Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Fulltrúi Kvennalistans í fjvn., Málmfríður Sigurðardóttir, gerði í dag grein fyrir afstöðu Kvennalistans til þessa fjárlagafrv. og mun ég ekki endurtaka það hér. Ég get þó ekki látið hjá líða að lýsa því enn og aftur að hvorki sú forgangsröð né þær áherslur sem í því birtast eru konum að skapi.
    Það er t.d. andstætt hugsunarhætti kvenna að þrengt sé að börnum með þeim hætti sem fyrirhugað er í þessu frv. Kvennalistakonur skilja hins vegar mætavel þá erfiðu stöðu sem nú er uppi en konur eiga þar litla sök á. Þær hafa ekki verið eyðsluklærnar sem hafa farið höndum um ríkiskassann hér á landi ferkar en víðast annars staðar í heiminum.
    Trúlega hafa fáir betri skilning og meiri reynslu af tómum pyngjum en einmitt konur sem búa við hróplegt misrétti í þessu þjóðfélagi. Fyrst og fremst hvað varðar beinharðar launagreiðslur sem eru auðvitað stór hluti af kjörum kvenna almennt. Í ljósi þess að konur eru svo miklu lægra launaðar en karlar hafa konur þurft að sýna aðgæslu í meðferð þess fjár sem þær hafa til ráðstöfunar hverju sinni. Þær hafa þurft að gera raunhæfar áætlanir, gæta þess að eyða ekki um efni fram en jafnframt að sjá til þess að allir í fjölskyldunni fái sinn skerf og nái að dafna.
    Þannig hafa konur í gegnum tíðina oft og einatt staðið í sömu sporum og hún Kráka í sögunni af Ragnari loðbrók. Hann vildi vita hvort hún væri jafnvitur og hún var fögur. Lagði hann því fyrir hana þrautir þrjár sem virtust með öllu óleysanlegar. Tókst henni með hugmyndaflugi sínu og útsjónarsemi að leysa hið ómögulega með því að fara óhefðbundnar leiðir. Þótt sagan af Kráku sé gömul og yfir henni viss ævintýrablær er hún okkur konum alltaf ný.
    Konur standa frammi fyrir hinu óleysanlega á degi hverjum. Þeim eru ætluð mörg hlutverk í einu, uppeldi og umönnun barna, atvinnuþátttaka,
heimilisstörfin hvíla á þeirra herðum og konur eru duglegar að bæta við menntun sína, m.a. í von um að aukin menntun bæti kjör þeirra. Í þeim tilgangi að bæta kjör sín, annarra kvenna og barna í þjóðfélaginu taka konur þátt í félagsstarfi af ýmsu tagi ofan á allt saman. Hafa konur lagt fram ómælda sjálfboðavinnu í þágu ýmissa samtaka til hagsbóta fyrir konur og börn. Má í því sambandi m.a. minna á ýmsa kvennahópa sem hafa tekið saman höndum og stutt við bakið á Kvennaathvarfinu í Reykjavík og staðið saman í baráttunni gegn ofbeldi í þjóðfélaginu. Konur hafa í samtökum sem þessum sýnt hug sinn til annarra kvenna og barnanna í þjóðfélaginu. Þær hafa einnig sýnt vilja og hæfileika til að taka á málum með nokkuð öðrum hætti en venjan hefur verið hingað til. Ég nefni þetta hér í tengslum við fjárlagafrv. vegna þess að ef einhvers staðar birtist stöðnun, sjálfvirkni og forgangsröðun sem konur ekki geta sætt sig við er það í plaggi þessu.
    Því fer víðs fjarri að fjárlagafrv. beri með sér kvenlegt yfirbragð. Niðurskurður er ákveðinn sem hlutfall af rekstrarkostnaði stofnana á síðasta ári án

þess að minnsta tillit sé tekið til hvers konar starfsemi fer fram innan veggja þeirra. Það virðist algjörlega hafa farið fram hjá höfundum að stofnanir þessar eru til fyrir fólkið í landinu. Í þeim eru einstaklingar með fjölbreytilegar þarfir og getur skipt sköpum um alla framtíð þeirra hvernig til tekst að koma til móts við þær. Nefni ég í því sambandi niðurskurðinn í skólakerfinu sem við kvennalistakonur erum algjörlega andvígar.
