Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Fjvn. Alþingis hefur nú lokið störfum fyrir 2. umr. fjárlagafrv. Nefndin flytur brtt. sínar við 2. umr. og eru þær á þskj. 279.
    Í fskj. með nál. meiri hl. fjvn. eru að venju ítarlegar skýringar við sérhvern lið brtt. Brtt. á þskj. 279 eru fluttar af fjvn. allri, en fulltrúar minni hl. í fjvn., þau Pálmi Jónsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Friðjón Þórðarson og Egill Jónsson, hafa að sjálfsögðu eðlilegan fyrirvara um þann tillöguflutning. Áður en ég vík að brtt. vil ég ræða lítið eitt vinnubrögð fjvn. og þau meginatriði sem fyrir nefndinni hafa vakað í vinnu hennar að þessu sinni.
    Fjvn. Alþingis kom saman til nokkurra funda í þinghléinu í sumar eins og vani hefur verið og hefur nefndin gert það jafnvel þó svo fjvn. Alþingis sé formlega ekki til frá því að þingslit fara fram að vori og þangað til ný fjvn. er kosin að hausti. Á fundum nefndarinnar í sumar hafa verið rædd ýmis mál tengd fjárlagavinnunni og einnig hefur nefndin á þeim fundum sinnt eftirlitshlutverki sínu og auk þess átt fundi með fjmrh. um nokkur viðfangsefni.
    Reglulegir fundir fjvn. til undirbúnings fjárlagaafgreiðslunnar hófust hins vegar þann 2. okt. sl. eða nokkru áður en Alþingi var kvatt saman. Þótt nefndin sé formlega ekki til fyrr en hún hefur verið kosin á haustþingi eru þetta óhjákvæmileg vinnubrögð og þyrfti fjárlagavinnan á vegum fjvn. raunverulega að hefjast allnokkru fyrr ef vel ætti að vera. Á fundum fjvn. frá því að þeir hófust með reglubundnum hætti þann 2. okt. sl. og þar til fjárlagafrv. var lagt fram eftir að þing kom saman vann nefndin við að veita viðtöku erindum sveitarstjórna og veita sveitarstjórnarmönnum viðtal. Að venju
gengu á fund nefndarinnar fulltrúar fjölmargra sveitarfélaga, því sem næst allra hinna stærri sveitarfélaga í landinu, og auk þess fjölmargir fulltrúar kaupstaðahreppa og sveitahreppa.
    Að loknum fundunum með sveitarstjórnum hófst fjvn. svo handa um yfirferð frv. og eftir að hafa yfirfarið frv. kallaði nefndin fyrir sig ráðuneyti og stofnanir. Þar að auki voru fjölmargir aðilar sem óskuðu eftir fundum með nefndinni til þess að koma á framfæri beiðnum, ýmist um leiðréttingar á áætlunum frv. eða beiðnum um aukið umfang í rekstri eða stofnkostnaði.
    Í þessum viðtölum hefur fjvn. haft þann háttinn á að hafa viðstadda fulltrúa þess fagráðuneytis sem þau viðfangsefni heyra undir sem rædd eru hverju sinni, og auk þess eru viðstaddir á fundum fjvn. fulltrúar Fjárlaga- og hagsýslustofnunar sem unnið hafa tillögurnar um meðferð mála í fjárlagafrv. og fulltrúi Ríkisendurskoðunar, en sú stofnun fylgist með framkvæmd fjárlaga og gefur skýrslur þar um til Alþingis.
    Öll þessi vinna nefndarinnar hefur verið hefðbundin en þó hefur umfang þessara viðtala og fjöldi erinda sem nefndinni berast stöðugt verið að aukast. Meiri og meiri tími fer í að sinna þessum viðtölum og til þess

að ráða við það viðfangsefni hefur fjvn. skipt sér í undirhópa, bæði að því er varðar viðtöl við aðila og eins við vinnu að tillögugerð um skiptingu fjárveitinga til stofnkostnaðar. Þrátt fyrir þetta verða viðtölin við stofnanir ríkisins og þá aðila sem óska viðtals við nefndina stöðugt tímafrekari og afleiðingarnar eru þær að sífellt skerðist sá tími sem nefndin hefur til ráðstöfunar til þess að undirbúa tillögugerð um afgreiðslu fjárlaga eftir að viðtölum lýkur.
    Þrátt fyrir það að menn sætu yfir þessu verkefni lon og don og fjvn. skipti sér upp í undirnefndir til að flýta þessari vinnu lauk viðtölum nefndarinnar ekki fyrr en um mánaðamótin nóvember/desember og voru þá aðeins fáir dagar eftir fyrir nefndina til að vinna að tillögugerð. Þegar fjvn. lauk við þennan þátt í störfum sínum, þ.e. viðtölum við stofnanir, samtök og einstaklinga, hafði hún veitt viðtöku erindum frá 530 aðilum og rætt við þá allflesta, suma oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
    Í þessum 530 erindum var alls fjallað um afgreiðslu á 1403 viðfangsefnum og samanlögð fjárhæð beiðna um fjárveitingar umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. nam 10 milljörðum 293 millj. kr. Námu erindin til nefndarinnar því tífalt hærri upphæð en þeirri sem fjvn. nú leggur til að afgreidd verði.
    Þá hafa nefndinni einnig nú á síðustu dögum borist fjölmörg erindi frá einstökum ráðuneytum og þau erindi hafa verið að berast nefndinni allt fram á síðasta afgreiðsludag og varða sum hver mjög verulegar fjárhæðir. Þessi erindi eru ekki meðtalin í þeim upplýsingum um fjölda erinda og samanlagðan fjárhag beiðna sem ég gat um hér áðan.
    Þessi hefðbundna vinna fjvn. sem fer ört vaxandi ár frá ári skapar stöðugt aukið vinnuálag á nefndina og starfsmenn hennar. Ofan á þessa hefðbundnu vinnu bættist svo það að í upphafi haustþings var ríkisreikningur fyrir árið 1988 lagður fram á Alþingi og auk hans skýrsla Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings með athugasemdum er varða rekstur ríkisins og stofnana þess á því ári.
    Samfara hinni hefðbundnu fjárlagavinnu hafa ríkisreikningurinn fyrir árið
1988 svo og athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna verið tekin til sérstakrar meðferðar hjá fjvn. og hefur sú skoðun leitt til ýmissa athugasemda og frekari eftirgrennslana hjá nefndinni. Þessu til viðbótar lagði hæstv. fjmrh. svo fram eins og kunnugt er frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 og er það nýmæli og markar tímamót í fjárlagavinnu á Alþingi Íslendinga. Fjvn. hefur einnig haft þetta frv. til meðferðar og hefur það verið tekið til mjög rækilegrar skoðunar hjá nefndinni. Það er ásetningur fjvn. að ljúka einnig meðferð þessa máls fyrir jólaleyfi þingmanna og leggja fyrir þingið tillögur sínar um afgreiðslu frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 þannig að Alþingi geti afgreitt það mál á tilsettum tíma fyrir jólaleyfi eins og ég tel að því beri skylda til að gera.
    Þegar þessi vinna hefur bæst við stöðugt vaxandi verkefni fjvn. vegna hefðbundinnar afgreiðslu

fjárlagafrv. hafa afleiðingarnar orðið þær að fjárveitinganefndarmenn hafa verið bundnir við störf í nefndinni í allt haust --- svo bundnir að þeir hafa vart komið því við að sinna öðrum viðfangsefnum á Alþingi. Þannig hafa nefndarmenn ekki getað mætt á fjölmörgum fundum í þinginu, bæði í sameinuðu þingi og deildum, og hafa losnað meira og minna úr tengslum við þá umræðu og þær afgreiðslur sem hér hafa farið fram. Er þetta að sjálfsögðu ekki gott, hvorki fyrir þá þingmenn sem sitja í fjvn. og vilja taka þátt í öðrum störfum Alþingis né heldur fyrir Alþingi sjálft að níu þingmenn skuli vera svo bundnir við þau störf sín. Er vinnuálagið á nefndinni raunar orðið svo mikið að lítið sem ekkert má út af bera til þess að nefndin fái lokið störfum sínum við gerð fjárlaga, yfirferð ríkisreiknings og afgreiðslu fjáraukalaga með sæmilegum hætti og á tilsettum tíma.
    Það er einkum tvennt sem veldur því að þetta getur tekist þrátt fyrir allt. Það er í fyrsta lagi að fjvn. hefur á að skipa mjög góðu starfsliði og samstarfsfólki sem lagt hefur sig fram um að vinna fyrir nefndarmenn. Er hér um að ræða það starfsfólk Alþingis sem unnið hefur með nefndinni og þá ekki síður starfsfólk Ríkisendurskoðunar undir forustu vararíkisendurskoðanda og starfsfólk Fjárlaga- og hagsýslustofnunar undir forustu hagsýslustjórans. Þetta fólk hefur unnið nótt með degi nú undanfarna sólarhringa og varla vikið af vinnustað. Vil ég fyrir hönd nefndarinnar færa þessu fólki sérstakar þakkir og vil ég þar sérstaklega nefna til starfsfólk Alþingis í Austurstræti, Indriða Þorláksson hagsýslustjóra og starfsfólk hans, Sigurð Þórðarson vararíkisendurskoðanda og starfsfólk Ríkisendurskoðunar og síðast en ekki síst Sigurð Rúnar Sigurjónsson, starfsmann fjvn., en segja má að hann hafi haft aðsetur á skrifstofum fjvn. undanfarna sólarhringa.
    Störf fjvn. Alþingis eru mjög yfirgripsmikil og tímafrek og þar veltur á öllu að nefndin hafi aðgang að þeim aðilum sem vinna annars vegar við fjárlagagerðina á vegum framkvæmdarvaldsins og sinna hins vegar eftirlitshlutverki og skýrslugerð um framkvæmd fjárlaga á vegum Alþingis. Í þessum stofnunum tveimur, Fjárlaga- og hagsýslustofnum og fjmrn., annars vegar og Ríkisendurskoðun hins vegar er það fólk sem mesta og besta þekkingu hefur á hinum einstöku viðfangsefnum ríkisins og stofnana þess og mesta heildaryfirsýn yfir þau viðfangsefni.
    Þegar fjvn. þarf að kalla eftir upplýsingum og svörum við fyrirspurnum nefndarinnar eða einstakra nefndarmanna á þeim nauma tíma sem nefndin hefur skiptir það öllu máli að fá svörin fljótt og greiðlega og frá þeim aðilum sem bestar upplýsingar hafa og er enginn vafi á því að þeir aðilar eru Fjárlaga- og hagsýslustofnun annars vegar og Ríkisendurskoðun hins vegar.
    Það er afdráttarlaus skoðun mín og að ég held allra nefndarmanna í fjvn. að án náinnar og daglegrar samvinnu við þessar tvær stofnanir geti fjvn. Alþingis ekki unnið sín verk og verður það samstarf seint

