Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Í sambandi við þetta lagafrv. sem hér liggur fyrir um breytingu á tekjuskatti og eignarskatti þá ætla ég ekki að hafa efnisumræðu um það frv. Við í þingflokki Framsfl. vorum búnir að fallast á að þetta frv. yrði lagt fram og auðvitað er ekkert um annað að ræða en að það verði afgreitt hér á hv. Alþingi miðað við það sem stefnir að í fjármálum ríkisins og dugar lítið til. En það sem fékk mig til að koma hér upp var í fyrsta lagi ræða hv. 1. þm. Reykv. sem kom hér inn á nokkur alvörumál sem hafa verið í gangi í þjóðfélaginu og verið afgreidd með allfurðulegum hætti að mínu mati, þ.e. þessi einhliða hækkun félmrh. á húsnæðislánum sem er gerð með sérstökum hætti sem ekki hefur áður tíðkast. Það er gengið gegn ákvörðun húsnæðismálastjórnar sem lögum samkvæmt á að leggja til þær vaxtahækkanir sem húsnæðismálakerfið á að fjalla um eða fellur á það.
    Ég vil aðeins segja frá því hér vegna þess að um þetta var rætt að afstaða mín gegn þessu var mjög ákveðin. Hún byggist fyrst og fremst á því að ég tel að það hefði þurft að gera úttekt á því hvernig vaxtakerfið virkar í húsnæðismálakerfinu í heild og gefa sér tíma til þess að skoða það í samráði við aðila vinnumarkaðarins sem vissulega eru framkvæmdakrafturinn í þessum málum þar sem aðilar vinnumarkaðarins leggja til raunverulega mest af því fjármagni eða raunar allt fjármgn sem húsnæðiskerfið byggir á. Það hefði átt að gefa sér tíma til að taka þarna sameiginlega afstöðu og skoða það í hvaða formi þessi vaxtabreyting hefði átt að vera í húsnæðiskerfinu í heild. Auðvitað er það fáránlegt að fara ekki þá leið þar sem ljóst er að þarna er um stórt og viðamikið kerfi að ræða. Það hefði verið miklu eðlilegra að gera vaxtabreytingu í einu lagi á allt húsnæðiskerfið, þar á ég bæði við Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins, og skoða þá í leiðinni hvort um væri að ræða að nýta þá heimild í húsnæðislögum að hafa mismunandi vexti eftir lánaflokkum. Það er hægt þó að ég sé ekki hér með að mæla með því. En mín afstaða var fyrst og fremst að menn gefi sér tíma til þess að endurskoða þetta mál frá grunni í samráði við aðila vinnumarkaðarins og aðra þá aðila í þjóðfélaginu sem um þessi mál fjalla. Þetta var ekki gert og þess vegna var samþykkt í þingflokki framsóknarmanna að mæla algjörlega gegn þeirri kröfu félmrh. inni í ríkisstjórn að taka þessa einhliða ákvörðun um það að hækka vexti aðeins frá Byggingarsjóði ríkisins á þessum málaflokki og miða það við daginn í dag, þ.e. frá þeim degi sem þessi ákvörðun er ákveðin og láta það gilda eingöngu um þá sem eftir eru að taka lán.
    Það mætti halda langa ræðu um það að þetta náttúrlega kemur dálítið skondið fyrir þegar um er að ræða fólk sem er búið að pína sig í þeirri frægu biðröð og hefur orðið að taka alls konar aukalán hingað og þangað í kerfinu, bæði hjá bönkum og verðbréfaaðilum, til þess að fleyta sér yfir biðtímann og sæta svo þessari meðferð eins og þessi ákvörðun

er í raun og veru. Það sem mér finnst fyrst og fremst óskiljanlegt er hvers vegna svona ákvörðun er tekin með því fororði að vitað er um andstöðu allra þingflokka sem að ríkisstjórninni standa eða a.m.k. flestallra og gegn Húsnæðisstofnun sjálfri sem á fyrst og fremst að fjalla um þessi mál og vega og meta gildi þeirrar hækkunar og meðferð sem á að framkvæma. Ég er búinn að heyra það í áraraðir að það megi ekki líða einn eða tveir eða þrír mánuðir þangað til húsnæðiskerfið hrynur vegna þessa vaxtamunar en samt sem áður er eiginfjárstaða byggingarsjóðanna slík að það eru engin rök fyrir því að það þurfi að gera þessa breytingu í skyndi því að meðan sú staða er fyrir hendi er a.m.k. engin ástæða til annars en að gefa sér einhvern tíma til þess að gera þessa heildarendurskoðun áður en ákvörðun er tekin. Og nú er ég ekki með þessum orðum að mæla gegn því að vextir yrðu hækkaðir, alls ekki. Mér finnst alveg sjálfsagður hlutur að gerð sé vaxtabreyting, en hún á að ná yfir allt kerfið og að undangenginni þeirri athugun sem ég minntist hér á.
