Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls þakka formanni fjvn., Sighvati Björgvinssyni, fyrir góða fundarstjórn og gott samstarf svo og öllum nefndarmönnum. Sérstaklega vil ég þakka starfsfólki Ríkisendurskoðunar og starfsfólki fjvn. fyrir einstaka lipurð í samskiptum svo og öllu starfsfólki í Austurstræti 14.
    Virðulegi forseti. Á fjárlögum hverju sinni birtist hugur stjórnvalda, þar sést stjórnarstefnan í raun. Þar sést á borði það sem haft hefur verið í orði eða það skyldi maður ætla. Hvernig til hefur tekist, hvort breyta á forgangsröð, hvort það eru breyttar áherslur, þá með þeim hætti að fjárlagafrv. endurspegli málefnasamning og yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar, er hennar sjálfrar að dæma. Niðurstöðurnar sem koma fram mun almenningur dæma síðar. En það verður að segjast eins og er að við kvennalistakonur eigum erfitt með að greina stórbreytta áherslu eða forgangsröð frá því sem verið hefur. Enn sem fyrr höfum við litið á málið út frá sjónarhóli kvenna fullvissar þess að hagur kvenna og þeirra sem í skjóli þeirra standa sé einnig þjóðarhagur. Því munum við kvennalistakonur hér á eftir mæla fyrir nokkrum brtt. sem varða konur og eru þær prentaðar á þskj. 287. Mun ég ekki tíunda frekar í byrjun máls míns þessar tillögur, einungis undirstrika að ótalmargt annað hefðum við kosið að sjá með öðrum hætti en viljum með táknrænum hætti benda á hve konur, kjör þeirra og þarfir eru oftast víðs fjarri í hugum þeirra sem málum ráða.
    Þegar þetta frv. til fjárlaga var lagt fram fyrir sex vikum ræddi ég nokkuð um að forsendum þess væri ekki treystandi. Ég skírskotaði til fjárlaga
yfirstandandi árs sem nú eru komin úr öllum böndum og benti á hástemmdar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. þá um að með raunhæfum fjárlögum með tekjuafgangi væri brotið blað í sögu fjárlagagerðar. Þó að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir enn um afkomu ríkissjóðs á þessu ári er ljóst að tekjur ríkissjóðs fara 1,7 milljarða fram yfir fjárlög. Þegar liggur fyrir að hallinn verður a.m.k. 6 milljarðar og ekki kæmi á óvart þó niðurstaða fjáraukalaganna sýndi hallann nær 7--8 milljörðum. Þannig blasir við okkur í dag hvernig raunin hefur orðið um tímamótafrv. frá því í fyrra.
    Þegar svo horft er til framtíðarinnar með hliðsjón af reynslu þessa árs og með hliðsjón af þeirri áætlun um ríkisfjármál sem fjárlagafrv. boðar hljóta menn að hafa uppi efasemdir. Engar af forsendum fjárlaga þessa árs um gengi, verðlag, lán og laun stóðust. Er ástæða til að treysta forsendum þessa frv. betur? Fjmrh. fullyrti að í fjárlögum þessa árs væri séð fyrir þeim launahækkunum sem yrðu á árinu. Hvert barn getur séð að sú varð ekki niðurstaðan.
