Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 11. desember 1989


     Þóra Hjaltadóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og margoft hefur komið fram í ræðum manna hér eru helstu tekjuliðir ríkissjóðs beinir og þó einkum óbeinir skattar og sýnist sitt hverjum, hvor tegundin sé réttlátari. Skipting þessara skatta innbyrðis á fólkið í landinu er alltaf umdeild og þá er ekki síður deilt um hver niðurskurður ríkisútgjaldanna skuli vera. Tilhneiging manna er að lækka alla skatta en hvergi má draga saman í opinberri þjónustu eða hætta við fjárfestingar. Menn virðast slíta úr samhengi tengslin á milli þessara þátta, kannski af ásettu ráði. Þessi óábyrga afstaða er eilítið kyndug þegar tekið er tillit til þess að þeir hinir sömu tala við hvert tækifæri um það að þeir sem við lakari kjörin búa verði að fá meira til sín en hinir sem meira hafa. Fólk verður þó að gera sér grein fyrir að fjárlagahallinn er versti óvinur launafólksins þar sem hallinn kyndir upp verðbólguna og rýrir þar með kaupmáttinn og kemur þannig verst við lægra launað fólk sem ekki hefur aðstöðu til að skammta sér sjálft vinnu og laun.
    Tekjuskatturinn er ekki það jöfnunartæki í reynd sem mörg okkar hefðu kosið, en þar til við höfum fundið og komið okkur saman um aðra betri tekjuöflunarleið fyrir sameiginlega kassann sem nefnist ríkissjóður verðum við að reyna að láta skattheimtuna koma sem réttlátast niður á þegnana. Það er erfitt að taka afstöðu til fram kominna breytinga á tekjuskattinum þar sem ekki einu sinni hagfræðingar stærstu launþegasamtakanna koma sér saman um hvar þeir komi verst niður. Síðustu mánuði hefur kaupmáttur launafólks rýrnað allverulega og ekki er fyrirsjáanlegt, með hliðsjón af umræðunni um komandi kjarasamninga, að þeir breyti þar miklu um til hækkunar, a.m.k. ekki með beinum kauphækkunum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé fullt tilefni til að endurskoða fram komið frv. um tekju- og eignarskatt með það að markmiði að hækka skattleysismörk allverulega. Einnig tel ég að það þurfi að breyta reglum um persónuafsláttinn þannig að hann sé reiknaður út
fjórum sinnum á ári en ekki tvisvar eins og nú er.
    Til að ná fram sparnaði á móti vil ég nefna tekjutengingu barnabóta líkt og gert er með barnabótaaukann. Hækka þarf eflaust skattaprósentuna eitthvað, enda væru laun undir framfærslumörkum skattfrjáls og réttlætismál tel ég vera að hafa tvö skattþrep. Enn fremur vil ég nefna eignarskattinn. Ég er alfarið á móti þeirri lækkun sem er boðuð í framlögðu frv. Tekjutenging eignarskatts er mjög til bóta, en álagsprósentan á að vera sú hin sama og var. Tekjutengingin tekur fullt tillit til eldra fólks sem er tekjulítið. Þannig á að vera búið að setja undir þann leka að fólk neyðist til að selja eigur sínar vegna skattbyrðar. Eignarskatturinn er réttlátari en margar aðrar tekjuöflunarleiðir þar sem gjaldstofninn er skuldlaus eign. Af hverju á ekki að leita til þeirra sem hafa haft betri möguleika en aðrir til eignaaukningar, svo að ekki sé talað um þá sem komist hafa yfir

miklar eignir vegna niðurgreidds fjármagns og neikvæðra vaxta? Ef menn vilja í alvöru gæta hagsmuna efnaminna fólks sem jafnvel er að koma sér upp húsnæði, fjármagnað með miklum og dýrum lánum, skulu menn veðja á eignarskattinn en tekjutengdan.
    Að lokum vil ég nefna enn eina tekjuöflunarleið en það er erfðafjárskatturinn. Erfingjar hafa sjaldnast aflað eignanna sem þeir erfa og flest okkar þurfa á aukinni samfélagslegri aðstoð að halda á efri árum en þá þjónustu væri með auknum tekjum hægt að auka. Vegna þessa tel ég að þennan skatt megi nota í ríkara mæli og lækka tekjuskatt á móti.