Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Þessar umræður sem hér hafa farið fram um frv. til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt hafa nú á síðustu mínútum nokkuð snúist um vaxtabætur og einnig um nýlega hækkun á lánum frá Húsnæðisstofnum ríkisins, lánum Byggingarsjóðs ríkisins og réttmæti og lögmæti þeirrar hækkunar. Jafnframt hefur verið rifjuð upp sagan í þessu máli og ýmis sjónarmið komið fram sem eru ákaflega athyglisverð. Það hefur t.d. gerst nú að síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Austurl., hefur rifjað það rækilega upp að ákvörðun um vaxtahækkunina nú var ekki tekin sl. vor. Þvert á það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan kemur það skýrt fram í meirihlutanál. fjh.- og viðskn. Nd., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins hækka ekki fyrr en húsbréfakerfið tekur gildi og verða þá ekki hærri en 4,0--4,5%.`` Þetta þýðir ekki að það skuli hækka vextina. Það er bara verið að setja þak á vaxtahækkanir yfir höfuð af því að menn höfðu ótta af því að þeir yrðu hækkaðir enn meira. Og það er algjörlega út í bláinn að gagnálykta frá þessu með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur gert. Og auðvitað er það rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni og hefur reyndar verið sagt hér áður, að þessi ákvörðun var ekki tekin þá.
    Þá kem ég að því sem hefur verið leitt inn í þessa umræðu sem menn hafa talið að skipti máli og það er að ósanngjarnt sé að koma aftan að fólki sem hefur tekið lán því það hafi gert áætlanir. Auðvitað er það svo að fólk gerir áætlanir, a.m.k. margir, ekki allir. En fólkið hefur skrifað undir skuldaviðurkenningu með breytilegum vöxtum og það er enginn munur á því hvort fólkið var búið að fá lánið í hendurnar eða búið að fá lánsloforðið og hafði beðið kannski í þrjú ár, verið búið að kaupa íbúð fyrir tveimur árum, hvor tveggja hópurinn gerði auðvitað áætlanir þannig að þessi rök eru engin rök í þessu máli. Báðir hóparnir hljóta að gera áætlanir. Áætlunin verður að miðast við það að vextir séu breytilegir.
    Ég mun koma að því hér á eftir og skýra það að það vill svo til að ég var formaður félmn. í Nd. þegar lögin voru sett 1986 og þá sat í nefndinni hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir.
    Það er annað. Áður en ég kem að því vil ég þó segja frá því sem mér finnst vera merkilegt að hér hafa aðrir hv. þm. komið upp og bæst í hópinn, þar á meðal hv. 6. þm. Norðurl. e., sem staðfestir það að það er mikill meiri hluti Alþingis á móti þeirri framkvæmd sem hefur orðið á vaxtahækkunum ( SV: Það lá fyrir í vor.) og hefur legið fyrir í lengri tíma, bætir hann við. Þetta hlýtur að vera íhugunarefni fyrir hæstv. ráðherra, þegar hann framkvæmir hluti með þessum hætti, þegar honum er sagt að sá samningur sem hæstv. ríkisstjórn gerði við Kvennalistann 1. maí sl. hafi ekki byggst á þeim stjórnarmeirihluta sem þá var fyrir hendi. Það hefur verið staðfest hér í umræðunni. Það er búið að staðfesta það af hv. þm. Framsfl. að þeir standi ekki að þessu og fleiri hafa

bæst í hópinn þannig að það er ljóst að hæstv. ráðherra er á mjög hálum ís þegar hann tekur fram fyrir hendur á þingmeirihlutanum vegna þess að hann telur sig bundinn af samningi við örfáa þingmenn úr einum stjórnarandstöðuflokki. Þá kem ég að þeim samningi og ég vil fyrst segja það að ég hlýt að fagna því sem kom fram í ræðum hv. þm. Kvennalistans sem hér töluðu í umræðunni.