metið að verðleikum. Það er þess vegna eindregin skoðun þeirra þingmanna sem nú sitja í fjvn. að það beri að efla og styrkja þetta samstarf jafnframt því sem athuga beri með hvaða hætti Alþingi sjálft getur treyst og aukið sjálfstæði sitt og sjálfræði í stjórnkerfinu.
    Hitt atriðið sem úrslitum ræður um hvort fjvn. takist að ljúka störfum á jafnskömmum tíma og hún hefur nú orðið til ráðstöfunar er að gott samstarf takist innan nefndarinnar á milli meiri hl. og minni hl. Slíkt samstarf hefur tekist. Vissulega eru skiptar skoðanir og ágreiningur um stefnumál á milli fulltrúa meiri hl. annars vegar og minni hl. hins vegar. En sá ágreiningur hefur aldrei torveldað störf fjvn. með einum eða neinum hætti heldur hafa fulltrúar minni hlutans í nefndinni þvert á móti gert sér far um að greiða fyrir störfum hennar og reynt að auðvelda hennar störf og oft lagt margt gott til mála. Vil ég fyrir hönd okkar í meiri hl. þakka nefndarmönnum í minni hl. fjvn. fyrir ágætt samstarf og góð samskipti og mikinn skilning á því erfiða hlutverki sem nefndin hefur þurft að sinna við þröngar aðstæður.
    Eftir þá reynslu sem menn hafa nú fengið af störfum nefndarinnar eftir að við hefðbundin viðfangsefni hennar bætist yfirferð yfir ríkisreikning liðins árs og umfjöllun fjárlaga yfirstandandi árs, en á því verður efalaust framhald hér eftir, þá er óhjákvæmilegt að menn hugi að breytingum á starfsemi
nefndarinnar. Tími er nú til þess kominn að sú breyting verði gerð á lögum um þingsköp Alþingis að fjvn. verði gerð að heilsársnefnd eins og utanrmn. er þannig að nefndin geti starfað með formlegum hætti á milli þinga.
    Þá ber þess einnig að geta að á þeim tímum þegar fjölmiðlar virðast eiga greiðan aðgang að trúnaðarupplýsingum, þá hafa trúnaðarmál verið sérstaklega vel varðveitt í fjvn., enda byggist samstarfið í nefndinni á því að fullur trúnaður ríki innan hennar.
    Jafnhliða því sem fjvn. yrði gerð að heilsársnefnd þyrfti að kveðja nefndina fyrr til starfa á haustin en gert er og veita henni þá aðgang að ýmsum atriðum í undirbúningi stjórnvalda að fjárlagatillögum þannig að þegar fjárlagafrv. væri lagt fram á Alþingi væri fjvn. lengra komin í vinnu sinni við að skoða meginatriði í fjárlagatillögunum en getur gerst með því fyrirkomulagi sem ríkt hefur til þessa. Forsenda fyrir slíkum breytingum er auðvitað sú að fjvn. fái trúnaðarupplýsingar á meðan frv. til fjárlaga er í vinnslu og að nefndin varðveiti þann trúnað.
    En það er ekki bara svo að framlagning frv. til fjáraukalaga fyrir yfrstandandi ár og framlag ríkisreiknings auki á vinnu fjvn. heldur auðveldar það nefndinni einnig vinnu hennar við fjárlagagerðina og gerir jafnframt meiri kröfur til nefndarinnar um vönduð vinnubrögð og vinnuframlag.
    Ef spurt er um hvort fjárlagaafgreiðsla á Alþingi sé marktæk og traust er fyrst og fremst verið að spyrja um hvort grunnur áætlunargerðarinnar í fjárlögum sé

rétt lagður. Sá grunnur í frv. til fjárlaga, þ.e. spá um útgjöld ríkisins á komandi ári miðað við óbreyttan rekstur, kemur auðvitað hvergi betur fram en í þeim upplýsingum sem fást úr nýjasta ríkisreikningi og fjáraukalögum yfirstandandi árs um rekstrarumfang stofnana og kostnað viðfangsefna. Á þeim upplýsingum eiga menn að byggja áætlun fjárlaga um útgjöld ríkisins og stofnana þess. Slíkt kemur í veg fyrir þá hættu sem vissulega hefur verið og er fyrir hendi að vanáætlanir um launagjöld eða rekstrarumfang stofnana gangi aftur ár eftir ár í fjárlagagerðinni og komi svo stöðugt fram sem halli þegar ríkisreikningur er gerður upp í árslok. Til þess að leiðrétta slíkar innbyggðar skekkjur er því nauðsynlegt að menn byggi áætlunargerðina um útgjöld ríkisins og stofnana þess á niðurstöðum reynslunnar, en til frásagnar um þá reynslu eru ríkisreikningar þess árs sem síðast leið og upplýsingar úr ríkisbókhaldi um framvinduna á því ári sem er að líða. Með þeirri breytingu sem hæstv. fjmrh. hefur gert með því að leggja fyrir Alþingi í upphafi haustþings bæði ríkisreikning sl. árs og frv. til fjáraukalaga líðandi árs, þá hefur ráðherrann gerbreytt aðstöðu fjvn. og Alþingis til þess að áætla réttar en gert hefur verið.
    Við þessa yfirferð fjárlagafrv. fyrir árið 1990 sem nú hefur átt sér stað hefur fjvn. eftir föngum reynt að viðhafa slík vinnubrögð. Áður en til afgreiðslunnar var gengið í nefndinni hafði hún farið vandlega yfir ríkisreikninginn fyrir 1988 og athugasemdir yfirskoðunarmanna og Ríkisendurskoðunar þar við og einnig hafði nefndin skoðað mjög vandlega frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 og aflað ýmissa viðbótarupplýsinga umfram það sem þar kemur fram um líklega afkomu ríkisins og stofnana þess á því ári. Út frá þeim upplýsingum sem þar komu fram reyndi nefndin svo í samvinnu við Fjárlaga- og hagsýslustofnun og Ríkisendurskoðun að gera þær leiðréttingar á fjárlagafrv. miðað við óbreyttan rekstur sem nefndin taldi að gera þyrfti með hliðsjón af upplýsingum úr ríkisreikningnum og fjáraukalagafrv. Ekki verður hér neitt um það fullyrt hvernig nefndinni hefur tekist það ætlunarverk sitt en það var og er stefna hennar og sannleikurinn er sá að þó að nefndin geri nú tillögur um allverulegar hækkanir frá frv. er meginhlutinn af þeim hækkunum tilkominn vegna leiðréttinga á launaliðum, leiðréttinga á verðuppfærslum og öðrum rekstrargjöldum sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur staðfest að séu réttmætar leiðréttingar á grundvelli nýjustu upplýsinga sem fyrir liggja.
    Ef litið er á heildartillögur nefndarinnar um viðbótarútgjöld, þá nema þær við 2. umr. 1 milljarði 182 millj. 262 þús. kr. Þar af eru tillögur nefndarinnar um hækkun rekstrarliða 570 millj. 205 þús. kr. og er sú fjárhæð svo til öll vegna lagfæringa á áætlunum frv. um útgjöld vegna launa, vegna verðuppfærslu eða vegna annarra rekstrargjalda.
    Nefndin gerir síðan tillögu um lækkun sértekna upp á 259 millj. 716 þús. kr. og er það sama um

þessar tillögur að segja og hinar fyrri að svo til öll þessi fjárhæð er vegna leiðréttingar sértekna sem staðfest hefur verið í fjmrn. og af Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
    Nefndin gerir hins vegar tillögur um hækkun stofnkostnaðar um 342 millj. 341 þús. kr. frá frv. Þessar hækkunartillögur eiga allflestar uppruna sinn hjá fjvn. og eru fyrst og fremst vegna tillagna nefndarinnar um hækkaðan stofnkostnað vegna hafnarmála, sjúkrahúsa og heilbrigðismála og varðandi framhaldsskóla.
    Auðvitað má segja að hækkunartillögur fjvn. í krónum mældar við þessa umræðu séu meiri en gengur og gerist. Spurningin er hins vegar ekki sú hvort tillögurnar séu um meiri eða minni hækkun en oftast áður. Spurningin er hvort
líklegt sé að sú áætlun um rekstrarútgjöld ríkisins og stofnana þess sem fjárlögin eru geti orðið réttari á árinu 1990 en áður hefur verið.
    Við eigum nú að baki nokkur ár þar sem mjög verulegur halli hefur orðið á rekstri ríkisins. Fyrir þeim halla var ekki áætlað við gerð fjárlaga heldur þvert á móti var áætlun fjárlaganna reist á spá um bæði rekstrar- og greiðsluafgang og stundum hefur sú áætlun um afgang numið verulegum fjárhæðum. Niðurstaðan að árinu loknu hefur hins vegar oftast nær orðið þveröfug. Og þá hefur hallinn ekki mælst í hundruðum milljóna heldur þúsundum.
    Sérhver sá sem lítur á þessa þróun af sanngirni hlýtur að gera sér ljóst að þessi mikli umsnúningur ár eftir ár á áætlunargerðinni um rekstur ríkisins og stofnana þess annars vegar og rauntölum hins vegar er engin tilviljun. Það er engin tilviljun þegar útgjöld umfram áætlanir reynast verða á níunda milljarð á sama tíma og tekjur umfram áætlanir verða á annan milljarð og það er engin tilviljun þegar slíkar tölur sjást ár eftir ár. Hér er svo miklu sem munar að munurinn verður ekki skýrður með ófyrirséðum áföllum eða ófyrirséðum breytingum. Menn hljóta að sjá að það er fleira sem til kemur, nefnilega það að í tilraunum til þess að ná jöfnuði við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni er ekki gert ráð fyrir raunverulegum útgjöldum, bæði til launagreiðslna og annarra rekstrargjalda sem umfang ríkisstofnana og ríkisins sjálfs gefur tilefni til. Áhrif kjarasamninga og lagabreytinga sem kalla á útgjöld úr ríkissjóði eru ekki til fulls metin. Sparnaður og niðurskurður sem áformað var að ná en ekki náðist nema að hluta til kann að vera framlengdur án breytinga frá ári til árs og skapar þannig viðvarandi mun á áætlun og útkomu.
    Þá er einnig oft reynt að áætla í frv. til fjárlaga fyrir niðurskurði útgjalda er kalla á verulegar breytingar, annaðhvort á hefðbundnum starfsháttum eða á lögum, án þess að sá stjórnarmeirihluti sem þannig áætlar sé í raun réttri búinn að taka þær oft á tíðum erfiðu pólitísku ákvarðanir sem slík áætlanagerð um niðurfærslu útgjalda krefst eigi hún að vera raunsönn. Fjölmörg dæmi um þetta má að sjálfsögðu nefna og hirði ég ekki um að telja þau upp hér, en það er um þetta að segja eins og svo margt annað að

góð ætlun gerir litla stoð ef menn hafa ekki gert upp við sig til hvaða aðgerða þarf að grípa svo hin góðu áform komist til framkvæmda.
    Verst allra blekkinga er sjálfsblekkingin. Þegar gerðir eru kjarasamningar um launahækkanir sem ekki er tekið tillit til við gerð fjárlaga þá er eðlilegt að halli myndist á ríkisrekstri. Í viðtölum við fjölmarga forstöðumenn stofnana sem til fjvn. hafa komið á þessu hausti hefur komið fram að þar hafa verið gerðir launasamningar eða samningar um greiðslu launa sem ekki eru á vitorði launadeildar fjmrn. en eru engu að síður tilheyrandi föstum launaútgjöldum ríkisins. Þar er greidd ómæld yfirvinna fyrir það t.d. að menn lesi sér til í blöðum og fræðiritum. Þar hefur komið fram að menn greiða sem fasta yfirvinnu í þessum stofnunum allt upp í 40 stundir á viku og síðan kemur sú yfirvinna sem unnin er þar umfram. Á þessu vandamáli verða menn að taka, annaðhvort með breytingum á grunnlaunasamningum ellegar með því að fella slíka samninga niður. Þá hefur Alþingi sjálft einnig afgreitt lög án þess að gera ráð fyrir því hvort hægt væri að standa við þær greiðslur sem lögin kalla á. Dæmi um það eru fjölmörg og nú á síðasta þingi afgreiddi Alþingi t.d. ný lög um þjóðminjavernd án þess að gera sér það ljóst að ekki voru til peningar til þess að greiða þann kostnað sem þau lög kölluðu á.
    Miðað við reynslu undanfarinna ára gæti ég trúað að fastaútgjöld ríkisins og stofnana þess umfram tekjur kunni að vera á bilinu í kringum 3 milljarða kr. Þar við bætast svo áhrif ytri aðstæðna í efnahagsmálum þannig að á samdráttartímum aukist þessi innbyrðis halli en dragi svo úr honum í góðu árferði með vaxandi kaupgetu og hækkun tekna ríkissjóðs. Sé þetta rétt, eins og reynslan virðist benda til frá mörgum sl. árum, reynsla frá öllum þeim ríkisstjórnum sem þá hafa starfað, má ætla að þessi innbyggði halli sé kominn á bilið 3--5 milljarðar eftir aðstæðum í þjóðfélaginu hverju sinni og þar við bætast svo ákvarðanir sem teknar kunna að vera eftir afgreiðslu fjárlaga, svo sem eins og í tengslum við kjarasamninga þar sem aðilar vinnumarkaðarins sammælast um að leysa vandamál sín með því að ávísa þeim á ríkissjóð og fé sem ekki er til. Sé þetta rétt, sem ýmislegt kann að benda til, þá er hættan á að menn séu farnir að fást við það meginviðfangsefni í fjárlagagerðinni að hve miklu leyti eigi að taka tillit til slíks sjálfkrafa halla við fjárlagagerðina sjálfa og að hve miklu leyti eigi að vísa honum til fjáraukalaga og niðurstaðna ríkisreiknings. Séu menn að festast í þessu fari sem ekki er glæsilegt, þá rífa menn sig ekki upp úr því nema með því einu að horfast í augu við þetta vandamál og gera sér fulla grein fyrir því að á því eru ekki til nema tvær lausnir. Önnur er sú að auka verulega skattheimtu frá því sem orðið er og þar virðast fá ráð góð um þessar mundir. Hin leiðin er sú að gera verulegar breytingar á þjónustu og umfangi ýmissa kostnaðarsömustu útgjaldaliðanna og þá er óhjákvæmilegt að nefna til sögunnar þá útgjaldaliði sem stærstum fjárhæðum velta því enginn getur sparað

