Stofnun og slit hjúskapar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Þessi athugasemd hv. 13. þm. Reykv. er sjálfsagt hin besta og í sjálfu sér hef ég lítið við hana að athuga. Ég býst við því að sú breyting sem hér er lögð til hafi fyrst og fremst komið til vegna þess að sáttanefndir eru af lagðar og ýmsum hafi þótt nokkur --- ég veit ekki hvort á að segja einsýni í því að eingöngu væri hægt að leita til presta í þessu efni eða forstöðumanna trúfélaga og þess vegna hafi það verið lagt til sem frv. gerir ráð fyrir. Út af fyrir sig hefði ég ekkert við það að athuga í frekari vinnslu sifjalaganefndar í þessu efni að athugasemdir hv. þm. yrðu þar teknar til greina.
    En eins og ég gat um fyrr í máli mínu er hér aðeins um bráðabirgðabreytingu að ræða frá ástandi sem ekki er talið alveg viðunandi í dag.