    Nú eru samningar lausir og þegar hefur orðið umtalsverð kaupmáttarrýrnun á árinu og spáð er enn frekari rýrnun á næsta ári. Eigum við því að treysta því að fyrirsjáanlegum og óumflýjanlegum launahækkunum sé mætt í fjárlögum næsta árs? Skoðun mín er sú að í ljósi fyrri reynslu sé það

hæpið. Sú reynsla staðfestir í raun að stjórn efnahagsmála á þessu ári hefur gersamlega mistekist. Því til sönnunar eru eftirfarandi staðreyndir:
    Viðskiptahalli við útlönd hefur aukist á þessu ári og er spáð að á næsta ári kunni hann að verða allt að 10 milljörðum sem getur þó orðið meira ef loðnuveiðin bregst. Erlendar skuldir hafa stórhækkað á þessu ári og sömuleiðis greiðslubyrði af erlendum lánum sem verður trúlega um 19% af landsframleiðslu. Hallinn á ríkissjóði í ár verður ekki undir 6 milljörðum, verðbólga er 25% og raunvextir af bankalánum hafa að meðaltali tvöfaldast á árinu. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur rýrnað verulega á árinu og spáð er að hann muni enn dragast saman á næsta ári. Atvinnuleysi hefur aukist stórkostlega á þessu ári og fyrirsjáanlegt er að eftir áramót munu þúsundir manna verða án atvinnu. Slíkar tölur hafa ekki sést í áratugi og ég vil ítreka að þessar staðreyndir eru sönnun þess að ríkisstjórninni hefur ekki tekist það yfirlýsta ætlunarverk sitt að ná tökum á efnahagsmálunum. --- Forseti. Má ég spyrja hvar ráðherrar eru staddir? ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að láta hæstv. ráðherra vita að nærveru þeirra sé óskað hér í salnum. Þá geri ég ráð fyrir að átt sé við hæstv. fjmrh.) Fyrst og fremst.
    Þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir þessu frv. lýsti hann því yfir að það væri hornsteinn nýrrar efnahagsstefnu og traustur rammi um efnahagslífið sem þjóðin ætti að laga sig að. Nú þegar við 2. umr. er komið í ljós að lítið mark er takandi á þessum yfirlýsingum þó auðvitað megi halda þeim fram svo fast og lengi að einhverjir fáráðlingar fáist til að trúa þeim. Raunin er sú að frv. var illa unnið, moraði af augljósum vanáætlunum og villum sem í meðferð fjvn. hafa fengið umtalsverðar leiðréttingar, greinilega í fullkominni óþökk hæstv. fjmrh. Spurningin er hvort honum þykir ákjósanlegra að fá leiðréttingarnar í bakið í lok næsta árs en að reyna að byrgja brunninn í tíma. --- Það bólar lítið á ráðherra. ( Gripið fram í: Það verður bara að fresta fundi.)( Forseti: Forseti hefur þegar beðið um að hæstv. fjmrh. komi hér í salinn.) Ég mun nú
halda áfram máli mínu þó að hæstv. fjmrh. þyki það sýnilega ekki við hæfi að vera viðstaddur.
    Við gerð fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár var allt kapp lagt á að það sýndi tekjuafgang. Niðurstaðan liggur nú fyrir. Auknar álögur á landsmenn upp á 1,7 milljarða og aukin gjöld 6--9 milljarðar. Geta þessir menn ekkert lært af reynslunni? Við 1. umr. lýsti ég efasemdum um að áætlanir frv. stæðust. Þó að eitt og annað hafi breyst til batnaðar í meðferð fjvn. er augljóst að margir þættir bæði varðandi tekjur og gjöld eru vafasamir. Hæstv. ríkisstjórn, sem er nú fjarstödd öll eins og hún leggur sig, ( Fjmrh.: Nei, nei.) ég býð hæstv. fjmrh. velkominn. --- Ríkisstjórnin hefur haft hugann við það umfram annað að finna nýja skatta til að leggja á þjóðina. Á þann hátt hefur hún sagst stefna að því að ná endum saman í ríkisbúskapnum. Auðljóst er þó að meðan atvinnuvegirnir fá ekki að komast úr fjötrum

hallarekstrar og gjaldþrota og launafólk býr við skertan hlut og öryggisleysi er þessi stefna dæmd til að mistakast.