á því sem ekkert kostar.
    Þegar við nú stöndum í þeim sporum, alþingismenn, að við kunnum að vera að
gera upp við okkur hvað mikið af þeim halla sem við höfum byggt inn í ríkisreksturinn á undanförnum árum, í valdatíð allra þeirra ríkisstjórna sem þá hafa starfað, við eigum að viðurkenna við afgreiðslu fjárlaga hve miklum hluta af þessum vanda við eigum að ávísa á fjáraukalög og ríkisreikning --- með öðrum orðum, hversu mikið tillit við eigum að taka til vandans við áætlanagerðina og að hve miklu leyti við eigum að vísa honum á uppgjörið --- þá ætti að vera kominn tími til þess að alþingismenn hugleiddu í alvöru hvort ekki sé óhjákvæmilegt að við Íslendingar verðum eins og fjölmargar aðrar þjóðir að neita okkur um ýmislegt sem er ósköp æskilegt að fá að njóta ef við værum reiðubúin til að greiða fullt verð fyrir sem við erum ekki. Og það er einnig kominn tími til að menn geri sér grein fyrir því að í fámennum samfélögum eins og hjá okkur gjalda menn sjálfstæði, sjálfsforræði og sérstöðu oft með því að verða að neita sér um sitthvað af lífsins gæðum sem fjölmennar stórþjóðir geta boðið tilteknum hópum þegna sinna.
    Við slíkar aðstæður er eðlilegt að menn hugi að sparnaði og samdrætti þó að það sé takmarkað sem hægt er að skera niður og spara nema eftir langan undirbúning sem krefst verulegra breytinga á þjónustuumfangi ríkisins og stofnana þess. Þessir möguleikar til sparnaðar og samdráttar hafa verið athugaðir rækilega af ríkisstjórninni og er gert ráð fyrir verulegum niðurskurði í frv. Þannig gerir frv. t.d. ráð fyrir að sérstöku sparnaðarátaki verði beitt af hálfu menntmrn. Er áformað að menntmrn. spari 200 millj. kr. og var sú fjárhæð tilgreind á einum fjárlagalið í frv. án sundurliðunar á viðfangsefni.
    Fjvn. hefur síðan fengið í hendur tillögur menntmrn. um niðurfærslu gjalda á einstök verkefni og námu þær tillögur samanlagt um 170 millj. kr. Nefndin lagði mat sitt á tillögurnar og samþykkti allflestar þeirra, þ.e. allar aðrar tillögur en þær sem lutu að viðfangsefnum sem nefndin var búin að fjalla um og taka afstöðu til áður en tillögur ráðuneytisins bárust.
    Tillögurnar sem fjvn. afgreiddi á lista menntmrn. námu u.þ.b. 120 millj. kr. samanlagt og dreifast á niðurskurð og sparnað á hin ýmsu viðfangsefni skóla og menntamála. Að hve miklu marki þessar niðurskurðartillögur ná tilætluðum árangri fer að sjálfsögðu eftir því hvaða áætlanir um breytingar á rekstrarumfangi og meðferð einstakra viðfangsefna búa að baki tillagnanna og mun þar reyna á framkvæmd menntmrn. Eitt atriði í tillögum ráðuneytisins varðaði lækkun á rekstrarkostnaði Þjóðleikhússins. Það erindi hefur enn ekki hlotið afgreiðslu í fjvn. heldur bíður umfjöllunar um Þjóðleikhúsið sem fara mun fram á milli 2. og 3. umr. fjárlaga eins og vanalegt er.
    Þá taka frá og með næstu áramótum gildi ný lög er breyta hefðbundinni verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ýmis viðfangsefni sem áður voru sameiginleg þeim flytjast um áramótin alfarið yfir til

sveitarfélaganna. Má þar nefna framkvæmdir á sviði grunnskólabygginga, þar með talin íþróttahús, á sviði dagvistunar og á sviði íþróttamála á vegum sveitarfélaganna. Einnig fellur nú niður sérstakur fjárstuðningur ríkisins við vatnsveitur og við félagsheimili. Í staðinn tekur ríkið við nokkrum rekstrarviðfangsefnum af sveitarfélögunum og má þar nefna rekstur heilsugæslustöðva og rekstur fræðsluskrifstofa. Fjárlagafrv. er að sjálfsögðu reist á þessum forsendum um breytta verkhætti. Þær breytingar hafa verið gerðar á frv. frá fyrstu gerð þess hvað þessi viðfangsefni varðar að áætlun um útgjöld ríkissjóðs vegna rekstrar fræðsluskrifstofa og heilsugæslustöðva voru í frv. óskiptar fjárhæðir á sérstökum safnliðum, en fjvn. hefur nú fengið tillögur um sundurliðaðan kostnað vegna þessara verkefna og gerir þær tillögur að sínum þannig að kostnaðurinn sundurliðist nú niður á fræðsluskrifstofurnar, hverja einstaka fræðsluskrifstofu í umdæmi, og eins er því varið um heilsugæslustöðvar og rekstur þeirra.
    Þá gera verkaskiptalögin auk þess ráð fyrir því að skuldir ríkisins vegna sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga við grunnskóla, dagvistunarstofnanir og vegna félagsheimila og íþróttamála verði gerðar upp og ógreiddur hluti ríkissjóðs greiddur á fjórum árum. Í fjárlagafrv. eins og frá því var gengið var ekki gerð tillaga um sérstaka fjárveitingu vegna þessa uppgjörs og var ástæðan sú að í ljós kom að kostnaður ríkissjóðs við yfirtöku þeirra verkefna frá sveitarfélögum sem gert var ráð fyrir að ríkissjóður yfirtæki var vanáætlaður um hundruð milljóna kr. Koma þar einkum til vanáætluð útgjöld vegna yfirtöku á rekstri heilsugæslustöðva og þá ekki síst vegna reksturs heilsugæslustöðva í Reykjavík.
    Fjvn. hefur farið vandlega yfir áætlanir menntmrn. um stöðu framkvæmda um nk. áramót sem áður voru sameiginleg með sveitarfélögunum. Sjálfsagt eru einhver atriði þar sem sveitarfélögin greinir á við ríkisvaldið um fjárhæðir skulda þó að ljóst sé um heildarfjárhæðir vangreiddra skulda ríkisins vegna þessara framkvæmda en þær nema á bilinu 1200--1400 millj. kr. Fjvn. hefur hins vegar ekki enn gert tillögu um hvernig að þessum uppgjörsmálum skuli staðið við afgreiðslu fjárlaganna, en nefndin mun gera tillögu um það fyrir 3. umr.
    Þá hefur það tafið störf nefndarinnar í þessari vinnu að reglugerðir
varðandi verkaskiptingu lágu ekki fyrir og liggja raunar ekki fyrir enn að því er varðar reglugerð um uppgjör við sveitarfélögin vegna framkvæmda á sviði skólamála, dagvistunar og íþrótta. Þá hefur fjvn. ekki heldur getað gert tillögur um hvernig staðið skuli að skiptingu fjárframlags á fjárlögum til íþróttamála samkvæmt hinum breyttu verkaskiptingarlögum. Nú falla niður greiðslur úr ríkissjóði til íþróttaframkvæmda á vegum sveitarfélaga en haldast hins vegar áfram hvað varðar greiðslur úr Íþróttasjóði til íþróttaframkvæmda á vegum frjálsra félagasamtaka. Fyrir örfáum dögum fékk nefndin í hendur reglugerð hvað þennan nýja Íþróttasjóð varðar og hefur hún ekki

haft ráðrúm til þess fyrir þessa umræðu að ganga frá tillögum sínum um skiptingu á því fé. Mun það bíða 3. umr.
    Þá bíða einnig 3. umr. nokkur önnur mál. Þar má nefna tillögur um Háskólann á Akureyri, um Meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur og um launagreiðslur vegna Flugmálastjórnar en öll þessi mál eru í sérstakri skoðun. Þá bíður 3. umr. afgreiðsla á samkomulagi menntmrh. og Háskóla Íslands varðandi ráðstöfun happdrættisfjár. Fyrir utan þessi mál bíða svo 3. umr. mál sem venjulega eru afgreidd þá, en það eru málefni eins og B-hluta stofnanir, heimildaákvæði í 6. gr. fjárlaga og endurskoðuð tekjuspá. Þeirri endurskoðun tekjuspár tengist síðan ákvörðun um framlag til vegagerðar og svo tengjast að sjálfsögðu lokaafgreiðslu fjárlaganna þau áform ríkisstjórnarinnar um tekjuöflun sem breyst hafa frá því að frv. til fjárlaga var lagt fram og gerð hefur verið grein fyrir hér á Alþingi.
    Það er því ljóst að enn eru eftir mörg og stór viðfangsefni fjárlagagerðarinnar sem jafnan bíða 3. umr. og auk þess þrjú eða fjögur úrlausnarefni sem æskilegt hefði verið að hægt hefði verið að afgreiða nú en verða að bíða, og er það ekkert óvanalegt að slíkt komi fyrir.
    Áður en ég vík að brtt. sem fluttar eru af nefndinni allri, eins og fyrr sagði, en með fyrirvörum minni hl. er rétt að fara nokkrum orðum um skiptingu þessara tillagna. Samtals nema þessar tillögur hækkunum upp á 1 milljarð 182 millj. 262 þús. kr. Hækkun launa nemur þar 260 millj. og er sú hækkun 0,9% af heildarlaunagreiðslum ríkisins. Fjárhæðin er há ef á hana eina er litið, en ef litið er á hlutfallshækkunina, sem er innan við 1% af heildarlaunafúlgunni, komast menn að nokkuð annarri niðurstöðu, ekki síst þegar þess er getið að áætlað er að lenging fæðingarorlofsins ein út af fyrir sig, sem kom til framkvæmda á yfirstandandi ári, valdi launahækkunum hjá einstökum stofnunum, eins og t.d. ríkisspítulum og sjúkrahúsum, um 1%. Það verða menn að hafa til hliðsjónar þegar menn meta þessar hækkunartillögur og er því ljóst, eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjvn., að hækkunartillögur nefndarinnar vegna launabreytinga eru því sem næst einvörðungu leiðréttingar sem nefndin hefur talið óhjákvæmilegt að gera á áætlunum um launaútgjöld samkvæmt nýjustu upplýsingum.
    Hækkunartillögur nefndarinnar er varða önnur rekstrargjöld nema 311 millj. kr. og er það tillaga um 0,5% hækkun á þeim útgjaldalið. Einnig er þar um að ræða að nær öllu leyti leiðréttingar vegna verðuppfærslu sem í flestum tilvikum hafa verið yfirfarnar og staðfestar af Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Sértekjurnar lækka svo um 261 millj. kr. eða um 0,57% samkvæmt tillögum nefndarinnar og á sama við um þau mál eins og hin fyrri að hér er fyrst og fremst um að ræða leiðréttingar. Heildarhækkunartillögur fjvn. á þessum rekstrarliðum öllum nema 832 millj. kr. eða um 1%. Fjárhæðin er stór en hún smækkar þegar hún er borin saman við heildarútgjöldin eins og þau eru í frv. upp á 82

