Áfengislög
Mánudaginn 11. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil segja okkur orð um þetta mál. Frv. tekur á brýnu málefni og ég get tekið undir erindi þess að verulegu leyti.
    Annars vegar varðar það ábyrgð og skyldur ríkisins til að standa við skuldbindingar sínar, þær sem það hefur gert með aðild að heilbrigðisstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000 og hins vegar með stefnumótun íslenskra heilbrigðisyfirvalda í íslenskri heilbrigðisáætlun sem nú þegar hefur verið mælt fyrir á þinginu og er til umfjöllunar í nefnd. Báðar þessar áætlanir hafa það að stefnumarki sínu að draga úr áfengisneyslu um fjórðung fram að árinu 2000. Til þess að þessu stefnumarki verði náð þurfa stjórnvöld ekki síst að ganga á undan með góðu fordæmi, þurfa að auðvelda þegnunum að framfylgja þessari stefnumörkun og sækjast eftir því og flestar rannsóknir hafa sýnt að eitt af því sem er virkast í þeim efnum er að draga úr framboði á áfengi.
    Það má sannarlega segja að um tvískinnung sé að ræða hjá ríkisvaldinu. Á sama tíma og óteljandi vandamál verða viðfangsefni stjórnvalda einmitt í kjölfar of mikillar neyslu áfengis og annarra vímuefna, sem oft fylgja í kjölfar mikillar áfengisneyslu, hefur ríkisvaldið áfengi á boðstólum, oft óspart og veitir það auk þess sem það selur það og er einokunaraðili í þeim efnum.
    Við kvennalistakonur brugðumst við opnu bréfi til ríkisstjórnarinnar og alþingismanna sem hingað var sent árið 1986 af hópi lækna sem vildu leggja áherslu á þetta erindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Í greinargerð sinni lögðu þeir áherslu á þau vandamál og þær hættur sem tengjast notkun áfengis og vaxa margfalt með aukinni heildarneyslu. Þar kom fram einmitt margt af því sem hv. 1. flm. frv. hefur minnst á í sínu máli og ætla ég ekki að endurtaka það hér. Þó er ástæða til að leggja áherslu á þann þátt sem getið er í hans greinargerð og varðar áhrif áfengis á barnshafandi konur því að sú
vitneskja er tiltölulega nýleg, má segja. Það eru ekki mjög mörg ár síðan læknar gerðu sér grein fyrir því hve skaðvænleg áhrif mikil áfengisneysla getur haft á fóstur í móðurkviði og þarf oft ekki mikla áfengisneyslu móður til.
    Við kvennalistakonur tókum það ráð, í viðbragði okkar við því bréfi sem ég minntist á áðan, að leggja það til að Alþingi ályktaði að skora á ríkisstjórnina að sjá til þess að ekki væru veittir sterkir drykkir í veislum á vegum hins opinbera. Okkur fannst það mundi vera raunhæft. Það væri til of mikils mælst að ætlast til þess að það fengist í einu vetfangi að ríkið legði alveg niður veitingar alls áfengis. Við litum fremur á þetta sem þróunarverkefni, ef svo mætti segja, sem yrði náð í áföngum. Þess má geta hér að það var Kristín Halldórsdóttir, þáv. þingkona Kvennalistans, sem flutti þetta mál ásamt þrem þingmönnum úr öðrum flokkum. Málið fékkst þó ekki samþykkt.

    Þetta var fyrsti þátturinn sem ég vildi minnast á. Annar þátturinn, sem snýr að stjórnvöldum, er sá tvískinnungur og þau óljósu mörk sem hafa verið á heimildum manna til þess að nota áfengi og veita það á vegum ríkisins og það á kostnaðarverði. Er skemmst að minnast þeirra mála sem hafa legið fyrir dómstólum og snert ýmsa fulltrúa stjórnkerfisins á nýliðnum mánuðum. Það er því sannarlega kominn tími til þess að bregðast við með einhverjum hætti, einfalda þessar reglur, gera þær mjög skýrar og skírskota til fordæmishlutverks stjórnvalda um að draga úr eða hætta að veita áfengi á sínum vegum.
    En ég vil bara í örfáum orðum leggja áherslu á að ég tel að erindi þessa frv. sé brýnt. Þarna sé um málefni að ræða sem alþingismenn geti ekki komist hjá að veita athygli og veita brautargengi, annaðhvort í þeirri mynd sem það liggur fyrir nú eða þá gera einhverjar breytingar þar á sem þó gangi ekki á svig við meginerindi þessa frv.
    Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta mál í 1. umr.