    Það sem ég vildi aðeins ræða hér var það sem kom fram í ræðu hv. 18. þm. Reykv. og það var í sambandi við meðferðina á þessum málum. Þegar húsbréfafrv. svokallaða var samþykkt hér á hv. Alþingi sl. vor ásamt með breytingu á lögum um vexti, þ.e. vaxtabætur, var einmitt rætt um þetta og menn höfðu uppi ýmsar efasemdir um það að þetta ákvæði í vaxtalögun, þ.e. þessar vaxtabætur, væru nægjanlega útskýrðar, að menn lentu ekki þarna sjálfkrafa í blindgötu eins og oftast hefur komið fyrir í sambandi við meðferð vaxta sem eiga að vera til frádráttar tekjum o.s.frv. Við vitum það að í fyrri skattalögum voru frádráttarbærir vextir í sambandi við húsnæðismál það flóknir í framtölum að menn völdu heldur einfaldari leiðina, að taka 10% frádrátt sem heimilt var í skattalögum, en að fara út í útskýringar á vaxtakerfinu eða réttara sagt framreiða fyrir skattayfirvöld þau vaxtaútgjöld sem menn höfðu orðið fyrir. Og þannig tapaði fjöldi einstaklinga í kerfinu raunverulega réttbærum frádrætti í
sambandi við meðferð skattamála. Það var reynt að bæta úr þessu en samt sem áður er óvissa enn og ég er í engum vafa um það að hvað sem líður fullyrðingum og útreikningum og töflum um þessar svokölluðu vaxtabætur, að þær eigi að skila sér, tek ég undir það með hv. 18. þm. Reykv. að hér er enn um spádóm að
ræða sem í flestum tilfellum er ekki í samræmi við raunveruleikann þegar skattframtöl manna eru tekin til meðferðar. Það á eftir að sannast þó að síðar verði, því miður.
    En það sem aðallega vakti athygli mína var það að hv. þm. minntist hér á milliþinganefndina sem var skipuð í sambandi við afgreiðslu þessa máls hér á hv. Alþingi og átti að athuga málið, bæði afstöðuna, áhrif húsbréfakerfisins miðað við markaðinn, miðað við þá aðstöðu sem er í okkar þjóðfélagi, hvaða þýðingu það hefði á peningamarkaðnum, og einnig í sambandi við vaxtabæturnar og skila um þetta skýrslu og niðurstöðu

hér í byrjun þessa þings sem nú stendur yfir þannig að hægt væri að taka afstöðu til þess hvort ætti að fresta eða breyta þessari lagasetningu og gefa um það nákvæma skýrslu til þingsins. Hvar er sú skýrsla? Ég hef spurt fulltrúa okkar þingflokks í þessari nefnd um þessa niðurstöðu. Og auðvitað hefur þessi hv. þm. okkar sagt: ,,Ég veit ekki neitt`` af þeirri einföldu ástæðu að það hefur aldrei verið afgreitt neitt í þessari milliþinganefnd. Það er ekki aðeins um húsbréfakerfið sjálft heldur einnig um vaxtabæturnar. Það er engin niðurstaða komin. Þetta hlýt ég að undirstrika hér og benda á það um leið og ég tek undir með hv. 18. þm. Reykv. Ég spyr þess vegna alveg sérstaklega Kvennalistann: Hvernig hefur Kvennalistinn þolað það að láta fara svona með sig miðað við alla sögu þess flokks í sambandi við hið svokallaða húsbréfakerfi? Eru þær orðnar svona skaplausar eða hvað? Ég átti von á öðru.
    Þetta er atriði sem mér fannst ástæða til að koma að hér og undirstrika að algjörlega hefur verið brotin sú sjálfsagða skylda þegar Alþingi setur milliþinganefnd, alþingismenn, sem fyrir fram er ákveðið að eigi að gefa skýrslu um ákveðið mál í byrjun þings til að taka ákvörðun um það hvort það á að taka gildi samkvæmt lögunum sem samþykkt voru á þeim tíma eða hvort á að breyta þeim. Allt í lagi, ef nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri allt í lagi að breyta engu, og þar með þyrfti ekki að ræða um málið frekar. En svo komu bara þingmenn sem hafa átt aðild að milliþinganefndinni og segja: Við vissum bara ekki neitt og vitum ekki neitt. Þetta er nokkuð sem ætti ekki að heyrast úr þessum virðulega ræðustól hér í Alþingi, að þingmenn sem ætla að vinna málin upp milli þinga láti sig hafa það að koma hér upp þegar gildistími er löngu liðinn og lögin hafa tekið gildi og segja svo: Við bara vitum ekki neitt og erum áhyggjufullir o.s.frv. o.s.frv. Þess vegna verð ég að nota tækifærið og lýsa því yfir hér að ég harma það að þessi lög, um húsbréf og vaxtabætur, skyldu hafa verið látin taka gildi án þess að þessi mál væru skoðuð í kjölinn um leið og ég hlýt að endurtaka mótmæli mín gegn því að þessi vaxtaákvörðun var tekin, sem er röng vegna þess að það hefði átt að láta þetta ná yfir allt kerfið, og hafa þá lægri prósentu, og stutt af þeim rökum sem heildarathugun á þessu hefði leitt í ljós. Ég tel að ríkisstjórnin hafi sett niður við það að fallast á kröfu eins ráðherrans í ríkisstjórninni þegar vitað var að það var ekki heildarstuðningur við þessa ákvörðun. Og það þýðir ekkert að koma hér upp eða í fjölmiðla og segja: Ja, vaxtabæturnar, vaxtabæturnar eiga að bjarga þessu. Það veit enginn hvernig þær virka þó að þær séu settar upp á þennan hátt. Það á eftir að koma í ljós. Aðgerðin er hins vegar röng og þess vegna hlýt ég að fordæma hana.