milljarða 881 millj. kr.
    Tillögur fjvn. er varða stofnkostnað og viðhald gera hins vegar ráð fyrir 350 millj. kr. hækkun á öllum stofnkostnaðarliðum í frv. og nemur sú hækkun um 3,4%. Er það vissulega allnokkur hækkun og eiga þær hækkunartillögur eins og áður segir að mestu leyti uppruna sinn hjá nefndinni sjálfri. Ef litið er síðan á töflu 3 á bls. 6 í nál. meiri hl. sést hvernig þessar hækkunartillögur nefndarinnar skiptast á einstök ráðuneyti og æðstu stjórn ríkisins. Sú tafla, eins og hún er þar sýnd, er að sjálfsögðu ekki endanleg því í afgreiðsluna núna vantar enn tillögur sem fluttar verða við 3. umr. og munu raska verulega þeim samanburði sem reynt er að gefa. Vilji menn hins vegar reyna að gera sér grein fyrir því hvernig tillögur fjvn. um hækkanir skiptast á einstök ráðuneyti er ekki nóg að líta bara á fjárhæðina heldur er rétt að líta á umfang hvers ráðuneytis í heildarútgjöldum ríkisins og bera það rekstrarumfang saman við þær tillögur sem fjvn. gerir nú til hækkunar.
    Sé sú viðmiðun tekin kemur í ljós að tillaga er gerð um hlutfallslega mesta hækkun á viðfangsefninu Æðsta stjórn ríkisins. Þessi hækkun skýrist m.a. af því að í tillögum fjvn. er gert ráð fyrir að hvað Alþingi varðar verði höfð hliðsjón af rauntölum síðustu ára um rekstrarkostnað Alþingis en áætlun um rekstur Alþingis í fjárlögum hefur um margra ára skeið verið víðs fjarri raunveruleikanum og er löngu kominn tími til að gerð sé leiðrétting þar á. Næstmesta hækkun fær samkvæmt tillögum fjvn. samgrn. en hækkunartillögur vegna þess ráðuneytis nema 3,1%. Þriðju mestu hækkunina hlutfallslega fær dóms- og
kirkjumálaráðuneytið, 2,7%. Fjórðu mestu hlutfallshækkunina fær utanrrn., 2,6%, og þá fimmtu mestu menntmrn. eða 2%. Minnsta hækkun fær fjmrn. eða 0,4%, svo og heilbr.- og trmrn. sem fær aðeins 0,9% hækkun til viðfangsefna sinna samkvæmt tillögum fjvn. Gefur þetta til kynna hversu varhugavert það er að horfa aðeins á fjárhæðirnar sjálfar í tillögum nefndarinnar án tillits til umfangs þeirrar starfsemi sem þeim er tengd. Þannig fær heilbr.- og trmrn. samkvæmt tillögum nefndarinnar í sinn hlut langstærstu fjárhæðina í hækkunartillögunum eða alls 358 millj. 581 þús. kr. og sjá sjálfsagt margir ofsjónum yfir því. Sé hins vegar litið á umfang þeirrar starfsemi sem á vegum heilbr.- og trmrn. er kemur í ljós að hækkunartillögur vegna þess ráðuneytis nema aðeins eins og ég áðan sagði 0,9% og fær það í sinn hlut næstminnstu hækkun allra ráðuneyta.
    Þessar tölur eru kannski ekkert sérstaklega merkilegar út af fyrir sig, en fyrir þá sem hafa gaman af því að vera í samanburðarleik og prósentureikningi eru þær þó fullrar athygli verðar og segja kannski eilítið aðra sögu en menn vilja vera láta.
    Virðulegi forseti. Ég vil nú víkja að einstökum brtt. nefndarinnar á þskj. 279, en þær tillögur eru alls 180 talsins með mörgum undirliðum. Í skýringum við brtt. sem fylgja sem fylgiskjal með nál. meiri hl. eru nánari deili á þeim sögð og ég ætla að leitast hér við með vísan til þeirra skýringa að fara eins hratt yfir og

unnt er.
    Ber ég þá fyrst niður á 1. brtt. hvað varðar Alþingi. Þar er tekið mið af gerðum launasamningum og úrskurðum kjaradóms varðandi þingfararkaup og starfskostnað og engu við bætt. Skrifstofu- og alþingiskostnaður hefur verið lækkaður nokkuð frá tillögum Alþingis, svo og rekstrarkostnaður fasteigna og gerir fjvn. ráð fyrir að sú lækkun geti náðst fram með aðhaldi og sparnaði, ekki síst eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á fjármálastjórn þingsins, en fjármálastjóri hefur nú verið ráðinn til starfa við Alþingi. Þó fellst fjvn. ekki á allar tillögur Alþingis um aukinn stofnkostnað. Nefndin telur að ekki eigi að svo stöddu að leggja í frekari kostnað við öryggis- og eftirlitskerfi sem menn hafa verið að byggja upp fyrir mikið fé og ekki nýtist nema að óverulegu leyti. Þá fellst nefndin ekki heldur á tillögu um auknar framkvæmdir við gerð hljóðvarps- og sjónvarpsaðstöðu í Alþingishúsinu en nefndin fellst hins vegar á tillögur um smávegis endurnýjun húsbúnaðar og um frágang lóðar og stækkun bílastæða. Þá er í tillögum fjvn. gert ráð fyrir að dregið verði allverulega úr útgáfukostnaði Alþingis en sá kostnaður hefur vaxið hröðum skrefum. Þá er einnig ástæða til að minna á að í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir nokkrum breytingum er varða setu alþingismanna á þingi Sameinuðu þjóðanna.
    Með afgreiðslum Alþingis á fjárlögum yfirstandandi árs var frá því gengið að Alþingi tæki við af utanrrn. greiðslu kostnaðar vegna þátttöku fulltrúa þingflokkanna á þingi Sameinuðu þjóðanna. Sú breyting hefur tvennt í för með sér: Í fyrsta lagi að Alþingi er óheimilt að greiða kostnað vegna annarra en alþingismanna er sækja þing Sameinuðu þjóðanna. Í öðru lagi að alþingismenn þeir sem sækja þing Sameinuðu þjóðanna eru ekki lengur starfsmenn utanrrn. og sendiráðs Íslands í New York heldur áheyrnarfulltrúar Alþingis á þingi Sameinuðu þjóðanna.
    Í tillögum fjvn. nú er enn gert ráð fyrir nokkrum breytingum. Í tillögunni er lagt til að viðfangsefnið Þátttaka þingmanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna lækki um 1 millj. kr. og er við það miðað að dvalartími fulltrúa þingflokkanna á þingi Sameinuðu þjóðanna styttist af þeim sökum úr þremur vikum í tvær og að heimsóknirnar eigi sér stað á þeim tíma þegar þjóðarleiðtogar flytja ræður sínar á þingi Sameinuðu þjóðanna og ríkust ástæða er fyrir alþingismenn að fylgjast með málflutningi þar en ekki eftir að þessum ræðum lýkur eins og tíðkast hefur til þessa.
    Að lokum skal þess getið varðandi Alþingi og þær tillögur um hækkanir sem þar eru nú gerðar að horfur er á að útgjöld Alþingis á yfirstandandi ári vegna rekstrar- og launagreiðslna fari tæplega 70 millj. kr. fram úr áætlun og gerist það þrátt fyrir að mjög verulegt átak hafi verið gert af hálfu Alþingis til sparnaðar og lækkunar á útgjöldum. Sýnir þetta hversu víðs fjarri áætlanir um útgjöld Alþingis hafa verið í fjárlögum undanfarinna ára og er tími kominn til að menn leiðrétti það og taki mið af þeim

rekstrarútgjöldum sem á ríkissjóð munu óhjákvæmilega falla vegna starfsemi þingsins hvaða tala svo sem sett er inn í fjárlagafrv. þar um.
    Að lokum skal tekið fram að á sl. ári var gerður nýr kjarasamningur við starfsmenn Alþingis þar sem það fyrirheit var m.a. gefið af forsetum að starfsmenn Alþingis gætu fengið aðgang að orlofsheimilum með sama hætti og starfsmenn annarra ríkisstofnana hafa getað um margra ára skeið. Gerð var tillaga til fjvn. um fjárveitingu í þessu skyni, þ.e. til kaupa á orlofshúsi. Fjvn. hefur rætt þetta erindi og niðurstaða hennar er sú að tími sé nú til þess kominn að Alþingi taki á ný til umsjár þær húseignir í Gjábakkalandi innan þjóðgarðsins á Þingvöllum, sem um margra ára skeið hafa verið lánaðar
sem orlofsheimili til Orkustofnunar, og nýti þá aðstöðu m.a. fyrir starfsmenn Alþingis. Er eðlilegt að á þeim stað sé gert ráð fyrir orlofsaðstöðu, enda er þar um að ræða svæði sem er í umsjá Alþingis Íslendinga og nokkur húsakostur er þar fyrir sem nýta má þótt sjálfsagt þurfi að lagfæra eitt og annað.
    Næst er ástæða til að staðnæmast við tillögu 3. Sú tillaga skýrir sig sjálf en rétt er að benda á að þar er gert ráð fyrir sparnaði hjá aðalskrifstofu menntmrn. að fjárhæð 2 millj. kr. og er það í samræmi við tillögur menntmrn. um niðurskurð og sparnað á viðfangsefnum þess ráðuneytis. Fjórða brtt. varðar Háskóla Íslands. Skipuð var sérstök nefnd um málefni þess skóla sem m.a. fulltrúar úr menntmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun áttu aðild að. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að þar væru umtalsverðir rekstrar- og launaliðir vanáætlaðir í frv. og hafa raunar verið í fjárlögum yfirstandandi árs einnig. Þessar leiðréttingar koma hér fram og varða ferðakostnað í rannsóknaleiðöngrum, rekstur fasteigna, tilfærslur sértekna, leiðréttingu gjalda, leigu íþróttaaðstöðu og leiguaðstöðu fyrir kennslu í matvælafræði. Þessir liðir allir eru leiðréttingar vegna vanáætlana og skýra svo til alla þá hækkun sem lögð er til í tillögum fjvn. varðandi Háskóla Íslands.
    Þar að auki leggur fjvn. að eigin frumkvæði fram nokkrar tillögur, m.a. vegna aukningar á stundakennslu vegna fjölgunar nemenda og fjölgunar um nokkur stöðugildi af sömu ástæðu. Stöðugildin sem fjvn. leggur til eru dósentsstaða í hagnýtri rekstrarhagfræði, dósentsstaða í eðlisfræði og ráðning íþróttakennara, en á móti gerir nefndin ráð fyrir lækkun áætlana um útgjöld vegna stundakennslu vegna fjölgunar á föstum stöðum. Tillögur fjvn. um þetta efni eru byggðar á óskum Háskólans sjálfs sem rökstuddar eru með fjölgun nemenda, en þó er í tillögum nefndarinnar ekki tekið tillit til nema lítils hluta af þeim tillögum sem Háskólinn gerði.
    Fimmta tillagan varðar Tilraunastöð Háskólans á Keldum. Er annars vegar um að ræða hækkun vegna fæðingarorlofs og samninga um greiðslur dagpeninga, og er það leiðrétting, og hins vegar lækkun sértekna um 4,5 millj. Er það einnig leiðrétting sem stafar af því að ekki eru líkur til að þær sértekjur náist sem áætlað var fyrir í frv. vegna mikillar fækkunar

sauðfjár í landinu sem leiðir til minnkandi tekna af sölu bóluefnis.
    Sjötta tillaga varðar Raunvísindastofnun. Þar eru tekin inn tvö ný hálf stöðugildi að tillögu fjvn. Er annars vegar um að ræða dósent í stjarnvísindum sem gert er ráð fyrir að ráðinn verði frá miðju ári og hins vegar vegna stöðu dósents í hagnýtri stærðfræði sem einnig er gert ráð fyrir að verði ráðinn frá miðju ári.
    Sjöunda tillagan varðar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Er þar m.a. lögð til lækkun á kostnaði við bókaútgáfu samkvæmt sparnaðartillögu frá menntmrn.
    Áttunda tillagan varðar Kennaraháskóla Íslands og er þar um leiðréttingar að ræða.
    Níunda tillagan varðar Rannsóknasjóð og er þar enn ein af tillögum menntmrn. um sparnað.
    Tíunda og ellefta brtt. varða tillögur menntmrn. um sparnað í menntaskólum. 12. brtt. er skýrð í athugasemdum nema hvað misritast hefur hvað varðar Menntaskólann á Ísafirði að tillagan um framlag til íþróttahúsbyggingar sé til að hefja hönnun og framkvæmdir vegna byggingar íþróttahúss. Hér er ekki um það að ræða, enda hófst bygging umræddds húss fyrir tveimur árum og var hönnun þá að sjálfsögðu löngu lokið. Framkvæmdir við byggingu hússins hafa verið í fullum gangi bæði árin sem liðin eru og eru enn. Tillagan gerir ráð fyrir því að byggingarframkvæmdum verði haldið áfram.
    Tillaga 13 er leiðrétting og varðar tillögu menntmrn. um sparnað.
    Tillaga 14 varðar Flensborgarskóla og er um kostnaðarauka vegna yfirtöku starfsmannahalds samkvæmt verkaskiptalögum og er leiðrétting sem staðfest er af Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Sama máli gegnir um 14., 15., l6., l7., 18., 19., 20., 21. og 22. brtt. Allar þessar brtt. varða kostnað vegna yfirtöku ríkisins á öllum rekstri þessara skóla og eru þetta tillögur menntmrn. þar um staðfestar af Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem nefndin gerir að sínum.
    Tillaga 23 varðar lækkun samkvæmt sparnaðartillögum menntmrn. og sama máli gegnir um tillögu 24.
    Tillaga 25 varðar Tækniskóla Íslands. Þar er um að ræða leiðréttingu vegna launagjalda í samræmi við álit sérstakrar nefndar sem skipuð var til að yfirfara rekstur Tækniskóla Íslands og gert hefur tillögur um nokkrar breytingar sem leiða munu til þess að draga mun úr kostnaði við rekstur skólans en kostnaður við rekstur Tækniskólans hefur vaxið mjög ört á undanförnum árum. Liður í tillögum nefndarinnar sem skoðar málefni Tækniskólans var sú breyting sem tillaga er gerð hér um og hefur sú afgreiðsla verið borin undir Fjárlaga- og hagsýslustofnum og það er sú tillaga sem fjvn. gerir.
    Tillaga 26 varðar sparnaðartillögur menntmrn. Sömuleiðis tillaga 27. Tillaga 28 einnig að öllu öðru leyti en b-lið, en þar er gert ráð fyrir að á safnlið er var 25 millj. kr. og óskiptur í frv. fái Iðnskólinn í Reykjavík 15 millj.
kr. til kaupa á tækjum og búnaði.
    Tillaga 29 varðar áframhaldandi hönnunarframlag