    Þegar ríkisstjórnin hvarf frá fyrirætlunum um 26% virðisaukaskatt þannig að prósentan skyldi verða 24,5% jókst halli á tekjuhlið frv. sem nam 1900 millj. kr. Við því var brugðist með því að leggja fram frv. um breytingar á tekju- og eignarskatti sem á að skila ríkissjóði 2,8 milljörðum kr. Helmingi þess skal verja til aukinna barnabóta og hækkaðs persónuafsláttar. Þeim 500 millj. sem þá vantar til að fylla gatið á tekjuhliðinni á svo að ná með hækkuðum þungaskatti á bifreiðar upp á 350 millj. kr., með 250 millj. kr. skatti á orkufyrirtæki og eru þá 100 millj. eftir til að mæta öðrum gjöldum. Við þessa skattlagningu bætist síðan fleira sem kannski liggur ekki eins í augum uppi. Gerðar eru í fjárlagafrv. mjög harðar kröfur til stofnana á vegum ríkisins um auknar sértekjur og eru áætlanir um starfsemi þeirra byggðar á því að þær kröfur nái að ganga fram. Þá er í fjárlagafrv. tekin upp sú nýstárlega aðferð við skattheimtu að láta stofnanir í A-hluta ríkissjóðs innheimta meira fyrir þjónustu sína en þær þurfa á að halda. Afganginum á svo að skila í ríkissjóð eða samtals 58,8 millj. kr. Sömu sögu er að segja af nokkrum stofnunum B-hluta, t.d. á Póstur og sími að innheimta 350 millj. kr. í póstburðar- og símgjöldum beint til ríkisins. Allt eru þetta álögur á almenning.
    Við upptöku nýs skattkerfis er rétt að skoða hvort líklegt sé að áætlanir um tekjur af því muni standast. Upplýst hefur verið að sveitarfélög muni greiða 500--800 millj. kr. hærri virðisaukaskatt en þau greiddu áður í söluskatt. Virðist þá langt til uppurinn sá ávinningur sem þau höfðu af verkaskiptingunni við ríkið.
    Virðisaukaskatturinn leggst einnig á fleiri þætti í sölu og þjónustu en söluskatturinn gerði og hlýtur því að hækka verðlagið. Á tímum rýrnandi kaupmáttar bitnar þetta hart á fólki og hlýtur að leiða til minnkandi veltu sem rýrir gjaldstofninn. Vafasamt er því að þessi skattur skili þeim tekjum sem ætlað er.
    Í nýju frv. til laga um tekjuskatt er gert ráð fyrir að tekjuskattur hækki á næsta ári um 2% þannig að staðgreiðsluprósentan verði 39,74%. Frádráttarliðir eiga að hækka um 7,36% frá því þeir hækkuðu síðast en á sama tíma hefur lánskjaravísitala hækkað meira eða um 9,98%. Í útskýringum fjmrn. um niðurstöður þessa dæmis er greinilega farið með blekkingar. Byggt er á röngum forsendum þar sem borinn er saman persónuafsláttur á tímabilum sem ekki eru sambærileg. Hið rétta er að maður sem hafði 50 þús. kr. í laun í des. 1988 greiðir 73,5% hærri skatt í janúar 1990 en í jan. 1988 meðan laun hafa hækkað um 29,7%. Sömuleiðis lækkar skatthlutfallið eftir því sem tekjur hækka þannig að sá sem hafði 120 þús. kr. í laun 1. des. 1988 greiðir 49,5% hærri skatt í janúar 1990 en hann hefði gert í janúar 1989. Það er því alrangt að þessi skattbreyting komi einkum láglaunafólki til góða. Þvert á móti leggst hún þyngra á það og barnabótaaukinn gagnast ekki einhleypingum og

barnlausu fólki. Það er vert að leggja áherslu á að barnabætur og barnabótaauki eru til barnanna sjálfra og framfærslu þeirra en ekki skattaívilnanir né endurgreiðslur á sköttum. Skattar á almenning munu þyngjast verulega og fyrirhuguð breyting veldur ekki tekjujöfnun eins og haldið er fram.
