Kjarasamningar opinberra starfsmanna
Mánudaginn 11. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þegar Alþingi samþykkti hér á síðasta þingi ný lög um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga voru ýmis mál enn þá ófrágengin. Eitt af þeim var meðferð samningamála hjá þeim starfsmönnum sveitarfélaga sem yrðu starfsmenn ríkisstofnana þegar búið væri að flytja þeirra starfsvettvang frá sveitarfélagi yfir til ríkisins.
    Í sumar og í haust hefur verið unnið nokkuð ítarlega að því í fjmrn. að greiða úr ýmsum þeim erfiðleikum sem komið hafa upp við þessa verkaskiptingu. Í fyrirspurnatíma í hv. Sþ. fyrir nokkru síðan gerði ég grein fyrir ýmsu af því sem ákveðið hefur verið.
    Í þessu frv. sem ég mæli fyrir nú er verið að leggja til við hv. Alþingi að breytt verði lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna á þann veg að starfsmenn þeirra ríkisstofnana sem áður voru á vettvangi sveitarstjórna, en eftir gildistöku laganna um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga verða starfsmenn ríkisstofnana, geti engu að síður verið áfram í bæjarstarfsmannafélögunum sem þeir hafa starfað í um langt skeið og eru margir
hverjir búnir að vera þar virkir þátttakendur. Þó er nauðsynlegt, til að tryggja ákveðið samræmi og ákveðið öryggi í meðferð samningamála, að búa þannig um hnútana að sérstaklega sé frá því gengið að þessir starfsmenn ríkisins myndi sérstaka samningseiningu þótt þeir verði áfram félagar í viðkomandi starfsmannafélögum bæjarfélaganna þar sem þeir búa.
    Þær tillögur sem mótaðar eru í þessu lagafrv. hafa ítarlega verið ræddar við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og það er samkomulag milli fulltrúa fjmrn. og forustumanna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þá skipan sem hér er lögð til. Ég vona að hún muni reynast ákjósanlegur farvegur til að tryggja að sem minnst félagsleg röskun verði við tilflutning starfsmanna sveitarfélaga yfir til ríkisins. Séstaklega er mikilvægt að í minni bæjarfélögum og sveitarfélögum verði ekki slík röskun á þeim félögum sem starfað hafa um langan tíma. Hins vegar er líka nauðsynlegt að ákveðið samræmi sé í þeim kjarasamningum sem ríkið gerir alls staðar á landinu. Með því að mynda þann vettvang sem hér er lagt til í frv. á að vera tryggt að viðkomandi einstaklingar geti verið áfram í þeim félagsskap sem þeir kjósa helst að vera í, en samræmis sé gætt í samningum og samningaundirbúningi af hálfu ríkisins.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þessi hv. deild geti stutt þetta frv. og afgreitt það fljótt og vel því mikilvægt er að við gildistöku laganna um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skapist farvegur fyrir samningamálin sem allir aðilar geta sætt sig við.
    Það er þess vegna tillaga mín að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.