koma í veg fyrir verulega ósanngjörn málalok gagnvart aðilum sem ekki njóta þess hagræðis sem fylgir tvísköttunarsamningum á þessu sviði. Þetta nýja ákvæði er hliðstætt 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er ráðgert að við álagningu erfðafjárskatts í slíkum tilvikum fylgi skiptaráðendur sams konar verklagsreglum og skattstjórar við álagningu í áþekkum tilvikum.
    Nefndin leggur á það áherslu að hagur skattaðila í slíkum tilvikum verði ekki verri en skv. núgildandi lögum. Í þessu sambandi bendir nefndin á að heimild til lækkunar erfðafjárskatts getur jafngilt því að hann verði felldur niður.
    Undir nál. skrifa Rannveig Guðmundsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Geir H. Haarde, Alexander Stefánsson, Eggert Haukdal, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Jón Kristjánsson.
    Brtt. sem vísað er til í nál. er svohljóðandi:
    ,,Við 2. gr. bætist ný mgr. er orðist svo:

    Nú er eigi fyrir hendi samningur við annað ríki um að komast hjá tvísköttun verðmæta, sem lög þessi taka til, og skattaðili, sem skattskyldur er hér á landi skv. 1. gr. laganna, greiðir til opinberra aðila í öðru ríki skatta af sömu verðmætum, sem skattskyld eru hér á landi, og er skiptaráðanda þá heimilt, samkvæmt umsókn skattaðila, að lækka erfðafjárskatt hans hér á landi með hliðsjón af þessum skattgreiðslum hans.``