    Ítreka skal enn að óbeinu skattarnir sem felast í hækkun á gjaldskrám fyrirtækja og virðisaukaskattur sem leggst á þætti sem ekki voru gjaldskyldir áður munu hækka verðlag og þrengja kost almennings. Aukin skattlagning á sveitarfélög leiðir til minnkandi framkvæmda og lakari þjónustu. Og þessir þættir draga úr veltu í sölu og þjónustu. Minnkandi kaupmáttur verkar á sama hátt og skattpíningarstefna ríkisstjórnarinnar rýrir gjaldstofninn smám saman og því gagnast hún ekki þegar fram í sækir. Þegar til lengdar lætur hlýtur hún að lama hagkerfið.
    Þá vil ég enn ítreka vantrú mína á að tekjuhlið frv. standist af þessum sökum. Auk þess væri fróðlegt að vita hversu mikið af gróðanum af virðisaukaskattinum ést upp vegna þess hversu kostnaður við mannahald og eftirlit og innheimtu eykst. Það er vafamál hvort réttlætanlegt er á samdráttartímum að þyngja skattbyrði almennings svo sem gert hefur verið tvö
síðustu árin og enn á að bæta í á komandi árum. Það hefur að vísu ekki vantað neitt á að fyrrv. og núv. fjmrh. færi á kostum við reikningskúnstir til að telja landsmönnum trú um að í rauninni þyngdist skattbyrði þeirra alls ekki neitt þó að tekjur ríkissjóðs af þeim hækkuðu. Fyrrv. fjmrh. komst jafnvel svo langt að hann reiknaði út að fólk greiddi engan matarskatt. Þar tók hann Sölva Helgasyni fram og er þá langt jafnað. Upplýst er nefnilega að matarskatturinn einn sér jók tekjur ríkissjóðs um 6,7 milljarða á árinu 1988. Þá voru niðurgreiðslur á móti 1,5 milljarðar. Áætlað er að matarskatturinn skili ríkissjóði 8,2 milljörðum í ár en niðurgreiðslur lækka hlutfallslega og verða 1,7 milljarðar. Auðvitað fyrirverða ráðherrar sig fyrir þessa siðlausu tekjuöflun og vilja ekki við hana kannast. Það breytir ekki staðreyndinni. Þarna er hún svört á hvítu og matarskatt munu menn borga enn sem fyrr í virðisaukaskatti þó að kjöt, mjólk og innlent grænmeti sé niðurgreitt.
    Um langan tíma hafa niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum tíðkast í þeim tilgangi að auðvelda fólki að kaupa þær. Að taka af þeim greiðslum til að greiða niður þessar sömu vörur í virðisaukaskatti þýðir ekki að virðisaukaskatturinn sé ekki lagður á þær. Í daglegu tali heita þessar aðgerðir millifærslur. Síðan verður skólabörnum og öðru námfólki gert að greiða virðisaukaskatt af námsbókunum næsta haust og sjálfsagt verður enginn hissa þó að leitað verði leiða til að komast hjá því að fella þá undanþágu niður sem ætlað er að hafa á bókum eftir 16. nóv.
    En ég vil koma að því að í umræðum um virðisaukaskattinn hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar ítrekað lofað að landbúnaðarvörur lækki í verði um allt að 10% eftir jól. Ég vil aftur á móti fullyrða að ef krónutala á niðurgreiðslum á að haldast óbreytt í

fjárlögum frá því sem hún er í frv., þá er enginn grundvöllur fyrir þeim verðlækkunum sem boðaðar eru. Haldi menn sig samt sem áður við að lækka verðið þá er vanáætlað í frv. upp á 300--400 millj. kr.
    Ég nefndi fyrr í máli mínu hvernig ríkisstjórninni hefur mistekist að efna heit sín um að ná tökum á efnahagsmálunum. Afleiðingar þess eru augljósar hvert sem litið er. Vaxandi viðskiptahalli þrátt fyrir samdrátt í innflutningi. Halli á ríkissjóði sem leiðir til aukinnar lántöku þar sem varla verður gengið lengra í álagningu skatta, hvorki á fólk né fyrirtæki. Verðbólga fer hækkandi, bátaflotinn er rekinn með halla og sömuleiðis hluti togaraflotans. Fiskvinnslan er núna réttu megin við núllið en ekki verður séð nú hver framvinda þeirra mála verður. Gamalgróin iðnfyrirtæki riða til falls. Eigið fé fjölda fyrirtækja, jafnvel atvinnugreina, er þrotið eða á þrotum. Og þrátt fyrir skuldbreytingar og lán til fyrirtækja svo milljörðum skipti er engan veginn séð hvort náðst hefur að tryggja rekstrargrundvöll þeirra varanlega meðan ekki tekst að ná fjármagnskostnaði niður.
