Framhald umræðu um umhverfismál
Mánudaginn 11. desember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Ég hafði ekki alveg lokið ræðu minni hér í dag þegar gert var hlé vegna afgreiðslu og atkvæðagreiðslna og síðan þingflokksfunda. Ég átti að vísu ekki langt mál eftir, en mér þykir afar slæmt að það verði sundurslitið nú og einkanlega vegna þess, og sú er ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs um þingsköp, að það er enn ríkari ástæða til þess en ella að óska eftir því að fá að halda þeirri umræðu áfram nú, eða a.m.k. ljúka þeirri ræðu. Ástæðan er sú að það kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að verið væri að athuga um stofnun alþjóðlegrar umhverfisrannsóknastöðvar á Íslandi. Mér skildist á fréttinni að þar væri um að ræða sjávarrannsóknir fyrst og fremst. Það er auðvitað of seint að segja það nú en það hefði verið viðeigandi að þingmönnum hefði verið skýrt frá þessu hér í dag fyrst málið er komið svo langt að skýrt er frá því í fjölmiðlum og það af þeim ráðherra sem málið heyrir ekki undir að því er ég best veit. Ég veit ekki betur en að sjávarrannsóknir, hafrannsóknir og slíkt heyri undir hæstv. sjútvrh. En ég tel að þingmenn eigi kröfu á því að jafnstórt mál og þarna var hreyft verði upplýst hér fyrir hv. alþm. og við fáum að vita hvað hér er á ferðinni.
    Ég tel að við séum höfð að fíflum --- ég bið hæstv. forseta afsökunar á orðbragðinu en ég verð að segja það, þegar hæstv. forsrh. og sá hæstv. ráðherra sem kallar sig ráðherra umhverfismála þó að hann sé ekki orðinn það
tjá sig báðir hér í umræðum í dag um umhverfismál og nefna ekki þetta mál einu orði sem mér skilst svo að hafi verið rætt á fundum með erlendum aðilum síðdegis í dag. Ég veit ekki til að utanrmn. eða neinir þingmenn hafi fengið neitt um þetta að vita. Mér þætti mjög nauðsynlegt ... ( Gripið fram í: Hvaða mál er á dagskrá?) Þetta er ræða um þingsköp sem þingmaðurinn er að halda nú vegna þess að það átti að taka fyrir allt önnur mál en að leyfa þingmanninum að ljúka ræðu sinni sem hér stóð yfir í dag, ég átti að vísu skammt eftir af henni, en það kom upp þetta nýja tilefni til þess að æskja skýringa frá þeim hæstv. ráðherrum sem tóku hér þátt í umræðum í dag og þá sérstaklega hæstv. sjútvrh. sem mætti gerst um þetta mál vita, hvað fyrirhugað er að gera í athugun á og stofnun alþjóðlegrar umhverfisrannsókna- eða mengunarrannsóknastöðvar sem fyrst og fremst veit að rannsóknum í sjó. Ég tel að hér sé um svo stórt mál að ræða að Alþingi eigi rétt á að því sé skýrt frá því. Ef það gerist ekki þá er hér enn eitt hrópandi dæmið um nýstárleg viðhorf þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem er þingræðisstjórn. Hún nýtur meirihlutastuðnings Alþingis en hún sýnir aftur að móti Alþingi takmarkaða virðingu.