    Í fyrsta lagi kom það fram að Kvennalistinn segir að afstaða listans til þessarar vaxtahækkunar hafi komið fram í atkvæðagreiðslu í stjórn Húsnæðisstofnunar þar sem fulltrúi Kvennalistans greiddi atkvæði gegn vaxtahækkuninni. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram því að þar bætist við að jafnvel þeir sem sömdu við hæstv. ráðherra telja sig ekki hafa verið að semja um vaxtahækkun. Þeir sömdu ekkert um slíkt, og það er mjög mikilvægt að þetta komi fram með þessum hætti. Þeir hv. fulltrúar Kvennalistans sem hér hafa talað hafa sagt að það hafi m.a. verið gert, ef ég hef skilið þá rétt, vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið við sinn hluta samningsins. Og það er ósköp einfalt að sjá hvaða hlutir það eru. Það hefur verið rifjað hér upp. Samningurinn er í fjórum liðum. Það hefur komið fram í þessum umræðum að við 1. liðinn hefur ekki verið staðið, við 2. liðinn hefur ekki verið staðið. 3. liðurinn fjallar um það mál sem við höfum verið að ræða hér í dag, þ.e. að vextir af þeim lánum sem úthlutað hefur verið úr Byggingarsjóði ríkisins verði ekki hækkaðir þegar húsbréfakerfið kemst í framkvæmd. Við hann hefur verið staðið af hálfu ríkisstjórnar með því að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun gegn Kvennalistanum í málinu en þó með þeim hætti að Kvennalistinn getur ekki annað sagt en að staðið hafi verið við samninginn. Þetta er athygli vert. Í fjórða lagi er í samningnum sagt að þingflokkur Kvennalistans taki þátt í undirbúningi gildistökunnar á grundvelli hinna þriggja atriðanna.
    Mér finnst þetta mál vera svo stórkostlegt og svo nauðsynlegt að almenningur í landinu fái að kynnast því hvernig að þessu er staðið að þessum tíma hér í
dag hafi verið mjög vel varið því að það kemur í ljós að ábyrgðin á þessu atriði hvílir eingöngu á hæstv. ríkisstjórn og þó einkum og sér í lagi á hæstv. félmrh. Það er ekkert leyndarmál, og ég get upplýst það hér, að ég hef átt tal við nokkra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni og þeim hefur öllum borið saman um að þeir hefðu kosið að hafa annan hátt á, en hæstv. félmrh. hafi sífellt borið fyrir sig að slíkt væri ekki hægt því að hann væri bundinn af því að hækka lánin einungis á þeim sem hefðu beðið lengst og væru núna fyrst að fá útborgað í desemberbyrjun. Nú hefur Kvennalistinn staðfest það hér í umræðunum að hann sé á móti þessari vaxtahækkun sem hæstv. ráðherra hefur sagt að hann bæri ábyrgð á. Þetta kann að hljóma dálítið flókið en þetta er nú niðurstaðan í þessu máli.
    Ég sé í sjálfu sér ekki mikinn tilgang í því að vera að munnhöggvast við Kvennalistann um það hvað orð þýði. Ég tek satt að segja mark á orðabók

Menningarsjóðs eins og fleiri ágætir hv. þm. Það er þó að mínu mati alveg kristaltært að afturvirkni vaxta þýðir það að vextir séu reiknaðir aftur á bak en ekki það að þeir komi ekki á þá sem þegar eru búnir að taka lán. Á sama hátt er það alveg kristaltært í venjulegu máli, og reyndar staðfestir orðabókin það, að það sama eigi við þegar rætt er um afturvirkni skatta. Það þýðir ekki, ef skattar eru hækkaðir um 2%, eins og hæstv. ríkisstjórn er núna að gera, að þá eigi sú skattahækkun eingöngu að koma á nýja skattgreiðendur, þá sem eru 16 ára í ár, heldur þýðir það allt, allt annað. Ef talað er um afturvirkni í sköttum þýðir það að verið sé að leggja aukaskatta á tekjur aftur í tímann. Þannig er talað um afturvirkni í því sambandi. Og mér er fullkomlega ljóst að fulltrúi Kvennalistans, hv. þm. Kristín Einarsdóttir, þegar hún flutti ræðu hér í hv. Nd. hinn 8. maí sl. og ræddi um afturvirkni í þessu sambandi, var að sjálfsögðu að tala um það sem hún lýsti hér ágætlega í sinni ræðu. En hún notaði hugtakið ,,afturvirkni`` og ég er að reyna að reka það til baka að slíkt hugtak sé notað hér í umræðum því að það gefur til kynna að fólk sem hefur tekið lán gæti haldið að nú eigi að reikna vexti á þann tíma sem það hefur haft lánið á undanförnum mánuðum eða árum, en auðvitað hefur aldrei verið rætt um annað en það að vextirnir reiknast af láninu frá tilteknum tíma, annaðhvort þegar ákvörðun er tekin eða síðar. Og það er það sem skiptir öllu máli því að það er talsverður misskilningur uppi í þjóðfélaginu einmitt um þetta hugtak. Ástæðan fyrir því að ég nefndi það sérstaklega var einmitt sú.