    Það er ekki rétt sem fjmrh. heldur fram að við höfum orðið fyrir hrikalegum áföllum vegna ytri skilyrða. Ytri skilyrði, svo sem viðskiptakjör, olíuverð og fleiri þættir, eru betri en oft hefur verið áður. Það eru innlend skilyrði sem eru erfiðari, verðbólga og okurvextir. Halli ríkissjóðs á undanförnum árum hefur leitt til þess að síðan á árinu 1985 hafa vaxtagjöld ríkissjóðs tvöfaldast og nema nú 10 milljörðum.
    Enn er ríkissjóður rekinn með halla og verður svo greinilega enn um sinn. Við erum nú að gjalda fyrir gamlar syndir, ofveiði, sóun á fjármunum, offjárfestingar, fastgengisstefnu og okurvexti.
    Varfærni og gát í stjórnun efnahagsmála á uppgangstímum er ekki síður nauðsynleg þá en þegar harðnar á dalnum og nú fær þjóðin að finna fyrir timburmönnunum eftir fjárfestingarveisluna. Jafnvel þegar sá tími var kominn að sjá mátti fyrir að fiskveiðar hlytu að dragast saman var engin tilraun gerð til að móta skynsamlega stefnu í uppbyggingu frystihúsa og fiskvinnslustöðva. Byggð voru sífellt fleiri og stærri hús, jafnvel mörg í sama bæjarfélaginu, sem nú standa hálfnýtt eða jafnvel ónýtt. Það er ótvíræð skylda stjórnvalda á hverjum tíma að hafa skynsamlega stefnu í atvinnumálum, atvinnuuppbyggingu og fjárfestingarmálum. Á það hefur skort og skortir enn. Áköf leit stendur nú yfir að atvinnustefnu fyrir núverandi ríkisstjórn. Máttleysið og ráðaleysið í þeirri viðleitni er átakanlegt. Ráðherra geysist um landið og fundar um atvinnumál, hefur hvergi neitt til mála að leggja og hlustar tæpast á það sem heimamenn segja. Atvinnumál kvenna minnist hann ekki á og hlustar ekki á raddir þeirra og hefur reyndar engar áhyggjur af né heldur skilning á þeim málum. Allt er þetta ferðaflangs ráðherra einber sýndarmennska. Auðvitað verður að reyna að finna manninum eitthvað að dunda við.
    Í sáttmála ríkisstjórnarinnar voru gefin ákveðin fyrirheit um eflingu byggðanna um landið, einkum þó eflingu atvinnulífsins. Ég hef þegar nefnt hvernig

horfir um sjávarútveg og fiskvinnslu, en vandi þeirra greina stefnir afkomu margra byggðarlaga í voða. Landbúnaður á mjög í vök að verjast og er víða vegið að honum. Ekki er staðið við lögboðnar greiðslur til bænda þrátt fyrir lagasetningu á sl. vetri. Allir vita svo hver staðan er í sambandi við loðdýr og fiskeldi sem á sínum tíma áttu að koma bændum til góða þegar kreppti að í hefðbundnum búgreinum og leysa allan þeirra vanda í bráð og lengd.