vegna verknámshúss á Ísafirði en verið er að vinna að þeirri hönnun og var veitt á sl. ári 1,5 millj. kr. til þess viðfangsefnis og er ekki um nýtt viðfangsefni að ræða.
    Tillaga 30 varðar Íþróttakennaraskóla Íslands. Er þar gert ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi til endurnýjunar á sundlaug skólans en kennslusundlaug skólans er orðin ónýt og að falli komin og er nauðsynlegt að hefja endurbyggingu á henni svo að hægt sé að sinna áfram sundkennslu við Íþróttakennaraskólann.
    Tillaga 31 varðar Héraðsskólann á Reykjum. Er þar lagt til samkvænt tillögum menntmrn. að kostnaður verði lækkaður um 1 millj. kr. Sama máli gegnir um tillögur 33--41. Tillaga 42 tengist einnig tillögum menntmrn. um lækkun kostnaðar og sparnað. Tillaga 43 er hins vegar um að við bætist nýr liður, Einholtsskóli, til almenns rekstrar 11 millj. 312 þús. og er það sameiginleg tillaga menntmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um afgreiðslu þessara erinda og hefur fjvn. fallist á að gera þá tillögu að sinni.
    Tillaga 44 varðar lækkun á rekstrarkostnaði Heyrnleysingjaskólans og er þar um að ræða tillögu menntmrn. um sparnað.
    Tillaga 45 er leiðrétting á almennum rekstri og sértekjum og er það tillaga sem menntmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun gera sameiginlega og fjvn. hefur tekið upp á sína arma.
    Tillaga 46 skýrir sig sjálf, svo og tillaga 47.
    Tillaga 48 varðar Þjóðminjasafn Íslands. Á síðasta þingi voru sett ný þjóðminjalög. Samkvæmt þeim lögum er stefnt að mjög verulega auknum kostnaði vegna aukinnar starfsemi Þjóðminjasafnsins og við þjóðminjavörslu. M.a. er gert þar ráð fyrir allverulegum mannaráðningum. Þá gera þessi lög einnig ráð fyrir að Húsfriðunarsjóður fái fast framlag á fjárlögum sem nemi 100 kr. á hvern íbúa landsins og ætti það að nema um 25 millj. kr. Í fjárlagafrv. er hins vegar aðeins gerð tillaga um að til sjóðsins fari sama upphæð og í fyrra eða 3,2 millj. kr. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin hefur ákveðið að flytja í tengslum við lánsfjárlög tillögu um að þrátt fyrir ákvæði þjóðminjalaganna skuli framlag til Húsfriðunarsjóðsins takmarkast við þá upphæð sem hér var nefnd.
    Fjvn. óskaði eftir því að Fjárlaga- og hagsýslustofnun og menntmrn. gæfu álit sitt um kostnaðaráhrif hinna nýju þjóðminjalaga hvað varðar Þjóðminjasafnið og rekstur þess. Fjvn. fékk um þetta tvö álit, annað frá menntmrn. þar sem gerð var tillaga um að gengið yrði nokkuð til móts við kostnaðaráhrif hinna nýju laga en þó ekki til fullnustu. Hin tillagan kom frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun um alger lágmarksútgjöld vegna hinna nýju laga og var fallist á þá tillögu og gerði fjvn. þá tillögu að sinni.
    Nefndinni er fyllilega ljóst að með þessu móti er ákvæðum hinna nýju þjóðminjalaga alls ekki fylgt nema að mjög óverulegu leyti og að sú starfsemi sem þau lög gera ráð fyrir mun ekki hefjast á árinu 1990, en hins vegar verður unnt á því ári að hefja nokkur undirbúningsstörf að því að þau lög geti tekið gildi á

næsta ári þar á eftir verði þá fyrir fjármunum séð.
    49. tillagan varðar Þjóðskjalasafn, leiðréttingu á launalið, og hefur um þá tillögu verið haft samráð við Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Sama máli gegnir um 50. tillöguna. Sú tillaga er einnig gerð að höfðu samráði við Fjárlaga- og hagsýslustofnun eftir yfirferð þeirrar stofnunar og fjvn. á málefnum Listasafnsins.
    51. brtt. er tillaga frá menntmrn. um nokkra lækkun á almennum rekstri Kvikmyndasafns Íslands.
    52. brtt. varðar Blindrabókasafn Íslands. Annars vegar er þar lögð til hækkun í almennum rekstri um 800 þús. kr. og er sú hækkun til þess að fullnægja samningi sem fjmrn. hefur gert við Blindrabókasafnið og er skuldbindandi um greiðslur úr ríkissjóði. B-liðurinn varðar tækjakaup og er þar lagt til að Blindrabókasafninu verði heimilað að kaupa nýjan blindraletursprentara í stað annars sem er ónýtur og fær safnið þannig einn nothæfan prentara fyrir blindraletur í stað eins ónýts prentara sem safnið á. Þessi hækkunartillaga á rætur sínar að rekja til fjvn.
    53. brtt. varðar liðinn Listir, framlög og skýrir sig sjálf.
    54. brtt. er vegna verðuppfærslu.
    55. brtt. varðar mótframlag Íslands vegna kynningar á norræna umhverfisárinu, en það verkefni hefur verið samþykkt af norrænu ráðherranefndinni sem skuldbindandi fyrir aðildarlöndin.
    56. tillagan er flutt af hálfu fjvn. svo að standa megi við fyrirheit sem gefið hefur verið forráðamönnum Félagsheimilis tónlistarmanna en það fyrirheit hefur m.a. orðið til þess að forsvarsmenn félagsheimilisins hafa lagt fram verulega fjármuni úr eigin vasa og af eigin launatekjum í trausti þess að við umrætt fyrirheit yrði staðið og er lagt til að það verði gert hér.
    57. og 58. brtt. þarfnast engra sérstakra skýringa.
    59. brtt. varðar húsafriðun. Er þar lagt til að Húsafriðunarsjóður, sem
samkvæmt nýsamþykktum þjóðminjalögum hefði átt að fá 25 millj. kr. en fær ekki, fái verðuppfærslu frá því í fyrra um 500 þús. kr. þannig að hann fái sömu meðhöndlun og önnur sambærileg tilfærsluverkefni. Á hinn bóginn leggur fjvn. til að liðurinn Byggða- og minjasöfn verði hækkaður um 3 millj. kr. og í hátt við það sem fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir þannig að hægt verði að sinna þessum söfnum með svipuðum hætti og gert var á yfirstandandi ári eftir að fyrir liggur að ekki verður hægt að standa við ákvæði hinna nýju þjóðminjalaga um eflingu þessarar starfsemi.
    60. brtt. þarfnast ekki sérstakra skýringa né heldur sú 61. og 62., en sú brtt. varðar Þróunarsamvinnustofnunina og er þar gert ráð fyrir framlagi til hennar sem nemur þeim skuldbindingum sem viðurkennt er að stofnunin hafi tekið á sig fyrir Íslands hönd. Er ekki í þessari tillögu gert ráð fyrir neinum nýjum verkefnum á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. B-liður tillögunnar varðar hins vegar jarðhitadeild Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Fyrir liggur að Háskóli Sameinuðu þjóðanna

sem hefur aðalstöðvar í Japan mun ekki geta greitt hærra framlag til jarðhitadeildarinnar en hann gerði í fyrra, en gert var ráð fyrir því að slíkt gerðist eins og frá málum er gengið í fjárlagafrv. Fjvn. telur óhjákvæmilegt að þessi starfsemi Jarðhitaskólans haldi áfram og er því brýnt að gera tillögu um nokkra hækkun á framlagi úr ríkissjóði á móti því að hækkun fæst ekki eins og ráð var fyrir gert frá aðalstöðvum Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Japan.
    63. tillagan varðar nýtt viðfangsefni, framlag til Rauða krossins vegna móttöku flóttamanna 15 millj. 368 þús. kr. og er það í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar Íslands þar um sem er skuldbindandi um fjárgreiðslur úr ríkissjóði.
    64. töluliður þarfnast ekki skýringa.
    65. töluliður varðar embætti veiðistjóra. Tillagan gerir aðeins ráð fyrir því að staðið verði við ákvæði laga um greiðslur úr ríkissjóði vegna eyðingar refa og minka, en á líðandi ári vantaði rúmlega 11 millj. upp á að staðið yrði við lögbundin framlög af þessum sökum og verður að takast á við það vandamál í fjáraukalögum. Þar sem ekki eru fyrirætlanir um að breyta þessum skyldum ríkisins verður að sjálfsögðu að gera ráð fyrir að fyrir fjármunum sé séð til þess að hægt sé að standa við lögformlegar skuldbindingar. Þá er einnig gert ráð fyrir í þessari tillögu að veiðistjóri geti tekist á við tvö sérstök verkefni, þ.e. er varðar eyðingu máva og hrafna í Landeyjum en þar er komið upp mjög alvarlegt salmonellusmit sem verður tafarlaust að bregðast við og auk þess hefur veiðistjóra verið falið að taka að sér sérstakt rannsóknarverkefni á fjölgun sílamávs við suðvesturströndina vegna mikillar mengunarhættu án þess þó að gert væri ráð fyrir að sú rannsókn þyrfti nokkuð að kosta. Er hér lagt til að áætlað verði að sú rannsókn kosti fé eins og óhjákvæmilegt er og að sá kostnaður verði greiddur sem einnig hlýtur að teljast vera óhjákvæmilegt.
    Brtt. 66 þarfnast ekki frekari skýringa.
    Brtt. 67 varðar Skógræktina og er þar m.a. um tillögu til lækkunar að ræða og enn fremur er viðfangsefnið Skógræktarátak í Fljótsdalshéraði fellt hér brott en það kemur annars staðar sem sjálfstætt viðfangsefni á fjárlögum, enda er hér mikið mál á ferðinni þótt aðeins sé fitjað upp á því til hálfs og ekki einu sinni það í tillögum frv.
    Þá er komið að tillögu 68 er varðar Rannsóknastöðina að Mógilsá. Er þar lagt til að tekið sé kostnaðarlegt tillit til sérstakra rannsóknarverkefna sem búið er að skuldbinda stöðina fyrir en að öðru leyti er einvörðungu um að ræða leiðréttingu á framlögum vegna launa- og verðlagsbreytinga.
    Þá komum við að Landgræðslu ríkisins. Þar er gerð tillaga um lækkun sértekna að höfðu samráði við Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjvn. gerir síðan tillögu um 1 millj. sérstaklega vegna landgræðsluframkvæmda í Mývatnssveit og um 3 millj. til að bæta aðstöðu Landgræðslunnar í Gunnarsholti en sú aðstaða er allsendis óviðunandi.
    Tillaga 70 þarfnast ekki frekari skýringa.