    Það er dapurlegt að horfa upp á forgangsröð sem m.a. birtist í niðurskurði til skólamála. Konur bera nú uppi heilar starfsstéttir sem þjóðfélagið getur ekki verið án. Burtséð frá lágum launum er þeim boðið upp á stöðugt öryggisleysi fyrir börn sín vegna skorts á dagvistarplássum og stutts skóladags sem er í engu samræmi við vinnudag foreldranna. Með þessu frv. á að bjóða kennurum, sem að stórum hluta eru konur, upp á aukið álag vænti ég með niðurskurði í frv. Væntanlega verður að venju farin sú leið að fjölga í bekkjum og fækka kennslustundum. Varðandi skólamálin birtist sá skortur á framtíðarsýn sem allt of lengi hefur hrjáð stjórn þessa lands.
    Enn er það dæmigert fyrir viðhorf þjóðfélagsins til kvenna að nú þegar illa árar og atvinnuleysi eykst bitnar það harðast á konum. Í yfirliti Vinnumálaskrifstofu félmrn. fyrir nóvember kemur fram að nú eru skráðir atvinnuleysisdagar fleiri en þekkst hefur hér á landi síðan skráning var tekin upp árið 1975. Alls staðar nema á höfuðborgarsvæðinu eru konur í miklum meiri hluta atvinnulausra og hefur svo verið allt árið.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur nú hafið leit að eigin atvinnustefnu með því að senda hæstv. hagstofuráðherra í fundaferð um landið --- að því að sagt er til þess að gera grein fyrir stefnunni og hlusta á heimamenn á hverjum stað. Ekkert bólar á stefnunni, ekki hefur hæstv. ráðherra séð ástæðu það sem af er til að gefa konum of mikla hlutdeild í þeim fundum og vísar spurningum um atvinnumál kvenna frá sér.
    Kvennalistakonur hafa verið ötular við að ræða atvinnumálin á fundum sínum og ráðstefnum að undanförnu og hafa komið fram margar hugmyndir og tillögur um
hvernig bæta megi stöðu kvenna í atvinnulífinu, ekki síst úti á landsbyggðinni. Það vekur athygli hvernig konur hugsa sér atvinnuuppbyggingu sem tekur tillit til aðstæðna kvenna, hve hugmyndaríkar þær eru og hvernig þær hugsa sér að vinna sameiginlega úr hugmyndum sínum.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur samkvæmt stjórnarsáttmálanum í hyggju ,,að framfylgja árangursríkri byggðastefnu sem komi betra jafnvægi á byggðaþróun í landinu``, eins og segir orðrétt í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta. Sömuleiðis leynist enn setningin margnefnda, um sérstakt átak í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni, í stjórnarsáttmálanum hinum nýja. Enn bólar ekkert á efndum þess fyrirheits.
    Ein af þeim hugmyndum sem fram hafa komið á

fundum Kvennalistans er að stofnuð verði sérstök deild innan Byggðastofnunar sem einungis hafi það hlutverk að vinna að atvinnuuppbyggingu kvenna. Þingkonur Kvennalistans í Nd. hafa nú borið þessa hugmynd inn í þingsali í formi frv. sem gerir ráð fyrir að 20% af framlagi ríkisins til Byggðastofnunar verði varið til þessa verkefnis. Frv. þetta er nú til umfjöllunar í nefnd og væntum við þess að það hljóti afgreiðslu hið allra fyrsta. Og ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með orð hv. þm. Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar hér fyrr í dag þar sem hann gagnrýndi sérstaklega þessa hugmynd okkar því að þar kemur auðvitað fram að það sé stefna hans flokks að hunsa konur. Hæstv. ráðherra Júlíus Sólnes hefur heldur ekki sýnt þessu máli neinn áhuga né heldur atvinnumálum kvenna almennt. Vona ég að aðrir hv. þm. hafi betri skilning á stöðu kvenna og taki þessu frv. okkar vel.