    Nú er í uppsiglingu enn ein töfralausnin til lausnar vanda landbúnaðarins. Nú er það skógrækt sem er lausnarorðið. Enginn má taka orð mín svo að ég sé mótfallin skógrækt. En ég bið menn um að flýta sér hægt og huga vel að málinu. Skógræktarátak á Fljótsdalshéraði er verkefni sem ætlað er að tugum eða jafnvel hundruðum milljóna verði varið til á næsta ári. En ég bið menn um að athuga vel hvernig á að standa að þeirri framkvæmd, athuga hvað verið er að samþykkja. Engar áætlanir hafa enn litið dagsins ljós um hvernig staðið verði að þessari framkvæmd þó að kvisast hafi að þarna eigi að reisa enn eitt ríkisbáknið sem myndi þá gleypa bróðurpartinn af framkvæmdafénu, í stað þess að láta bændurna sjálfa um framkvæmdina, veita þeim ráðgjöf og aðstoð, færa ræktunina til þeirra en eyða ekki milljónatugum í gróðrarstöð.
    Skógrækt skapar ekki mikla vinnu. Hún er ekki mannfrek og getur aldrei komið í stað annars búskapar. Það hefur sannast bæði í Noregi og Skotlandi svo dæmi séu nefnd. Aftur á móti er hún vel fallin til þess að styrkja annan búskap á jörðum sem henta til skógræktar og auka möguleika á nýtingu jarðanna. Því verður að athuga vel hagkvæmni þess að færa ræktunina sem mest til bænda áður en ráðist er í kostnaðarsamar byggingar. Og umfram allt verða menn að fara af gætni í þessi mál. Þriðja slysið má ekki henda.
    Ég get ekki skilið við landbúnaðarmálin án þess að minnast á hve mjög er að þeim þrengt. Tilraunastöðvar lagðar niður án skýringa, nema helst þeirra að þær geri ekkert gagn. Um gagnsemi þeirra má auðvitað deila en hitt vita allir sem vilja vita að þessar stofnanir hafa um árabil búið við algert fjársvelti sem hefur hamlað störfum þeirra. Ég man ekki betur en hæstv. landbrh. lýsti því yfir í fyrra að efling rannsóknastarfsemi væri landbúnaðinum höfuðnauðsyn. Ekki sér áhrifa þeirra orða stað. En frekari umfjöllun um landbúnaðarmál bíður 3. umr.
    Víða í frv. er illa staðið að málum sem eru landsbyggðinni mikilvæg. Framlög til vegamála eru skorin niður um rúman milljarð og er þá vegáætlun, sem samþykkt var síðastliðið vor, hrunin.
    Framlög til hafna eru í engu samræmi við þarfir. Breytt flutningatækni kallar á breytingu á höfnum eigi þær að svara kröfum nútímans en framlag til hafna nægir tæpast fyrir nauðsynlegu viðhaldi. Þó sums staðar sé ráðist í brýnar nýframkvæmdir kostar það oftast að viðhaldi er sleppt. Að vísu var þetta framlag hækkað nokkuð, að vonum. Annað var ekki ásættanlegt. En þessir tveir liðir, hafnir og vegamál,

eru meðal mikilvægustu framkvæmdaþátta á landsbyggðinni.
    Sparnaðarráðstafanir eru hafðar uppi í frv. og eru sumar þeirra næsta einkennilegar. Ekki er sparað á aðalskrifstofum ráðuneyta. Þar hækkar umfangið. En það sem konur hnjóta um er sparnaður í kennslu í grunnskólum upp á 56 millj. sem síðan er ekki skilgreindur frekar. Á að fækka kennslustundum og þá í hvaða námsgreinum? Hvernig á yfirleitt að framkvæma þetta? Þessi aðgerð verður varla skilin á annan veg en sem tilræði við grunnuppbyggingu námsferils barna og unglinga og er með öllu óverjandi á sama tíma og hæstv. menntmrh. boðar nýtt átak í skólamálum. Niðurstöður úr könnun um forgangsverkefni í skólum, sem framkvæmd var sl. vor, sýna að námsgögn, aukin lista- og verkmenntakennsla og einsetinn skóli eru þau atriði sem þar eru efst á blaði. En þetta eru bara orð á blaði en það sem eftir stendur er að framlög eru hækkuð til glímukennslu í skólum. Er þetta ekki nokkuð undarleg forgangsröð? Hvernig á eiginlega að skilja svona ráðstafanir?