    Tillaga 71 varðar búnaðarsamböndin. Á fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir sérstakri greiðslu, 9 millj. kr., til búnaðarsambandanna. Landbrh. hefur komið til fundar við fjvn. og tjáð henni að á hans vegum sé nú verið að vinna að frv. sem tryggja muni búnaðarsamböndunum sérstakar tekjur til starfsemi þeirra. Er það frv. unnið af nefnd sem Stéttarsamband bænda á aðild að og að sögn landbrh. eru allar horfur á að fullt samkomulag takist í nefndinni. Tillaga þessi um framlag að fjárhæð 6 millj. kr. er gerð til að tryggja búnaðarsamböndunum óbreytta stöðu frá fjárlögum yfirstandandi árs. Nái sú breyting sem landbrh. ræddi við fjvn. um hins vegar ekki fram að ganga munu málefni búnaðarsambandanna verða tekin til skoðunar síðar.
    Tillaga 72 hefur áður verið skýrð.
    Tillaga 73 og 74 varða bændaskólana á Hvanneyri og Hólum og eru fullnægjandi skýringar gefnar í nál.
    Tillaga 75 varðar samstarfsverkefni á vegum sjávarútvegs og iðnaðar og er gerð tillaga um að til þess samstarfsverkefnis verði varið 6 millj. kr. undir
þessum lið á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins en síðar verður gerð tillaga um jafnháa fjárhæð á vegum Iðntæknistofnunar Íslands en auk þess munu fjölmargir aðilar leggja þessu verkefni lið. Þess skal getið að bæði ráðuneytin sóttu um mun hærri fjárveitingu en hér er gerð tillaga um.
    Tillaga 76 varðar sjóvinnu- og rannsóknabátinn Mími. Þessi bátur hefur verið gerður út bæði sem kennsluskip við sjóvinnu víðs vegar um land og eins sem rannsóknabátur í þágu Hafrannsóknastofnunarinnar. Fram til þessa hefur Hafrannsóknastofnun greitt hluta kostnaðar við útgerð bátsins, en nú hefur stofnunin tilkynnt að hún treysti sér ekki lengur til að greiða hlut í rekstri bátsins. Væri við svo búið látið sitja mundi þessi starfræksla leggjast niður, enda hefur áhöfninni verið sagt upp störfum. Fjvn. telur ekki réttlætanlegt að leggja niður rekstur þessa báts, enda er hér um að ræða sjóvinnslunámskeið fyrir unglinga, svo til það eina sem mörgum ungum Íslendingum býðst. Nefndin gerir því tillögu um að framlag ríkisins vegna reksturs bátsins verði hækkað um 4 millj. kr. og vill jafnframt að fram komi að þá er ekki gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi áfram aðgang að bátnum til rannsóknastarfa nema þá að stofnunin greiði leigu fyrir þau afnot sem hún telur sig þurfa að hafa af bátnum.
    Brtt. 77 varðar lögreglustjórann í Reykjavík. Málefni lögreglustjórans fengu sérstaka skoðun í fjvn. og einnig í dómsmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Niðurstaðan varð sú að Fjárlaga- og hagsýslustofnun lagði til endurmat á afleysingaframlagi vegna afleysinga og orlofa lögreglumanna í Reykjavík er næmi fjölgun er svaraði til tíu stöðugilda og auk þess lagði stofnunin til að fjölgað yrði hjá lögreglunni í Reykjavík um átta stöðugildi umfram þau sex sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrv.
    Fjvn. gerði þessa tillögu að sinni með þeirri breytingu að hún leggur til að viðbótarstöðugildin

verði tíu í stað átta þannig að alls verði fjölgað í lögreglunni í Reykjavík umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir um 20 stöðugildi. Mun þá fjölga í lögreglunni í Reykjavík alls um 26 stöðugildi þegar þau sex stöðugildi eru talin með sem gert var ráð fyrir í frv. Er það alls tveimur stöðugildum meira en Fjárlaga- og hagsýslustofnun lagði til.
    Það skal fram tekið að lögreglustjórinn í Reykjavík hefur náð mjög góðum árangri í sambandi við lækkun rekstrarútgjalda og niðurskurð á yfirvinnu. Lögreglustjórinn gaf fjvn. Alþingis hins vegar þær upplýsingar að útilokað væri að skera yfirvinnu lögreglunnar meira niður en hann hefur þegar gert, m.a. vegna mikillar stækkunar á löggæslusvæði hans og vegna alkunnra atburða sem gerst hafa í miðborg Reykjavíkur og kalla á aukna löggæslu. Fór lögreglustjórinn þess vegna fram á auknar fjárveitingar til mannaráðninga og er hér lagt til að fallist verði á erindi hans að hluta. Að sögn lögreglustjórans í Reykjavík mun þessi afgreiðsla tryggja það m.a. að löggæsla verði aukin í miðborg Reykjavíkur þannig að hægt verði að draga úr og helst afstýra atburðum á borð við þá sem þar hafa gerst á undanförnum helgum og sagt hefur verið frá í blöðum, útvarpi og sjónvarpi.
    Tillögur 78 til og með tillögu 103 varða svo bæjarfógeta og sýslumannsembættin. Um þessar tillögur almennt má segja eitt og hið sama. Annars vegar er þar um að ræða tillögur Fjárlaga- og hagsýslustofnunar sem byggjast á mati þeirrar stofnunar og dómsmrn. á þörfum löggæslunnar og sýslumannsembætta í landinu til þess að mæta raunkostnaði vegna löggæslustarfa en fram kemur bæði í ríkisreikningi fyrir árið 1988 og úr ríkisbókhaldi fyrir yfirstandandi ár að útlagður kostnaður vegna löggæslu er miklum mun meiri en fjárlögin áætla og að mati dómsmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar er óhjákvæmilegt að taka tillit til þess að ekki er ástæða til að ætla að bæjarfógetar og sýslumenn nái öllum þeim árangri um niðurskurð yfirvinnu og launagjalda sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Við tillögugerð fjvn. um viðbrögð við þessum niðurstöðum er í því sem næst einu og öllu farið að tillögum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um afgreiðslu málsins. Í öllum þessum tillögum sem þarna eru gerðar eru aðeins tvær afgreiðslur sem runnar eru undan rifjum nefndarinnar sjálfrar og varða þær lítils háttar lagfæringar á yfirvinnugreiðslum vegna tveggja sýslumannsembætta. Allt annað í tillögunum er byggt á endurskoðuðum tillögum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Annar þáttur í þessum tillögum er svo mat sömu stofnunar á auknum kostnaði og útgjöldum sýslumanna og bæjarfógeta vegna yfirtöku á sjúkratryggingum sem áður voru verkefni sveitarfélaga. Fjvn. hefur alfarið fallist á þá tillögu sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur gert um afgreiðslu þeirra mála og engu þar breytt né við bætt.
    Tillaga 104 varðar Landhelgisgæslu Íslands. Þar er lögð til leiðrétting á launum vegna tveggja stöðugilda og yfirvinnu samtals að fjárhæð 6 millj. 700 þús. kr.

og er sú leiðrétting gerð að mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Einnig er lögð til hækkun á launum vegna nætur- og helgidagavaktar og stöðugildis vaktstjóra og er það einnig gert að fengnu áliti Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Sama máli gegnir um þá tillögu nefndarinnar að þyrluvaktarkostnaður vegna þyrluvaktar lækna verði hækkaður. Nefndin hefur
hins vegar að eigin frumkvæði fjallað um áform Landhelgisgæslunnar um kaup á tækjum og búnaði. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir fjárveitingu að upphæð 10,7 millj. og var þeirri fjárveitingu ætlað að greiða kostnað við endurbætur á fjarskiptatækjum Landhelgisgæslunnar. Í viðtali við forráðamenn gæslunnar kom hins vegar fram að þeir leggja meiri áherslu á að keypt verði leitarratsjá í flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Syn, en sú leitarratsjá gerir flugvél Landhelgisgæslunnar fært að sinna leitar- og eftirlitsskyldum á öðrum tímum en þeim þegar mestrar dagsbirtu nýtur. Slíkar ratsjár hafa hingað til verið mjög dýrar, en nú telur Landhelgisgæslan sig geta fengið þannig ratsjá fyrir samtals um 36 millj. kr. með kostnaði við kaup og uppsetningu og jafnframt að mætavel sé unnt að fá samkomulag um að greiða þennan kostnað á 2--3 árum.
    Fjvn. féllst fyrir sitt leyti á þetta erindi Landhelgisgæslunnar og leggur til að fjárveiting til tækja- og búnaðarkaupa verði hækkuð úr 10,7 millj. í 20 millj. og að þeirri fjárhæð verði varið til að kaupa leitarratsjá í flugvélina TF-Syn á árinu 1990 og að leitarratsjáin verði sett í vélina á því ári en mun jafnframt gera tillögu um að í 6. gr. fjárlaga verði sett heimildarákvæði þess efnis að heimilt verði að semja um greiðslu á afgangi af fjárhæðinni á næstu tveimur árum þar á eftir.
    105. brtt. skýrir sig sjálf og 106. brtt. er um einfalda uppfærslu á launalið.
    Um 107. brtt. er það að segja að þar er gert ráð fyrir að greiddur verði óhjákvæmilegur kostnaður vegna vistunar öryggisgæslufanga sem vista verður með sérstökum hætti og er þar um tiltekna fanga að ræða. Sama máli gegnir um tillögu fjvn. um sérstaka fjárveitingu vegna vistunar fanga á meðferðarstofnunum. Að áliti nefndarinnar er óhjákvæmilegt, eins og málið er í pottinn búið, að fyrir þessum fjárveitingum sé séð, enda munu þær undir öllum kringumstæðum falla á ríkissjóð sem greiðslur hvort sem fyrir þeim er áætlað í fjárlögum eða ekki.
    Í 108. brtt. leggur fjvn. til að biskupi Íslands verði heimilað að ráða í sérstaka tímabundna stöðu vegna safnaðaruppbyggingar en fram hefur komið hjá biskupi Íslands að hann leggur áherslu á slíkt uppbyggingarstarf meðal safnaða landsins á síðustu 10 árum fyrir 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi.
    109. brtt. þarfnast ekki skýringar.
    110. tillagan er leiðrétting og 111. tillagan varðar tilfærslur.
    112. brtt. varðar vistheimilið á Skálatúni og skýrir hún sig sjálf og sama máli gegnir um 113., 114., 115., 116. og 117. brtt. Allar þessar brtt. varða

málefni fatlaðra og er fullnægjandi skýring gefin á þeim í fylgiriti með nál. meiri hl. fjvn.
    118. brtt. varðar Vinnueftirlit ríkisins. Þar er um að ræða að fallist er á erindi forstjóra stofnunarinnar um kaup á bifreið, tækjum og tölvubúnaði, svo og hækkun launa og annarra rekstrargjalda vegna öryggiseftirlits sem óhjákvæmilegt er að Vinnueftirlitið sinni. Ekki er gert ráð fyrir neinu framlagi úr ríkissjóði vegna þessara umsvifa, enda liggur fyrir yfirlýsing um að þeir sem þjónustunnar njóta, þ.e. vinnuveitendur, munu greiða fyrir hana fullt verð. Hins vegar er ekki fallist á erindi forstjóra Vinnueftirlitsins, sem stofnunin á sammerkt með öðrum sambærilegum stofnunum, að fallið verði frá þeim fyrirætlunum í frv. að stofnunin sem kostar allan sinn rekstur með sértekjum standi ríkissjóði skil á útgjöldum ríkisins vegna fullrar verðtryggingar á lífeyri starfsmanna.
    119. brtt. þarfnast ekki skýringa.
    Um 120. brtt. er það að segja að þar er gert ráð fyrir að ríkisábyrgð á launum vegna gjaldþrota hækki um 30 millj. kr. frá tölum frv. Miðað við óbreytt lög og reglur um ríkisábyrgð á launum vegna gjaldþrota er líklegt að þessi liður hefði þurft að hækka um 80--100 millj. kr. frá áætlun frv. Á bak við þá tillögu að hækka þennan lið um aðeins 30 millj. kr. býr sú ákvörðun að leggja fram á Alþingi frv. til laga um breytingu á þessum reglum sem m.a. takmarki ríkisábyrgð á launum við eðlileg laun eins og greidd eru á vinnumarkaði en nokkur brögð hafa verið að því að gerðar hafa verið launakröfur vegna gjaldþrota sem ekki teljast í neinu samræmi við þær almennu launagreiðslur sem eiga sér stað fyrir sambærileg störf á hinum almenna vinnumarkaði. Er ætlunin að taka á þessu vandamáli með breyttum lögum án þess þó að með því sé á neinn hátt skertur réttur launafólks til ríkisábyrgðar á launum vegna gjaldþrota fyrirtækja, enda séu launin þá í átt við það sem gera má ráð fyrir að greitt sé á hinum almenna vinnumarkaði fyrir þau störf sem unnin eru.
    Tillaga 122 varðar heilbr.- og trmrn., aðalskrifstofu. Þar er gert ráð fyrir að heimilað verði að ráða einn viðskiptafræðing á skrifstofuna, en þegar rekstur heilsugæslustöðva flyst nú yfir til ríkisins um nk. áramót mun mjög mikil aukning verða á starfsemi aðalskrifstofu heilbr.- og trmrn. Ráðuneytið óskaði sjálft eftir tveimur stöðugildum vegna þessa. Álit Fjárlaga- og hagsýslustofnunar var að óhjákvæmilegt væri að heimila aðra stöðuna sem sótt var um og gerir fjvn. þá niðurstöðu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að sinni.
    Þá kemur tillaga 123 er varðar lækkun á kostnaði sjúkratrygginga. Lækkunin stafar af því að síðar er gerð tillaga um að hjartaskurðlækningar verði auknar á Íslandi, m.a. með því að ráðið verði í stöður tveggja sérfræðinga og hálfa að auki. Með aukningu hjartaskurðlækninga á Íslandi er stefnt að tvöföldun þeirra aðgerða. Þá mun að sama skapi fækka utanferðum hjartasjúklinga til aðgerða erlendis og mun það draga úr kostnaði sjúkratrygginga sem þessu