    Brtt. þær sem ég mæli nú fyrir eru auðvitað engan veginn tæmandi. Ef vel hefði átt að vera hefði þurft að stokka frv. alveg upp. Við völdum því þá leið að velja örfá mál sem öll snerta mjög líf kvenna. Þau eru dæmigerð fyrir þær áherslur og þá forgangsröð sem við vildum viðhafa. Eins og konum er tamt tókum við tillit til aðstæðna og því varða tillögurnar aðeins mjög brýn hagsmunamál kvenna sem að sjálfsögðu eru hagsmunamál okkar allra þegar upp er staðið.
    Brtt. okkar eru á þskj. 287 og er fyrsta till. sem ég mæli fyrir fyrir hönd þingflokks Kvennalistans um sérstakt framlag til Byggðastofnunar. Við leggjum til að framlag ríkissjóðs til Byggðastofnunar verði hækkað um 20% í samræmi við hugmynd okkar um sérstaka kvennadeild við Byggðastofnun sem ég lýsti hér áðan. Í samræmi við hugmyndina verði þessum peningum sérstaklega varið til atvinnuuppbyggingar fyrir konur á landsbyggðinni.
    Þar eð vænta má að frv. hljóti afgreiðslu nú næstu daga teljum við nauðsynlegt að þegar verði mörkuð til þessa sérstök fjárveiting. Atvinnulíf landsmanna utan höfuðborgarsvæðisins er víðast hvar einhæft. Sums staðar stendur byggðarlagið og fellur með einni atvinnugrein eða jafnvel einu fyrirtæki. Þessi fábreytni í atvinnulífinu hefur orðið enn afdrifaríkari með breyttum þjóðfélagsþáttum, ekki síst með aukinni þátttöku kvenna í störfum utan heimilis. Er löngu orðið tímabært að taka mið af þeirri staðreynd. Hæstv. ráðherrar hljóta að gera sér grein fyrir að lítið verður úr hugmyndinni um ,,árangursríka byggðastefnu`` ef engar konur eru úti í byggðarlögunum.
    Stjórnvöld á Norðurlöndum hafa áttað sig á því hversu nauðsynlegt það er að hlusta á hugmyndir kvenna og taka tillit til þeirra þegar rætt er um búsetuþróun. Þar eins og hér bitnar aukið atvinnuleysi og skortur á fjölbreytilegum störfum fyrst og fremst á konum á landsbyggðinni. Þær eiga oft ekki annarra kosta völ en að flytja til þéttbýlisstaða í leit að atvinnu. Hefur því víða verið lögð sérstök áhersla á uppbyggingu atvinnu með tilliti til hugmynda og aðstæðna kvenna. Finnar hafa t.d. ráðunaut um atvinnuuppbyggingu kvenna í dreifbýli og það hefur

skilað umtalsverðum árangri og á öllum Norðurlöndunum er eitthvað í gangi einmitt í þá veru að byggja upp þátttöku kvenna í atvinnulífinu.
    Fyrir liggur könnun sem gerð var í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi á atvinnuháttum dreifbýlisins og því hvernig best mætti snúa af vegi fólksfækkunar og auðnar, styðja landsbyggðina og byggja þar upp heilbrigt og gróandi mannlíf. Þessi könnun leiddi til þeirrar niðurstöðu að við mótun nýs atvinnulífs og atvinnutækifæra væri þátttaka kvenna höfuðnauðsyn. Áhrifum þeirra yrði að koma að við atvinnureksturinn vegna þess að þær hafa aðra sýn og aðrar viðmiðanir. Þær yrðu að vera með þar sem ákvarðanir væru teknar og vegna vinnuframlags þeirra yrði að taka tillit til hagsmuna þeirra. Ráðamenn í Noregi hafa látið í ljós að við uppbyggingu atvinnu í dreifbýli skuli þessar niðurstöður hafðar að leiðarljósi. Vonandi vitrast ráðamönnum hér þessi sannleikur sem okkur konum finnst reyndar augljós.
    Við teljum eðlilegt, í þessu tilliti, og sérstaklega með tilliti til fyrirheits ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í atvinnumálum kvenna, að stofnuð verði sérstök deild við Byggðastofnun en það er að sjálfsögðu jafneðlilegt að konur hafi frumkvæði í þessum efnum en hvatning, ráðgjöf og bætt skilyrði eru nauðsynleg.