    Um hrossakaup get ég verið stuttorður. Ég er líka sammála orðabókinni, einmitt um það dæmi sem tekið er af þingmönnum. Það eru kaup um það þegar einn þingmaður semur við annan og ábatinn kemur fram með þeim hætti sem lýst er í orðabókinni. Ábatinn sem Kvennalistinn taldi sig fá af þessu samkomulagi var auðvitað að Kvennalistinn gat sagt: Við fengum það út úr þessu fyrir fólkið sem er í félagslega húsnæðiskerfinu. Við fengum út úr því og það er okkur að þakka að þetta fólk í félagslega kerfinu fær núna frekari framkvæmdir í húsbyggingum en áður. Þetta er það sem Kvennalistinn ætlaði að hæla sér af. En þá gerist það að hæstv. ríkisstjórn platar Kvennalistann, nákvæmlega eins og hv. síðasti ræðumaður sagði: Hæstv. ríkisstjórn eykur framkvæmdamagn fjármagnsins en það fjármagn kemur ekki úr ríkissjóði heldur er tekið að láni og rýrir þess vegna fé sjóðsins án þess að framlög komi. ( HG: Það var ekkert um það samið.) Það var ekkert um það samið, það er hárrétt. En ég trúi því ekki að Kvennalistinn hafi verið að semja um annað en það að ríkið legði til aukna fjármuni í þessu skyni. Ég held hins vegar að hæstv. ríkisstjórn hafi kosið að skilja samninginn með þessum hætti og notfært sér þannig orðalag samningsins út í hörgul og hefur ekki einu sinni staðið við það sem í samningnum var.
    Nú langar mig til að koma hér að hinu lögfræðilega atriði málsins. Árið 1986 var ég formaður í félmn. Nd. ef ég man rétt. Hv. þm. og hæstv.

ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sat í nefndinni og á örfáum dögum kýldum við í gegn, þ.e. meiri hlutinn sem þá var við völd, þessar breytingar í kjölfar kjarasamninga. Ég stjórnaði því verki ásamt formanni nefndarinnar í Ed. Það var ekki vinsæl athöfn, hæstv. ráðherra man það. Þetta var gert á löngum fundi sem var haldinn í Rúgbrauðsgerðinni. Ég segi það hér og staðhæfi að þegar talað var um breytilega vexti í þessari grein, þá var það alveg ljóst að það byggðist á því að Húsnæðisstofnun ríkisins, Byggingarsjóðurinn, var að fá nýja fjármögnunarleið, átti að taka lán hjá lífeyrissjóðunum sem hlutu að vera skv. samningi ríkisins við lífeyrissjóðina. Hugmyndin var sú að þeir sem síðan fengju lán úr Byggingarsjóðnum greiddu lægri vexti, en ríkið borgaði muninn. Breytilegir vextir áttu síðan, og það var kannski meginhugmyndin, að geta breyst í takt við þá samninga sem ríkið gerði við lífeyrissjóðina. Með öðrum orðum, ef ríkið hefði orðið að semja við lífeyrissjóðina um 8% vexti hefði átt að hækka útlánavexti Byggingarsjóðs ríkisins í þessum lánaflokki. Ef hæstv. fjmrh. hefði náð samningum um 4% eða 5% þá átti að lækka vextina samsvarandi til þess að hinn mikli vaxtamunur sem þarna myndaðist lenti ekki á ríkinu á örskammri stundu. Um þetta höfum við, ég og hæstv. félmrh., rætt, þar á meðal
í síðustu ríkisstjórn, þ.e. um þann mikla vaxtamun sem þarna skapaðist.