nemur.
    Ekkert sérstakt þarf um 124. brtt. að segja, né heldur um næstu tillögu þar á eftir og frá og með tillögu 125 til og með tillögu 139 er það að segja að samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að svokallaðar álagsgreiðslur á spítulum, þ.e. greiðslur umfram grunnlaun vegna vakta, yfirvinnu o.s.frv. nemi 66--68% af heildargrunnlaunagreiðslum spítalanna.
    Í ríkisreikningi fyrir árið 1988 og í þeim upplýsingum sem fjvn. hefur úr ríkisbókhaldi fyrir líðandi ár kemur hins vegar fram að þessar greiðslur nema ekki 67% ofan á grunnlaun, eins og áætlað er í fjárlögum, heldur 75--77% og hefur þó náðst nokkur árangur í lækkun launagjalda hjá spítulunum eins og stefnt var að. Er hér því um að ræða allmikinn mun á áætlunum og rauntölum um launakostnað. Fjvn. óskaði eftir því að heilbrrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun skoðuðu þessi vandamál sérstaklega. Niðurstaða heilbrrn. varð sú að það lagði til að álagsgreiðslur á spítulum yrðu hækkaðar um 2%. Niðurstaða Fjárlaga- og hagsýslustofnunar varð sú að stofnunin lagði til að álagsgreiðslurnar yrðu hækkaðar um 1%. Jafnframt var upplýst á fundi fjvn. að áhrif lengingar fæðingarorlofs sem til kom á yfirstandandi ári næmi sem samsvaraði 1% álagsgreiðslna og að ekki væri reiknað með áhrifum þeirrar lengingar í fjárlagafrv. Fjvn. treysti sér því ekki til að gera tillögu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um 1% hækkun álagsgreiðslna að sinni þar sem séð væri að slík hækkun mundi aðeins sjá fyrir þeirri hækkun á álagsprósentu sem stafaði af lengingu fæðingarorlofsins einu saman og væri því ekki líkleg til þess að jafna muninn á milli áætlunar og reynslu eins og sá munur kemur fram annars vegar í fjárlagafrv. og hins vegar í ríkiskreikningi.
    Niðurstaða nefndarinnar er sú að leggja til að álagsprósentan hækki um 1,5% eða hálfu prósenti meira en Fjárlaga- og hagsýslustofnun gerði tillögu um. Er sú afgreiðsla útfærð fyrir sjúkrastofnanirnar í brtt. 125 til og með brtt. 138. Þá er einnig í þessum tillögum lagt til að fallist verði á leiðréttingu á verðlagsuppfærslu launagjalda gagnvart nokkrum sjúkrahúsum, þ.e. sjúkrahúsinu á Húsavík, Seyðisfirði, Neskaupstað, Selfossi, í Vestmannaeyjum, Keflavík og Hafnarfirði en þetta endurmat var framkvæmt af Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Nefndin leggur til að á þá niðurstöðu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar verði fallist.
    Þá erum við komin að málefnum ríkisspítala. Á fundi sem fjvn. átti með stjórn ríkisspítala kom fram að nú stefnir í hallarekstur hjá ríkisspítulum að fjárhæð 102 millj. kr. á árinu 1989 en í fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár var því spáð að hallarekstur ríkisspítala mundi verða um það bil 50 millj. kr. þannig að ljóst er að hallareksturinn stefnir í tvöfalda þá fjárhæð á árinu sem ráð var fyrir gert í fjáraukalagafrv. Miðað við upplýsingar ríkisspítalanna um óbreyttan rekstur nemur fjárvöntun á næsta ári, eins og frá málum er gengið í frv., 398 millj. kr. til að unnt verði að greiða laun og önnur rekstrargjöld

ríkisspítalanna miðað við óbreyttan rekstur þeirra á næsta ári.
    Fjvn. bað um sérstaka skoðun á þessu erindi af hálfu heilbrrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Fjárlaga- og hagsýslustofnun lagði til eftir þá skoðun að sértekjur spítalanna yrðu lækkaðar um 100 millj. kr. og gerir fjvn. þá tillögu að sinni.
    Í öðru lagi var lagt til við nefndina að fjölgað yrði um tvö og hálft nýtt stöðugildi við hjartaskurðlækningar. Á móti lækkuðu sjúkratryggingar hjá Tryggingastofnun ríkisins um 7 millj. kr. Þessar tillögur gerir fjvn. að sínum. Þá kom fram að heilbrrh. og fjmrh. höfðu gert með sér samkomulag um tvö ný stöðugildi við K-byggingu sem þó var ekki gert ráð fyrir í fjárlagafrv. Fjvn. gerir tillögu um 4 millj. kr. er nægi til að greiða kostnað vegna þessara tveggja nýju starfsmanna sem samið hafði verið um.
    Þá var lögð fyrir fjvn. tillaga Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um að liðurinn Viðhald undir umsjá stjórnarnefndar ríkisspítala hækki um 10 millj. kr. og gerir fjvn. þá tillögu að sinni. Þá var lögð fyrir fjvn., eins og áður hefur komið fram, niðurstaða Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um 1% hækkunarþörf á álagshlutfalli vegna launagreiðslna, en eins og áður hefur fram komið treystir nefndin sér ekki til að gera þá tillögu að sinni en leggur til 1,5% hækkun. Er sú hækkun hér uppfærð á hinar ýmsu deildir ríkisspítalanna. Þá gerir nefndin einnig sjálfstæða tillögu um að stofnkostnaður vegna stjórnarnefndar hækki um 10 millj. kr.
    Þá er komið að Borgarspítalanum. Sá spítali sinnir sérstaklega málefnum alnæmissjúklinga. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja hefur fólki sem smitað er af alnæmisveirunni fjölgað mjög á Íslandi á skömmum tíma og er Ísland nú áttunda efsta land í röðinni hvað varðar fjölda eyðnismitaðra í
hlutfalli af fólksfjölda og eru þá ekki meðtaldir í þeirri tölu þeir Íslendingar sem hafa smitast af veirunni og dveljast í útlöndum. Þessi fjölgun alnæmissmitaðra kallar á sérstök viðbrögð og var mikil áhersla á það lögð við nefndina að við því yrði brugðist, m.a. með ráðningu hjúkrunarfræðings og félagsráðgjafa sem sérstaklega helguðu sig málefnum þeirra sem smitaðir eru af þessum sjúkdómi. Fjvn. leggur til að fallist verði á fjölgun um eitt stöðugildi hjúkrunarfræðings og eitt stöðugildi félagsráðgjafa vegna sjúkdómsins eyðni.
    Eins og kunnugt er var nú fyrir nokkrum dögum tekin í notkun ný deild við B-álmu Borgarspítalans. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að sú deild verði starfrækt á næsta ári og samkvæmt grg. frv. er í frv. gert ráð fyrir nauðsynlegu mannahaldi á Borgarspítalanum vegna þeirrar starfrækslu. Við nánari athugun reynist svo ekki vera. Í frv. er aðeins gert ráð fyrir stöðum sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga vegna þessarar deildar. Á þessari nýju deild sem opnuð var fyrir nokkrum dögum er hins vegar m.a. gert ráð fyrir að fari fram bæklunarskurðlækningar. Ljóst er að ekki nægir að gera aðeins ráð fyrir þjónustu sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga vegna slíkra bæklunarsjúklinga auk

þess sem opnun nýrrar deildar hlýtur óhjákvæmilega að kalla á aukið álag á aðra en bara þá sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga sem þar starfa.
    Heilbrrn. gerði ráð fyrir því í viðræðum við fjvn. að til þess að hægt væri að fullnægja starfsmannaþörfum hinnar nýju deildar þyrfti að ráða í sex til sjö stöður til viðbótar við stöður sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga sem frv. gerir ráð fyrir. Fjvn. leggur til að ráðið verði í tvær af þessum sex stöðum og að Borgarspítalinn fái sjálfur að ráða því hvaða stöður hann velur af þeim sex eða sjö sem hann lagði sérstaka áherslu á. Þá er einnig lagt til í þessari tillögu að álagshlutfall Borgarspítalans vegna launa verði hækkað um 1,5% eins og álag annarra spítala.
    Þá er komið að Landakoti. Spítalinn sendi fjvn. inn beiðnir sínar eins og aðrar sjúkrastofnanir og fór nefndin þess á leit við Fjárlaga- og hagsýslustofnun að hún tæki erindi hans til skoðunar. Niðurstaðan varð að sértekjur spítalans þyrftu að lækka um 10 millj. kr. og gerir fjvn. Alþingis þá niðurstöðu að tillögu sinni. Jafnframt er í tillögunni gert ráð fyrir hækkun á álagslið launa til samræmis við aðrar sjúkrastofnanir.
    Rétt er að geta þess hér að eins og frá tillögum fjvn. er gengið er ekki gert ráð fyrir að neinir nýir verkáfangar verði hafnir, hvorki við K-byggingu á Landspítalalóð né við B-álmu Borgarspítala. Fjárveitinganefndarmenn gera sér fulla grein fyrir því að þar er þröngur stakkur skorinn og ekki síður að fjárveitingar til tækjakaupa og búnaðar á þessum spítulum eru mjög skornar við nögl og varla hægt að sinna þeim störfum sem þessar stofnanir telja vera lágmarksþarfir. Hvað varðar ríkisspítalana telur fjvn. þó að með þeirri hækkun sem hún hefur lagt til á viðhalds- og stofnkostnaði verkefna sé unnt að sinna þeim viðfangsefnum sem óhjákvæmileg eru. Hvað varðar Borgarspítalann á að vera unnt af fjárveitingum þess spítala að halda áfram þeim nauðsynlegum verkum við betrumbætur á eldvarnakerfi spítalans og endurnýjun á rafkerfi hans í framhaldi af því að ný vararafstöð hefur verið tekin í notkun í samræmi við afgreiðslu Alþingis á fjáraukalögum yfirstandandi árs.
    Ástæða er til að minna á í þessu sambandi að í ráði er hjá ríkisstjórninni að samræma rekstur sjúkrastofnana á höfuðborgarsvæðinu, m.a. þannig að aðgerðaþjónusta þeirra verði endurskipulögð og höfð hliðsjón af mikilli þörf fyrir aukið langlegurými og öldrunarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Brýna nauðsyn ber til að þeirri athugun verði hraðað, m.a. vegna þess að áform um endurnýjun og endurbyggingu á aðgerðaaðstöðu í sumum spítalanna hljóta að tengjast niðurstöðum þeirra athugana og tillögugerð heilbrrn. um samhæfingu í rekstri og starfrækslu sjúkrastofnana á höfuðborgarsvæðinu.
    143. tillaga varðar byggingu sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Þar leggur fjvn. til hækkun um 35,2 millj. kr. og skiptingu eins og fram kemur á þskj. 279 og er sú skipting gerð í samráði við þingmenn kjördæmahópanna eins og vani er.
    144. tillaga varðar leiðréttingu sem fjvn. fékk frá