    Eignaleysi kvenna hefur hingað til hindrað þær í að stofna til skulda. Konur skortir sjálfstraust á þessum vettvangi og þær hafa lítið sótt í
atvinnuþróunarsjóði. Það má e.t.v. segja að þetta verkefni gæti heyrt undir hin almennu verkefni Byggðastofnunar en við gerum ráð fyrir því að fyrst og fremst verði þarna um ráðgjöf að ræða fyrir konur, hvatningu og stuðning í formi lána og styrkja. Það hefur sýnt sig að næstum öll lán Byggðastofnunar fara til fyrirtækja sem karlmenn stjórna.
    Við lítum svo á að fyrsta verkefni kvennadeildar Byggðastofnunar yrði að efla frumkvæði hjá konum t.d. með fræðslufundum, hugmyndasamkeppni, almennri fræðslu, ráðgjöf og handleiðslu fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki. Þannig mætti minnka það forskot sem karlar hafa í þessum efnum. En til þess að þetta megi ganga verður að tryggja skilning á sérstöðu kvenna. Við teljum því brýnt að þessi tillaga verði samþykkt og tryggt sé að Byggðastofnun geti sinnt þessu verkefni þegar frv. okkar hefur hlotið afgreiðslu hér í þinginu.
    Konur um land allt eru reiðubúnar til að taka frumkvæði fái þær til þess hvatningu og stuðning. Þolinmæði margra sem mánuðum saman hafa verið atvinnulausar er reyndar að þrotum komin og því nauðsynlegt að grípa strax til uppbyggilegra ráðstafana.
    Ég vil í þessari sömu andrá mæla fyrir tillögu sem er hér nr. 3 á þskj. 287 þar sem lagt er til að ríkissjóður leggi fram 200 millj. til að gera sérstakt átak til uppbyggingar atvinnu fyrir konur.
    Sífellt fleiri beina sjónum sínum að frumkvöðlum í atvinnulífinu. Erlendis hefur jafnvel verið talað um nýja fræðigrein í hagvísindum, svokallaða frumkvöðlafræði. Þetta hefur verið eitt af örfáum

lausnarorðum fulltrúa hæstv. hagstofuráðherra í hugarflugsnefndinni á fundum um atvinnustefnu. Annarri staðreynd hefur síður verið hampað enda hefur komið í ljós að konur eiga ekki upp á pallborðið hjá hæstv. ríkisstjórn þegar atvinnumál ber á góma.
    Víða um lönd beina menn nú ekki síður sjónum sínum að konum, hugmyndum kvenna, aðferðum þeirra og frumkvæði í atvinnulífinu. Þar er öfluga nýsköpun að finna. Hugmyndir kvenna og fersk sýn þeirra eru verðmætur sjóður.
    Á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum og án efa víðar er nú markvisst leitað til kvenna um frumkvæði og fjárfest í fyrirtækjum þeirra. Séu menn í leit að vænlegri leið í uppbyggingu atvinnulífs gefur auga leið að hlusta á hugmyndir kvenna og skapa þeim skilyrði til að taka frumkvæði. Sérstakt átak til að efla atvinnulíf kvenna mundi án efa skila arði, jafnvel þótt til þess væri ekki varið hærri upphæð en þeim 200 millj. sem kostar að skapa eitt nýtt starf í nýju álveri. Við teljum það enga ofrausn að leggja sem svarar einu starfi í álveri til atvinnuuppbyggingar fyrir konur í landinu. Konur uppfylla yfirleitt þau skilyrði sem er brýnt að setja fyrir lánveitingum eða styrkjum. Þær taka ekki óþarfa áhættu, það eru ekki konur sem eyða hundruðum milljóna í áhættufyrirtæki án þess að blikna. Mál er til komið að taka mið af gjörbreyttum aðstæðum kvenna og læra af þeim þjóðum sem hafa komið auga á þá auðlegð sem hugmyndir kvenna og búhyggindi eru.
