Stjórnarráð Íslands
Mánudaginn 11. desember 1989


     Ragnhildur Helgadótir:
    Herra forseti. Það mál sem við fjöllum hér um og hefur nú þegar verið ítarlega rætt og það ekki að ástæðulausu er tvíþætt og um það verður í raun og veru ekki fjallað nema vikið sé einnig að því frv. sem var á dagskránni nú rétt á undan. Þessi mál eru órjúfanlega samantengd og því verður nokkuð vikið að þeim báðum. Málið er tvíþætt á þann veg að hér er verið að stofna nýtt ráðuneyti og ég mun leyfa mér að fjalla lítils háttar um þá ætlan hæstv. ríkisstjórnar í máli mínu hér á eftir og ástæðu til þess, hina pólitísku ástæðu, eins og hún lítur út frá sjónarmiði okkar margra. Hins vegar mun ég fjalla um efnislegar ástæður sem kunna að liggja til þess að stofnað sé sérstakt umhverfisráðuneyti og rekja rök bæði með því og móti og loks minnast á þá málaflokka sem taldir eru upp í frv. sem við fjöllum um nú undir þessum dagskrárlið, hvort nauðsyn beri til að þeir falli undir hið nýja væntanlega ráðuneyti.
    Nú er það auðvitað öllum ljóst að ástæðan til þess að gert er ráð fyrir að breyta stjórnarráðslögum nú er sú að áður hafði hæstv. ríkisstjórn samið um það við Borgfl., sem þá var utan ríkisstjórnar, að sá flokkur skyldi fá tvo ráðherra og breyta þar með andliti hinnar eldri ríkisstjórnar sem ríkti hér sl. vor. Að launum skyldi hann m.a. fá nýtt ráðuneyti sem heita skyldi ráðuneyti umhverfismála. Í ljós hefur komið, eins og bent hefur verið á hér í fjölmörgum ræðum, að mál þetta var í raun og veru hvorki efnislega athugað til fulls né heldur formlega. Það lá ekki fyrir þegar þessi ákvörðun var tekin að hæstv. ráðherrum væri ljóst að lagabreytingu þyrfti til. Kom þetta m.a. fram í fjölmiðlum. Síðan kom það fram að vitanlega yrði horfið að því ráði. Auðvitað getur það verið eðlilegt í miklum önnum að mönnum yfirsjáist það hvað sé í löggjöf okkar og hvað ekki og ekki nema þakkarvert ef menn vilja þar um bæta eins og vafalaust er verið að gera með því að leggja fram frv.
    Engu að síður er það afar sérkennilegt nú á dögum ef horfið verður að þessu ráði hér á landi því að hvaða rök liggja til þess að nú eigi að einangra umhverfismálin með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. sem við erum að fjalla um? Ætla menn að umhverfismálum verði betur stjórnað með því móti að færa þau inn í nýjar skrifstofur? Eða hafa menn hugsað sér að veita umhverfismálunum raunverulega meiri forgang en gert hefur verið og að verja raunverulega meira fé til þeirra, ýmiss konar mælinga, rannsókna og aðgerða sem gera þarf til þess að unnt sé að sinna ýmsum aðkallandi verkefnum á sviði umhverfismála?
    Ég óttast það að mönnum hafi farið svo um þetta mál eins og stundum áður að menn telji það hljóma mjög smekklega og aðlaðandi og gefi til kynna að menn hafi uppi stór áform ef menn segja að best sé að taka þessi mál nýjum tökum, skoða þau í heild og búa til nýtt ráðuneyti. Vandinn liggur ekki í þessu. Vandinn liggur ekki í þessu heldur allt öðrum hlutum. Það er vissulega hægt að samræma ýmsar aðgerðir á

sviði umhverfismála án þess að búa til sérstakt umhverfisráðuneyti. Það sem mestu skiptir er auðvitað þetta: Er umhverfisverndin í betra horfi eftir stofnun nýs ráðuneytis eða ekki? Mönnum verður það ljósara með hverjum mánuðinum, næstum hverjum deginum sem líður að umhverfismál tengjast þeim þáttum í lífi manna sem hafa mesta þýðingu, sem varða öll skilyrði til þess að lifa góðu og hamingjusömu lífi. Umhverfismálin eru órjúfanlega tengd ýmsum öðrum þáttum sem skipað er með sérstökum lögum undir stjórn þeirra sem fara með ráðuneyti þau sem nú starfa og hafa lengi starfað.
    Á sjöunda áratugnum var töluvert um það að menn töldu það í ýmsum löndum mikið snjallræði að stofna sérstök umhverfisráðuneyti. Menn tala um að til sannindamerkis um mikilvægi umhverfismálanna sé það, að þessi ráðuneyti hafi þanist út öðrum ráðuneytum fremur. Ja, við værum kannski ekki illa sett ef vandinn lægi einungis í því, en svo er að sjá sem hæstv. ríkisstjórn sé þeirrar skoðunar því auðvitað er þetta frv. útþenslufrv. Það er ný silkihúfa sem við höfum í raun og veru ekkert að gera með.
