Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Í fjarveru hæstv. landbrh. hef ég verðið beðinn um að mæla hér fyrir frv. til laga um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar. Frv. hefur þegar fengið meðferð í hv. Ed. og hlaut þar samhljóða afgreiðslu.
    Efnisatriði frv. eru glöggt greind í athugasemdum með frv. og það má segja að þau séu eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni verði heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem loðdýrabændur taka í stað lausaskulda sem myndast hafa vegna loðdýrabúskapar þeirra á árunum 1986--1989 og í frv., eins og það lítur nú út eftir meðferð hv. Ed., er gert ráð fyrir að hámarkstala þessara sjálfskuldarábyrgða geti numið 300 millj. kr. en í upphaflegri gerð frv. var gert ráð fyrir 280 millj. kr. í þessu skyni.
    Í frv. er gert ráð fyrir að lánin verði til 15 ára, þau verði verðtryggð með lánskjaravísitölu og 5% vöxtum og endurgreiðslutími lánanna verði 12 ár.
    Þá er sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs bundin því skilyrði að hún verði því aðeins veitt að með henni reynist unnt að koma rekstri viðkomandi bús í viðunandi horf eða forsendur séu fyrir hendi fyrir lántakanda að greiða af skuldum sínum með öðrum hætti. Enn fremur er í frv. gert ráð fyrir því að fyrirgreiðslan megi ná til allt að 60% af þeim lausaskuldum hvers bónda sem
uppfylla skilyrði 1. mgr. þessa frv., enda breyti viðkomandi lánardrottnar því sem eftir stendur í lán til a.m.k. 8 ára gegn þeim tryggingum sem þeir meta gildar.
    Í frv. er gert ráð fyrir að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafi á hendi umsjón með þessum skuldbreytingum og í 2. gr. frv. er Stofnlánadeild landbúnaðarins heimilað að fella niður verðtryggingu og vexti og fresta greiðslu afborgana af lánum til bænda vegna loðdýrabúa á næstu fimm árum. Enn fremur er deildinni samkvæmt frv. eins og það lítur nú út heimilt, þegar
hagsmunum hennar er betur borgið með þeim hætti, að fella niður hluta höfuðstóls annarra veðskulda loðdýrabænda.
    Í grg. með frv. kemur það fram hvernig til þess er stofnað, að það byggist að nokkru leyti á skýrslu vinnuhóps sem landbrh. skipaði 6. sept. 1989 og enn fremur byggist það á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 28. nóv. 1989 sem kveður á um greiðslujöfnunargjald á fóður, þátttöku Framleiðnisjóðs í fjárhagslegri endurskipulagningu og skuldbreytingum og möguleika Jarðeigna ríkisins og Jarðasjóðs til að aðstoða við endurskipulagningu loðdýraræktar. Þessi nefndarsamþykkt ríkisstjórnarinnar er birt sem fylgiskjal með frv. þessu.
    Með hliðsjón af því að málið er kunnugt, bæði af umræðum í fjölmiðlum svo og meðferð þess í hv. Ed., tel ég ástæðulaust að fjölyrða frekar um það á þessu stigi, hæstv. forseti, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv.

landbn.