    Ég minntist fyrr í máli mínu á hin óleysanlegu verkefni sem konur standa frammi fyrir á degi hverjum. Eitt stærsta verkefnið sem við í hinum svokallaða iðnvædda, vestræna heimi stöndum frammi fyrir er hungrið, fátæktin og menntunarskorturinn sem meðsystur okkar og bræður í öðrum heimshlutum búa við. Einhverju sinni lofuðu Íslendingar sjálfum sér að þeir ætluðu að láta hrynja mola af allsnægtaborði sínu, tiltekið hlutfall af hverjum hundrað krónum sem við vinnum okkur inn. Efndir á þessu loforði hafa verið hörmulegar og til skammar fyrir okkur og hafa vakið tortryggni annarra þjóða um raunverulegan hug okkar gagnvart þróunarlöndunum. Kvennalistakonur hafa ævinlega flutt brtt. við fjárlög um hækkun framlaga til þróunarhjálpar. Að þessu sinni reyndum við vegna aðstæðna að finna flöt á hvernig hægt væri að veita hjálp með fáum krónum þar sem hún kæmi sér vel. Völdum við því að leggja til að undir liðinn ,,Alþjóðastofnanir`` komi nýr liður að upphæð 3 millj. 198 þús. til hjálparstarfs fyrir konur í þróunarlöndunum, UNIFEM er skammstöfunin sem notuð er fyrir samtök þeirra hjá Sameinuðu þjóðunum.
    Það kemur væntanlega ekki á óvart að við veljum að beina þessari litlu upphæð til kvenna. Sem viðmiðun höfðum við að konurnar í UNIFEM fái 20% af þeirri heildarupphæð sem í fjárlagafrv. er ætluð til þróunaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Styðjumst við þar við sömu reglu og varðandi kvennadeild Byggðastofnunar enda að ýmsu leyti um sambærilegt verkefni að ræða.

    Í iðnríkjum lætur nærri að konur séu eini framfærandi eins þriðja hluta allra fjölskyldna. Í þróunarlöndunum eru tveir þriðju hlutar allra fjölskylda á framfæri kvenna. Það er því ljóst að hjálp til kvenna er hjálp sem nær til miklu fleiri einstaklinga. Aðalmarkmið UNIFEM-samtakanna er að gefa konum tækifæri til að þróa hæfileika sína, veita þeim fræðslu og kenna þeim að búa til vélar af ýmsu tagi sem henta þeirra aðstæðum. Sá tími sem afgangs verður þegar konur hafa fengið ýmis tæki í hendurnar, eins og t.d. vatnsdælu eða myllu, nýtist þeim til fjölbreytilegra annarra starfa, t.d. framleiðslu matvæla, sauma, vefnaðar, auk þess sem tími gefst til að njóta fræðslu um ýmis mikilvæg málefni svo sem heilbrigði, getnaðarvarnir, meðferð matvæla og fleira. Þannig skapast svigrúm til að hjálpa konunum til sjálfshjálpar sem
hlýtur að eiga að vera okkar mikilvægasta markmið með aðstoð við þróunarlöndin. Það er ljóst að sú upphæð sem við gerum tillögu um er í raun aðeins táknræn fyrir það að við viljum ekki gleyma systrum okkar sem búa við enn verri kjör en við. Við vitum hins vegar líka að þó upphæðin sé ekki há þá munu konur nýta hana vel og þær munu ekki sitja að henni einar.
    Þá kem ég að öðrum atriðum sem við kvennalistakonur höfum ætíð borið fyrir brjósti. Í upphafi máls míns minntist ég á hvernig konur hafa séð sig knúnar til þess á undanförnum árum að bindast samtökum til að styðja og styrkja þær konur sem verða fyrir ofbeldi. Vil ég fyrst nefna Kvennaathvarfið sem er hér undir fjórða lið á þskj. 287. Kvennaathvarfið í Reykjavík var stofnað 6. des. 1982 fyrir konur og börn þeirra sem flýja þurftu heimili sín vegna andlegs og eða líkamlegs ofbeldis. Því miður hefur komið í ljós að tilvera Kvennaathvarfsins er nauðsynleg. Það sem af er ársins hafa 156 konur leitað til Kvennaathvarfsins með börn sín, jafnmargar og þangað leituðu allt árið í fyrra. 30% kvennanna komu frá byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins. Það er ljóst að ofbeldi fer vaxandi og það er einn svartasti blettur á þjóðfélagi okkar. Á síðasta ári hringdu 200 manns til Kvennaathvarfsins til að biðja um upplýsingar og aðstoð. Fólk spyr um sifjaspell, kvennaráðgjöf og allt mögulegt. Flestir hringja bara til að tala og fá ráð og huggun. Nú í ár hafa hringt 794 á móti 200 í fyrra og segir það sína sögu.
