Áfengislög
Mánudaginn 11. desember 1989


     Flm. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum nr. 82/1969, með síðari breytingum, sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, Skúla Alexanderssyni og Karvel Pálmasyni. Efni þess kemur fram í 1. gr. frv. þar sem segir að við 9. gr. laganna bætist ný mgr., svohljóðandi:
    ,,Afhending eða veitingar áfengis á vegum ríkisins eða ríkisstofnana eru óheimilar hérlendis.``
    Hin gífurlegu áhrif áfengisneyslunnar á okkar þjóðfélag blasa við öllum sem hafa opin augun og hafa aldrei verið skýrari en einmitt vegna atburða og umræðna síðustu daga. Ég mun því hér við þessa 1. umr. aðeins stikla á örfáum atriðum sem mér eru efst í huga í þessu sambandi.
    Þjóðfélagið skapar æskunni þau skilyrði sem hún elst upp við á hverjum tíma og þá einnig að því er varðar viðhorfið til áfengisneyslu. Við þær aðstæður sem ríkja hér í dag er augljóst að sú hætta vofir yfir hverju barni að áfengisneysla kippi fyrr eða síðar fótunum undan því á göngu þess eftir þeim auðnuvegi sem við hljótum öll að óska að hverjum einstaklingi takist að fara. Slík slys geta gerst á hvaða aldri sem menn eru á lífsleiðinni. Sum börn alast upp, þegar frá bernsku, án þess að njóta nauðsynlegrar umönnunar eða eðlilegs heimilislífs vegna áfengisneyslu foreldranna og lenda því fljótt í hrakningum og á meiri eða minni útigangi.
    Þeir sem um langt skeið hafa fengist við að reyna að hjálpa slíkum ógæfuheimilum segja að þeir geti of oft af fenginni reynslu fullyrt að börn sem alast upp við slíkar aðstæður lendi á sömu ógæfubrautum og foreldrarnir þegar á unglingsárum. Leiðin liggur þá oft fyrr eða síðar inn fyrir veggi fangelsanna. Og því miður byrja sum börn áfengisneyslu þegar ung að aldri, jafnvel í svo ríkum mæli að nærri fjörtjóni liggur. Með hverju ári sem bætist við aldurinn fjölgar svo þeim, a.m.k. langt fram eftir ævi, sem áfengið leikur grátt. Unglingar hætta að sinna námi og hverfa úr skóla, slegið er slöku við vinnu og fjárhagur hrynur í rúst. Gripið er til þess ráðs að afla fjár, í sumum tilvikum með ólögmætum hætti svo að leiðin liggur inn í fangelsin. Aðrir bíða tjón á sálu sinni og lenda á sjúkrastofnunum til meðferðar sem veitir sem betur fer sumum varanlegan bata en hjá allt of mörgum verður það að göngu þar út og inn. Hjá öðrum, bæði áfengisneytendum og fórnarlömbum þeirra, liggur leiðin líka inn á sjúkrahúsin vegna limlestinga af völdum ölvunaraksturs og annarra ölæðisáverka. Síðan sundrast fjölskyldan því að áfengisneyslunni fylgir takmarkalaus eigingirni neytendanna og á hakanum situr að hugsa um þjáningar maka, barna eða annarra ástvina. Í kjölfarinu fylgir að togast er á um forræði barnanna með þeim sálarkvölum sem það veldur þeim.
    Á undanförnum árum hefur þeim farið fjölgandi sem glapið hafa dómgreind sína með áfengisneyslu og látið leiðast út í neyslu annarra vímuefna og orðið þannig að bráð þeim sem vilja græða á slíkri sölu