    Við skulum líta á seinasta fundinn sem haldinn var á vegum evrópskra heilbrigðisyfirvalda og fjallaði um umhverfismál, fund sem byggði á ítarlegum athugunum fjölmargra sérfræðinga, meðal bestu sérfræðinga í sínum greinum í álfunni og þó víðar væri leitað. Þetta var fundur sem Evrópuskrifstofa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gekkst fyrir og fjallaði um umhverfi og heilbrigði. Fundurinn var haldinn í Frankfurt nú í síðustu viku, sl. fimmtudag og föstudag, og var sameiginlegur fundur heilbrigðisráðherra og umhverfisráðherra þeirra landa sem eiga aðild að Evrópusvæðisskrifstofunni. Þau lönd eru 32 þannig að aðild eiga öll Vestur-Evrópuríkin og Austur-Evrópuríkin. Með öðrum orðum, allt það svæði sem við erum að laða til samstarfs, öll þau lönd sem er verið að laða til samstarfs um mikilvæg efni, allir þessir aðilar tóku þátt í þessum fundi enda eiga þeir aðild að Evrópusvæðisskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
    Ég átti þess kost að taka þátt í þessum fundi vegna þess að
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bauð þingi Evrópuráðsins að senda einn fulltrúa frá viðkomandi nefnd sem var heilbrigðis- og félagsmálanefnd ráðsins og það féll í minn hlut að sinna því verkefni. Mér finnst þess vegna við eiga að skýra Alþingi frá ýmsu mikilvægu sem kom fram á þessari ráðstefnu því að það skiptir verulegu máli í sambandi við það efni sem við erum nú að fjalla um.
    Ástæðan til þess að þessi ráðstefna var haldin með þessum hætti var vinna Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að því að tengja sem allra nánast störf að heilbrigðismálum og störf að umhverfisvernd. Það var grunntónninn í þessum fundi að heilbrigði og umhverfi væru órjúfanlega tengd hvar sem við lítum í kringum okkur og einnig að því er varðar rannsóknir og stjórnun. Það kom meira að segja fram hjá sumum að þeir teldu að þessir

málefnaþættir ættu að vera undir einni og sameiginlegri stjórn.
    Nú var auðvitað tækifæri til þess að heyra ýmis sjónarmið um þetta efni frá öllum þessum löndum. Flest löndin sendu heilbrigðisráðherra sína, og ég held öll, nokkur þeirra sendu umhverfisráðherra líka og þegar ég las þátttakendalista sem lá í fundargögnum þegar ég kom til fundarins sl. miðvikudagskvöld blasti við mér listi yfir þátttakendur frá Íslandi. Þar stóð Guðmundur Bjarnason heilbrrh., Dögg Pálsdóttir, deildarstjóri í heilbrrn., og Júlíus Sólnes umhverfisráðherra.
    Þeir sem ég hafði áður hitt á ýmsum fundum og ég ræddi við fyrir upphaf fundar næsta morgun, eins og gengur, voru mjög forvitnir að sjá herra ráðherra Sólnes eins og þeir sögðu. ,,Hvar er herra Sólnes? Gætuð þér sýnt mér hann,,, sögðu þessir samstarfsmenn okkar. Og það gat ég vel því að ráðherra Sólnes sat á ráðherrabekk við hlið Guðmundar Bjarnasonar og þar sáu þeir þann ráðherra sem hafði á þessari þátttakendaskrá titilinn umhverfisráðherra Íslands. Ég var jafnvel spurð um það hvort lögunum hefði verið breytt þennan dag --- ég kom ekki fyrr en mjög seint um kvöldið til fundarins --- eða hvort það stæði til daginn eftir. Þarna voru þátttakendur sem fylgdust það vel með störfum þjóðþinga í aðildarlöndunum að þeir vissu að þessi mál voru til umfjöllunar hér á Alþingi. Ég sagði að svo væri ekki og fór síðan að sinna einhverju öðru því að, eins og skiljanlegt er, kærði ég mig ekki um að ræða það mikið meir á þessu stigi málsins því að það var sannast sagna ekki alveg á hreinu fyrir mér hvernig heimildum var háttað að þessu leyti. Og mér þætti vænt um að fá það skýrt frá hæstv. forsrh. hvernig reglur gilda að þessu leyti til. Þetta er dálítið óþægileg aðstaða þegar maður sér í erlendum fundargögnum að kominn er umhverfisráðherra á Íslandi, og ekki nóg með það, þar var tekið fram hvar þetta ráðuneyti væri til húsa því undir stóð: Sölvhólsgötu 4. Nú hef ég ekki komið þar afar lengi, ekki síðan ég kom á vinnustaðafund fyrir kosningar í starfsmannahóp Sambandsins. Það er búið að breyta þessu húsi mikið, er mér sagt, og hvort búið er að innrétta þar umhverfisskrifstofu það skal ég ekki segja, en það væri auðvitað gott að fá það upplýst.