    Í framhaldi af þessu vil ég minna á það að í kennarastéttinni eru konur í meiri hluta. Allir vita að kennaralaun eru smánarlega lág og hefur það að hluta verið réttlætt með því að þeir, sem aðrir opinberir starfsmenn, byggju við betri lífeyriskjör en almenningur. Kennarar, sem aðrir ríkisstarfsmenn, mega nú búa við að skert verður framlag í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna upp á 500 millj. Rök hagsýslustjóra fyrir þessari aðgerð eru nánast óskiljanleg. Hann heldur því fram að þetta skipti engu máli fyrir sjóðinn. Augljóst er þó að með þessari skerðingu er verið að fella niður lögbundnar greiðslur til sjóðsins og stíga fyrsta skrefið í þá átt að skerða lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.
    Ég fer ekki mikið lengra út í það að ræða einstaka þætti frv. og er þó af nógu að taka. Til dæmis má minna enn einu sinni á hve Ferðamálaráð er grátt leikið, í rauninni gert óstarfhæft á sama tíma og ferðamannaþjónustan er ein af fáum atvinnugreinum sem er vaxandi og skilar verulegum arði og gjaldeyristekjum í þjóðarbúið og byggist að verulegu leyti á vinnu kvenna. Ég vil einnig benda í þessu sambandi á hve vaxandi gistiþjónusta bænda er. Þar er ein af mikilvægustu hliðarbúgreinum sem nú eru uppi. Þessum málum hefur ekki verið lagt lið af opinberri hálfu.
    Í þessum efnum sem fleirum í sambandi við ferðamálin haga stjórnvöld sér á sama hátt og þeir sem éta karföfluútsæðið sitt. Uppskeran verður þá í samræmi við það.
    Að undanförnu hefur allmikið verið rætt um hve ofbeldi fer vaxandi, bæði ljóst og leynt. Óhugnanlegir atburðir gerast, jafnvel um hábjartan dag í
höfuðborginni og víðar um land. Viðbrögð hafa helst verið þau að efla löggæsluna sem vitaskuld er full þörf á, og ekkert hefur staðið á framlögum til þess. Minna er hins vegar rætt um ofbeldi sem fram fer á heimilum og í afkimum þar sem minna ber á,

nauðganir, kynferðisafbrot gegn konum og gegn unglingum, jafnvel börnum. Viðbrögð við þess konar afbrotum af opinberri hálfu eru harla lítil. Konur hafa séð sig knúðar til að mynda samstarfshópa til fræðslu um þessi mál, til varnar og til aðstoðar og aðhlynningar fórnarlömbum. Konur hafa lagt fram gífurlegt starf í sjálfboðavinnu, undir miklu álagi, því átakanlegra er en orð fá lýst að vera vitni að afleiðingum slíkra afbrota, ekki síst þar sem börn eiga í hlut. Þessar konur hafa sótt um fjárstuðning til starfsemi sinnar og vissulega hafa þær fengið nokkra fyrirgreiðslu en ekki neitt í námunda við það sem þörfin er þegar borið er saman við löggæsluna.
    Löggæslan er efld, en fyrirbyggjandi störf, fræðsla og aðhlynning við þá sem horfa á líf sitt í rústum, situr á hakanum. Slík er forgangsröðin hjá þeim sem málum ráða. Er sannarlega kominn tími til að augu manna opnist fyrir því að hér er þörf að breyta um áherslur.
    Gjaldþrot á landinu skipta nú þúsundum og fyrirsjáanlegt atvinnuleysi á næsta ári er geigvænlegt. Fjöldi fólks er þannig staddur nú, þegar líður að jólum, að réttur þess til atvinnuleysisbóta er útrunninn. --- Hverfur nú fjmrh.? Nei, segir hann, gott er að heyra það. --- Í þeim hópi eru konur fjölmennastar, konur á miðjum aldri sem ekki eiga auðvelt með að fá störf, jafnvel þótt næg atvinna væri í boði, konur sem eru fyrirvinnur. Hvað blasir við þessum heimilum? Hvaða ráð hafa stjórnvöld til úrbóta nú þegar við blasir stórfelldur niðurskurður í opinberum framkvæmdum, í þjónustu og yfirleitt hvar sem við verður komið, nema á skattstofunum, sem þenjast út eins og tilberar?