þrátt fyrir hinar ömurlegu afleiðingar sem hún hefur. Athuganir hafa sýnt að áfengisneysla er nærri undantekningarlaust undanfari að slíkri vímuefnaneyslu og auk annarra afleiðinga veldur þetta vaxandi ofbeldishneigð.
    Sífellt fer fjölgandi tilraunum til nauðgunar, líkamsárása og annarra níðingsverka. Og ofan á allt þetta sem blasir við augum og löngu er vitað er nú sannað að áfengisneysla barnshafandi kvenna jafnvel í litlum mæli geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir andlegt og líkamlegt atgjörvi komandi kynslóða.
    Þannig væri hægt að halda áfram í löngu máli að rekja sorglegar afleiðingar áfengisneyslunnar en hér verður látið staðar numið. En á þessa ömurlegu þróun hefur ríkisvaldið horft undanfarin ár án þess að gera annað en auka framboð áfengis og þá um leið hvetja til aukinnar áfengisneyslu. Ég tel að alþingismenn geti ekki samvisku sinnar vegna horft lengur á þessa ömurlegu þróun án þess að aðhafast nokkuð annað en að kalla á meiri löggæslu, fleiri meðferðarstofnanir, fleiri sjúkrarúm og stærri fangelsi, þó að vissulega sé það óhjákvæmileg nauðvörn við ríkjandi ástand.
    Í nýútkomnu fréttabréfi foreldrasamtakanna Vímulaus æska segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Enginn vill stuðla að því að barn hans misnoti áfengi eða önnur vímuefni. Þvert á móti verður að telja að foreldrar vilji forða börnum sínum eins og kostur er frá slíku hlutskipti. Með hvaða hætti það verður best gert eru skiptar skoðanir um. Margir foreldrar álíta best að börn séu vanin á tilvist áfengis heima. Þar séu foreldrarnir til staðar og geti betur fylgst með og leiðbeint en ella. Þar sem hætta sé á að það sem er bannað veki áhuga sé betra að afhjúpa leyndardóma hins forboðna. Ef marka má rannsóknir er þessu alls ekki þannig varið.
    Í Svíþjóð hafa verið gerðar tvær rannsóknir á áfengisneyslu meðal unglinga og hafa niðurstöðurnar vakið mikla athygli. Af þeim unglingum sem segja að þeim sé boðið áfengi heima er rúmlega helmingur svokallaðir stórneytendur. Með því er átt við að þeir drekki meira en sem svarar til hálfrar flösku af víni í
hverri viku. Af þeim sem aldrei er boðið áfengi heima drekka 65% ekki áfengi en 10% eru stórneytendur. Auk þess kom í ljós að þeir unglingar sem boðið er áfengi heima drekka sig oftar útúr en aðrir. Og þeir unglingar sem aldrei er boðið áfengi heima drekka sig sjaldnar ölvaða en aðrir.
    Tilraun var gerð á Gotlandi þar sem foreldrar hættu að gefa börnum sínum áfengi. Áhrifin urðu þau að stórneytendum fækkaði meðal unglinganna.``
    Í línuriti sem fylgir með þessari grein kemur fram að í hópum þar sem foreldrar bjóða börnum sínum oft áfengi er enginn sem ekki neytir þess.
    Af þessari könnun og mörgum fleirum sést hversu gífurleg áhrif fordæmið og þrýstingur frá umhverfinu hefur og á sama hátt fordæmi ríkisvaldsins í þjóðfélaginu eins og foreldranna á heimilunum. Það mundi því tvímælalaust hafa mikil, bæði bein og

óbein áhrif ef ríkið hætti vínveitingum. Það er erfitt að skilja viðhorf þingmanna sem ekki vilja styðja þessa einföldu og kostnaðarlausu en áhrifaríku ákvörðun fyrir þá sem eiga í vanda vegna áfengisneyslunnar.
    Alþingismenn mega ekki láta þykka veggi Alþingishússins einangra sig frá hinum ömurlegu staðreyndum þjóðlífsins sem m.a. blasa við á sumum tímum sólarhringsins hér út um glugga þess og að verulegu leyti eiga rætur að rekja til siða og siðleysis trúnaðarmanna ríkisvaldsins við meðferð áfengis.
    Að sjálfsögðu yrði þetta aðeins fyrsta skrefið sem taka þarf og fylgja verður eftir með fleiri árangursríkum aðgerðum, en reynslan hefur sýnt að skipun nefnda og örfáar krónur mega sín lítils gegn áróðri þeirra sem ætla sér að græða á aukinni áfengisneyslu og óhamingju annarra.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. þessu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og allshn. og mun þar óska eftir að það verði sent til umsagnar allra þeirra aðila sem standa í því vonlitla og þrotlausa starfi að bjarga þeim sem eru að farast í flóðbylgju áfengisneyslunnar.