    En það er auðvitað ekki aðalatriði málsins hvaða titil menn skrifa í slíkar skrár því að hið rétta kemur auðvitað ævinlega fram á sínum tíma og vel má vera að þetta eigi einhvern tímann eftir að leiðréttast af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það sem er hins vegar aðalefni þessa máls er það sem þessi fundur fjallaði um sem er tengsl heilbrigði og umhverfis og þetta skiptir svo miklu máli að ég tel afar örðugt að ræða þetta mál að hæstv. heilbrrh. fjarverandi því að það var hann sem flutti aðalræðuna af Íslands hálfu á þessum fundi. Hæstv. hagstofuráðherra flutti örstutta ræðu eftir að hæstv. heilbrrh. hafði lokið sinni ræðu en það var eina landið þar sem tveir ráðherrar voru á mælendaskránni. Frá hinum löndunum talaði einn ráðherra fyrir hvert og yfirleitt heilbrigðisráðherrann

nema í lokin talaði umhverfisráðherrann fyrir hönd Austurríkis, eins og óundirbúinn, eftir að heilbrigðisráðherrann hafði lokið sínu máli.
    Hæstv. forseti sér af þessu sem ég hef nú verið að segja að á þessum fundi var fjallað um umhverfismálin fyrst og fremst frá heilbrigðissjónarmiði. Það er alveg ljóst að það er sá þáttur sem varðar einstaklingana mestu, líf hvers og eins, heilsu hans, starf og leik. Þess vegna vil ég nú spyrja hæstv. forseta hvort það muni vera hægt að fresta þessari umræðu þar til hæstv. heilbrrh. er við. Ég á von á því að hann hafi áhuga á að tjá sig um þetta mál á þessu stigi þar eð nú á þessum fundi kom samstarf yfirvalda heilbrigðismála um þessi efni mjög greinilega fram. Þar var gerð ný samþykkt, sáttmáli nánast, þessara sömu ráðherra um heilbrigði og umhverfi í Evrópu. Ég veit ekki hversu mikið hefur verið sagt frá þessum sáttmála í fjölmiðlum hér á Íslandi en hann vakti mikla athygli í fjölmiðlum erlendis, sérstaklega í Þýskalandi, enda skipta þessi mál mjög miklu þar, að því er varðar heilbrigði manna, og þess vegna er það að ég leyfi mér að fara fram á það að umræðunni verði frestað þar til hæstv. heilbrrh. getur verið við. Ég hygg að hann verði á fundi á miðvikudaginn án þess að ég hafi nú umboð til að skýra frá því. En ég vissi það að hæstv. heilbrrh. þurfti að sinna erindi ráðuneytisins í Lúxemborg nú í dag og hefði ég ætlað að hann kæmi í kvöld eða á morgun þannig að ef fundur er í Sþ. á morgun mundi e.t.v. vera hægt að halda áfram umræðunni á miðvikudag
eða í kvöld ef hæstv. ráðherra kemur síðdegis í dag. ( Forseti: Heilbrrh. hefur fjarvistarleyfi og er með varamann í þinginu. Ég beini því til ræðumanns hvort staðgengill heilbrrh. getur gegnt skyldum hans í hans fjarveru.) Herra forseti. Það held ég að sé alveg útilokað því að það sem ég ætlaði að ræða byggist á ráðstefnunni sem fram fór í síðustu viku og þætti heilbrigðisyfirvalda í henni. Varamaður ráðherrans getur auðvitað ekki svarað um þetta atriði á neinn hátt né heldur geri ég ráð fyrir að hæstv. sjútvrh. hafi náð að setja sig inn í það efni sem þarna var rætt. ( Forseti: Forseti telur eftir atvikum rétt að gera stutt hlé á umræðu um þetta mál og biður ræðumann að gera hlé á ræðu sinni en vill gefa hæstv. hagstofuráðherra færi á að svara þeim fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint í þessari umræðu ef hann óskar eftir því. Sá forseti sem hér er mun ekki taka endanlega ákvörðun um dagskrá þessa fundar en vill verða við tilmælum um að gera hér hlé á þangað til honum hefur gefist tækifæri til að ráða betur ráðum sínum.) Ég þakka fyrir það og ég skil það. Ég hef ekki tilhneigingu til þess að tefja málið þess vegna. Það hefur þegar dregist nokkuð. Ég hygg hins vegar allt að því óviðurkvæmilegt að hæstv. heilbrrh. sem var á þessum mikilvæga ráðherrafundi í síðustu viku og stóð að nýjum sáttmála um heilbrigði og umhverfi í Evrópu fái ekki tækifæri til þess að taka þátt í þessari umræðu áður en málið fer til nefndar.