Stofnun og slit hjúskapar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ekki skal ég orðlengja mikið um þetta litla frv. Vissulega ber að virða það að fólki sé gert að hugsa vel sinn gang áður en til hjúskaparslita kemur og ekkert finnst mér óeðlilegt að það fólk sem hefur gott samband við sóknarprest sinn leiti ásjár þegar slíkur vandi steðjar að. En ég hlýt að draga aðeins í efa að svokallað yfirvald, þ.e bæjarfógetar, sýslumenn, yfirborgardómari og borgardómarinn í Reykjavík og lögeglustjórinn á Keflavíkurflugvelli séu sérstaklega hæfir til þess að tala milli hjóna. Ef meiningin er að þessi ráðgjöf sé einungis um hina lagalegu hlið málsins er það auðvitað fullkomlega eðlilegt, en hingað til hef ég nú skilið þessa ráðgjöf svo, að hún sé kannski einnig um tilfinningamál og þann vanda sem steðjar að fjölskyldu sem stendur frammi fyrir því að leysast upp, vandamál barna og raunar miklu fleiri aðila sem koma inn í málið þegar um hjúskaparslit er að ræða, einmitt það fólk sem oft gleymist, ömmur og afa og fjölskyldu utan heimilisins.
    Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Úr því að verið er að breyta þessum lögum, og vissulega var ég sammála því á sínum tíma þegar sáttanefnd svokölluð var lögð niður sem var mjög vandræðalegur aðili í þessum málum, hvers vegna förum við þá ekki yfir í það að hjón sem hyggjast slíta samvistum eða sjá ekki aðra leið snúi sér til fólks sem hefur einhverja faglega menntun í þessum málum? Þá á ég við félagsráðgjafa eða þær stofnanir á vegum félagsmálaráða sem ég tel miklu líklegri til þess að vera færar um að veita þessa ráðgjöf. Mér er alveg fyrirmunað að skilja að bæjarfógetar og sýslumenn séu sérdeilis vel til þess hæfir.
    Ég vildi nú bara skjóta þessu hér inn vegna þess að þetta kemur mér satt að segja dálítið spánskt fyrir sjónir.