Eftirlaun til aldraðra
Mánudaginn 11. desember 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar langar mig aðeins að vekja athygli á að stjórn Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar hefur sent frá sér greinargerð varðandi þetta mál. Þar koma fram sjónarmið sem ég treysti að verði athuguð gaumgæfilega í heilbr.- og trn. deildarinnar, en í henni á ég sæti og mun þá fá tækifæri til að fjalla ítarlegar um málið og þær spurningar og álitaefni sem eru og svara þarf.
    Fram kemur í nefndri greinargerð að þessi löggjöf hafi veruleg áhrif á starfsemi og fjárhagsstöðu Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar sem og allmargra annarra lífeyrissjóða. Mikilvægt er að kannaðar verði allar hliðar þessa máls og afstaða tekin samkvæmt því. Að svo komnu máli teysti ég mér að sjálfsögðu ekki til þess að taka afstöðu til málsins í heild.
    Skipan lífeyrismála og eftirlauna aldraðra er fjarri því að vera einföld og því bráðnauðsynlegt að fá gleggri upplýsingar um forsendur þeirrar framlengingar sem hér er lögð til og með hvaða hætti sú framlenging er, hvaða áhrif lögin geti haft á afkomu einstakra sjóða og þar með lífeyrisþega innan þeirra í þeirri mynd sem lagt er til að þessi lög verði framlengd.
    Upplýsingar sem staðgengill heilbr.- og trmrh. flutti hér í framsögu eru góðra gjalda verðar en einhverjum spurningum mun ósvarað enn.
    En ég ítreka: Þetta mál er hægt að kanna vel í nefnd og taka að því búnu þá afstöðu sem sanngjörnust er og leggja fyrir 2. umr. þessa máls.