    Á erfiðum tímum í efnahags- og atvinnulífi má, samkvæmt reynslunni, búast við að ofbeldi færist enn í vöxt. Sá styrkur sem Samtök um kvennaathvarf sækja um til ríkisins nemur 70% af rekstrarkostnaði þeirra. Afgangurinn kemur frá sveitarfélögum eða af frjálsum framlögum einstaklinga. Sá styrkur sem sótt er um til opinberra aðila er einungis til rekstursins, þ.e. laun starfskvenna og launatengd gjöld, matur, hiti, rafmagn, sími og annað sem til daglegs reksturs heimilisins heyrir. Dvalarkonur sjá sjálfar um húshaldið, um matseld, þvotta og þrif. Hús athvarfsins er keypt fyrir frjáls framlög almennings, fyrirtækja og

félagasamtaka og sama gildir um allt viðhald hússins sem byggt var skömmu eftir aldamót. Opinberir aðilar hafa ekki lagt fram eina einustu krónu til þess hluta rekstursins sem heyrir til reksturs húsnæðis eða innkaupa og eðlilegs viðhalds og endurnýjunar húsbúnaðar.
    Næstum árlega, þegar gjafafé þverr, stendur Kvennaathvarfið frammi fyrir lokun vegna skorts á rekstrarfé og því er mjög brýnt að séð verði til þess að rekstur þess verði tryggður til frambúðar.
    Fjárhagsáætlun í Kvennaathvarfinu er hógvær og ljóst er að sú upphæð sem er áætluð á fjárlögum mun ekki nægja, þær fara fram á 70% af rekstrarkostnaði sínum eins og ég gat um áðan og þess vegna leggjum við til að framlag til þeirra verði hækkað þannig að það nái þessum 70%, þ.e. verði 10 millj. 864 þús.
    Næsta tillaga okkar er undir þessum sama lið en hún tengist kvennahópum sem vinna gegn kynferðislegu ofbeldi. Nauðsynlegt er að hæstv. ríkisstjórn styðji við bakið á þeim kvennahópum sem hingað til hafa svo til eingöngu unnið í sjálfboðavinnu. Í bréfi til félmrh. kemur fram að mikil og breið samstaða hefur myndast um þessi mál meðal kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum og stéttarfélögum. Konur sjá að með því að vinna saman ná þær að veita hver annarri þann stuðning sem er svo nauðsynlegur og ómetanlegur þeim sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Eins og konurnar í Kvennaathvarfinu hafa þessar konur því miður sannreynt að mikil og vaxandi þörf er fyrir þá þjónustu sem þær veita. Sú þjónusta er einkum fólgin í almennri og sértækri ráðgjöf fyrir konur, stuðningi, fræðslu og upplýsingum um kynferðislegt ofbeldi sem beinist með ýmsu móti að börnum og konum. Nú þegar hafa um 1200 konur og börn víða að af landinu leitað til hópsins og hafa konurnar áhuga fyrir að færa starfsemi sína meira út á land en þær hafa getað gert hingað til því þær finna svo sannarlega fyrir þörfinni.