    Þetta er mergurinn málsins. Þetta er kjarninn í því sem við erum að tala hér um. Það er hreint brot á jafnræðisreglunni og mjög óréttlátt og ósiðlegt að hækka vexti með þessum hætti. Þegar hæstv. ráðherra minnist á 1984, þá gerðist það í kjölfar lagabreytingar sem þá átti sér stað. Nú er ekki um það að ræða. Þetta er beinhörð ákvörðun á grundvelli gildandi laga um breytilega vexti í lögunum um Húsnæðisstofnun.
    Nú kem ég að einu atriði sem ég held að skipti mjög miklu máli að alþjóð veiti eftirtekt. Ef hæstv. ráðherra gerir álit lögfræðingsins, sem hún minntist hér á, að sínu er hún að segja það hér að hvaða hæstv. félmrh. sem er getur, í nafni ríkisstjórnar, hækkað vexti á hvaða tilteknum hóp sem er í þessum lánaflokki eftir að hafa fengið álit stjórnar Húsnæðisstofnunar og Seðlabanka Íslands. Með öðrum orðum, það er staðfest hér að það sé ekki brot á þessum lögum ef hæstv. félmrh. ákveður að hækka vexti sérstaklega á lánum sem tekin voru t.d. á árinu 1988, öllu sl. ári. ( Gripið fram í: Má maður skilja þetta sem staðfestingu?) Það eina sem ég segi er: Ef æðsta stjórnvaldið, hæstv. félmrh., gerir tillögur eða hugmyndir lögfræðingsins að sínum er hann að segja við allt það fólk sem stendur í því að selja og kaupa eignir á markaðinum að það sé hvenær sem er hægt að hækka vexti þannig að tiltekin lán, t.d. öll lán sem voru greidd út 1988, beri hærri vexti en önnur lán í þessum flokki um óákveðinn tíma. Það er nákvæmlega það sem kemur fram í þessu lögfræðilega áliti. Og nú spyr ég hv. þm.: Finnst ykkur þetta vera góð ákvörðun? Ég tek dæmi: Ákveðinn aðili hverfur frá því að taka lán á 4,5% vöxtum og ákveður að kaupa íbúð sem er með áhvílandi lánum sem eru 3,5%. Þessi

íbúð hefur hækkað í verði af því að hún er núna með háum lánum á lægri vöxtum. Sá aðili getur átt von á því í næstu viku eða á næsta ári að vextir verði hækkaðir af þessum lánum af því að þau eru frá einhverjum tilteknum tíma sem hækkunin nær til. Lögfræðilega álitið staðfestir þetta. Það er þetta sem mér þykir vera óréttlátt og ég tel að ef á annað borð hefði átt að hækka vexti, sem ég ætla ekki að leggja neinn dóm á en veit að hæstv. ríkisstjórn hefur rétt til, ef hæstv. ríkisstjórn hefur ætlað að gera það eins og mönnum er sæmandi og ef hæstv. ríkisstjórn hefur viljað gera það í takt við meiri hluta Alþingis, hefði vaxtahækkunin átt að vera lægri og ná til alls hópsins. Það er hið eina sem ég hef verið að segja. Það hef ég verið að gagnrýna og undir þá gagnrýni hafa allir þeir tekið sem hér hafa talað nema hv. þm. Kvennalistans. Þeir hafa hins vegar staðfest að brotið hefur verið á samkomulaginu við þá hv. þm. og þeir beri enga ábyrgð á þessari vaxtahækkun og greitt atkvæði gegn henni í stjórn Húsnæðisstofnunar. Þannig stendur hæstv. félmrh. berstrípaður frammi fyrir þjóðinni í þessu máli.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég ætlast að sjálfsögðu til þess að hæstv. ráðherra taki til máls og svari því sem til hans hefur verið beint, hvort sem það gerist nú í dag eða á mánudaginn. Ef hæstv. ráðherra hefur ekki tekið eftir einu eða neinu sem hér hefur verið sagt, þá get ég rifjað upp eitt atriði fyrir hann. Það er að segja hér skýrt og skorinort frá því hvað hann átti við þegar hann sagði í sinni ræðu að hann væri tilbúinn til að greiða fyrir að ákveðið þmfrv. næði fram að ganga í hv. fjh.- og viðskn. Ég hélt, sjálfsagt af misskilningi, að hæstv. ráðherra væri að taka í útrétta hönd þm. Sjálfstfl. í því máli. En af frammíkalli ráðherrans mátti ráða að um misskilning væri að ræða og ég kýs að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því sjónarmiði sínu.