    Ég vil minna á orð eins stjórnarliða í sjónvarpinu á Alþingi á dögunum þar sem hann lét svo mælt að ekki væri þörf á að taka sérstaklega á vanda loðdýrabænda sem þá var til umræðu þar, það ættu svo margir við svipaða erfiðleika að búa og yrðu bara að hafa það. Er þarna verið að tala fyrir munn ríkisstjórnarinnar?
    Hæstv. forseti. Eins og þingmenn vita er sá háttur jafnan hafður á við afgreiðslu fjárlaga að stjórnarmeirihlutinn ræður stefnu og fjárframlögum að mestu leyti en stjórnarandstaða fær litlu ráðið. Þó sameinast nær öll fjvn. um ýmsar till. og stjórnarandstaðan styður þær oftast þó hver og einn geti haft sína fyrirvara. Að öðru leyti styður stjórnarandstaðan einungis það sem hún getur sætt sig við en tekur þó ekki ábyrgð á fjárlögunum í heild sinni og situr hjá við lokaatkvæðagreiðslu. Hún greiðir því fjárlagafrv. í heild sinni ekki mótatkvæði, þó hún geri svo við einstaka þætti frv. Þetta er vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðu hafa átt þátt í vinnu fjvn. og standa oftast að sameiginlegum till. hennar eins og áður segir.
    Því eru þessir sjálfsögðu hlutir gerðir að umræðuefni hér og nú að hæstv. menntmrh. hefur ítrekað vísað ábyrgð á niðurskurði stjórnvalda í menntamálum á Alþingi allt og þar með stjórnarandstöðuna. Þetta hefur hann gert í fjölmiðlum

og á fundum. Hann hefur vísað til mótatkvæðalausrar samþykktar síðasta fjárlagafrv. þar sem greidd voru atkvæði um niðurskurð ríkisstjórnarinnar og gefið þeim villandi upplýsingar sem ekki þekkja til. Það er auðvelt að skilja að hæstv. menntmrh. skuli þykja erfitt að geta ekki framkvæmt hugmyndir sínar í menntamálum. Hins vegar eru þessi vinnubrögð ekki til fyrirmyndar og væri honum og hæstv. ráðherrum öllum nær að axla sín skinn og sýna hlutdeild í ábyrgðinni á gerðum ríkisstjórnarinnar en varpa henni ekki yfir á aðra.
    Fyrir 14 mánuðum tókust þessir hæstv. ráðherrar á hendur þá ábyrgð að stjórna landinu. þeir virtust óðfúsir að axla þá ábyrgð og töldu sig þá eiga ráð undir rifi hverju en úrræðin hafa látið á sér standa.
    Viðvíkjandi atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni, sem algert ráðleysi ríkir um þrátt fyrir fyrirheit í stjórnarsáttmálanum, hefur Kvennalistinn komið til liðs við ríkisstjórnina og lagt fram frv. um hvernig hefja megi framkvæmdir um þau mál. Má nú ríkisstjórnin fagna því að henni er lagt lið í hugmyndafátæktinni.
    Að lokum vil ég segja þetta: Þetta frv. ber þess vott að algert ráðleysi ríkir innan ríkisstjórnarinnar um hvernig taka skuli á ríkisfjármálunum. Engin forgangsröð, engin framkvæmdaáætlun. Ekki getur verið að þessu ráði ótti við óvinsælar ákvarðanir því enginn hörgull er á þeim. Það sem stjórnina berlega skortir er samstaða, samvinna og pólitísk stefna sem vilji og þrek er til að framkvæma. Meðan þetta skortir er engin von til þess að verk hennar verði annað en hálfkák eitt.