    Með leyfi forseta langar mig að lesa stuttan kafla úr bréfi Samtaka kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi til félmrh., en þar segir:
    ,,Það er ljóst að sú þjónusta sem við getum veitt í sjálfboðavinnu er takmörkuð og hvergi nærri fullnægjandi. Allar verðum við jafnframt að sinna launavinnu og flestar gegnum við einnig húsmóðurstörfum. Aðstandendur fundarins í Hlaðvarpanum eru sammála um að koma þurfi á fót upplýsinga-, fræðslu- og ráðgjafarmiðstöð fyrir konur og börn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. Nokkurt fjármagn þarf að tryggja til þess að slík starfsemi komist á laggirnar. Lauslega áætlum við að ráða þurfi starfsmenn í fjórar og hálfa stöðu við miðstöðina. Þeir mundu sinna jöfnum höndum ráðgjöf, samningu fræðsluefnis og upplýsingamiðlun. Áætla þarf fé vegna stofnkostnaðar og leigu húsnæðis. Auk þess gerum við ráð fyrir kostnaði við útgáfu á fræðsluefni og almennum upplýsingabæklingum. Við reiknum með að miðstöðin geti fengið einhvern fjárstuðning frá almenningi til sérstakra verkefna en óhugsandi er að reka slíka starfsemi á gjafa- og

söfnunarfé einu saman. Það er því ljóst að til þess að takast megi að ráðast í þetta brýna verkefni þarf til að koma stuðningur og trygging frá hinu opinbera fyrir því fjármagni sem þarf til reksturs fyrstu tvö árin. Um framhald slíks stuðnings mundu niðurstöður
væntanlegrar úttektar á starfseminni verða til leiðbeiningar. Fjárhagsáætlun fylgir með erindi þessu á sérblaði.``
    Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir 11 millj. og þar eð við vitum að það er varlega áætlað treystum við því að þingheimur samþykki þessa tillögu.
    Síðasta brtt. sem ég mæli fyrir fyrir hönd þingflokks Kvennalistans er varðandi kostnað vegna laga nr. 25/1975, sem eru lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.
    Nú eru 14 ár síðan lög þessi voru sett en enn skortir verulega á að lögboðin fræðsla og ráðgjöf sé veitt á viðunandi hátt. Það er þeim mun alvarlegra sem hér er um að ræða grundvöll lagasetningarinnar. Jafnframt eru líkur á því að auðveldara hefði verið að hefta útbreiðslu á eyðni og e.t.v. hefði verið hægt að fækka fóstureyðingum ef fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir hefði ekki verið svo ábótavant sem raun ber vitni. Sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af vanþekkingu unglinga sem að mati félagsráðgjafa og annarra sem um þessi mál fjalla virðast afar fáfróðir um kynferðismál og getnaðarvarnir. Það má ætla að bein tengsl séu milli þessarar fáfræði og mikils fjölda þungana stúlkna á aldrinum 15--19 ára.
    Í 73. árgangi Læknablaðsins frá 1987 er grein um fóstureyðingar og notkun getnaðarvarna eftir Þórð Óskarsson og Reyni Tómas Geirsson kvensjúkdómalækna og segir þar m.a., með leyfi forseta:
    ,,Til að halda fjölda fóstureyðinga sem lægstum þarf að gera átak í þá átt að gera getnaðarvarnir aðgengilegri fyrir alla aldurshópa, m.a. með stofnun kynfræðsludeildar við heilsugæslustöðvar, ódýrari getnaðarvörnum og aukinni fræðslu táninga.``
    Vil ég að lokum minna á þáltill. sem þingkonur Kvennalistans fluttu og var reyndar samþykkt í lok síðasta kjörtímabils en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15--19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir.``
    Málið er ekki síður brýnt nú en þá og vænti ég þess að þingheimur afgreiði þessa till. á jákvæðan hátt.
    Virðulegi forseti. Ég vil í lok máls míns ítreka enn og aftur að fjárlagafrv. nú í ár er fjarri því að vera eins og Kvennalistinn vildi sjá það og gildir það reyndar einnig um hin fyrri ár. Ég hef nú mælt fyrir þeim örfáu brtt. sem þingkonur Kvennalistans ákváðu að freista þess að gera. Þær eru dæmigerðar fyrir þau mál sem við berum fyrir brjósti. Þær fjalla allar um

sjálfsögð réttlætismál sem fyrst og fremst snerta konur. Vænti ég þess að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir að allt sem kemur konum til góða er til bóta fyrir okkur öll. Í ljósi þeirrar staðreyndar hvet ég hv. þm. til að kynna sér efni brtt. okkar vel og greiða þeim atkvæði sitt.