Fjárlaga- og hagsýslustofnun og gerir nefndin þá leiðréttingu að tillögu sinni.
    Tillaga 145 til og með tillögu 153 eiga það sameiginlegt að hér er aðeins um það að ræða að breyta launaliðum um tilteknar fjárhæðir vegna tillagna um hækkun álagshlutfalls á laun sem áður hefur verið gerð grein fyrir.
    Tillaga 154 varðar heilsugæslustöðvarnar, en nú yfirtekur ríkið rekstur þeirra af sveitarfélögum frá og með næstkomandi áramótum. Í fjárlagafrv. var fjárhæð vegna þessa á einum safnlið, en gert var ráð fyrir að í meðförum nefndarinnar væri þessum safnlið síðan skipt niður á hinar einstöku heilsugæslustöðvar í héruðunum. Hefur það nú verið gert. Heilbrrn. vann þær tillögur og Fjárlaga- og hagsýslustofnun fór yfir þær og varð niðurstaðan sú sem lýst er í tillögum 155 til og með 162. Þessar niðurstöður heilbrrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur fjvn. tekið upp óbreyttar og gert að sínum. Niðurstöðutala samkvæmt þessari skiptingu er 2 millj. 880 þús. kr.
hærri en gert var ráð fyrir í frv. Þá gerir tillaga 154 einnig ráð fyrir að útgjöld á heilsugæslustöðvar vegna 5. gr. laga nr. 87 frá 1989 falli út og sértekjur að fjárhæð 89 millj. kr. falli út á móti og eru sértekjur færðar inn á hvert hérað eins og sést nánar af tillögunum. Ég ítreka að hér er enn alfarið stuðst við sameiginlega niðurstöðu heilbrrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um meðferð þessara mála.
    Tillaga 163 varðar Lyfjatækniskóla Íslands. Fjvn. leggur til að fjárveiting til skólans verði hækkuð um 500 þús. kr. vegna viðhaldsverkefna í húsnæði skólans.
    Þá er komið að tillögu 164. Í a-lið er lögð til hækkun um 2 millj. kr. á Gæsluvistarsjóði og í b-lið er lagt til að framlag til samtaka áhugamanna um áfengisvandamálið sem í frv. var 10 millj. kr. verði hækkað í 15. Er það í samræmi við yfirlýsingar um að samtökum áhugamanna um áfengisvandamálið verði tryggðar 15 millj. kr. í árlegt framlag úr ríkissjóði í fjögur ár og er árið 1990 þriðja og næstsíðasta árið sem slíku framlagi hefur verið heitið.
    Tillaga 165 þarfnast ekki skýringa.
    Tillaga 166 varðar húseignina Bjarnarbraut 8, Borgarnesi, en þar er fyrirhugað að verði skrifstofur Fasteignamatsins og fræðslustjórans á Vesturlandi. Samkvæmt niðurstöðum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar vantar 17 millj. 800 þús. kr. til þess að sú framkvæmd verði unnin eins og til stendur og gerir fjvn. þá niðurstöðu að tillögu sinni. Þá er í b-lið lagt til að 1 millj. kr. verði varið til áframhaldandi hönnunar stjórnsýsluhúss á Akranesi. Verði það að ráði að keypt verði hús á staðnum í stað þess að byggja nýtt mun þessi fjárveiting að sjálfsögðu falla niður.
    Tillaga 167 varðar Vita- og hafnamálaskrifstofuna. Var óskað eftir umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um erindi Vita- og hafnamálastofnunar sem fjvn. barst og eru niðurstöður Fjárlaga- og hagsýslustofnunar gerðar að tillögum fjvn. um meðferð málsins.
    Till. 168 varðar tilfærslu vegna kostnaðar við

yfirtöku sveitarfélaga á landshöfnum.
    Till. 169 varðar svo fjárlagaliðinn Hafnarmannvirki og lendingarbætur og er gert ráð fyrir að þær hækki um 125 millj. kr. samtals og er sá fjárlagaliður sundurliðaður á hinar ýmsu framkvæmdir í brtt. 169 á þskj. 279. Við þá ákvörðun hefur verið haft samráð við þingmannahópa kjördæmanna um skiptingu milli hafnamannvirkja í þeirra kjördæmum eins og vani er.
    Virðulegi forseti. Þau mistök hafa gerst að vegna þess að tillögur þingmanna Austurl. bárust nokkuð seint hafa þær ekki verið færðar inn í skiptinguna eins og þeir gerðu tillögu um. Þarf því að gera þá leiðréttingu á þeirri skiptingu sem hv. þm. Austurl. leggja til og ekki breytir heildarfjárhæðum. Kemur sú leiðrétting fram í endurprentun skjalsins sem lagt verður fram síðar. Eins og ég segi breytir það ekki heildarfjárhæðum og ekki skiptingu milli kjördæma.
    Þá er í brtt. 172 gerð tillaga um að framlag til Hafnabótasjóðs hækki um 27,5 millj. kr.
    Tillaga 173 varðar Siglingamálastofnun ríkisins. Þar er í fyrsta lagi gerð tillaga um hækkun á launalið um 4,5 millj. kr. og var í því sambandi haft samráð við bæði samgrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Þá gerir fjvn. einnig tillögu um sérstaka fjárveitingu, 1,5 millj. kr. vegna mælinga á stöðugleika skipa og aðgerða til þess að tryggja aukinn stöðugleika og er þar einkum átt við hina smærri báta. Það skal fram tekið að það er rangt sem segir í skýringum við nál. á þskj. 278 að þetta framlag sé ætlað til stöðugleika- og hávaðarannsókna. Hér er aðeins um framlag að ræða til stöðugleikarannsókna og er til þess ætlast að þessu framlagi sé varið til að auka rannsóknir og aðgerðir til að tryggja aukinn stöðugleika fiskiskipa, en þær aðgerðir hafa nú þegar borið verulegan árangur til að auka öryggi sjófarenda.
    Tillaga 174 kemur næst. Þar er sérstök ástæða til að minnast á tvö atriði. Í fyrsta lagi b-lið, Norrænar jarðskjálftarannsóknir. Þar er lögð til hækkun um 1440 þús. kr. og er það til að unnt sé að standa við þegar gert samkomulag um samnorrænar jarðskjálftarannsóknir á Suðurlandi. Í d-lið er síðan fjallað um Öryggismálaskóla sjómanna. Er þar gert ráð fyrir að hækka fjárveitingu um 4 millj. kr. og á það að tryggja að Öryggismálaskóla sjómanna sem starfræktur er um borð í fyrrverandi varðskipinu Þór verði tryggð nægileg fjárveiting til þess að hægt sé að sinna öryggismálakennslu í sjávarþorpum og fiskibæjum um landið í allt að þrjá mánuði á ári í stað tveggja mánaða eins og gert hefur verið á yfirstandandi ári. Miðast þessi tillaga einnig við að auka öryggi sjófarenda, enda hefur mikil aðsókn verið að Öryggismálaskóla sjómanna og enginn vafi er á því að hann getur gert og mun gera verulegt gagn til að auka öryggi sjómannastéttarinnar.
    Tillaga 175 þarfnast nokkurra skýringa. Samkvæmt a-lið er gerð tillaga um 2,6 millj. kr. hækkun á liðnum 610 Ferðamál. Ætlast er til að 2 millj. af þessari fjárhæð fari til að greiða fyrir þróunarverkefnum í ferðaþjónustu hjá Ferðaþjónustu bænda en sú ferðaþjónusta hefur nú verið í mjög örri

uppbyggingu og eru þar möguleikar á mjög blómlegri atvinnugrein í sveitum landsins sem
rétt er að gera sérstakt kynningarátak fyrir. Þá er gert ráð fyrir því að 600 þús. kr. gangi til Ferðafélags Íslands til að greiða að nokkru kostnað sem Ferðafélagið hefur af gerð snyrtiaðstöðu fyrir ferðafólk í óbyggðum landsins.
    Í b-lið er gerð tillaga um að liðurinn 620 Hótel, framlög hækki um 5 millj. kr. Af þessum lið eru greiddar þær skuldbindingar sem Ferðamálasjóður hefur verið látinn taka á sig vegna sérstaks vanda hótela. Samkvæmt athugun sem fjvn. lét gera á þessum lið nægja 20 millj. kr. ekki til að Ferðamálasjóður geti staðið við skuldbindingar sínar og tekist á við þau verkefni sem til hans hefur verið beint. Gerir nefndin því tillögu um að þessar 20 millj. kr. verði hækkaðar í 25 og mun það tryggja að Ferðamálasjóður geti gegnt þeim hlutverkum sem honum hafa verið falin.
    Í c-lið er síðan lagt til að settur verði á fót nýr liður, 630 Ýmislegt, og til hans verði veittar 4,6 millj. kr. Ástæðan er sú að fjvn. hefur nú um tveggja ára skeið kynnt sér sérstaklega þau vandamál sem upp eru risin vegna skorts á snyrtiaðstöðu fyrir ferðafólk við Gullfoss og miklum ágangi ferðafólks á því svæði en sá ágangur spillir nú gróðurfari og gönguleiðum í nágrenni Gullfoss. Fram hafa komið ýmsar hugmyndir um úrbætur, þar á meðal um lagningu stíga og frágang bílastæðis, auk þess sem uppi hafa verið hugmyndir um byggingu snyrtiaðstöðu og jafnvel um uppbyggingu aðstöðu til sölu á vöru og þjónustu fyrir ferðamenn. Ýmis áhorfs- og álitamál eru í þessu sambandi, bæði um hvort hús skuli reist á þessu svæði, hvar þau skuli reist og hversu viðamiklar þær byggingar eigi að verða.
    Fjvn. leggur þá tillögu fyrir Alþingi að stuðlað verði nú að því að nauðsynlegar lagfæringar verði gerðar á aðstöðu ferðamanna við Gullfoss án þess þó að þar verði stigin einhver þau skref sem erfitt yrði að stíga til baka og umdeilanleg kynnu að verða. Tillaga fjvn. hér um 4 millj. kr. byggist m.a. á því að ónotuð er fjárveiting fyrra árs upp á 1,6 millj. kr. og fyrir þær fjárveitingar, samtals að upphæð 5,6 millj. kr., sem væru til ráðstöfunar væri tillaga þessi samþykkt væri unnt að ganga snyrtilega frá bílastæðum við Gullfoss og leggja göngustígi og göngustiga um svæðið þannig að umferð ferðamanna yrði beint eftir stígunum í stað þess sem nú er, að allt gróðurlendi í kring er meira og minna sparkað sundur vegna átroðnings fjölmargra fóta. Næsta ár yrði síðan notað til þess að gaumgæfa betur þær hugmyndir sem menn hafa um gerð og byggingu snyrtiaðstöðu og hvernig fyrirkomulagi og rekstri á slíkri þjónustu við ferðamenn væri best fyrir komið. Þá er einnig undir þessum lið gert ráð fyrir 600 þús. kr. framlagi til þess að koma á fót snyrtiaðstöðu fyrir ferðamenn við Látrabjarg.
    Þá er komið að tillögu 176 en sú tillaga varðar Veðurstofuna. Hún er reist á niðurstöðum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar á breytingum er varða Veðurstofuna

sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun lagði fyrir fjvn. og nefndin gerði að sinni.
    Um brtt. 177 hefur áður verið rætt í tengslum við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þar er einnig um að ræða leiðréttingar, annars vegar vegna vanáætlunar yfirvinnu og hins vegar vegna ofáætlunar sértekna. Var einnig í þessu sambandi stuðst við álit Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og það álit gert að tillögum fjvn. Sama máli gegnir um tillögu 179 og tillögu 180 sem er síðasta tillagan á þessu þskj. Um báðar þessar tillögur hafði fjvn. samráð við Fjárlaga- og hagsýslustofnun og studdist við niðurstöður úr athugun hennar á þessum viðfangsefnum við gerð þeirra tillagna sem hér eru fram settar.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að rekja nokkuð tilefni þeirra tillagna sem fjvn. leggur til. Ég geri mér það ljóst að ég hef tekið til þess nokkurn tíma en ég held að það hafi verið nauðsynlegt svo að þeir sem höfðu þolinmæði til að fylgjast með þeirri greinargerð geti gert sér það fyllilega ljóst að þó svo að mönnum finnist tillögur þessar kannski nokkuð háar er meginhlutinn af þeim til kominn vegna leiðréttinga á launaliðum vegna verðuppfærslu og vegna vanáætlana. Þær breytingar hafa allar verið bornar undir Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrn. og eru flestallar staðfestar af þeim aðilum og fluttar hér að fyrirlagi þeirra. Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að gæti komið fram í mínu máli svo að menn þyrftu ekkert að velkjast í vafa þar um.
    Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt. fjvn. á þskj. 279. Ég legg til að þessar brtt. verði síðan samþykktar eins og þær koma fram.